Í dag, 22. ágúst, eru tvö ár síðan að Kjarninn kom fyrst fyrir sjónir almennings. Hugmyndavinna og undirbúningur hafði þá staðið yfir mánuðum saman.
Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Og allt breyst.
Það var djörf hugmynd hjá þeim litla, metnaðarfulla og ofurbjartsýna hóp sem stóð að Kjarnanum að stofna fjölmiðil á Íslandi. Rekstrarárangur slíkra er enda, í sögulegu samhengi, vægast sagt ekki upplífgandi. Þeir hafa tilhneigingu til að leggja annað hvort upp laupana eða að lenda í höndum aðila sem sjá hag sinn í að leyfa miðlunum að tapa peningum. Af einhverjum ástæðum.
Við ákváðum að synda gegn straumnum á tvennan hátt. Í fyrsta lagi að einblína á fáar djúpar og ítarlegar fréttaskýringar um þjóðfélagsmál í efnistökum þegar stefnan víða í geiranum var á aukna tíðni stuttra frétta, helst með miklu afþreyingargildi. Í öðru lagi birtum við efnið okkar í appi, sem stafrænt fréttatímarit.
Okkur fannst þessi útgáfa Kjarnans, Kjarninn 1.0, frábær. Fréttatímaritið, ef það var lesið í spjaldtölvu, bauð lesendum upp á upplifun sem þeir gátu ekki fengið annars staðar. Hægt var að blanda ólíkum miðlum saman í framsetningu. Vandamálið var að neytendur voru ekki að nota spjaldtölvurnar sínar með þessum hætti. Langflestir lesendur okkar voru að lesa Kjarnann á öðrum formum en því sem við eyddum langmestum tíma í að búa til og hanna í viku hverri.
Og við það þurftum við að sætta okkur.
Kjarninn 2.0
Mistök eru tvenns konar. Annað hvort fella þau þig eða styrkja. Í okkar tilfelli er nú ljóst að sú upphaflega leið sem við fórum í birtingu á efni Kjarnans var mistök. En við lærðum gríðarlega mikið af þeim mistökum og tókum margt með okkur frá þeim tíma sem gerir Kjarnann að því sem hann er í dag.
Á þessu fyrsta rúma ári náði Kjarninn líka að koma sér rækilega fyrir í íslensku fjölmiðlalandslagi. Aðrir fjölmiðlar vitnuðu meira í okkur en nokkurn annan innlendan fjölmiðil á þessu tímabili. Við vorum tilnefnd til ýmissa verðlauna. Traustsmælingar sýndu að lesendur okkar treystu Kjarnanum betur en flestum öðrum einkareknum fjölmiðlum. Og til varð vísir að Kjarnasamfélaginu.
Í október 2014 tilkynntum við miklar breytingar á Kjarnanum sem höfðu verið í undirbúningi mánuðum saman. Þá var kynntur til leiks nýr fréttavefur sem myndi sinna daglegri fréttaþjónustu en halda áfram fast í þá hugmyndafræði um gæði og dýpt sem Kjarninn er byggður á. Samhliða var útgáfu stafræna fréttatímaritsins hætt. Þessar breytingar voru alls ekki auðveldar en þær voru ákaflega nauðsynlegar. Með þeim vorum við að bregðast við með auðmýkt gagnvart þeirri stöðu að það var klár og mikil eftirspurn eftir efninu sem ritstjórn Kjarnans framleiðir, en að framsetning þess þyrfti að breytast.
Í dag lítur Kjarninn fyrst og síðast á sig sem efnisframleiðanda sem leggur áherslu á að upplýsa lesendur sína. Að greina og skýra fyrir þeim það sem á sér stað í samfélagi manna. Þær leiðir sem við miðlum efninu til þeirra geta breyst eftir því sem tækninni fleygir fram og notendahegðun breytist. Við höfum sýnt það áður að við búum yfir aðlögunarhæfni til þess. Og á endanum snýst fjölmiðlun alltaf um sama hlutinn, efnið. Það er hægt að klæða lélegt efni í glæsilega glitgalla, nota formúu í að markaðssetja það, en það er samt sem áður lélegt efni.
Og við höfum haldið mikilli tryggð við þær grundvallarhugsjónir sem Kjarninn var stofnaður á. Í fyrsta leiðaranum sem ég skrifaði fyrir Kjarnann, í ágúst 2013, stóð: „Í Kjarnanum verður lögð áhersla á gæði og dýpt. Við ætlum að rannsaka og skýra málin fyrir lesendum okkar, hlustendum og áhorfendum. Við ætlum að skilja kjarnann frá hisminu.“
Þetta erum við enn að gera. Frá því að við breyttum um stefnu fyrir ári síðan þá höfum við til að mynda birt yfir 400 fréttaskýringar, eða rúmlega eina á dag.
Kjarninn 3.0
Það liggja mikil tækifæri í þeim sveigjanleika sem lítið en vaxandi fjölmiðlafyrirtæki eins og Kjarninn býr yfir. Við getum brugðist við þeim miklu breytingum sem við erum að upplifa mun hraðar en stóru fjölmiðlafyrirtækin sem hafa verið smíðuð í kringum tegundir miðla, á borð við dagblöð og línulegar sjónvarpsstöðvar, sem neytendur eru hægt en örugglega að yfirgefa. Kjarninn, og margir aðrir smærri miðlar, eru að spila sókn á meðan að stóru gímöldin á íslenskum fjölmiðlamarkaði eru í bullandi vörn með sín rekstrarmódel.
Í dag er heimahöfn Kjarnans fréttasíða. Við höldum einnig úti daglegu fréttabréfi, hlaðvarpi yfir vetrartímann, vikulegu ensku fréttabréfi og höfum haldið viðburði um þjóðþrifamál.
Í haust mun Kjarninn kynna til leiks nýja fréttasíðu. Hún hefur verið í undirbúningi og hönnun mánuðum saman og er að taka á sig mynd þessa daganna. Með tilkomu hennar munum við skerpa enn meira á þeirri sérstöðu sem vil teljum Kjarnann hafa í íslensku fjölmiðlalandslagi. Áherslan á það sem við gerum best verður aukin og framsetning efnis aðlöguð meira að því. Auk þess eru fjölmörg viðbótarverkefni í þróun sem við munum greina betur frá í fyllingu tímans.
Við erum þátttakendur í umræðu, ekki stjórnendur hennar
Það átta sig ekki allir á því að við erum að lifa mestu byltingu sem heimurinn hefur orðið fyrir síðan að iðnbyltingin gekk yfir. Sú upplýsingabylting sem tilkoma internetsins og sú tæknibylting sem hefur valdið því að níu af hverjum tíu vesturlandabúum er alltaf með gátt að internetinu í vasanum hefur breytt öllu. Ekki síst fjölmiðlun.
Aðgengi almennings að upplýsingum, og tækifæri hans til að láta skoðanir sínar í ljós á opinberum vettvangi í gegnum netið, hefur gert það að verkum að bæði form og hlutverk fjölmiðla er orðið allt annað en það var. Í stað þess að fjölmiðlar stýri umræðunni með því að velja þær upplýsingar sem eru fólki aðgengilegar, líkt og var áratugum saman, þá eru þeir orðnir þátttakendur í henni. Hlutverk þeirra er að upplýsa almenning, greina fyrir hann og skýra, svo hann geti tekið vel undirbyggða afstöðu til þeirra mála sem hafa áhrif á líf hans hverju sinni.
Í því þjónustuhlutverki er Kjarninn. Og ætlar sér að vera áfram.