Þann 31. maí síðastliðinn var kveðinn upp dómur í Mannréttindadómstól Evrópu í máli Arnars Helga Lárussonar gegn Íslandi. Dómurinn er afar áhugaverður, en miðað við fréttaflutning fjölmiðla í kjölfar dómsins mætti ætla að þar hefði einstaklingurinn sem málið höfðaði beðið mikinn ósigur. Málið snerist um skort á aðgengi að menningarstofnun í Reykjanesbæ, en Arnar notar hjólastól og komst ekki inn í tilteknar opinberar byggingar, sem varð meðal annars til þess að hann gat ekki mætt með börnum sínum á viðburði í félagsmiðstöð þeirra til jafns við ófatlaða foreldra. Á sama hátt verða því fötluð börn einnig fyrir mismunum vegna slíks skorts á aðgengi.
Þegar betur er að gáð og dómurinn lesinn í heild, er um að ræða mikilvægan áfangasigur. Raunar hafa sumir sérfræðingar lýst því yfir að í dómnum felist stórsigur í réttindabaráttu fatlaðs fólks í Evrópu. Þó sveitarfélagið og íslenska ríkið hafi sloppið við áfellisdóm var þó nánast öllum röksemdum þeirra í málinu hafnað. Niðurstaða Mannréttindadómstólsins er skýr um að aðgengismálin séu í ólagi. Hins vegar veitir dómurinn Reykjanesbæ og ríkinu frest til þess að uppfylla kröfur um jafnt aðgengi. Nú þurfa því ráðamenn Reykjanesbæjar að bretta upp ermar til að fylgja þeim áætlunum sem sveitarfélagið segist hafa varðandi aðgengismál.
Dómurinn sendir skýr skilaboð til dómstóla og yfirvalda
Fyrir utan það að skera úr um að aðgengismál væru í ólagi eru þrjú mikilvæg atriði í dómi Mannréttindadómstólsins sem vekja upp von varðandi framfarir í réttindabaráttu fatlaðs fólks:
Í fyrsta lagi er skýrt tekið fram af hálfu Mannréttindadómstólsins að íslenskir dómstólar hafi brugðist skyldu sinni til að vega og meta raunveruleg réttindi og hagsmuni Arnars en þess í stað einblínt á sjálfstjórnarrétt sveitarfélagsins. Hér opinberast einn stærsti vandinn í baráttu fatlaðs fólks fyrir mannréttindum á Íslandi undanfarna áratugi, þar sem dómstólar hafa ítrekað forgangsraðað sjálfsstjórn sveitarfélaga á kostnað lögbundnum mannréttindum fatlaðs fólks. Við fögnum því að samkvæmt þessari niðurstöðu þurfi íslenskir dómstólar að endurskoða þá áherslu í dómaframkvæmd sinni.
Í þriðja lagi er það sigur í réttindabaráttu fatlaðs fólks í Evrópu að skortur á aðgengi sé talinn falla undir þá grein Mannréttindasáttmálans sem verndar friðhelgi einkalífs og fjölskyldu. Einn af dómurum Mannréttindadómstólsins tók skrefið til fulls og skilaði séráliti. Í því rökstuddi dómarinn að aðgerðarleysi Reykjanesbæjar í aðgengismálum væri svo gróft, að það varðaði broti gegn Mannréttindasáttmálanum og skyldi því Ísland dæmt fyrir mismunun á grundvelli friðhelgi einkalífs og fjölskyldu.
Sigur í ósigri
Arnar Helgi Lárusson á þakkir skyldar fyrir að fara með málið alla leið til Mannréttindadómstóls Evrópu og tryggja þennan áfangasigur í réttindabaráttu fatlaðs fólks með þrautseigju sinni fyrir dómstólum. Á stundum felast stórir og mikilvægir sigrar í því sem virðist í fyrstu ósigur.
Katrín Oddsdóttir er mannréttindalögfræðingur og Rúnar Björn Herrera Þorkelsson er formaður NPA miðstöðvarinnar.