Það var stutt í hina klassísku ofstjórnunaráráttuna hjá yfirvöldum og fjölmiðlum þegar Geldingadalsgosið hófst. Banna, banna, banna allt. Enginn mátti koma hið minnsta nálægt þarna nema vísindamenn og fréttamenn. Enginn mátti helst fljúga þarna yfir eða nálægt nema vísindamenn. Og alls enginn mátti helst koma nálægt hrauninu nýja í eigin persónu. Suðurstrandavegi var lokað af Vegagerðinni við Grindavík, svo þar bættust við 8 til 9 kílómetra ganga algerlega að nauðsynjalausu fyrir eldfjallaunnendurna. Og 2 til 3 kílómetra mætti spara til viðbótar með því með því að koma aðgengi og bílastæðum upp í Nátthaganum. Þá væru ekki nema um 2 kílómetrar í gosið sjálft frá bílastæðinu. – Banna – bannaði – höfum bannað... Þetta er uppáhaldssagnorð yfirvalda þegar jörðin sýnir sína tignarlegustu hlið, einmitt eldgosin.
Varla hægt að gleðja ferðamenn meira en með eldgosi eða nýju hrauni
Það segja allir sem séð hafa eldgos í návígi að það sé upplifum sem sé engu lík. Alls engu. Það er eitt fárra augnablika sem aldrei gleymist. Standi uppúr öllu yfir ævina yfirleitt.
Af hverju ekki að leyfa fólki að sjá gosin og eftirmála þeirra? Og af hverju ekki að leyfa þessum 2 milljónum ferðamanna sem hingað munu bráðlega koma aftur árlega ekki að sjá það allt saman? Svarið er bara þessi endalausa banna-árátta yfirvalda og taugaveiklaðra fréttamanna um allt er lýtur að stórfengleik náttúrunnar. Langsamlega hæst rís tignarleiki jarðarinnar þegar þegar göt rifna á skánina sem við búum á, og eldur og eimyrja frussast upp í öllum sínum stórfengleik. Hætturnar sem af þessu geta orsakast eru margfaldaðar upp úr öllu valdi af of-fréttamönnum og of-lögreglufirvöldum. Nánast endalaust. Og á grundvelli þess er allt bannað. Nema fyrir fáa útvalda: Nomen Klatura. - Stórabróðurs-hugsunarhátturinn er í algjöru algleymi á svona stöðum og tímum.
Neyðaráætlun að koma upp góðum vegum og sýningaraðstöðu
Auðvitað eigum við að útbúa góða aðstöðu fyrir alla til að sjá þetta afar fallega gos og nýja hraun. Einkum og sérílagi þegar það ljóst liggur fyrir hvernig það mun verða eða þegar það verður afstaðið. Nú þyrfti að setja strax upp neyðaráætlun að koma akandi og gangandi aðgengi upp á tvo til þrjá útsýnisstaði frá þjóðvegum landsins fyrir alla sem vilja sjá, til að geta ávallt verið ofan við vind frá eldstöðinni sjálfri. Og að sjálfsögðu að byrja að koma upp bílastæðum í Nátthaganum strax. - Auðvitað. En ekki hvað? Jú og það ætti eða mætti skylda alla til að hafa gasmæla á sér, og hafa þá á staðnum gegn lánsfé sem endurgreitt væri aftur þegar viðkomandi kemur til baka aftur niður á þjóðveg. Og að sjálfsögðu að hafa þar leiðsögn fyrir innlenda og erlenda ferðamenn hvar og hvernig væri best að nálgast herlegheitin.
Jájá, ég veit það. Auðvitað þyrfti hundruð bílastæða þarna nálægt. Og tugi eða hundruð bílastæða fyrir rútur ef gosinu þóknast að verða aðeins um kyrrt. Og 2 til 3 góða tveggja akreina akvegi úr sitthvorum áttum að hinu nýja hrauni. En hvað er það? Það er bara tæknileg útfærsla.
