Hinn 9. febrúar 2007 flutti Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ræðu á málþingi í Danmörku sem var skipulagt af Dansk Industri. Tilefnið var, eins og svo oft á þessum tíma, að útskýra og lofa íslenska efnahagsundrið og útrás íslenskra yfirburðamanna á sviði viðskipta. Á meðal annarra frummælanda voru Hannes Smárason, þá forstjóri FL Group, og Sigurður Einarsson, þá stjórnarformaður Kaupþings banka. Þeir hafa síðan báðir verið ákærðir fyrir stórfelld efnahagsbrot og fyrirtækin sem þeir stýrðu farið konunglega á hliðina. Héraðsdómur hefur raunar dæmt Sigurð í margra ára fangelsi en þeirri niðurstöðu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.
Í endursögn á ræðu forsetans sem hægt er að finna á heimasíðu embættisins segir: „Forsetinn rakti einnig ýmis sérkenni íslensks viðskiptalífs sem gert hefðu íslenskum athafnamönnum kleift að vinna marga sigra í samkeppni við stærri fyrirtæki á heimsmarkaði. Þar kæmi einkum til vinnusemi þjóðarinnar, áhersla á skjót viðbrögð, stuttar boðleiðir, trúnaður í samskiptum einstaklinga og sú staðreynd að þjóðin hefði verið blessunarlega laus við þau svifaseinu skrifræðisbákn sem hömluðu framför í öðrum löndum.“
Hér verður ekki fjallað meira um þjóðernisdramb forsetans um að Íslendingar séu yfirburðamenn. Hér verður ekki fjallað um þá firru að eitthvað annað en ódýrt fjármagn sem streymdi til Íslands vegna hárra vaxta hér hafi gert íslenskum athafnamönnum kleift að vinna marga sigra í samkeppni við stærri fyrirtæki á heimsmarkaði. Hér verður meira að segja ekki fjallað um andúð forsetans á skrifræðisbákni (reglum?) né þá staðreynd að Íslendingum virðist skítsama um aðalhlutverk forsetans í þessum útrásarbrandara. Honum hefur enda verið fyrirgefið af Icesave-skelkaðri þjóð. Hér verður einungis fjallað um tvennt sem forsetinn nefndi og er líklega meira einkennandi en nokkuð annað fyrir okkar litlu og samofnu þjóð. Stuttar boðleiðir og trúnað í samskiptum einstaklinga.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_06_26/4[/embed]
Spilling og frændhygli
Það sem forsetinn og ýmsir viðskiptaforkólfar kalla stuttar boðleiðir og trúnað í samskiptum einstaklinga upplifa margir aðrir landar þeirra nefnilega sem spillingu og frændhygli. Þeir sem hafa aðgang að upplýsingunum og peningunum strjúka þeim sem standa nærri með því að leyfa þeim að græða líka.
Það er stundum sagt að ef Íslendingur þekki ekki einhvern annan Íslending þekkir hann pottþétt einhvern sem þekkir hann. Við erum svo skyld og tengd að það hefur verið stofnað fyrirtæki utan um að rannsaka þann skyldleika. Það var raunverulega markaður fyrir app sem kemur í veg fyrir að við stundum óvart kynferðismök með einhverjum landa okkar sem er of skyldur til þess að slík athöfn þyki boðleg.
Smæðin og nálægðin skapar því mýmörg vandamál fyrir okkur, ekki bara í viðskiptalífinu. Það sést ágætlega á ýmsum málum sem upp hafa komið á undanförnum misserum. Þegar mál Baldurs Guðlaugssonar var tekið fyrir í Hæstarétti í upphafi árs 2012 lýstu sex dómarar af tólf við réttinn sig vanhæfa til að dæma í málinu vegna kunningsskapar við Baldur. Þetta þótti óvenjulegt en var þó ekki einsdæmi samkvæmt skrifstofustjóra réttarins.
Á Alþingi verða þessir hagsmunaárekstrar oft sýnilegir. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar þingsins, er til að mynda einn helsti baráttumaður þingheima fyrir hvalveiðum. Sonur Jóns á fyrirtæki sem veiðir hvali og selur kjöt þeirra.
Lekamálið svokallaða sýnir síðan betur en nokkuð annað vangetu okkur til að taka fagmannlega á málum. Þar rannsakar undirstofnun innanríkisráðherra yfirmann sinn og pólitíska aðstoðarmenn hans og á að taka ákvörðun um hvort ákæra eigi einhvern í málinu. Á meðan situr ráðherrann sem fastast sem æðsti yfirmaður löggæslu í landinu.
Nýr leikvöllur
Heimurinn er ekki lengur leikvöllur íslenskra athafnaskálda líkt og hann var í skamman tíma fyrr á þessari öld. Nú er leikvöllur þeirra Ísland varið höftum. Í stað þess að vinna sigra á stórum fyrirtækjum á heimsmarkaði með þýskt lánsfé úr bönkunum vinna þeir nú stóra sigra á íslenskum almenningi með því fé sem þeir komust undan með.
Það flytja þeir í bílförmum aftur inn fyrir höft með afsláttarleið Seðlabankans og kaupa hlutabréf, skuldabréf, fasteignir og annað tilfallandi á spottprís. Oft eru þessar eignir keyptar af sjóðum sjóðsstýringarfyrirtækja og raunverulegu eigendurnir faldir frá sjónum almennings, enda upplýsingar um hlutdeildarskírteinishafa ekki opinberar.
Stórar ákvarðanir teknar af litlum hópi
Enn gilda sömu reglur og forsetinn lofaði í Danmörku um árið. Stuttar boðleiðir og trúnaður á milli manna skilar bestum árangri. Það er sérstaklega hættulegt í samfélagi þar sem höft hafa hindrað öll eðlilegheit í á sjötta ár. Þeir sem hafa upplýsingar um það sem máli skiptir eru í lykilaðstöðu til að hagnast mjög. Þeir sem hafa þær ekki tapa.
Það er því nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr að vanda vel til verka við slíkar aðstæður. Það er því miður ekki hægt að segja að við séum að gera það.
Hér eru þess í stað myndaðir alls kyns litlir hópar sem hafa það hlutverk að móta risastórar ákvarðanir sem hafa mikil áhrif á daglegt líf okkar allra. Í þessa hópa veljast meðal annars starfsmenn fjármálafyrirtækja og tekið er af þeim drengskaparloforð um að misnota ekki upplýsingar sjálfum sér eða fyrirtækjum sínum til framdráttar. Þeir taka ákvarðanir um framtíð húsnæðismála og þá skuldabréfaútgáfu sem henni fylgir, skuldaniðurfellingar, afnám verðtryggingar, framtíðarskipan Seðlabanka og auðvitað mögulegt afnám gjaldeyrishafta. Allt er unnið í lokuðum bakherbergjum og meira að segja þingmenn fá ekkert að vita.
Nú er gróðapartíið að byrja aftur. Þótt leikvöllurinn sé annar en áður, og við búin að fara í gegnum hrunsrússíbana, hefur okkur ekki tekist að losna við þau sérkenni íslensks viðskiptalífs sem forsetinn sagði forðum að „gert hefðu íslenskum athafnamönnum kleift að vinna marga sigra“. Þvert á móti virðast þau lifa betra lífi en nokkru sinni áður á litla Íslandi.
Leiðarinn birtist fyrst í nýjustu útgáfu Kjarnans. Lestu hana hér.