Stríð Rússlands gegn Úkraínu, hefur nú staðið í fjórar vikur. Leiðtogi rússnesk-orþódox kirkjunnar, Kirill patríarki, hefur ekki enn fordæmt innrás Rússlands. Eigum við að tala um kirkju Pútíns? Eða kirkju KGB?
„Moskvu-patríarkatið er í raun orðið að pólitísku flokksræðisafli.“ Presturinn Pavlo, sem ég hitti fyrir utan borgina Kiev, jós úr skálum reiði sinnar. Árum saman var kirkjan hans undir stjórn patríarkans í Moskvu. Hann fékk reglulega flugrit sem honum var skipað að deila út til safnaðarins.“
„Þetta var rússneskur áróður, eins og um að kjósa Janukovitsj, og svo fylgdu flugrit með áróðri gegn úkraínskri tungu. Ekki var eitt orð um Jesú í þessum ritum, ekkert annað en hreinræktaður, pólitískur áróður.“
Pavlo deildi aldrei út þessum áróðri. Og það gerði nágrannapresturinn Oleksandr, ekki heldur: „Ég renndi yfir textann, sem var ekkert annað en lygar á lygar ofan. Það sem stóð í þessum flugritum þekkir nú bara eldurinn í ofni mínum.“
Þann 15. desember 2018 var stofnuð ný orþódox kirkja í Úkraínu. Bæði Pavlo og Oleksandr ákváðu strax að skrá sig í nýju kirkjuna.
Hún heyrði undir patríarkann í Konstantínópel, eins og verið hafði fram að innlimun Rússa árið 1686.
Hin nýja, úkraínska kirkja framkallaði ramakvein í Moskvu. Bæði Pútín og patríarki hinnar rússnesk-orþódoxu kirkju trylltust. Leiðtogi nýju kirkjunnar, metrópólitan Epifanij, útskýrði fyrir mér hvers vegna:
„Þetta merkti að rekinn hafi verið nagli í líkkistu drauma þeirra um að endurvekja Hið rússneska keisaraveldi og löngunar rússneska patríarkans um að verða í leiðandi forystu innan Rétttrúnaðarkirkjunnar í heiminum.“
Yfirstandandi stríð í Úkraínu gefur tilefni til að líta svo á að það sé tilraun til að draga út þennan líkkistunagla. Um er að ræða sameiginlegt átak Pútíns og Kirills sem báðir eiga rætur í KGB.
Árið 1937 voru 85.300 rússnesk-orþódox prestar teknir af lífi í Sovétríkjunum og ári síðar 21.500. Sovétríkin gengu nánast af kirkjunni dauðri. Þeim kirkjuleiðtogum sem eftir lifðu, náði KGB smátt og smátt aftur tökum þeim eins ríkið hafði haft á kirkjunni um aldir.
Bandalag kirkju og ríkis er ekki nýtt af nálinni. Á 18. öld hafði þetta bandalag þvingað forfeður og mæður hinna rússneskumælandi orþódoxa sem ég hitti í Úkraínu, Lettlandi og Eistlandi, til að flýja land.
Á 19. öld hafði þetta bandalag ríkis og kirkju fengið því til leiðar komið að flytja burt frá Rússlandi þau sem tilheyrðu söfnuðum mótmælenda (dukhoboerne og molokanerne) sem ég hitti í Georgíu og Armeníu. Árið 1945 hafði kirkjum verið lokað, sem milljónir grísk-kaþólskra í Vestur-Úkraínu tilheyrðu, og þær settar undir patríarkann í Moskvu með blessun Sovétstjórnarinnar.
Eftir 1991 hefur átt sér stað mikil endurbygging gamalla kirkna og klaustra. Nýjar kirkjur hafa einnig verið reistar. Nú þykir það móðins að vera orþódox. Á sama tíma og Pútín hefur verið hafinn upp til skýjanna af leiðtogum orþódoxu kirkjunnar, hefur gagnrýnin vaxið gríðarlega á hann og Kirill.
