Skattsvik eru óþolandi. Sérstaklega vegna þess að þorri þeirra sem stunda þau í miklum mæli er ríkt fólk sem vill borga sem minnst til baka til samfélagsins sem býr til arðinn þeirra og það þiggur þjónustu frá.
Um aldarmótin síðustu fóru íslensk fjármálafyrirtæki að bjóða viðskiptavinum sínum upp á „skattahagræði“ með því að flytja eignir sínar og arð rafrænt til skattaskjóla þar sem þeir þurftu að greiða minna í skatta. Í einföldu máli felst í slíku fyrirkomulagi að ríki sem sérhæfa sig í að fela peninga ríkra, fyrir stjórnvöldum þeirra landa sem þeir tilheyra, taka þóknun fyrir ómakið sem er mun lægri en skattarnir sem hinir ríku sleppa við að borga. Þannig geta ríki á borð við Sviss, Lúxemborg, Kýpur og alls konar exótískar aflandseyjar haft miklar tekjur af því að hafa skatttekjur af öðrum.
Líkt og með svo margt í nútímaheimi þá er þetta þjónusta sem býðst sumum, ekki öllum. Þessi tegund af skattahagræði á því ekkert sameiginlegt með til að mynda samkeppni milli landa um að búa til sem hagkvæmdast skattaumhverfi til að reyna að lokka til sín flest fyrirtæki eða hæfileikafólk. Hún snýst bara um að skapa leiðir til að fela peninga þeirra sem eiga mikið af þeim fyrir þeim sem telja sig eiga réttmæta hlutdeild í þeim, til dæmis skattayfirvöldum.
Þjóðaríþrótt jakkafataklæddra
Á góðærisárunum fyrir hrun var það regla fremur en undantekning að þeir einstaklingar sem áttu arðbærustu rekstrarfyrirtæki Íslands geymdu hluti sína í þeim í erlendum félögum. Hvort sem um var að ræða eignarhluti í bönkum, fjárfestingafélögum með Group-viðskeytum, smásölukeðjum, tryggingafélögum, flugfélögum eða skipafélögum þá voru þeir nánast undantekningarlaust geymdir erlendis. Það varð nánast að þjóðaríþrótt jakkafataklæddra íslenskra fjármálamanna að stofna útlensk félög til að geyma arðinn sinn í.
Í þessi félög streymdu síðan arðgreiðslur vegna bóluhagnaðarins sem viðskiptin sem þessir aðilar áttu, oft á tíðum við sjálfan sig, á síðustu árunum áður en íslenska bankakerfið hrundi eins og spilaborg vegna gjörða þeirra.
Starfsstöðvar íslenskra banka í Lúxemborg sáu að mestu um þetta ómak. Þeir settu upp félög í Lúxemborg, Hollandi, á Kýpur, Mön, Jersey, Guernsey, Bresku-Jómfrúareyjunum á Cayman-eyjum eða hvar sem er þar sem „skattahagræðið“ og leyndin var nægjanlega mikil. Í þessi félög streymdu síðan arðgreiðslur vegna bóluhagnaðarins sem viðskiptin sem þessir aðilar áttu í, oft á tíðum við sjálfan sig, á síðustu árunum áður en íslenska bankakerfið hrundi eins og spilaborg vegna gjörða þeirra. Öllum sem kunna að leggja saman er ljóst að þeir sem lánuðu þessum aðilum, oft á tíðum bankar sem þeir stýrðu sjálfir en ríkið þurfti svo að endurreisa þegar allt fór á hliðina, hefur gengið afar illa að endurheimta nokkuð af þessu fé. Það fór til „money-heaven“ sem er fínt en villandi orð yfir tax-haven (skattaskjól).
