Kjarninn á eins árs útgáfuafmæli á morgun. Í heilt ár höfum við sem að þessu fyrirtæki stöndum gefið út nýja tegund af fjölmiðli: ókeypis vikulegt stafrænt fréttatímarit sem er aðgengilegt í gegnum app. Hugmyndin á bak við Kjarnann var sú að nýta sér gríðarlega örar breytingar á neyslu fólks á fréttum og afþreyingu, sem er að færast yfir á snjalltæki á ljóshraða, til að gefa út nýstárlegan fjölmiðil. Það sem gerði hann nýstárlegan var ekki bara formið. Það var líka sú tilraun að reyndir blaðamenn tækju sig saman, sameinuðu kosti texta, myndskeiða, útvarps og gagnvirkni og legðu áherslu á dýpt og gæði í gagnrýnum og greinandi umfjöllunum sínum, án þess þess að glíma við þann gríðarlega kostnað sem fylgir prentun og dreifingu eða uppsetningu sjónvarpsbúnaðar.
Þetta var metnaðarfull, og að mörgu leyti galin, hugmynd. Fimm menn með fimm milljónir króna að fara með frímiðil í samkeppni á einum mesta fákeppnismarkaði sem fyrirfinnst á Íslandi, þar sem tvö fyrirtæki – 365 og RÚV – liggja eins og strandreka og ofaldir hvalir í mjög lítilli auglýsingatekjutjörn, með nýtt útgáfuform og ritstjórnarstefnu sem var alltaf að fara að stuða einhver áhrifamikil öfl í hinu litla og tengda íslenska samfélagi.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_08_21/4[/embed]
Lesendum fækkar
Flestar þær breytingar sem við sáum fyrir að væru að eiga sér stað á markaðnum hafa raungerst. Það hefur til dæmis komið vel í ljós á þessu eina ári að fjölmiðlanotkun er að þróast í þá átt sem við töldum að hún væri að fara. Lestur Morgunblaðsins, stærsta áskriftarblaðs landsins, hefur farið úr 42 prósentum í undir 30 prósent á rúmum fimm árum. Fréttablaðið, sem sett er óumbeðið í 90 þúsund póstkassa á hverjum degi og urðað á kostnað skattgreiðenda, hefur farið úr 77,5 prósentum í um 62-63 prósent í aldurshópnum 18-49 ára frá því í apríl 2010.
Þetta er auðvitað alþjóðleg þróun. Auglýsingatekjur prentmiðla í Bandaríkjunum hafa til að mynda dregist saman um yfir 65 prósent á áratug samhliða miklum samdrætti í dreifingu þeirra. Þar hafa starfsmenn áskriftarblaða lengi kallað minningargreinarnar áskrifendaniðurtalningu (e. subscriber countdown).
Munurinn á Íslandi og alheiminum er aðallega sá að þótt lesendum dagblaða fækki á ljóshraða halda prentmiðlar áfram yfirburðastöðu sinni á auglýsingamarkaði. Andstætt markaðslögmálunum taka þeir enn til sín um helming heildarkökunnar hér á meðan það hlutfall er komið undir 20 prósent í Evrópu. Það þarf þó ekki að koma á óvart að þessi angi íslensks veruleika sé beyglaður. Þeir eru það ansi margir.
Áhorfendum líka
Áskriftum að Stöð 2, langstærstu áskriftarstöð landsins, hefur líka fækkað ört. Samkvæmt Neyslu- og lífsstílskönnun Capacent var 45,1 prósent heimila á Íslandi með áskrift að henni árið 2007. Í fyrrahaust var það hlutfall komið niður í 29,4 prósent.
Þróunin sem hér sést er afleiðing af nýrri neysluhegðun. Þjóðin nær sér í fréttir og afþreyingu í gegnum tölvur og snjalltæki í stað þess að fletta pappír eða láta fóðra sig af fyrir fram uppraðaðri dagskrá.
Þetta hefur Kjarninn fundið mjög vel. Stafræna tímaritið sem við höfum gefið út vikulega hefur verið lesið allt að 20 þúsund sinnum yfir vikuna þegar best hefur látið. Appinu okkar hefur verið halað niður 26 þúsund sinnum. Tugir þúsunda skoða heimasíðuna okkar í hverri viku. Yfir tíu þúsund manns hafa ákveðið að fylgja Kjarnanum á Facebook, um 2.300 manns fylgja honum á Twitter og yfir þúsund manns eru á póstlistanum okkar. Til allra þessara aðila höfum við náð nánast án þess að eyða krónu í markaðssetningu.