Í september 2021 fór rússnesk-orþódox prestur fram á það opinberlega að patríarkinn gerði grein fyrir tekjum sínum.
Daginn eftir var hann fjarlægður úr embætti.
Sama dag og hinn fangelsaði andspyrnumaður, Aleksej Navalnyj fékk Sakharov-verðlaun Evrópuþingsins 2021, ritaði prestur á Facebook: „Áður gagnrýndi ég hann, en nú er ég reiðubúinn til að taka í hönd hans.“
Nokkrum dögum síðar var hann rekinn úr embætti.
Í sunnudagsmessu 6. mars s.l. hélt prestur nokkur prédikun þar sem hann gagnrýndi stríðið í Úkraínu.
Fjórum dögum síðar var hann sektaður um 35.000 rúblur.
Sama sunnudag hélt Kirill patríarki einnig prédikun. Í stað þess að fordæma stríðið talaði hann um skrúðgöngur til stuðnings samkynhneigðum, og lét í það skína að almenn viðurkenning á slíkum pride-viðburðum kynni að réttlæta það sem gerst hefur í Úkraínu. Stríðið er þar með í hans augum eins konar heilagt stríð gegn vestrænum skoðunum og lífsháttum.
Prédikunin dró taum hins rússneska viðhorfs „russkij mir“ [rússenskur friður], um að fólkið sem stofnað hafði hið forna Kiev-ríki væri fólk hverrar saga ætti samleið með orþódoxri trú.
Margir vilja meina að slík hugtakanotkun endurspegli rússneska þjóðrembu og pólitískan metnað, þar sem rússnesk tunga, trú og söguskilningur eigi að ríkja þar sem nú er Rússland, Úkraína og Hvíta-Rússland. Og hugsanlega á öllu svæðinu sem eitt sinn tilheyrði Rússneska heimsveldinu eða Sovétríkjunum.
Er ég vann að ritun nýjustu bókar minnar um vald og trú í A-Evrópu hitti ég marga orþódoxa sem heyra undir patríarkann í Moskvu, en töldu sig alls ekki vilja eiga nokkuð saman að sælda við þessa hugtakanotkun og voru órólegir yfir þróun mála innan kirkjunnar.
Nunna nokkur í Solovetskij-klaustrinu við Hvítahafið finnst það miður að kirkjan væri á leið í þrælsfjötra hjá ríkisvaldinu. Hún reynir að halda sig fjarri opinberu kirkjuvaldi.
Gamli presturinn sem ég hitti í Pskov, hefur sofið illa um nætur og ber lítið traust til ungra presta. Hann kallaði þá sovéska og ungkomma í hugsun.
En slíkar gagnrýnisraddir geta gufað fljótt upp innan hins stóra hóps orþódoxa í Rússlandi, sem andspænis heilaþvotti sjónvarpsstöðvanna virðast vera álíka sannfærðar í trú sinni og þau sem trúa á Guð.
En eitthvað er að gerast. Í Úkraínu steig fram embættismaður biskupsdæmisins í Moskvu, fyrrum sauðtryggur fylgjandi Kirills, metrópolitan Onufrij og gagnrýndi stríðið á fyrsta degi og fordæmdi það.
Ef Kirill tapar trausti og valdi yfir þeim 12.000 söfnuðum sem tilheyra Onufrijs, er víst að stríð Pútíns fer ekki heldur eins og stefnt er að.
Náið samband ríkis og kirkju er ekki neikvætt í sjálfu sér. En þegar ríkið er farið að kúga kirkjuna þarf hún að gefa sínar skýringar. Já, í enn ríkara máli þegar ríkið fer í stríð sem að hluta til er réttlætt með hugtökum og gildum sem eiga sínar rætur í kirkjunni.
Höfundur er fjölmiðlafræðingur og rithöfundur. Hann hefur m.a. ritað bækurnar: Putins presse og Makten & Troen – en reise til de vakreste kirkene og klostrene i Europa.
Örn Bárður Jónsson íslenskaði en hægt er að lesa greinina á frummálinu hér.