Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, gagnrýndi nýverið pælingu sem birtist í Kjarnanum í síðustu viku harkalega og í löngu máli á Facebook-síðu sinni. Þar fór hún í gegnum þær aðfinnslur sem gerðar voru við störf hennar í umræddri pælingu og sagði sína skoðun á þeim.
Það má hrósa Ragnheiði Elínu, sem var augljóslega mjög ósátt við skrifin, fyrir það að gagnrýni hennar var öll efnisleg. Hún fór ekki í þann farveg að væna Kjarnann um að vera að ganga erinda annarra stjórnmálaafla eða hagsmunaaðila fyrir það að þykja embættisverk hennar gagnrýnisverð og skrifa um það. Hún lýsti einfaldlega annarri skoðun á sama hlut. Það sem Kjarnanum þótti gagnrýnisvert þótti henni alls ekki. Með þessari framsetningu skilur hún sig frá mörgum öðrum stjórnmálamönnum nútímans sem sjá heiminn sem liðakeppni. Annað hvort ertu með þeim eða á móti.
Ragnheiður Elín gerir raunar mikið úr því að umrædd pæling sé birt nafnlaus. Enn og aftur er því tilefni til að ítreka að Pæling dagsins er hluti af daglegu fréttabréfi Kjarnans, nokkurs konar stafrænu dagblaði okkar sem birtist í pósthólfi þúsunda manna á hverjum morgni. Hún er að öllu leyti og alltaf á ábyrgð ritstjóra Kjarnans, sem er ábyrgðarmaður miðilsins, líkt og annað ritstjórnarlegt efni sem á miðlinum birtist. Nafnlaus skrif tíðkast í nánast öllum skrifuðum íslenskum fréttamiðlum. Morgunblaðinu/Mbl.is, Fréttablaðinu/Vísi, DV/DV.is, Viðskiptablaðinu/vb.is og Eyjunni/Pressunni.
Eina sem ég geri athugasemd við í gagnrýni Ragnheiðar Elínar er ákall hennar eftir því að Kjarninn eigi frekar að leggja fram sína tillögu til að leysa stefnumótun í ferðaþjónustu til framtíðar í stað þess að gagnrýna frumvarp hennar um náttúrupassa, sem náði ekki fram að ganga. Stjórnmálamenn eru kosnir á þing vegna hugmynda sinna um hvernig megi bæta samfélagið. Sumum þeirra er falið að sinna ráðherrastörfum til að ýta þeim hugmyndum í verk. Það er þeirra hlutverk. Fjölmiðlar hafa hins vegar það hlutverk að veita aðhald, ekki að leysa þau vandamál sem ráðherrum gengur illa að leysa.
Þú ert svona vegna þess að þú ert hinsegin
Líkt og áður sagði er það sjaldgæft að íslenskur stjórnmálamaður bregðist jafn málefnalega við gagnrýni og Ragnheiður Elín gerði. Það er ekkert að því þegar viðfangsefni eru ósátt við skrif fjölmiðla. Þau bæði eiga og mega gagnrýna skrif. Þannig fáum við frjóa þjóðfélagsumræðu.
Mun algengara er hins vegar að stjórnmálamenn ásaki fjölmiðla um einelti, loftárásir, um að vera málgagn stjórnmálaflokka, að ganga erinda einhverra hagsmunaaðila eða jafnvel tilgreindra stofnana. Sumir stjórnmálamenn hafa beinlínis kallað eftir fjölmiðlum sem skilja flokkinn þeirra betur en þeir sem fyrir eru og sagt að það væri gott fyrir hann að eiga sitt eigið dagblað, til að auka þann skilning. Eða annað í þeim dúr. Stjórnmálamenn með mikil völd hafa meira að segja látið í það skína að ríkismiðillinn geti átt von á niðurskurði ef hann hagi fréttaflutningi sínum ekki meira eftir þeirra höfði.
Andlag frétta sem eigendur fjölmiðla
Það er enginn fjölmiðill á Íslandi algjört málgagn. Þ.e. ekki í þeim skilningi að eini tilgangur hans sé að standa með ákveðinni hugmyndafræði, boða einhverja ákveðna stefnu eða verja ákveðna hagsmuni og að öll verk hans eigi að skoðast í því ljósi. Það er hins vegar staðreynd að fólk sem hefur beinan hag af því að hafa áhrif á umræðuna sækir í miklum mæli eftir að komast yfir fjölmiðla hérlendis. Fólk sem vill að sagan dæmi það á ákveðinn hátt, hefur beina fjárhagslega hagsmuni af því að alþjóðasamskipti eða innanríkispólitík þróist á ákveðinn hátt eða er sjálft beinlínis andlag frétta og á jafnvel frelsi sitt undir því að fjallað sé um það á ákveðinn hátt. Sumir gera þetta beint og opinbera sig sem eigendur miðla. Aðrir gera þetta með því að fjármagna taprekstur fjölmiðla undir borðinu.
