Það er að mörgu leyti búið að vera hressandi að fylgjast með umræðum um skuldaniðurfellinguna undanfarna daga. Rök þeirra sem hana styðja snúast ekki lengur um leiðréttingu á forsendubresti. Forsendubresturinn er nefnilega augljóslega ekki til staðar gagnvart langflestum þiggjendum peningagjafarinnar.
Fasteignaverð á Íslandi hefur hækkað um 380 milljarðar króna á tveimur árum og verðbólga hefur verið undir verðbólgumarkmiði í níu mánuði. Þess utan er forsendubresturinn svo þunn skýring að það tókst ekki einu sinni að tilgreina hann í lögunum um niðurfellingarnar. Upphaflega var forsendubresturinn skilgreindur þannig að hann hafi átt sér stað á tímabilinu 2007-2010 og væri öll verðbólga umfram meðalverðbólgu.
Í lokaútfærslunni er búið að þrengja tímabilið niður í 2008-2009 og hlutfallsleg stærð forsendubrestsins bundin við það að kosta ekki meira en 80 milljarða króna. Með öðrum orðum fer forsendubresturinn eftir því hversu margir vilja fá hann leiðréttan, ekki eftir því sem raunverulega gerðist.
Loforð um að gefa beinharða peninga
Og margir þingmenn Framsóknarflokksins eru hættir að hengja sig í forsendubrestinn. Sigrún Magnúsdóttir sagði til að mynda í Kastljósi á fimmtudag að Framsókn hefði verið kosin út á skuldaniðurfellinguna. Núna væru þau einfaldlega að efna kosningaloforðið sem tryggði þeim völdin. Eygló Harðardóttir tók í svipaðan streng daginn eftir í sjónvarpsviðtali.
þá stendur eftir hið heiðarlega svar. Þau voru kosin til að gera þetta. Þau eru að efna það kosningaloforð
Þegar röksemdin um forsendubrestin hefur verið hrakin með tölum úr raunveruleikanum, og augljóst er að skuldaniðurfellingin fer til 28 prósent þjóðarinnar og að allt of stóru leyti til fólks eins og formanna stjórnmálaflokka á Alþingi sem þurfa ekkert á henni að halda, eða fólks í svona stöðu, þá stendur eftir hið heiðarlega svar. Þau voru kosin til að gera þetta. Þau eru að efna það kosningaloforð. Loforð um að gefa þeim sem settu x við B beinharða peninga.
Fordæmið komið
Með stóra kosningaloforði sínu um peningagjafir breytti Framsókn íslenskum stjórnmálum. Loforð hafa hingað til snúist um að lofa einhverjum opinberum framkvæmdum, skattalækkunum eða útgjaldaaukningum í ákveðna málaflokka. Ekki um að það verði bara lagt inn á lán þeirra sem kjósa viðkomandi flokk.
Önnur stjórnmálaöfl hljóta að sjá popúlískt tækifæri í þessari eðlisbreytingu. Framsókn tókst að ná í 24,4 prósent atkvæða og borgaði út til 28 prósent þjóðarinnar.
Eftir sitja rúm 70 prósent þjóðarinnar án peningagjafar. Með sömu rökum og beitt var áður má alveg færa rök fyrir því að þessi hluti þjóðarinnar hafi orðið fyrir forsendubresti.
Eftir sitja rúm 70 prósent þjóðarinnar án peningagjafar. Með sömu rökum og beitt var áður má alveg færa rök fyrir því að þessi hluti þjóðarinnar hafi orðið fyrir forsendubresti. Leigjendur, háskólanemar, ungt fólk, öryrkjar, skuldlausir, óverðtryggðir lántakar og bara allir aðrir sem borga fyrir niðurfellingarnar hinna með skattfé sínu.
Gagnagrunnurinn er til staðar
Það hljóta að vera tækifæri í því að blása upp forsendubrest þessa hóps fyrir næstu kosningar. Og lofa þessum hópi ca. 1,5 milljón krónum á haus í skaðabætur vegna forsendubrestsins gegn því að þeir kjósi viðkomandi stjórnmálaafl.
Það myndi kosta um 350 milljarða króna, sem er ekki fjarri þeirri tölu sem heyrðist í aðdraganda kosninganna þegar verið var að ræða um verðbólgubætur til hluta verðtryggðra lántakenda. Svo væri auðvitað hægt að þynna þessa tölu aðeins niður þegar í ljós kemur að það er ekki alveg til svona mikið í ríkissjóði.
Og það væri ekkert mál að greina þennan hóp frá hinum. Gagnagrunnurinn er til staðar hjá ríkisskattstjóra. Allir sem fengu ekki vinning í ríkislottóinu núna, fá hann næst.
Það sem við vorum kosin til að gera
Til að rökstyðja þessa vegferð er hægt að nota nákvæmlega sömu rök og Framsókn hefur stuðst við undanfarin ár. Hér varð forsendubrestur, hópur varð fyrir honum og við ætlum að bæta honum tjónið. Þegar forsendubresturinn er hrakinn með raungögnum er síðan hægt að segja bara: „já, en við erum að efna það sem við vorum kosin til að gera“.
Það er hægt að höfða til alls þess rúmlega 2/3 hluta þjóðarinnar sem Framsóknarflokkurinn skilgreinir ekki sem „almenning“ og býr í húsum sem Framsóknarflokkurinn skilgreinir ekki sem „heimilin“ í landinu
Það er hægt að höfða til alls þess rúmlega 2/3 hluta þjóðarinnar sem Framsóknarflokkurinn skilgreinir ekki sem „almenning“ og býr í húsum sem Framsóknarflokkurinn skilgreinir ekki sem „heimilin“ í landinu. Snjall stjórnmálamaður gæti sagt við þennan hóp: „verið mín heimili. Leyfið mér að leiðrétta ykkar forsendubrest“.
Í kjölfarið geta allar kosningar snúist um hvað stjórnmálaflokkarnir geta lofað stórum hópum í beinhörðum peningum sem sóttir eru með skattbeitingarvaldinu í sameiginlega sjóði. Fordæmið er komið.
Svona gæti þetta gengið á víxl nokkrar kosningar í röð. Þangað til að ríkissjóður væri tómur. Og samfélagið hrunið.