Traustið vantaði
Allar mælingar sem við skoðuðum í aðdraganda útgáfu Kjarnans sýndu það að íslenskur almenningur treysti ekki þeim sem fluttu fréttir, að RÚV undanskildu. Þar spilaði margt inn í en líklega eru tvær helstu ástæðurnar eigendahópur stærstu miðlanna og það sem stundum er kallað þögult samráð um meðalmennsku í framsetningu frétta, sem endurspeglast í að þær snúist mun fremur um smelludólgað afþreyingargildi en blaðamennsku, með sem minnstum tilkostnaði fyrir eigendurna.
Þeir sem að Kjarnanum standa töldu að þarna lægi tækifæri til að búa til fjölmiðil sem væri í eigu þeirra sem á honum starfa þar sem trúnaðurinn væri einvörðungu við lesendur og áhersla væri á gæði og dýpt með gagnrýnum greiningum á þeim umfjöllunarefnum sem við fjölluðum um.
Allar mælingar sýna að þarna hefur okkur tekist vel upp. Í könnun sem gerð var á meðal háskólamanna, og sagt var frá í maí, kom fram að Kjarninn væri sá fjölmiðill í einkaeigu sem nyti langmests trausts. Einungis ríkismiðillinn mældist með meira traust. Sama var uppi á teningnum þegar kom að vantrausti, en einungis 3,9 prósent aðspurðra vantreystu Kjarnanum. Einungis hljóðvarp RÚV mældist með minna vantraust. Til samanburðar mældist vantraust gagnvart Morgunblaðinu 56,7 prósent, gegn DV 60,6 prósent og gegn Fréttablaðinu 29,2 prósent.
Sögulegir tímar
Þetta ár sem er liðið frá því að Kjarninn hóf að koma út hefur hins vegar ekki verið án átaka. Viðfangsefni íslensks samtíma eru enda fordæmalaus. Hér er verið að rannsaka súpu meintra efnahagsbrota á heimsmælikvarða, móta hrunið hagkerfi upp á nýtt með tilheyrandi slag um feitustu bitana og takast hart á um þær pólitísku leiðir sem við eigum að fara til að móta framtíðarsamfélag okkar.
Kjarninn hefur ekki farið varhluta af þeirri hörku sem einkennir þann slag og þeirri valdabaráttu sem geisar vegna þessa. Eftirlitsstofnanir hafa sakað okkur um að brjóta gegn almennum hegningarlögum fyrir að birta upplýsingar sem áttu klárt erindi við almenning. Það hafa slitastjórnir líka gert. Stjórnmálamenn, álitsgjafar og alls kyns annað lið sem sér heiminn einungis í tveimur pólitískum litum – og skiptir öllum í liðin „við“ og „hinir“ – hafa ítrekað sakað okkur um að ganga alls kyns erinda.
Við teljum okkur hafa staðið fast í fæturna í þessum aðstæðum og haldið tryggð við þau gildi sem við lögðum upp með í upphafi. Það er hins vegar alltaf annarra að dæma um hvort það er rétt mat hjá okkur.
Breytingar fram undan
Þótt við séum stolt af þeim árangri sem við höfum náð viðurkennum við líka fúslega að við höfum gert alls konar mistök. Sum eru bein afleiðing af því að við erum, og höfum alltaf verið, verulega undirfjármagnað fyrirtæki. Önnur eru einfaldlega vegna þess að við mátum hlutina vitlaust.
En mistök þurfa ekki alltaf að vera slæm. Ef rétt er brugðist við þeim geta þau verið besti lærdómur sem hægt er að ganga í gegnum. Það höfum við á Kjarnanum reynt að gera. Að læra af mistökunum þegar þau eiga sér stað og breyta því sem ekki er að virka með það fyrir augunum að láta það gera það.
Og fram undan eru líklega mestu breytingar sem hafa orðið á starfsemi Kjarnans frá byrjun. Þær verða kynntar betur innan skamms og leiða vonandi til þess að Kjarninn festi sig í sessi sem einn stærsti frjálsi og óháði fjölmiðill Íslands.
Það er hins vegar ekki staða sem hægt er að panta sér. Fyrir henni þarf að vinna og þeir sem skipta mestu máli, lesendurnir, þurfa að láta hana verða að veruleika. Vonandi munu þeir taka þessum breytingum opnum örmum og hjálpa okkur að vaxa hratt í rétta átt. Og gera afmæli Kjarnans að árlegum viðburði um ófyrirséða framtíð.