Eitthvað af þessum peningum hefur reyndar skilað sér til baka í íslenskt samfélag í gegnum fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands. Með henni var þessum aðilum gert kleift að koma með stríðságóðann sinn heim. Sú upphæð sem hefur verið keyrð í gegnum þessa leið er vel á annað hundrað milljarðar króna. Þeir Íslendingar sem hafa skipt erlendum gjaldeyri fyrir íslenskar krónur hafa fengið tugmilljarða króna afslátt á íslenskum eignum vegna þessa. Fjárfestingaleiðin er því tær birtingarmynd mismununar. Í gegnum hana geta útvaldir, þeir sem eiga peninga erlendis, keypt sér betri lífskjör. Og það er leyndarmál hverjir þetta eru. Seðlabankinn neitar að upplýsa um það.
Peningar á Tortóla
Nú býðst íslenskum stjórnvöldum að kaupa upplýsingar um aflandsfélög sem skráð eru í eigu Íslendinga í þekktum skattaskjólum. Stjórnvöld ríkja út um allan heim hafa keypt gögn sem þessi og notað þau til að endurheimta fullt af peningum sem bíræfnir hvítflibbaglæpamenn komu undan.
Magn íslenskra aflandsfélaga er það mikið að óumdeilt er að hluti þeirra hefur verið notaður til að koma peningum sem verða til á Íslandi hjá því að verða skattlagðir hér.
Í lok árs 2013, rúmum fimm árum eftir bankahrun og setningu fjármagnshafta, áttu íslenskir aðilar enn tæpa 1.500 milljarða króna erlendis, samkvæmt hagtölum Seðlabanka Íslands. Þar mátti meðal annars finna upplýsingar um að eignir Íslendinga á Tortóta-eyju væru 28,5 milljarðar króna. Fjöldi þeirra félaga sem íslenskir aðilar eiga, og eru með heimilisfesti í pósthólfi á þeirri eyju, hleypur á hundruðum. Engir peningar eru þó geymdir á Tortóla. Þeir eru, eða voru að minnsta kosti, aðallega í ríkjum eins og Hollandi (429 milljarðar króna í lok árs 2013) eða Lúxemborg (132,4 milljarðar króna í lok árs 2013).
Það liggur því fyrir að það er eftir einhverju að seilast. Samt virðist vera eins og kerfið á Íslandi vilji ekki kaupa þessi gögn. Það vill ekki gera einkaaðilum það kleift að kaupa þau. Og það er látið í það skína að kaupin séu einhverskonar ómöguleiki vegna þess hvernig seljandinn vill fá greitt.
Réttlætismál að kaupa og birta lista
Þeir átu ekki kökuna en sátu uppi með það hlutverk að þrífa rjómann af innbúinu eftir að slóðarnir voru búnir að slafra henni í sig.
Það er ekki bara hagkvæmt að kaupa þessi gögn. Það er réttlætismál að gera það, og birta opinberlega. Íslendingarnir sem áttu ekki aflandsfélög hafa þurft að burðast með afleiðingar raunveruleika-Matadors þeirra sem áttu slík félög á undanförnum árum. Þeir átu ekki kökuna en sátu uppi með það hlutverk að þrífa rjómann af innbúinu eftir að slóðarnir voru búnir að slafra henni í sig. Þeir eiga skilið að vita hverjir græddu á þessum hörmungum og þeir eiga skilið að peningunum sem var stungið undan verði skilað. Íslendingar eiga líka skilið að fá að vita hvort, og þá hverjir, þessarra aðila nýttu sér úrræði Seðlabankans til að koma þessum peningum aftur til Íslands til að kaupa lífsgæði á afslætti.
Í október skrifaði ég leiðara þar sem farið var fram á að upptaka af símtali Geirs H. Haarde og Davíðs Oddssonar um að lána Kaupþingi tæpa 80 milljarða króna yrði birt strax, enda hefur lánveitingin sem enginn vill bera ábyrgð á kostað íslenska skattgreiðendur 35 milljarða króna. Það er vert að endurtaka þá bón, þar sem upptakan hefur enn ekki verið birt. Leynd yfir þessum hlutum er óþolandi og hún á ekki að líðast.
Sama gildir um gögn um skattaundanskot. Þeir sem hafa stundað slík hafa hlunnfarið íslenskan almenning um háar fjárhæðir. Kaupið gögnin og birtið á mjög áberandi stað. Strax.