Tilefni skrifa undirritaðra er grein þingmanns Pírata, Helga Hrafns Gunnarssonar, sem birtist á Vísi.is 11. maí síðastliðinn og á vefsíðu Pírata þann 12. maí, „OnlyFans, klám og óskynsamlegar refsingar”. Sem áhugakonur um kvenfrelsi og kvenfrelsun finnum við okkur knúnar til að bregðast við þeim hugmyndum og tillögum sem Helgi Hrafn setur fram í fyrrnefndri grein.
Í greininni segir þingmaðurinn: „Klámbannið í almennum hegningarlögum er vont ákvæði, og við eigum að fjarlægja það, alveg sama hvað okkur finnst um kynlífsiðnaðinn eða áhrif kláms á samfélagið.“ Einnig heldur hann því fram að aðstæður í klámframleiðslu og kynlífsiðnaði séu „misjafnar“ og „fjölbreyttar,“ rétt „eins og kynferðisleg sambönd almennt“. Jafnframt segir hann að klám og kynlífsvinna séu „kynhegðun“ og þess vegna „fjölbreytt og persónuleg“. Hann heldur því að lokum fram að bann við framleiðslu kláms á Íslandi sé „skilgetið afkvæmi feðraveldisins“.
Fá kerfi eru jafn gegnsýrð af kvenhatri og klám- og kynlífsiðnaðurinn. Fyrir okkur eru þetta augljós sannindi. Öll með internet-tengingu og færni til að gúgla geta sannreynt þetta á innan við mínútu. En þrátt fyrir það þurfa konur að þola stöðugan áróður um að klám sé sjálfsagt og að andstaða við það sé aðeins til marks um tepruskap eða jafnvel þjónkun við feðraveldið. Klámframleiðendur notast við vel fjármagnaðar áróðursmaskínur til að troða þessum sjónarmiðum upp á konur; „Ef þú ert á móti klámi áttu við vandamál að stríða“. Ömurlegri gaslýsingu er varla hægt að hugsa sér.
Konur eru ekki virtar álits
Ástæða þess að klám er orðið hversdaglegur hluti tilveru okkar er ekki sú að konur vilji, eða hafi samþykkt að búa í klámvæddu samfélagi, eða að konur sjái ekkert athugavert við það grófa, kynbundna ofbeldi sem birtist í klámi. Nei, ástæðan er sú að gagnvart ægivaldi kapítalísks feðraveldis sem hefur vöruvætt píkur, rassa, munna og brjóst kvenna hafa konur sem hópur undirsetta stöðu; „réttur“ karla til að hafa óheftan aðgang að klámi og „réttur“ karla á því að það sé framleitt er einfaldlega mikilvægari en réttur kvenna til að lifa í samfélagi sem samþykkir ekki klámiðnaðinn og kynferðislegt ofbeldi.
Sú meðferð sem konur í klámi verða fyrir til að karlar upplifi kynferðislega fullnægju eru til marks um hversu alvarleg og raunveruleg þessi undirsetta staða er. Í dag er meginstraums-klám fullt af ofbeldi. Það fólk sem hefur unnið með afleiðingar kláms hjá þolendum nauðgana og heimilisofbeldis, veit að klám er ekki aðeins eyðileggingarafl í lífi þeirra kvenna sem starfa í klámiðnaðinum, heldur samfélagslegt eitur sem hefur gríðarleg áhrif á líf fjölmargra kvenna sem „völdu“ aldrei að hleypa klámi inn í líf sitt, en þurftu engu að síður að þola afleiðingar klámvæðingarinnar.
Klámvæðingin er and-bylting gegn kvenréttindum
Klámvæðingin er and-bylting, viðbragð við sífellt háværi kröfum kvenna um jafnrétti og sjálfræði.
Til að ná aftur stjórn hefur feðraveldið framkvæmt samfélagslega endurstillingu með því að búa til kerfi þar sem konur sem hópur eru undirsettar með augljósum og ofbeldisfullum hætti. Þetta kerfi er klámiðnaður nútímans. Þau gildi sem þar eru til grundvallar hafa gríðarleg áhrif á líf kvenna. Að afneita því er að gaslýsa konur og upplifanir þeirra; þeirra sýn á eigið líf, eigin líkama, eigin mannréttindi.
