Fyrir liggja staðfestar sannanir óháðra alþjóðlegra aðila á stríðsglæpum frömdum af rússneska innrásarhernum í Úkraínu. Þær þarf reyndar ekki til; myndir hafa jafnóðum borist frá svæðum þar sem morð á tugþúsundum óbreyttra borgara er myndefnið. Heilu borgirnar þar sem íbúðahverfin hafa verið jöfnuð við jörðu er ekki hægt að afgreiða sem áróður (amma mín sagði jafnan þegar eitthvað var borið upp á Sovétríkin að þetta ætti sér hvergi stað – nema í Mogganum). Enn þann dag í dag eru fáeinir villuráfandi sauðir sem ekki trúa því sem þó má nú ljóslega sjá um veröld alla; ekki bara í Mogganum. En svo eru hinir sem láta sannanir ekki trufla boðskapinn, svona eins og Brynjólfur Bjarnason gerði.
Meðreiðarsveina Pútíns er að finna hér á Íslandi
Stjórn Rússlands fylgir gamalli forskrift fasismans. Í bland fer einvaldur og auðræði hinna fáu. Formælendur Pútíns eru sömu gerðar og aðdáendur Hitlers og Stalíns. Nema hvað aðdáendur Hitlers drógu sig í hlé þegar hann hóf árásarstríð sitt. Hér á Íslandi er áhrifamikill bloggari að nafni Páll Vilhjálmsson. Þessa dagana er hann (án gríns) upptekinn við að saka hóp blaðamanna um aðild að ímyndaðri manndrápstilraun. Hitt sem heldur huga hans föngnum er eindreginn stuðningur við málstað Rússlands. Og sparar hvergi rangfærslur og þaðan af verra. En skyldi hafa þótt góð lexía að mæra Sir Oswald Mosley eða vitna til Haw-Haw lávarðar í síðari heimsstyrjöld?
Sýndaráróðurs Pútíns afhjúpaður
Kjarni áróðurs Pútíns hefur verið „afnasistavæðing“ Úkraínu og frelsun Rússa. Í austurhéruðum Úkraínu og raunar líka vestar er rússneska móðurmál flestra. Það hefur sýnt sig að þetta fólk vill ekki „frelsun“ Pútíns. Þarna er enginn munur á rússneskumælandi og öðrum þótt fáeinir styðji Pútín. Pútín hefur sjálfur upplýst hvað vakir fyrir honum; að koma á fót stórrússnesku ríki sem ræður löndunum næst Rússlandi.
Hvað Úkraínu varðar var það úrslitaatriði. Svo rík er Úkraína af náttúruauðlindum og mannfjöldi mikill að yfirráð þar eru honum nauðsynleg. Í Donbass var stór hluti þjóðarframleiðslunnar til 2014. Með hveiti og kornframleiðslu Úkraínu, auk kola og stáls og nú síðast ónýttra gaslinda í Svartahafi, getur Pútín beitt sér af miklum mætti gegn okkur hinum líkt og hann gerir nú með hveiti Úkraínu, hungurvopni sínu. Guð forði okkur frá ósigri Úkraínu í stríðinu.
Vígður maður styður Pútín!
Menn á borð við Pál Vilhjálmsson hafa, án þess að svitna, borið sögufalsanir um hinn rússneska Krímskaga (land Krímtatarana) o.s.frv. á borð og sannfært ólíklegasta fólk. Útrýming Stalíns á milljónum Úkraínumanna fyrir rúmum sjö áratugum er léttvæg fundin. Þá fluttu tryggir kommúnistar til Úkraínu í þeirra stað og eru afkomendur þeirra nú nefndir „aðskilnaðarsinnar“.
Fyrir stuttu ritaði prestur grein í Morgunblaðið. Þar gerði hann grein fyrir þeirri skoðun sinni að innrásin í Úkraínu væri sök NATO. Klerkurinn nefndi að Serbía hefði orðið að sætta sig við að Kosovo sliti sig frá Serbíu. Það telur hann gilt fordæmi fyrir innrás annars ríkis í Úkraínu. Innrás til að reyna að taka sjálfsákvörðunarrétt af sjálfstæðu ríki þar sem býr þjóð sem vill lifa friðsömu lífi á eigin forsendum og varðveita eigin menningu. Hann getur þess ekki að hann taldi ekki mega breyta landamærum Serbíu á sínum tíma og hafði töluvert til síns máls. Fór rökfræðin fyrir ofan garð og neðan í námi mannsins?
Mér er ekki tamt að nota stóryrði á borð við lygarar og mun því ekki grípa til þess. (Presturinn lesi á hinn bóginn orðskviði Salómons 12:22 og 25:18). Endurtekin gróf ósannindi Páls og prestsins mega þó ekki standa án svara. Ég var oft í Kænugarði 2014 og varð vitni að átökunum þar. Ekkert valdarán varð í Úkraínu 2014. Þjófurinn sem var þá forseti flúði land eftir að hafa misst þingmeirihlutann. Það voru ekki „úkraínskir aðgerðasinnar“ sem skutu á fólkið á Frelsistorginu. Slík frásögn er hrein vanvirðing prestsins við minningu hinna föllnu. Ég gæti lengi haldið áfram, en læt staðar numið. En m.ö.o., jafnvel Þjóðverjar svipta fyrrum kanslara sinn öllum vegtyllum. Hvað gerum við Íslendingar?
Höfundur er löggiltur endurskoðandi og hæstaréttarlögmaður.