Í Evrópu er í gildi félagsmálasáttmáli sem tryggir rétt fólks til að búa sér og sínum til öruggt heimili. Það eru talin grunnmannréttindi borgaranna. Þótt íslensk stjórnvöld hafi skrifað undir sáttmálann í upphafi þá hafa þau hvorki skrifað undir endurnýjaðan samning né viðauka hans sem gefa einstaklingum og félagasamtökum færi á að leita réttar síns vegna brota stjórnvalda á sáttmálunum. Öfugt við mannréttindasáttmála Evrópu hefur félagsmálasáttmálinn ekki verið lögfestur né innleiddur og þar með gerður jafn íslenskum lögum. Rétturinn til öruggs heimilis, eins og önnur félagsleg réttindi, er því veikari á Íslandi en í öðrum löndum.
Þetta er ekki eina dæmi þess að íslensk stjórnvöld heiti að veita almenningi réttindi en komi sér síðan undan því. Við undirritun lífskjarasamninganna lofaði ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að bæta réttindi leigjenda, meðal annars að setja hér á leigubremsu til að halda aftur af stjórnlausum hækkunum. Þetta var svikið. Ásmundur Einar Daðason, þá félagsmálaráðherra, lagði frumvarpið aldrei fram. Ásmundur er einnig barnamálaráðherra, en allar rannsóknir sína að veik staða fjölskyldna á andstyggilegum leigumarkaði er helsta ástæða fátæktar barna.
Hvað veldur því að íslenska stjórnvöld verjast því að innleiða réttindi leigjenda til öruggs húsnæðis og svíkja samninga um að bæta stöðu þeirra? Hvað veldur því að íslensk stjórnvöld kjósa að virða ekki félagsleg réttindi á borð við rétt til heimilis? Af hverju líta stjórnvöld ekki á það sem eitt sitt helsta hlutverk að útvega hér húsnæði fyrir fólk, hvort sem er til kaups eða leigu og notast við þann bráðavanda sem á húsnæðismarkaði er í samningagerð við launþegasamtök? Hvað veldur því að íslensk stjórnvöld vilja líta á húsnæði sem hverja aðra vöru á markaði en ekki sem réttindi borgaranna, þvert á það sem tíðkast í okkar heimshluta? Hvað veldur þessari grimmd gagnvart leigjendum?
Hér landi hefur útleiga húsnæðis verið talin ein besta og öruggasta ávöxtun fjármagns sem hugsast getur. Og enn frekar hin síðari ár. Þetta sést berlega í gríðarlegri fjölgun þeirra sem kaupa sér aukaíbúð og leigja öðrum.
Frá aldamótum hefur íbúðum í eigu þeirra, einstaklinga og fyrirtækja, sem eiga fleiri en eina íbúð fjölgað um 100% á meðan íbúðum í eigu þeirra sem eiga eina íbúð hefur fjölgað um 24%. Íbúðir í eigu þeirra sem áttu fleiri en eina íbúð voru 25% af heildinni um aldamótin en eru 35% núna. Stefna stjórnvalda ýtir þannig undir að fólk og fyrirtæki noti veika stöðu leigjenda til að ávaxta fé og auka við auð sinn.
Það er takmarkanir á hversu mikla ávöxtun sá má hafa sem lánar öðru fólki peninga. En það eru engin takmörk á því hversu mikla ávöxtun þau fá sem eiga og leigja út húsnæði. Þau geta krafið leigjanda um leigu sem er langt umfram kostnað af rekstri íbúðarinnar, fjármagnskostnað og afborganir af lánum. Rekstrarafgangurinn bætist síðan við hækkun eignaverðs svo úr verður gríðarhá ávöxtun. Sem aftur sogar til sín fé, sprengir upp íbúðaverð og ýtir þar með undir hækkun leigu og enn lakari stöðu leigjenda.
Fjórðungur landsmanna býr ekki í eigin húsnæði og kannanir benda til að stærsti hluti þeirra beri íþyngjandi húsnæðiskostnað. Það er alþjóðlegur mælikvarði og merkir að meira en 40% af ráðstöfunarfé eftir skatta og skyldur renni til leigusalans og annars húsnæðiskostnaðar (rafmagn, hiti, hússjóður o.s.frv.). 13% heimila á leigumarkaði borgar meira en 70% ráðstöfunartekna sinna í húsnæðiskostnað.
Um hátíðirnar leita þúsundir fjölskyldna til hjálparstofnana og meginástæða flestra er of mikill og óumflýjanlegur húsnæðiskostnaður, okurleiga. Þegar þú átt ekki fyrir mat út mánuðinn í venjulegum mánuði þá er vonlaust að þú getir haldið jól. Þegar þú ert á leigumarkaði gengur leigusalinn fyrir. Þú borgar honum áður en þú kaupir mat. Þú borgar leiguna áður en þú heldur jól.
