Ljósglæta í þokumóðu sauðfjárstyrkja

Almenningur veitir yfir 5 milljörðum króna í styrki til framleiðslu sauðfjárafurða ár hvert – iðulega í þeirri trú að öll nýtingin fari fram með sjálfbærum hætti, skrifar Ólafur Arnalds.

Auglýsing

„Í ástandinu“

Náttúra landsins er í misjafnlega góðu ásigkomulagi. Sums staðar má segja að ástandið sé allgott en víða er það æði bágborið, enda náttúra landsins einlægt tekin sem dæmi á alþjóðavettvangi um hvernig ofnýting hefur orsakað stórfellt hrun náttúruauðlinda (1). Faglegar úttektir á ástandi landsins sýna þessa stöðu vel (1,2). Því miður hefur gengið afleitlega að miða beitarnýtingu við ástand vistkerfa landsins. Almenningur veitir yfir 5 milljörðum í styrki til framleiðslu sauðfjárafurða ár hvert – iðulega í þeirri trú að öll nýtingin fari fram með sjálfbærum hætti. Svokallaður landnýtingarþáttur gæðastýringar í sauðfjárrækt (hér eftir L-GST) er kallaður til vitnis um það. Framkvæmdin byggir á því að bændur leggja fram upplýsingar um það land sem þeir nytja til beitar og Landgræðslan, sem verktaki Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis (Landbúnaðarráðuneytis), vottar hvort svo sé.

Það er augljóst að sums staðar eru sauðfjárhagir í góðu standi. En það er ýmsum spurningum ósvarað varðandi beit, gæðastýringu og landbúnaðarstyrki á Íslandi. Allir framleiðendur dilkakjöts sem þess hafa óskað hafa fengið vottun um að framleiðslan sé í lagi. Hver einn og einasti. Hvernig má það eiginlega vera? Þeir sem ferðast um landið vita að beitarnýting fer víða fram á landi sem alls ekki ætti að nýta til með þeim hætti – rofsvæði, auðnir og illa farið mólendi, svæði hátt til fjalla og í bröttum hlíðum. Jú, það er ýmsum „bellibrögðum“ beitt til þess að láta svo líta út sem allt sé í lagi. Þau viðmið sem nú eru notuð fyrir ástand landsins eru arfaslök og með öllu óásættanleg, m.a. í augum Landgræðslunnar sem vottar nýtinguna. Enda greip Landbúnaðarráðuneytið til þess hagræðis að notast ekki við álit fagstofnunarinnar á þessu sviði heldur búa til sín eigin viðmið og fyrirskipa Landgræðslunni að nota þau við vottunina (3, bls 51-58). Síðan eru gerðar landbótaáætlanir til 10 ára þar sem landgæði standast ekki þessi ofurslöku viðmið. Landbótaáætlanir hafa því iðulega lítil áhrif til bóta á stórum landflæmum á borð við heilu afréttina. En landbótaáætlun er landbótaáætlun – og ef að það er til „bréf upp á það“ er nýtingin vottuð, án tillits til þess hvort áætlunin standist lágmarksviðmið um landgæði. Landbótaáætlanir virðast stundum óháðar viðmiðunum sem þeim er ætlað að nota (3, bls. 61-70). Almenningur kaupir síðan vottaðar afurðir, sem í sumum tilfellum verða til á auðnum og rofsvæðum landsins, í góðri trú um sjálfbærni framleiðslunnar. Neytandinn er blekktur. Um þetta var fjallað ítarlega í riti sem kom út um mitt ár 2018 (3) og ágallarnir áréttaðir í riti um ástand og hrun íslenskra vistkerfa árið 2020. (1)

Auglýsing

Spurningar um ósjálfbæra beit og ágang búfjár

Landvernd og sá er þetta ritar skrifuðu bréf til Landgræðslunnar og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis (10. desember 2020) þar sem óskað var eftir svörum um hvernig stjórnsýslan hygðist bregðast við ábendingum um að kerfið væri meingallað. Í bréfinu kom fram eftirfarandi álit Landverndar og mín (orðrétt), sem byggir á faglegri skoðun á framkvæmdinni (1,3):

