Framlegðin af makrílveiðunum hér við land hefur verið mikil frá því að fiskurinn kom sér fyrir í íslenskri lögsögu, um það leyti sem íslensk stjórnvöld beittu neyðarlögunum til að vernda efnahagslegt sjálfstæði landsins. Stjórnmálamenn komu síðan á fjármagnshöftum í nóvember 2008 og gengið var stillt af fyrir útflutninginn, aðallega útgerðirnar.
Þetta er stóra myndin.
Nú, tæplega sjö árum síðar, er Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kominn fram með frumvarp þar sem makrílkvótanum er úthlutað á skip útgerðarfyrirtækjanna.
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um þessi mál og bent á að það að heimild til að veiða makríl er verðmæt. Alveg eins og annar kvóti. Heildarverðmæti kvótans, miðað við hefðbundnar reiknireglur, er á bilinu 150 til 170 milljarðar. Síðan birti Fréttablaðið annan útreikning í morgun, þar sem fjallað er um að flokksmenn séu að koma að því að úthluta þessum gæðum til sín. Í þingskaparlögum segir orðrétt: „Enginn þingmaður má greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín.“ Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þeir, sem telja sig geta komið að því að úthluta gæðunum til sín og sinna, muni máta stöðu sína gagnvart þessu lögbundna skilyrði fyrir þátttöku þeirra í þingstörfunum.
Stjórnvöld eru nú búin að kynna fyrirætlan sína um að kvótasetja makrílinn, og gefa útgerðunum heimildir til að veiða. Þetta er nú til meðferðar í þinginu. Eins og Kjarninn hefur greint frá, þá er úthlutunun næstum því varanleg, þegar vel er að gáð.
Virði kvótans, sem er raunverulegt, nemur svipaðri upphæð og heildarvirði Landsbanka Íslands, sem er ein verðmætasta eign íslenska ríkisins. Ef miðað er við útreikninginn 0,7 x eigið fé (250 milljarðar), sem algengt er með bankastarfsemi, þá nemur verðmæti Landsbankans 175 milljörðum. Þögnin frá útgerðunum ætti að segja eitthvað. Það er ekki búið að stýra flotanum í land núna og sjómennirnir eru ekki á Austurvelli.
Heildarútflutningsverðmæti vegna makrílsins á ári hafa verið um 20 milljarðar síðustu ár, og framlegðin verið með ólíkindum og fordæmalaus í íslenskum sjávarútvegi. Bestu uppgjör sem sjávarútvegsfyrirtæki hafa sýnt í Íslandssögunni, einkum þau sem stunda makrílveiðar, vinnslu og sölu, hafa tekið mið af þessu. Mestur kvóti fer til HB Granda, Samherja og Ísfélags Vestmannaeyja.
Eðlilegt væri að ræða um þessi miklu tímamót, sem felst í gjöf stjórnvalda til útgerðarfyrirtækjanna, með ítarlegri og vandaðri hætti en raunin hefur verið til þessa.