Klám samtímans með sínu gengdarlausa ofbeldi og kvenhatri gerir stöðu kvenna sem þolenda kerfisbundins kynbundins ofbeldis sýnilega og skýra; þeim er riðið hvernig sem mönnum dettur í hug, þær eru svo lítils virði að það þarf ekki einu sinni að láta sem þær hafi tilfinningar, upplifi sársauka. Í klámiðnaðinum hefur hefðbundið stigveldi karlaveldisins verið stofnanavætt með viðbjóðslegum hætti með því að blanda saman kynbundnu ofbeldi og kapítalisma, því tvennu sem inniheldur algjört virðingarleysi fyrir rétti fólks til sjálfsvirðingar og sjálfsumhyggju.
Innan klámiðnaðar-kerfisins ríkir viðvarandi ástand kvennakúgunar. Ógn um kynbundið ofbeldi er endurframleidd viðstöðulaust; karlar sem hópur telja sig hafa uppskorið frelsi til að upplifa kynferðislega útrás á kostnað kvenna sem hóps. En þeir eru líka fórnarlömb kerfis ofbeldis og kúgunnar; klámiðnaðurinn dregur úr færni þeirra til að upplifa samhygð með konum og með því að neita að viðurkenna misnotkunina sem konur í klámi verða fyrir lítillækka þeir sjálfa sig sem manneskjur.
Líkamlegt ofbeldi sem konur eru beittar í „hversdagslegu“ meginstraums internet-klámi er meðal annars eftirfarandi: Konu er ýtt eða henni hrint, hún er klipin, rifið er í hár hennar, hún er flengd, hún er slegin utanundir, hún verður fyrir „gagging“ (typpi er stungið upp í munn hennar svo að hún á erfitt með að anda) og tekið er um háls hennar og þrengt að. Mörg typpi í öll göt er nýja tenging karlmennskunnar í kláminu. „Við strákarnir saman að nauðga.“
Í klámi birtist sú mynd að „kynferðisleg samskipti“ við konur gangi bókstaflega út á yfirgengilega niðurlægingu. „Kynhegðunin“ og meðferðin sem konur verða fyrir í klámi er ekki sjáanleg nokkursstaðar annarsstaðar í fjöldaframleiddu efni. Það er staðreynd sem ekki er hægt að neita.
Hvað er femínismi?
Femínísk barátta snýst ekki um samtal á forsendum karla um einstaklingsval. Femínísk barátta snýst um kvenfrelsun; undan ofríki og kúgun, undan ofbeldi og ógn, og fyrir afnámi stigvelda, fyrir samfélagi þar sem „réttur“ karla til að fá kynferðislega útrás er ekki mikilvægari en réttur kvenna til lífs án niðurlægingar.
Sú mynd sem klámiðnaðurinn dregur upp af konum, að þær annað hvort sýni engin viðbrögð við þeirri meðferð sem þær verða fyrir eða njóti þess að verða fyrir grófum líkamlegum árásum hefur raunverulegar afleiðingar. Hún kennir að karlar mega sýna hömlulausa árásargirni án þess að það hafi afleiðingar aðrar en kynferðilega umbun, og að konur séu hinn fullkomni þolandi sem þegir eða þakkar fyrir ofbeldið.
Að ætla sér að láta samtal um klámiðnaðinn snúast fyrst og fremst um „persónulegt frelsi einstaklinga“ eða fjölbreytileika kynferðislangana og kyntjáningar er skaðlegt og breiðir yfir og afneitar kerfislægu kvenhatri iðnaðarins. Manneskja sem vill láta taka sig alvarlega getur ekki látið eins og normalísering á þessu ógeði hafi ekki alvarlegar samfélagslegar afleiðingar fyrir konur sem hóp.
Klámiðnaðurinn er gerandi kynbundins ofbeldis á heimsvísu
Klámiðnaðurinn í sínum óhefta og grimmilega kapítalisma hefur engan áhuga á eða áhyggjur af velferð kvenna sem hóps. Ekki frekar en olíu-iðnaðurinn hefur áhyggjur af bráðnun jökla. Klámframleiðendur hafa aðeins áhuga á einu; að græða.