 • Eftirlit með framkvæmdinni hefur brugðist – ófullnægjandi upplýsingar frá 2003 liggja að baki vottun landnýtingar og síðan hefur afar takmarkað eftirlit átt sér stað nema er kemur að stærri afréttum, en þar eru önnur vandamál. (Er fjallað um í bréfi Landverndar og ÓA til ráðuneytis og Landgræðslunnar).
 • Viðmið sem farið er eftir um gæði landsins standast ekki faglega skoðun og var mótmælt af Landgræðslunni.
 • Landbótaáætlanir: landnotendur þurfa ekki einu sinni að standast þau slöku viðmið sem eru við lýði – allt land er beitt án tillits til landgæða.
 • Stjórnsýsla L-GST er mjög ámælisverð – Landgræðslan er látin votta samkvæmt viðmiðum um landgæði sem stofnunin viðurkennir ekki (birt bréfaskrif (3)).
 • Landgræðslan gaf síðan út í tengslum við L-GST beitarviðmið sem standast ekki (of þung beit) sem festir ofbeit í sessi á stórum svæðum og eykur á losun CO2 frá illa förnu landi.
 • Upplýsingar um að landkosti býla og eftirlit með beit og landgæðum er ófullnægjandi.
 • Kerfið tekur ekki á beit styrktra framleiðenda á land annarra. Framkvæmdin stuðlar þannig að misrétti í garð annarra landeigenda enda þótt skýrt sé kveðið á um að beit og annarra land í óleyfi er brot á reglugerð.

Bréfið er birt í heild á vefsvæði greinarhöfundar, www.moldin.net (4). Nú hafa borist svör frá Landgræðslunni (21. janúar 2021) og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti (26. febrúar 2021). Svörin eru einnig birt í heild á moldin.net. Þar er einnig að finna skýrslu umhverfisráðherra til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis vegna þingsályktunartillögu sem einnig varðaði hinn mislukkaða landnýtingarþátt gæðastýringar í sauðfjárrækt (desember 2020).

Þokukennd svör stjórnsýslunnar

Þessi þrjú bókfærðu svör stjórnsýslunnar valda miklum vonbrigðum, enda þótt þar finnist einnig vonarglæta um betri tíð. Svörin eru þokukennd en eiga það sammerkt að telja að lítið sé að, enda þótt vandamálin séu sannarlega ærin. Flest helstu efnisatriði svaranna eru í anda þeirra afneitunarfræða sem hafa einkennt viðbrögð stjórnsýslunnar varandi sauðfjárbeit og ástand lands áratugum saman. Röksemdafærslan miðast við að týna til það sem talið er hafa heppnast („cherry picking“ í afneitunarfræðum) eða benda á að lög og reglugerðir hafi tiltekin ákvæði eða úrræði sem taka á þeim atriðum sem við höfum bent á að hafi farið úrskeiðis, enda þótt ljóst sé að þessi úrræði virka alls ekki. Og benda síðan á að allt standi þetta nú til bóta – sem er viðkvæði sem er orðið gatslitið af áratuga brúki án þess að úr hafi ræst.

Til jákvæðra áhrifa kerfisins eru m.a. talin styttri beitartími, friðun ákveðinna auðnasvæða og fjalllendis, meira eftirlit og aukin umhverfisvitund landnotenda. Þetta má til sanns vegar færa, en breytir því þó ekki því að afar litlar breytingar hafa orðið þar sem vandinn er mestur og sums staðar hefur vandinn aukist frá því kerfið var tekið upp (mikil fjölgun búfjár á sumum búum og svæðum). Sum stærstu búanna beita afar víðfeðm svæði í misjöfnu ástandi og að hluta fullkomlega án leyfis annarra landeigenda. Kerfið hefur brugðist.