Og auðvitað ætti að koma upp góðri útsýnisaðstöðu með góðu bráðabirgðahúsi á innan við mánuði helst (sem er útilokað sökum allra kerfiskarla og kerlinga kerfisins í dag), þar sem stöðug kynning vísindamanna á því sem gerðist og er að gerast með þessum nýju Reykjaneseldum sem loksins eru byrjaðir aftur. Það er vel hægt að hugsa sér að hafa stuttar bíósýningar í þessum bráðabirgðahúsi (eða húsum) af eldunum þegar þeir byrjuðu, og fyrstu og öðrum flottustu myndunum sem náðust af þeim. Og smá fyrirlestur með. Hver myndi ekki glaður borga 5 til 6 evrur fyrir slíka þjónustu vísindamanna á staðnum? Það væri í umsjá Jarðfræðistofnunar Háskólans, sem fengi hluta eða alla innkomuna við þá þjónustu.
Og fyrirlestra og kvikmyndaaðstöðu á staðnum í umsjón HÍ
Og vel mætti hugsa sér að hafa lágmarks veitingaþjónustu á svona stað. Eða hver vildi ekki fá sér kaffibolla og brauð- eða kökusneið við svona útsýni? Einkaaðilar myndu slást um að fá að bjóða upp á það. Endalaust væri hægt að þjónusta ferðamenn, innlenda sem erlenda á svona vettvangi.
Og auðvitað ættu að vera vel gerðir göngustígar sem falla vel inní náttúruna fyrir þá sem vilja ganga uppað nýja storknaða hrauninu. Og leyfa öllum að fá sér smámola úr því. Það væri flestum eða öllum ógleymanlegt.
Það gleymist hjá flestum ráðamönnum þjóðarinnar og öðrum, að langstærstur hluti þessara eittþúsund milljarða í gjaldeyri sem til voru í kassa Seðlabankans þegar Covid-19-óværan helltist yfir okkur, var ferðaþjónustunni að þakka. Við vorum komin fjárhagslega á hnén árið 2009, eftir að hafa hleypt nýfrjálshyggjunni hér á skeið uppúr aldamótunum. Með skelfilegum afleiðingum. - Og hver eða hvað var það sem kom okkur uppúr þeim öldudal? Jú, ferðaþjónustan auðvitað. Og ekkert annað. Þess vegna vorum við svona vel undirbúin í mars 2020 þegar kóróna-pestin lokaði flestum þjóðfélögum hnattarins. Allar hirslur ríkisins og stórs hluta þjóðarinnar voru fullar af peningum.
Gott aðgengi að staðnum strax. Og sýningar fljótlega
Persónulega tel ég að ef gert væri gott aðgengi og sýning og uppfræðsla á staðnum fyrir Íslendinga og aðra, þá myndi ferðamannastraumurinn til landsins a.m.k. tvöfaldast á fáum árum. Með að sjálfsögðu tilheyrandi breimi of-náttúruverndarsinna og of-stjórnunarsinna og of-fréttamanna og kvenna, sem hefðu óheftan aðgang að þjóðinni í gegnum fjölmiðla landsins með mærð sína og ofur-hræðslu við allt og ekkert. Það yrði ekkert lát á því.
En þessir 2 til 3 milljarðar sem færu í þessa vegagerð og aðstöðu væru fljótir að koma til baka. Og myndu skófla margfalt það inn í þjóðarbúið á stuttum tíma. Margfalda allan kostnaðinn til baka.
Skylda okkar að gefa öllum færi á að sjá
Skemmtilegast væri semsagt í þessu að gefa öllum sem vildu kost á að komast í mismunandi mikið návígi við þessi ógnarverk náttúrunnar. Við Geldingadalshraun er einhver ákjósanlegasta staða á hnettinum til þess nú og á næstu árum. Og það langar í reynd hvert mannsbarn á hnettinum að sjá eldgos eða glænýtt hraun með berum augum. Einkum og sérílagi hið glænýja hraun sem í Geldingardalnum liggur nú eftir mikilfengleik síðustu viku.
En við skulum varla láta okkur dreyma um að þetta komist nokkurn tíma í okkar lífi í framkvæmd. Ekki meðan ofstjórnunarviljinn er við stýrið, vel fóðraður af of-fréttamönnum sem lítið hafa annað að segja en hve ógnarhættulegt sé að nokkur sé þarna á ferðinni, - aðrir en þeir sjálfir. - Þeirra sök er einna stærst í því að halda þjóðinni frá þessu náttúruundri.
Höfundur er m.a. forseti Músavinafélagsins.