Í síðasta mánuði hljóp þáttastjórnandi á aðalfréttatíma rússneskrar ríkissjónvarpsstöðvar inn í settið á útsendingartíma og veifaði spjaldi þar sem innrás Rússa í Úkraínu var mótmælt og hvatti áhorfendur að taka sjónvarpsrásina sem hún starfaði á ekki trúanlega, þar væri rekinn lygaáróður. Hún var í framhaldinu fjarlægð úr útsendingunni og dvaldi næstu tvo sólarhringana í varðhaldi lögreglunnar. Hún lýsti þessum gjörningi sínum sem örvæntingarfullri tilraun til að hreinsa samvisku sína af því að hafa tekið þátt í heilaþvotti sem breytti rússneskum almenningi í „dauðyfli“.
Sumir hafa kallað hana hetju, aðrir segja að þetta breyti engu úr þessu. En hver sem skoðunin á því er, þá er ljóst að til að leysa vandamálið sem stafar af stjórnarfari Pútíns og koma af stað breytingum í Rússlandi þá verður að horfast í augu við sálfræðilegt heljartak sem Pútín hefur á samlöndum sínum.
Hugræn samsetning Pútínismans (sem er aðferðafræði frekar en hugmyndafræði) er heimsmynd sem byggð er upp með áróðri orða og athafna til að halda Rússum í skefjum. Hún hefur ákveðnar undirstöður: Hún höfðar til fortíðarþrár; með samsærissjónarhorni og þess er krafist að Pútín komist upp með hvað sem er, að það séu engir aðrir valkostir en Pútín. Rússar sem eru gagnrýnir á stjórnarfarið, lýðræðissinnaðir fjölmiðlar, aðgerðasinnar í borgaralegu samfélagi og vestrænir stjórnarerindrekar, sem leitast eftir að ná samtali við rússnesku þjóðina, þurfa að átta sig á styrkleika eða veikleika þessarar undirstöðu. Því þótt Pútín takist að skerða rússneskra internetið enn frekar (hann hefur þegar lokað Instagram, Facebook, Twitter og síðustu óháðu útvarps- og sjónvarpsstöðvunum), þá verða alltaf til leiðir sem ná til rússnesku þjóðarinnar, allt frá VPN til gervihnattasjónvarpsrása (svo er alls ekki víst að Kínverjar geri neitt í að loka sínum samskiptamiðli TikTok sem ungt fólk um allan heim skoðar og notar). Spurningin er hinsvegar um hvað eigi að tala við óbreytta íbúa Rússlands.
Sem stendur styður meirihluti Rússa stríðið og uppgefnar ástæður Pútíns fyrir því. Það er erfitt að treysta skoðanakönnunum þar sem einræði ríkir og 15 ára fangelsi getur fylgt því að nefna orðið „stríð“. Þar að auki er alltaf þægilegt að fela sig á bak við áróður: Að láta eins og þú vitir ekki hvað er að gerast. Hann gerir þér kleift að forðast ábyrgð og taka erfiðar eða hættulegar ákvarðanir. En jafnvel þótt þessi vitsmunalega hlutdrægni, ótti og hvati til að forðast raunveruleikann breytist ekki á stundinni, þá eru nú þegar veikleikar í helstu áróðursaðferðum Pútíns.
Byrjum að skoða notkun Pútíns á nostalgíu – fortíðarþrá. Hann hefur alltaf litið svo á að hlutverk sitt sé að „reisa Rússland á fætur“, útgáfa Kremlverja af „Make America Great again“. Þetta hefur nú náð hámarki: Í samhengislausri sögulegri ræðu sinni sem ætlað var að réttlæta innrásina í Úkraínu gerði hann mikið úr því hlutverki sínu að endurreisa rússneska heimsveldið og lagði sitt stríð að jöfnu við orrustu seinni heimsstyrjaldarinnar gegn (hreinum goðsögnum) nasistum.
