Í lögum um útlendinga segir að markmið þeirra sé að tryggja mannúðlega meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga hér á landi. Þegar kemur að meðferð umsókna kvenna og barna um alþjóðlega vernd á Íslandi er í sömu lögum sérstakt tillit tekið til þeirra. Enda er það almennt viðurkennt að konur og börn á flótta séu með allra viðkvæmustu hópum sem neyðast til að flýja aðstæður sínar. Ein af ástæðum þess að sérstakt tillit þarf að taka til kvenna á flótta er sú að þær konur, sem verða fyrir því óláni að fæðast í landi þar sem líf fólks og velferð er almennt stefnt í hættu, eru oftar en ekki, einnig, í hættu vegna kynbundinna ofsókna eða ofbeldis. Þá eiga þær almennt mun erfiðara með að flýja en karlar. Iðulega eiga þær sér engrar undankomu auðið og nær aldrei fyrr en ótrúleg grimmdarverk hafa verið unnin á líkama þeirra og sál.
Framkvæmd stjórnvalda
Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála eru þær stofnanir sem bera ábyrgð á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Undanfarið hafa mál verið til meðferðar hjá þeim þar sem reynt hefur á þetta sérstaka tillit enda um að ræða verndarumsóknir sérstaklega viðkvæmra kvenna á flótta. Því miður er ekki hægt að segja að leyst hafi verið úr málum þeirra af sérstakri reisn eða að mannúð hafi verið höfð að leiðarljósi.
Konurnar höfðu sætt margþættum og hrikalegum grimmdarverkum og ofsóknum fyrir það eitt að vera kvenkyns. Þær eiga sambærilega fortíð að baki og tókst ekki að flýja fyrr en þær höfðu orðið fyrir ítrekuðu líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi, eins og t.d. þvinguðu vændi, mansali, nauðgunum, barsmíðum og þvinguðum hjónaböndum. Þær höfðu jafnframt orðið fyrir limlestingum á kynfærum, aðeins barnungar að aldri, en þar að auki urðu sumar fyrir því að ör þeirra limlestinga voru skorin upp af nauðgurum þeirra þegar þær voru litlu eldri.
Þrátt fyrir þessa óumdeilanlegu sérstaklega viðkvæmu stöðu þessara kvenna var ekkert sérstakt tillit tekið til þeirra. Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála ákváðu snarlega að senda þær aftur til Grikklands því ofan á allt annað höfðu þær verið þvingaðar til þess að sækja um vernd þar áður en þær komust til Íslands. Þrátt fyrir að vera einar af þeim örfáu sem tekist hefur að komast í skjól ætla íslensk stjórnvöld að slökkva síðasta vonarneista þeirra og senda þær aftur til Grikklands þar sem öllum er ljóst að öryggisleysi og örbirgðin ein bíður þeirra.
Gallað mat stjórnvalda
Á meðan þær hafa dvalið hér á landi hefur hvorki farið fram heildstætt né einstaklingsbundið mat á stöðu þeirra. Ekkert tillit tekið til þess að þær séu konur í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Þeim gafst varla færi á að leggja fram gögn úr þeim fáu læknatímum sem þjónustuveitandi þeirra, sjálf Útlendingastofnun, veitti þeim. Matið á því hvort þær teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu og hafi þörf fyrir heilbrigðisþjónustu var þannig að mestu unnið af löglærðum fulltrúum Útlendingastofnunar og löglærðu nefndarfólki kærunefndar útlendingamála. Það þótti greinilega óþarfi að mati stofnunarinnar og kærunefndar að leita til heilbrigðisstarfsfólks eða vinna málin faglega og í samræmi við kröfur íslenskra laga. Fá það þannig staðfest að þær séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu í samræmi við lög um útlendinga og glími við mikil og alvarleg veikindi. Þrátt fyrir hið augljósa, þrátt fyrir að þær glími allar við alvarlegar andlegar og líkamlegar afleiðingar og sumar þeirra geti jafnvel ekki haft eðlileg þvaglát eða blæðingar án mikils sársauka, dugar það ekki til. Þó þær þurfi nauðsynlega greiningu og aðstoð sálfræðinga og fagfólks, eins og finna má í Bjarkarhlíð og hjá Stígamótum, vegna augljósrar sérstaklega viðkvæmrar stöðu og áfallastreituröskunar dugar það ekki til. Þeim stendur aðeins til boða afar takmarkaður sálfélagslegur stuðningur, áköll þeirra sem þann stuðning hafa veitt um frekari sálfræðilega meðferð fengu ekki hljómgrunn. Þær hafa þá enn síður fengið nauðsynlega aðstoð skurðlækna.
Ekki deilt um aðstæður í Grikklandi
Rétt er að taka fram að íslensk stjórnvöld eru vel meðvituð um þær hræðilegu aðstæður sem konurnar bjuggu við í Grikklandi áður en þær komust til Íslands. Útlendingastofnun telur frásagnir þeirra trúverðugar um að þær hafi búið á götunni í Grikklandi, verið þar án atvinnu og án félagslegrar aðstoðar, þar á meðal án framfærslu. Kærunefnd útlendingamála segir í úrskurðum sínum að konur á flótta lifi oft á jaðri samfélagsins í Grikklandi og búi þar við félagslega einangrun. Það geti verið vandkvæðum bundið fyrir þær að sækja sér heilbrigðisþjónustu, sérstaklega sérhæfða. Að ekkert húsnæði sé til staðar í Grikklandi sem einungis sé ætlað konum á flótta. Að þær mæti erfiðleikum við að nálgast félagslegar bætur og að atvinnumöguleikar þeirra séu takmarkaðir í Grikklandi. Að lokum tiltekur kærunefndin jafnvel að dæmi séu um að konur á flótta séu beittar ofbeldi í Grikklandi, meðal annars af hendi grísku lögreglunnar.
Stefnumótun stjórnvalda
Þrátt fyrir allt þetta, hræðilegar aðstæður í Grikklandi og sérstaklega viðkvæma stöðu þessara kvenna, komust Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála sem sagt að þeirri niðurstöðu að engar „sérstakar ástæður“ væru til þess að gefa þeim færi á að fá vernd hér á landi. Það er ljóst að kröfur útlendingalaga um mannúð eru virtar að vettugi. Það er ómannúðlegt að senda þessar sérstaklega viðkvæmu konur til baka allslausar í eymdina í Grikklandi. Á götuna þar sem þeim voru ítrekað boðnir greiðar í stað kynlífs áður en þær flúðu til Íslands. Það er ómannúðlegt að rannsaka ekki mál þeirra og veita þeim ekki þann rétt sem lög um útlendinga mæla fyrir um varðandi aðstoð og greiningu heilbrigðisstarfsfólks. Það er engin reisn yfir þessari málsmeðferð eða málalokum íslenskra stjórnvalda.
Allt frá setningu núgildandi laga um útlendinga hafa ráðherrar dómsmála, Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála gengið hart fram við að skerða rétt flóttafólks til þess að eiga möguleika á vernd hér á landi. Hefur sú þróun komið sérstaklega niður á konum því hvorki er lengur litið til sérstaklega viðkvæmrar stöðu þeirra né heildarmat unnið á grundvelli kynbundinnar stöðu þeirra. Í ljósi þess má því raunverulega spyrja hvort hið einstaklingsbundna heildarmat sé aðeins orðið að krossaprófi, þ.e. hvort viðkomandi falli undir tiltekið stakt skilyrði af nokkrum í reglugerð ráðherra. Skilyrði sem samin voru gagngert til þess að útiloka fólk frá því að fá vernd á Íslandi, eins og t.d. hvort viðkomandi glími við mikil og alvarleg veikindi. Það skilyrði reyndar uppfylla þessar konur en vegna þess að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála neita þeim um nauðsynlega og lögbundna greiningu er þeim gert nær ómögulegt að sanna það.
Hvernig finnum við mannúðina aftur?
Stjórnspekingurinn Hannah Arendt benti á þá dapurlegu staðreynd að flest illvirki væru unnin af fólki sem gerði það aldrei upp við sig hvort það vildi sjálft vera eða gera gott eða vont. Í málum þessara kvenna sem hér eru rakin eru þær íslensku stofnanir sem bera ábyrgð enn einu sinni komnar út fyrir öll mörk velsæmis og mannúðar og niðurstaðan slík að íslenskt samfélag getur ekki samþykkt málalyktir. Við þurfum að gera upp við okkur hvorn kosta Hannah Arendt við veljum.
Höfundur er lögfræðingur.