Hækkun fasteignaverðs er eitt einkenni vondrar húsnæðisstefnu. Rangar ákvarðanir stjórnvalda hafa ýtt undir bólur og veikt réttindi og öryggi almennings og leigjenda sérstaklega. Á sama tíma hefur hagur þeirra batnað sem braska með lóðir og byggingarétt og þeirra sem leitað hafa inn á leigumarkaðinn til að láta leigjendur standa undir auðsöfnun sinni. Þau sem líða fyrir stefnuna er einkum fólk með lægri miðlungstekjur og þar undir, fólk sem getur ekki safnað fé í sjóð, ungt fólk sem ekki á fjárhagslega vel stæða foreldra og fólk sem af einhverjum ástæðum stenst ekki greiðslumat og er þar af leiðandi fast á leigumarkaði. Sem veldur því að það getur ekki safnað fyrir útborgun. Sem veldur því að það neyðist til að byggja undir auðsöfnun annarra og festist við það í fátæktargildru.
Við eigum ekki að þurfa að deila um húsnæðisstefnu stjórnvalda. Það er augljóst að hún gengur ekki upp. Hún hefur leitt til hækkunar húsnæðiskostnaðar, leit til þess að færri eignast húsnæði, að fáir eignist fleiri íbúðir og fleiri enga. Afleiðingin er að stærri hópur lokast inn í fátæktargildru leigumarkaðar. Húsnæðisstefnan eykur þannig ójöfnuð og grefur þar með undan réttlæti í samfélaginu. Þetta er afleiðing þess að stjórnvöld hafa ekki mótað stefnuna út frá hagsmunum þeirra sem þola mestan órétt á húsnæðismarkaði heldur þvert á móti út frá hagsmunum þeirra sem auðgast hafa mest og hraðast á óeðlilegum húsnæðismarkaði og veikri stöðu annarra. Hagsmunir þessa fólks eru að halda húsnæðiskerfinu óbreyttu eða gera það jafnvel enn óréttlátara.
Eina leiðin til að laga húsnæðismarkaðinn er að snú þessu við, móta stefnu út frá hagsmunum þeirra sem líða mestan órétt. Og við þurfum ekki að gera neitt róttækt eða nýtt, ekkert sem ekki hefur margsinnis verið gert oft og víða og reynst vel.
- Það þarf að skilgreina húsnæði sem réttindi, ekki sem hverja aðra markaðsvöru.
- Það þarf að leiðrétta húsnæðiskostnað leigjenda. Leigjendur eiga ekki að bera hærri húsnæðiskostnað en aðrir. Það á ekki að vera refsing að vera á leigumarkaði.
- Greiðslumat á að miðast við raungreiðslur fólks. Sá sem hefur staðið undir 250 þús. kr. húsaleigu árum saman stendur undir 250 þús. kr. vöxtum og afborgunum af lánum.
- Hér þarf að byggja upp öflug leigufélög sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða. Þau félög eiga að vera svo stór og öflug að hagnaðardrifin leigufélög hverfi af almennum leigumarkaði, einbeiti sér að skammtímaleigu og leigu til auðfólks.
- Banna á okurleigu með því að setja leiguþak. Okurvextir eru refsiverðir og það á líka að gilda um okurleigu.
- Banna á hækkun á húsaleigu umfram almennt verðlag og launaþróun.
- Stöðva á uppboð á lóðum, sem eru almannaeign, og koma í veg fyrir braks með lóðir og byggingarétt. Markmiðið á að vera að halda fasteignaverði niðri, ekki spenna það upp.
- Það á byggja nóg af húsnæði, frekar of mikið en of lítið.
- Það á að styðja og styrkja hagsmunasamtök leigjenda svo þau geti orðið samningsaðili leigufélaga svo hver leigjandi þurfi ekki að gera það út frá veikri stöðu sinni.
Það mætti hafa þennan lista lengri þótt á hann færi aðeins það sem þykir sjálfsagður grunnur að heilbrigðri húsnæðisstefnu í nágrannalöndum okkar. Húsnæðiskerfið er fárveikt og kallar á afgerandi aðgerðir strax. Á leigumarkaði geta hin fjársterku níðst á leigjendum án eftirlits eða afleiðinga. Og stjórnvöld þjóna þessum fjársterku aðilum, en taka ekkert tillit til vondrar stöðu þeirra sem níðst er á.
Til að snúa þessu við þarf að byggja upp sterk leigjendasamtök. Við hvetjum þig til að ganga til liðs við Samtök leigjenda nú í upphafi nýs árs og taka þátt í að byggja þau upp, styrkja og skerpa. Þú getur skráð þig hér.
Höfundur er stjórnarmaður í Samtökum leigjenda.