Fyrir utan ánægjuna af því að velta sér upp úr (oft og tíðum uppspunninni) fortíðardýrkun er þessi nostalgíuáróður sálfræðilega áhrifaríkur á annan hátt. Þar er því haldið fram að hin mikla rússneska þjóð hafi verið niðurlægð af illgjörnum útlendum valdsmönnum og nú sé Pútín að endurheimta stoltið. Stóra niðurlægingin sem Rússar upplifa, hvort heldur sögulega eða í núinu, kemur auðvitað innan frá. En nostalgíska söguskýringin gerir Kremlverjum kleift að færa eigin grimmd yfir á skuggalegan utanaðkomandi „óvin“ og hjálpa síðan íbúunum að létta á bældri reiði sinni með yfirgangi. Meinyrtur sadískur tónninn í ræðum Pútíns og helstu áróðursmanna hans í sjónvarpi, eins og Vladimirs Solovíjov, veitir fólki tilfinningalega leið til að orða og sannreyna myrkustu og ofbeldisfyllstu kenndir sínar. Það er í lagi að vera grimmur og vondur, samkvæmt því sem þessi áróður gefur til kynna. Þetta sé allt sögunni að kenna.
En þessum nostalgíuáróðri er einnig ætlað að hylja hinn mikla akkilesarhæl Pútíns: Skort hans á framtíðarsýn. Framtíðin er löngu horfin úr rússneskri stjórnmálaumræðu.
Að hugsa um framtíðina þýðir að það þarf að einbeita sér að pólitískum umbótum, hreinsa til í dómstólum, afnema spillingu – allt það sem Pútín getur ekki áorkað, þar sem slíkar umbætur myndu setja hans eigið kerfi í hættu. Með nýjum efnahagslegum veruleika eftir innrásina hefur allri framtíðarvon verði algjörlega eytt. En fólk mun ekki komast hjá því að hugsa um það. Hvað þýða refsiaðgerðirnar, sem eru rétt að byrja að láta finna fyrir sér, fyrir framtíð barna þeirra?
Fjölmiðlar og samskipti við rússnesku þjóðina þurfa að beinast að þessum spurningum um framtíðina. Bæði á persónulegum vettvangi, en einnig hvað varðar framtíð landsins. Að síðustu þarf að velta fyrir sér hvert framtíðarhlutverk Rússlands eigi að vera í heiminum. Ein setning sem mest hljómar í rússneskum fjölmiðlum er: „Hver er tilgangurinn með heiminum ef það er enginn staður fyrir Rússland í honum?“ Það „Rússland“ sem hér er kallað eftir er bundið við sjálfsmynd sem brýtur aðra undir vilja sinn. Er einhver önnur leið?
Til að opna enn frekar fyrir slíkar spurningar leggur hópur rússneskra fræðimanna undir forystu Alexanders Etkind sagnfræðings til að stofna háskóla í Eystrasaltslöndunum sem tekur við stúdentum frá Rússlandi og nágrannalöndum þess til að vinna að sameiginlegum áskorunum eins og umhverfismálum. Verkefni sem þessi eru auðvitað langtímamarkmið, en án tungumáls og hugmynda til að tala um framtíðina getum við ekki einu sinni byrjað að marka leiðina í átt að henni.
Þessa hugmynd um framtíð Rússlands verður að þróa í samstarfi við nágranna Rússlands, þannig að hún komi jafnvægi á þarfir þeirra allra og sleppi undan þeirri samsærishyggju og núllsummuleik heimsins sem áróður Pútíns stuðlar að. Samsærishugsun er annar grunnur í leikjabók Pútís og nýtist í ýmislegt. Samsærishugsun er gagnleg við að styrkja samfélagið og stuðla að tilfinningunni um „okkur“ sem sætum árásum frá „þeim“. Hún hjálpar einnig til við að útskýra ruglingslegan heim. Og fjarlægir einnig alla ábyrgðartilfinningu. Á stórum nýjum veggspjöldum í kringum Moskvu er fullyrt að Rússar hafi „ekki átt neitt annað val“ en að hefja stríðið, sem gefur til kynna að allt sé óvinaveldunum að kenna. Á endanum dreifir samsærishugsun líka tilfinningu um að fólk sé of vanmáttugt til að geta breytt neinu í heiminum, sem aftur leiðir til aðgerðarleysis. Það er oft og tíðum fyrir þá í Kreml. Kremlverjar vilja þæga íbúa.
En slík hugsun getur einnig unnið gegn stjórnvöldum. Það nærir menningu tortryggni og vantrausts. Þannig að á tímum COVID-sýkingar neituðu fjölmargir Rússar að taka bóluefni frá Kreml, þá grunaði að sjálf ríkisstjórnin væri að skipuleggja eitthvað illt gegn þeim.
