Í dag eru 100 ár frá því að konur yfir ákveðnu aldursmarki fengu kosningarétt á Íslandi. Frá þeim tíma hefur margt eðlilega áunnist í baráttunni fyrir jafnari stöðu kynjanna. Eðlilega, vegna þess að í sögulegu samhengi hefur samfélag manna að mörgu leyti verið kvennfjandsamlegt og, nánast án undantekninga, undir stjórn karla.
Það geta flestir verið sammála um að sá banvæni kokteill áhættusækni, mikilmennskubrjálæðis, vanþekkingar og sinnuleysis ráðandi afla í íslensku stjórnmála-, fjármála- og viðskiptalífi sem ýtti Íslandi nánast út af hengibrúninni haustið 2008 – og leiddi af sér fordæmalausar björgunaraðgerðir til að bjarga því sem bjargað varð – hafi ekki verið til eftirbreytni.
Á þeim tíma voru allir bankastjórar karlar, allir stjórnarformenn banka voru karlar, forstjóri Fjármálaeftirlitsins var karl, seðlabankastjórarnir þrír voru karlar, forsætisráðherra var karl, fjármálaráðherra var karl, bankamálaráðherrann var karl, stærstu lántakendur bankakerfisins sem tóku stærstu áhætturnar í fjárfestingum voru allt karlar. Samt er einhvern veginn aldrei rætt um að þessi breyta, að karlar hafi stjórnað öllu hér á landi, hafi mögulega haft ráðandi áhrif á að allt fór í steik.
Þótt jafnrétti kynjanna þokist alltaf í rétta átt með hverju árinu þá gengur það óverjanlega hægt að koma hlutunum í boðlegt horf. Og fyrirstaðan er fyrst og fremst karlar með ákvörðunartökuvald.
Karlar stýra peningunum
Kjarninn gerði úttekt á fjölda kvenna í æðstu stöðum íslensks fjármálalífs í mars síðastliðnum. Niðurstaðan var sú að þar situr ein kona fyrir hverja níu karla. Af 87 æðstu stjórnendum sem starfa í íslensku fjárfestinga- og fjármálakerfi eru einungis sjö konur við stjórn en 80 karlar. Til að þetta síist enn betur inn þá eru níu prósent þeirra stjórnenda sem stýra peningunum í íslensku samfélagi konur en 91 prósent karlar.
Um var að ræða æðstu stjórnendur viðskiptabanka, sparisjóða, lífeyrissjóða, skráðra félaga, félaga á leið á markað, óskráðra tryggingafélaga, orkufyrirtækja, verðbréfafyrirtækja, rekstrarfélaga verðbréfa- og fjárfestingasjóða, innlánsdeilda, verðbréfamiðlara og Framtakssjóðs Íslands.
Ein kona stýrir viðskiptabanka á Íslandi. Þeir eru fjórir. Ein kona stýrir skráðu fyrirtæki á Íslandi. Þau eru fimmtán. Engin kona stýrir rekstrarfélagi verðbréfa- og fjárfestingasjóðs á Íslandi. Þau eru alls tíu. Engin kona stýrir eftirlitsskyldu verðbréfafyrirtæki. Þau eru níu. Tvær konur stýra lífeyrissjóðum. Þeir eru alls 23. Engin kona stýrir hins vegar tíu stærstu sjóðunum
Ein kona stýrir viðskiptabanka á Íslandi. Þeir eru fjórir. Ein kona stýrir skráðu fyrirtæki á Íslandi. Þau eru fimmtán. Engin kona stýrir rekstrarfélagi verðbréfa- og fjárfestingasjóðs á Íslandi. Þau eru alls tíu. Engin kona stýrir eftirlitsskyldu verðbréfafyrirtæki. Þau eru níu. Tvær konur stýra lífeyrissjóðum. Þeir eru alls 23. Engin kona stýrir hins vegar tíu stærstu sjóðunum, sem sýsla með þorra þeirra 2.700 milljarða króna sem íslenska lífeyriskerfið á. Og svo framvegis.
Karlar stjórna fyrirtækjunum
Hagstofan heldur utan um hlutfall kynjanna í ýmsum stjórnendastöðum innan íslenskra fyrirtækja. Samkvæmt nýjustu tölum, sem sýna stöðuna í lok árs 2014, eru karlar 78,4 prósent allra framkvæmdastjóra í íslenskum fyrirtækjum. Tvær konur stýra fyrirtæki fyrir hverja átta karla sem gera það.
Þegar kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækjanna eru skoðuð er staðan ekkert mikið skárri. Rúmlega 76 prósent stjórnarformana íslenskra fyrirtækja eru karlar og tæplega 75 prósent allra stjórnarmanna. Það þýðir aftur að fyrir hverja tæpa átta karla sem annað hvort stýra eða sitja í stjórn íslensks fyrirtæki eru rúmlega tvær konur.
Íslendingar hafa reynt að mæta þessari fáránlegu stöðu með lagasetningu. Árið 2010 voru samþykkt lög um hlutfall hvors kyns í stjórnum fyrirtækja. Um er að ræða mjög framsækin lög enda var Ísland annað landið í heiminum til að innleiða þau á eftir Noregi. Lögin tóku að fullu gildi í september 2013. Lögin ná til þeirra fyrirtækja þar sem starfsmenn eru 50 eða fleiri og skikka þau til að láta hlutfall hvors kyns vera yfir 40 prósent í stjórnum þeirra. Lagasetningin hefur gert það að verkum að konur eru nú þriðjungur stjórnarmanna í slíkum fyrirtækjum. Þær voru 12,7 prósent þeirra árið 2007. Hún hefur líka gert það að verkum að stórir fjárfestar á borð við suma lífeyrissjóði hafa til að mynda tekið upp hluthafastefnur sem hafa það markmið að bæta stjórnun þeirra félaga sem þeir fjárfesta í, öllu samfélaginu til heilla.
Karlar taka stóru ákvarðanirnar
Í pólitíkinni og stjórnsýslunni er sagan sú sama. Konurnar fá vissulega að vera meira með en áður en í langflestum tilfellum eru það karlarnir sem taka ákvarðanirnar sem skipta máli. Forsætisráðherra er karl. Það er fjármála- og efnahagsráðherra líka. Þeir leiða saman sitjandi ríkisstjórn og ráða langmestu innan hennar. Ríkisstjórn sem í sitja sex karlar og fjórar konur. Á Alþingi er líka kynjaójöfnuður. Af 63 þingmönnum eru 37 karlar en 26 konur.
Innan stjórnsýslunnar er staðan lítið betri. Seðlabankastjóri er karl, aðstoðarseðlabankastjóri líka og aðalhagfræðingur Seðlabankans sömuleiðis. Í bankaráði Seðlabankans sitja fjórir karlar en þrjár konur. Í peningastefnunefnd ein kona en fjórir karlar.
Nýverið var tilkynnt um samkomulag við kröfuhafa föllnu bankanna sem leitt getur til losun fjármagnshafta. Um var að ræða lausn á einu stærsta efnahagslega vandamáli sem Ísland hefur staðið frammi fyrir. Í stýrinefnd um losun hafta situr ein kona en fjórir karlar. Í framkvæmdahópi sem vann undir nefndinni sat ein kona en fimm karlar.
Forstjóri Samkeppniseftirlitsins er líka karl. Umboðsmaður Alþingis er karl. Forstjórar ríkisfyrirtækjanna ÁTVR, Íslandspósts, Landsvirkjunar. Raunar er einungis fjórðungur yfirmanna stofnana konur. Sú sem hefur mest völd þar er líkast til forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Karlar fá meira borgað
Þar sem karlar ráða enn þá öllu þá fá þeir ennþá betur borgað en konur. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni voru regluleg meðallaun karla 17,4 prósent hærri en kvenna á árinu 2014. Þegar heildarlaunin voru skoðuð var munurinn enn meiri, eða 21,5 prósent.
Ástæður þessa kynbundna launamunar eru margar. Til dæmis hefur verið tekin ákvörðun um að störf hjá hinu opinbera séu ekki jafn verðmæt og önnur störf. Um 45 prósent allra kvenna starfa hjá hinu opinbera og fjórir af hverjum fimm starfsmönnum í heilbrigðis- og félagsþjónustu eru konur.
Það skiptir líka máli að barneignir hindra konur í því að ná sama árangri og karlar í atvinnulífinu. Ákvarðanir teknar af stjórnmálamönnum á borð við að lækka fæðingarorlofsgreiðslur gerðu það til dæmis að verkum að mun færri karlar taka nú slíkt en áður
Það skiptir líka máli að barneignir hindra konur í því að ná sama árangri og karlar í atvinnulífinu. Ákvarðanir teknar af stjórnmálamönnum á borð við að lækka fæðingarorlofsgreiðslur gerðu það til dæmis að verkum að mun færri karlar taka nú slíkt en áður, sem leiðir aftur til þess að konur eru lengur fjarverandi af vinnumarkaðnum en áður.
Sá geiri sem hefur verið á mestu launaskriði eftir hrun er hins vegar hinn karllægi fjármálageiri. Þar hafa launaleiðréttingar átt sér stað í umvörpum undanfarin ár. Þeir sem skópu vesenið sem við höfum verið að takast á við undanfarin ár hækkuðu fyrst aftur í launum, og voru með hærri laun en flestir fyrir.
Konur gera ákvarðanir betri
Á Íslandi búa 165.186 karlar og 163.914 konur. Karlarnir eru 50,1 prósent landsmanna og konurnar 49,9 prósent. Samt stjórna karlar nánast öllu á Íslandi. Ofangreind upptalning sýnir að konur eru í minnihluta í nánast öllum áhrifastöðum í íslensku samfélagi.
Fyrir rúmum 100 árum þótti eðlilegt að konur myndu ekki fá að kjósa. Þær voru annars flokks borgarar sem þótti ekki treystandi fyrir að hafa áhrif á það samfélag sem þær búa í. Þá var tekin ákvörðun um að breyta þeirri firru. Með aukinni þátttöku kvenna í ákvarðanatöku hefur samfélag manna upplifað sitt mesta framfaraskeið í sögunni. Og því fleiri fletir ákvarðana sem konur koma að, því betri verður ákvarðanatakan.
Samt ráða karlar ennþá flestu. Samt er jafn langt í land og raun ber vitni. Ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst tregða í ráðandi körlum til að breyta hugarfari sínu gagnvart hlutverkum kvenna. Skoðun er hins vegar ekki eðlislögmál. Hún er ekki óbreytanlegur fasti. Eina sem þarf til að breyta þessu ástandi er ákvörðunin um að gera það.
Og viljann til að fylgja henni eftir.