Ljóst er að flestir bændur hafa verið eins konar áskrifendur að ríkisstyrkjum frá árinu 2003-2004 á grunni vottaðrar landnýtingar. Þá lögðu margir landnotendur fram allsendis ófullnægjandi upplýsingar en síðan voru afar takmarkaðar tilraunir gerðar til að sannreyna upplýsingarnar eins og sést á svörum stjórnsýslunnar. Hér verður stjórnsýsluþokan svo þétt að ekki sést handanna skil.

Niðurstaða framkvæmdar L-GST er einnig allt of mikið beitarálag og ofbeit á mörgum svæðum – það hefur verið staðfest með útreikningum fyrir hluta stærri afréttarsvæða landsins sem nú hljóta græna vottun samkvæmt kerfinu (3 bls. 71-72). Samfelld rofsvæði og auðnasvæði eru ennþá beitt – þokukennd svör stjórnsýslunnar breyta engu þar um.

Mikið er um beit á land annarra landeigenda í trássi við ákvæði reglugerðar um styrkina um að það sé ekki heimilt. Þeir landeigendur sem verða fyrir áníðslunni hafa sannarlega ekki fengið úrlausn sinna mála þrátt fyrir tilraunir til þess. Reglugerð um gæðastýrða framleiðslu er þó alveg skýr: sá er beitir í óleyfi á aðra á ekki rétt á þessum greiðslum. Þeim sem leita úrræða vegna ágangs búfjár í annarra eigu er bent á enn verri kost en guð og gaddinn: völundarhús lagagreina er lúta að lausagöngu búfjár á Íslandi. Það er eins og að aka langtímum saman eftir hringtorgi þar sem engin leið finnst út. Þar nefndi stjórnsýslan m.a. til sögunnar lög um girðingar, um fjallskil og afréttarmálefni, búvörulög, lög um búfjárhald, lög um landgræðslu, o.fl. Hluti þessara lagbálka eru stagbættir og úreltir (t.d. lög um afréttarmálefni) sem í raun virðast helst hafa það að markmiði að tryggja frjálsa för sauðfjár um landið og rétt fjáreigenda til að beita á aðra. Skal því engan undra að þeir sem hafa orðið fyrir beit annarra hafi ekki fengið neitt skjól í landnýtingarþætti gæðastýringar eða úrslausn hjá stjórnsýslunni þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Svör stjórnvalda varpa engu ljósi á það af hverju landbótaáætlanir sem lagðar eru fram þurfa ekki að tryggja að landnýtingin standist lágmarks viðmið – viðmið sem eru þó svo óhagstæð náttúrunni að Landgræðslan neitaði að viðurkenna þau.

Týrur í móðunni

Í svörum Landgræðslunnar, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og skýrslu Umhverfis- og auðlindaráðuneytis til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis er verkefnið GróLind nefnt til sögunnar. Því verkefni er m.a. ætlað að kanna stöðu jarðvegs- og gróðurauðlinda landsins en að verkefninu stendur öflugur hópur fagfólks og árangur verkefnisins lofar mjög góðu. Vandinn er sá að verkefnið skilgreinir hagaðila er varðar ástand vistkerfa ákaflega þröngt: sauðfjárbændur. En hagur lands varðar svo margalt fleiri. Það er orðið tímabært að víkka út hugmyndir um hverjir teljist hagaðilar þegar kemur að afréttum, ekki síst þeirra sem eru í eigu þjóðarinnar – þjóðlendur. Komið hefur í ljós að sauðfjárbændur hafa notað verkefnið í annarlegum tilgangi, m.a. hótað að skaða verkefnið vegna þess að Landgræðslustjóri gerðist „sekur“ um að telja opinberlega að koma yrði böndum á lausagöngu sauðfjár (5). Rétt er hins vegar að árétta hér að niðurstaða GróLindar liggur fyrir (stöðumat) og staðfestir fyrri faglegar úttektir á slæmri stöðu vistkerfa landsins (www.grolind.is). Það er vonandi að nú verði tekið mark á niðurstöðum um bágt ástand landsins – GróLind er sannarlega ljósgeisli í þokumistri gæðastýringarinnar.