Þegar refsiaðgerðirnar taka að bíta og almenningur fær að finna fyrir því með sársaukafullum hætti að lífsbarátta þeirra er orðin enn erfiðari en hjá elítunni, gæti kviknað á innri hvatningu í kreppunni sem skapast. Kerfi Pútíns hefur alltaf ýtt við fólki með því að gefa sneið af hinni hversdagslegu spillingarköku: Allt frá umferðarlögreglu upp í ráðherra. Svo lengi sem þú sýndir hollustu annað slagið, þegar við átti, var þér frjálst að grípa í að sinna þínum eigin fjárhagslegu markmiðum. Nú er þessi hvatning í uppnámi og óbreyttum íbúum er ætlað færa miklar fórnir fyrir samsærislega gervihugmyndafræði. Menn gætu einfaldlega gefist upp á að halda kerfinu gangandi. Þetta er það sem gerðist við endalok Sovétríkjanna, þegar fjöldinn hætti í rauninni að sinna faglegri ábyrgð sinni. Ekki að allt logaði í verkföllum heldur meira bara skortur á hvatningu og almenn örvænting.
Til að leiða í ljós þennan mismun milli yfirstéttarinnar og venjulegs fólks mun þurfa sjálfstæða rússneska rannsóknarblaðamennsku. Frá því stríðið hófst er hún að mestu leyti unnin erlendis. Hún verður að geta treyst á að rekja gögn og opna rannsókn á þeim. Við þurfum að árétta það sem rússneski blaðamaðurinn og ritstjórinn Roman Badanin, stofnandi rannnsóknarnetmiðilsins Agentsvo, kallar „aflandsfréttamennsku“: útlægir fréttamiðlar sem notfæra sér nútímatækni til að geta verið eins nálægt heimalandinu og kostur er á.
Eftir því sem efnahagsástandið versnar og áróðurinn veikist mun Pútín snúa sér til valdaráðuneytanna til að nota kúgun fremur en hugmyndir. Það hafa alltaf verið lokarök hans; að hann geti framið hvaða glæp sem er heima fyrir, hvaða innrás sem er erlendis, hvaða stríðsglæp sem er frá Grosní til Aleppó eða Mariapol og komist upp með það. Í Úkraínu er Pútín markvisst að miða á mannúðargöngur, sprengja flóttamenn og sjúkrahús til að brjóta vilja fólksins. Það eru skilaboð til heimsins að allar yfirlýsingar um mannúðargildi, „ábyrgð SÞ til að vernda“ og örugg svæði séu þvæla. Rök hans eru að aflið sé réttur og í hinum framtíðarlausa nýja heimi munu þeir sem eru miskunnarlausastir, frá Beijing til Riyadh og Moskvu standa með pálmann í höndunum.
Eitt lítið, það fyrsta, en vonandi mikilvægt skref hefur verið stigið af mannréttindalögfræðingnum og rithöfundinum Philippe Sands, sem reynir að setja saman dómstól að hætti Nürnberg fyrir þá sem hófu þetta stríð, ekki bara fyrir stríðsglæpi heldur fyrir að hafa hafið algjörlega tilefnislausa innrás í fyrsta lagi. Í millitíðinni er hinsvegar brandari í gangi á meðal stuðningsmanna Pútíns innan Rússlands: Tveir rússneskir hermenn sitja og drekka kampavín í París, sem er hernumin af Rússum, þar sem öll Evrópa er sigruð. „Varstu búinn að heyra um það?“ Annar rússneski hermaðurinn glottir til hins: „Við biðum ósigur í upplýsingastríðinu.“
Þess háttar húmor er í sjálfu sér áróðursform: Að hjálpa til við að ýta Rússum frá þeirri hugsun að „sérstaka aðgerðin“ gangi ekki alveg samkvæmt áætlun. En brandarinn varpar ljósi á dýpri sannleika: Á stríðstímum vegur áróður þar sem verkin tala, þyngra en áróður orðsins.
Höfundur er fjölmiðlamaður og rithöfundur fæddur 1977 í Kyiv í Úkraínu. Hann ólst upp í Þýskalandi og starfaði um árabil í Moskvu en er nú búsettur í London. Hann er höfundur Nothing is True and Everything is Possible: The Surreal Heart of the New Russia og This is Not Propaganda: Adventures in the War Against Reality.
Ástþór Jóhannsson þýddi.