Meðvirknin með klámiðnaðinum er æðisgengnasta birtingarmynd himpathy (samúð með körlum, frekar en samstaða með þolendum karla) sem hægt er að hugsa sér; réttur karla til kláms er svo mikill að við eigum að loka augum og eyrum fyrir öllum staðreyndum, öllum þeim frásögnum af viðbjóði og öllum þeim sönnunargögnunum um niðurlægingu, ofbeldi og níðingsskap gagnvart konum (og börnum) sem hægt er að finna í milljónatali með því einu að leita á internetinu í skamma stund.
Með yfirborðskenndum málflutningi sínum gerist Helgi Hrafn sekur um að breiða yfir hinn óendanlega mikla skaða sem klámiðnaðurinn skapar í lífi kvenna á öllum aldri. Það má vera að með yfirlýsingu sinnin vilji hann sýna samstöðu með fólki sem tilheyrir jaðarsettum hópum en það glannalega orðalag sem hann notast við er ekki boðlegt þegar við skoðum hvaða áhrif algjört frelsi til að framleiða klám á Íslandi myndi hafa. Klámiðnaðurinn er sadískt skrímsli og að valdakarl skuli leyfa sér að bjóða það skrímsli velkomið í líf kvenna á Íslandi undir flaggi femínismans er óásættanlegt að öllu leiti.
Mikil umræða á sér stað í íslensku samfélagi um „markaleysi“ karla gagnvart konum. Við konur, sem nú erum staddar í annari bylgju #metoo, lesum og heyrum á hverjum degi frásagnir kynsystra okkar um allt frá ömurlegum yfirgangi til skelfilegs ofbeldis. Við upplifum þau áföll sem við höfum sjálfar orðið fyrir á ný. Suma daga eins og við séum að drukkna í sorg og reiði, okkar eigin og annara, að drukkna í forarpytti feðraveldisins. Dettur einhverjum manni í hug að hægt sé að krefja okkur, staddar í miðju sársaukafullu uppgjöri okkar við kerfislæga kvennakúgun, um að líta fram hjá því að á fáum stöðum birtist algjört hömluleysi í mannlegum samskiptum með eins viðbjóðslegum hætti og í klámi?
Klámiðnaðurinn er byggður á niðurlægingu og ofbeldi á konum. Hann er gerandi kynbundins ofbeldis á heimsvísu. Það, ásamt gróðasjónarmiðinu, er grundvöllur tilvistar hans. Fyrir okkur er ekkert er augljósara.
Frjáls framleiðsla kláms gerir Ísland að verri og hættulegri stað fyrir konur
Við fögnum þeim árangri sem femínistar hafa náð í sinni miklu og erfiðu baráttu fyrir því að lifa frjálsar undan lögmálum feðraveldisins. Við erum þakklátar þeim konum sem hafa hugrekki til að stíga fram og segja körlum að kúgunar-staða þeirra í stigveldinu sé ekki náttúrulögmál. Við styðjumst við baráttu þessara kvenna og segjum: Klám er ekki „kynferðisleg tjáning“ heldur ein af undirstöðum kvennakúgunar. Við samþykkjum ekki að afnám banns við framleiðslu á klámi sé femínismi. Staðreyndin er sú að fyrir margar konur er klám stór þáttur í því ofbeldi sem þær hafa þolað og þeirri niðurlægingu sem þær hafa orðið fyrir, til dæmis þær konur sem karlar hafa neitt til að horfa á klám eða framkvæma klám-athafnir sem þeir hafa talið sig eiga heimtingu á að fá að upplifa.
Draumur Helga Hrafns um frelsi til að framleiða klám gerir Ísland að verri og hættulegri stað fyrir konur. Það munum við aldrei samþykkja.
Við trúum á rétt kvenna til að lifa frjálsar undan ofbeldi. Við viðurkennum ekki að kvenlíkaminn sé aðeins varningur sem gangi kaupum og sölum, til að nota og misnota.
Barátta kvenna gegn algjörum yfirráðum klámiðnaðarins er mannréttindabarátta. Hún er barátta gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi. Hún er barátta gegn kynbundnu ofbeldi. Við erum femínískar konur og við ætlum að taka þátt í henni.
Höfundar eru baráttukonur fyrir kvenfrelsun og kvenfrelsi.