Og það eru skýr dæmi þess að hagsmunir þessarra eigenda eða stjórnenda hafi haft áhrif á skrif fjölmiðla.
Svona hefur ástandið verið alveg frá því að það mjög óheilbrigða fjölmiðlalandslag sem rekstur flokksblaða var rann sitt skeið. Sjálfstæður rekstur fjölmiðla sem byggja á hugsjón og fagmennsku er galin viðskiptahugmynd. Það getur hver sem vill séð með því að skoða tekjur stjórnenda Kjarnans á síðasta ári í nýbirtum tekjublöðum.
Fríða Garðarsdóttir, ein þeirra sem reyndi að koma ítarefnisblaðinu Krítík á laggirnar fyrir um fimm árum síðan, lýsir því ágætlega á Facebook-síðunni sinn hvernig sú barátta að búa til gagnrýninn miðil fer fram. Þar segir hún: „Á meðan á verkefninu stóð benti hróðugur atvinnufjárfestir mér m.a. á að: „Almenna reglan er að fólk fjárfestir fyrir annað af tveimur Á-um: Á-góða eða Á-hrif“.“ Ágóði í fjölmiðlarekstri er ekki þekktur á Íslandi og því er nokkuð augljóst eftir hvoru Á-inu flestir eigendur eru að sækjast eftir.
Breytt fjölmiðlaumhverfi og meiri áhrif lesenda
Þrátt fyrir að fjölmiðlaumhverfið á Íslandi fyrir hrun hafi verið tekið af lífi í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hefur enginn stjórnmálamaður eða -flokkur á Íslandi það á stefnuskrá sinni að berjast fyrir að breyta því. Þess í stað á sér stað t.d. bein opinber niðurgreiðsla á starfsemi valinna fjölmiðla. Um það má lesa hér og hér.
Með einföldum pólitískum aðgerðum væri hægt að styrkja starfsumhverfi fjölmiðla, t.d. með hertari samkeppnislöggjöf, minnkun umsvifa RÚV á auglýsingamarkaði og jafnvel styrkjum. Við hjá Kjarnanum höfum til að mynda litið á það sem brjóstvörn sjálfstæði ritstjórnar okkar að þeir hluthafar sem starfa við rekstur miðilsins eiga stóran hlut í honum. Til viðbótar stendur til að þróa reglur um hvernig samskiptum hluthafa við starfsmenn skuli háttað, sem munu innihalda mjög ströng verndarákvæði til að vernda algjört sjálfstæði ritstjórnar. Þessar reglur verða sendar fjölmiðlanefnd og gerðar opinberar þegar þær eru fullunnar.
Það er hins vegar enginn vilji hjá flestum íslenskum stjórnmálamönnum að reka hér heilbrigt fjölmiðlaumhverfi. Að minnsta kosti finn ég það ekki sem mál á stefnuskrá neins stjórnmálamanns eða –flokks.
Lesendur ráða algjörlega
Blessunarlega er þessi hugmyndafræðilega eymd stjórnmálamanna að eiga sér stað samhliða byltingu. Byltingu í aðgengi að upplýsingum, að þátttöku, að umræðu og neyslu fjölmiðla. Netið, samfélagsmiðlar og snjalltæki hafa breytt öllu. Því geta lesendur hætt að horfa til stjórnmálamanna sem lausnar á vandamálinu og leyst það sjálfir.
Sú lausn er einföld: Lesandi, sem er skynsamur og sjálfstæður einstaklingur, verður að mynda sér heildstæða afstöðu gagnvart fjölmiðli. Er hann rekinn með almannahagsmuni að leiðarljósi í sinni fréttavinnslu eða er hægt að finna dæmi þess í skrifum hans að miðillinn sé að verja sérhagsmuni einhverra eigenda, stjórnmálamanna eða annarra afla? Fjölmiðlaneytandinn verður einfaldlega að taka upplýsta og sjálfstæða ákvörðun um hvort hann treysti fjölmiðli. Ef hann gerir það og vill stuðla að betra fjölmiðlalandslagi þá getur hann sýnt það traust í verki með því að styðja við starfsemi hans með margskonar hætti. Hann getur gert það með áskrift, með því að hjálpa til við stafræna dreifingu efnis eða með auglýsingakaupum ef viðkomandi er í þannig stöðu.
Val um líf eða dauða fjölmiðils liggur ekki hjá eigendum hans, starfsfólki hans eða fjármálastofnunum. Lausnin liggur hjá lesendunum sjálfum. Ef þeir kjósa með fótunum, eða í þessu tilfelli með augunum og puttunum, þá mun það styrkja íslenskt fjölmiðlaumhverfi hratt og örugglega. Þeir miðlar sem njóta ekki trausts munu hverfa og hinir sem vinna sér það inn standa áfram.
Og afleiðingin verður meðal annars sú að í stað ásakana um loftárásir og einelti þá verða stjórnmálamenn að vanda gagnrýni sína á fjölmiðla og rökstyðja hana almennilega. Svona eins og Ragnheiður Elín gerði á sunnudaginn.