Annarri ljóstýru stafar frá þeir ætlan að bæta verulega með hvaða hætti upplýsingar eru skráðar, sem ætti að auðvelda eftirlit með því að kerfið virki eins og því er ætlað. Svör stjórnsýslunnar eru þó óljós er varðar framkvæmd þessarar skráningar að öðru leiti, t.d. með hvaða hætti sannreynt verður að leyfi sé fengið fyrir að beita land í eigu annarra.

Þriðja ljósinu stafar frá væntanlegum nýjum viðmiðum í reglugerð um sjálfbæra landnýtingu samkvæmt lögum um landgræðslu frá 2018. Sú hugsun sem birtist í drögum að nýrri reglugerð um sjálfbæra landnýtingu er í samræmi við alþjóðlega þróun á þessu sviði og kann að brjóta blað í meðferð beitilands á Íslandi ef vel tekst til. Drög af reglugerðinni hafa verið send út til fagaðila og hagsmunahópa til umsagnar, en fer síðan í opnara ferli og samráðsgátt. Sá er þetta ritar hefur skoðað drögin lauslega og telur að þar lofi margt góðu, en formleg umsögn verður unnin á næstu dögum.

Nú er þörf sem aldrei fyrr ...

Það er afar mikilvægt að ný reglugerð um sjálfbæra landnýtingu taki á slæmu ástandi vistkerfa á Íslandi með raunhæfum hætti. Meðvirkni í afneitun á slæmu ástandi landsins verður að linna. Því er brýnt að samhliða upptöku á nýjum viðmiðum um sjálfbæra landnýtingu verði ekki leyft að gera landbótaáætlanir sem taka mjög lítið á slæmu ástandi beitarlandsins eins og nú er – landbótaáætlanir eiga ekki að vera eins konar skálkaskjóli fyrir ósjálfbæra landnýtingu eins og verið hefur. Sem þær hafa verið og umtalsverð hætta er á að reynt verði að kría út enn eitt 10 ára tímabilið á sömu nótum á kostnað íslenskrar náttúru. Núverandi kerfi er ekki boðlegt, ekki síst með hliðsjón af himinháum greiðslum úr vasa almennings til framleiðslunnar. Ennfremur verður að gera þá kröfu að áframhaldandi þróun á styrkjaumhverfi landbúnaðarins tryggi að búfjáreigendur beiti aðeins á land í góðu ástandi og komi í veg fyrir beit land annarra í óleyfi.

Það er kominn tími til að þjóðin taki með raunhæfum hætti á slæmu ástandi vistkerfa landsins og fyrsta skrefið er að takmarka beitarnýtingu við land í góðu ástandi. Verkefnið GróLind og drög að reglugerð um sjálfbæra beitarnýtingu lofa góðu – kannski tekur loksins að birta til í beitarmálum landsins.

Höfundur er prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Höfundur hefur sérþekkingu á ástandi lands og ber einn ábyrgð á efni greinarinnar.

Heimildir:

 1. Ástand lands og hrun íslenskra vistkerfa. Ólafur Arnalds 2020. Rit LbhÍ nr. 130. https://www.moldin.net/aacutestandsritieth.html
 2. GróLind 2020. Stöðumat á ástandi gróðurs- og jarðvegsauðlinda á Íslandi. Ritstj. Bryndís Marteinsdóttir. www.grolind.is
 3. ÓA 2019. Á röngunni. Alvarlegir hnökrar á framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringar í sauðfjárrækt. Rit LbhÍ 119. https://www.moldin.net/aacute-roumlngunni.html
 4. Bréf Landverndar og ÓA til stjórnsýslu og svör hennar eru birt á www.moldin.net undir sauðfé og beit.
 5. Yfirlýsing vegna ummæla landgræðslustjóra. Landssamtök sauðfjárbænda og Bændasamtök Íslands. 2. júní 2020. https://www.saudfe.is/frettir/2711-yfirlýsing-vegna-ummæla-landgræðslustjóra.html

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar