Þeir þræðir Guðmundar- og Geirfinnsmáls sem forsætisráðherra fékk til sín í kjölfar sýknudóma Hæstaréttar þann 27. september 2018 hafa nú flestir verið hnýttir eða færðir annað. Dóma þurfti til að losa endanlega um viðnám ráðherrans í þremur atriðum: Fyrst um bótarétt þeirra sem lifðu það að vera sýknaðir af manndrápum, svo um lögmæti úrskurðar endurupptökunefndar varðandi hinar röngu sakargiftir á hendur svokölluðum Klúbbmönnum, og loks um bótarétt erfingja þeirra saklausu manna sem látnir eru. Fyrir öllum þessum málum fór fremstur Ragnar Aðalsteinsson og sigurhrinan undirstrikar hans mikilsverða þátt til verndar mannréttindum þeirra sem veikast standa í þessu samfélagi.
Barátta Erlu Bolladóttur fyrir endurupptöku röngu sakargiftanna heldur áfram, en settur ríkissaksóknari á að reka það mál fyrir stjórnvöld á næstu stigum, ekki handvalinn og handstýrður lögmaður forsætisráðherra. Eftir situr þó á ráðherrans könnu krafa frá Alberti Skaftasyni, en hann einan sniðgekk hún um boð um bætur í takti við þá nýlegu dóma sem áður eru nefndir.
Á þessum tímamótum í sögu málsins finnst mér við hæfi að rifja upp og rýna í aðkomu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra að því. Markmið mitt er að varpa ljósi á þá þokukenndu mynd sem lesendur eru líklegir til að hafa af þeirri aðkomu. Hér togast nefnilega á einfölduð útgáfa Katrínar sjálfrar annars vegar og flókinn og loðinn veruleikinn hins vegar. Sem aðstandandi eins hinna ranglega dæmdu hef ég fylgst vel með og finnst áríðandi að koma á framfæri því helsta sem ég hef veitt eftirtekt – þó ekki væri nema í þágu komandi kynslóða.
Upprifjun
Þeir atburðir sem segja sennilega mest til um Katrínar þátt hófust þegar rétt ár var liðið frá því Hæstiréttur felldi sína sérstæðu sýknudóma í mannshvarfahlutum málsins og forsætisráðherra bar fram afsökunarbeiðni til allra þeirra (mögulega hundruða) „sem hafa átt um sárt að binda vegna málsins“. Þá fyrst, ári eftir sýknu, náðu umkvartanir okkar um „sáttaumleitanir“ stjórnvalda, sem við höfðum reynt að koma á framfæri í marga mánuði, en ráðherra staðfastlega afneitað, loksins í gegn til almennings. Stjórnvöldum höfðu nefnilega orðið á taktísk mistök er lögmaður forsætisráðherra festi afstöðu þeirra á blað með greinargerð fyrir dómi, en fram að því hafði inntak þeirrar afstöðu aðeins óformlega verið nýtt til að rífa niður bótakröfur hinna ranglega dæmdu. Þessir einstaklingar gætu engum öðrum en sjálfum sér um kennt hvernig fyrir þeim fór, var meðal þess sem stjórnvöld sögðu – þeir væru jafnvel sekir um manndrápin eftir allt saman. Guðjón Skarphéðinsson komst vel að orði þegar hann taldi sig heppinn að með þessum ömurlega málatilbúnaði fylgdi ekki rukkun fyrir „fæði og húsnæði og flutning og gæslu“.
Bolabrögð af þessu tagi, sem ríkið beitir í krafti algjörrar yfirburðastöðu sinni, þrífast auðvitað best í skúmaskotum og á bak við luktar dyr. Dagsins ljós þoldu þau allavega ekki, heldur drógu athygli almennings loksins að málinu og þeim vonda farvegi sem það var komið í. Línan sem félögum Katrínar var þá skaffað var sú að „hefðbundið“ væri í íslensku stjórnarfari að grípa til „ýtrustu varna“ – einskis minna en fulls þunga ríkisvaldsins – þegar borgarar landsins kvörtuðu undan ofbeldi og ranglæti hins opinbera. Sá sem drægi persónu Katrínar inn í þvílíkan harmleik, sem hún hafði að sögn ekkert með að gera, væri bæði smekklaus og fáfróður. En borgararnir ítrekuðu að þeir myndu ekki þola svo blygðunarlausa kúgun – ekki þegar þeir vissu betur um hreyfiöfl málsins sem um ræðir. Áfram stóðu því öll spjót á Katrínu, eins og Fréttablaðið sló upp á forsíðu sinni 27. september 2019.
Köld ráð kerfiskarla og kerfiskerlinga myndu greinilega ekki duga til í þetta sinn til að sefa réttláta reiði almennings. Forsætisráðherra gekkst við því að hún væri ábyrg fyrir sínum lögmanni, og kom stuttu síðar út úr ráðuneyti sínu með lagafrumvarp sem átti að „taka af öll tvímæli um eindreginn sáttavilja ríkisstjórnar og Alþingis“. Í því var að finna sjálfsagða frasa á borð við: „Enda þótt fjármunir geti aldrei bætt það tjón sem ranglátur dómur olli hinum sýknuðu og fjölskyldum þeirra er eigi að síður nauðsynlegt að ríkisvaldið greiði bætur sem hluta af uppgjöri og viðurkenningu á rangindum.“ Fyrir forsætisráðherra hafði semsagt verið skrifaður texti sem erfitt yrði að lesa í enn eina útgáfuna af áratugalöngum ofsóknum og þöggun ríkisins í garð þessara fórnarlamba sinna.
Skjólstæðingar Katrínar á hægri væng stjórnmálanna brugðust við þessum leik hennar með að kunngera hina hefðbundnu afstöðu, þ.e. þeir slógu skjaldborg um dómskerfið, lögregluna og stjórnvöld almennt. Ef eitthvað var þá merkti þetta frumvarp Katrínar árás á sjálfan grundvöll dómsvaldsins; það braut stjórnarskrána einfaldlega með því að bjóða fram bætur. Það var greinilegt að þetta frumvarp var á skjön við hugmyndir og áform ríkisstjórnarinnar um það hvernig þessu átti öllu að vinda fram eftir sýknudóma Hæstaréttar. Ferlið eftir sýknu hefði átt að „ljúka málinu“, opinberaði Sigríður Andersen (sem væntanlega teiknaði upp téð áform ásamt Katrínu, enda dómsmálaráðherra á þeim tíma) þegar hún gerði grein fyrir atkvæði sínu um hið „meingallaða“ frumvarp á Alþingi. Vitanlega þýddi þetta að við í liði hinna ranglega dæmdu hefðum samkvæmt áætlun átt að samþykkja að stöðva okkar baráttu í þágu sannleiks og réttlætis fyrir skjótfengið mútufé. Þvílík viðskipti voru hins vegar ekki í kortunum með þessu frumvarpi forsætisráðherra sem útilokaði t.a.m. ekki þann möguleika að fólk sækti rétt sinn hjá dómstólum.
Með trúverðugleika sinn í málaflokki mannréttinda að veði hafði forsætisráðherra skipt um kúrs, og virtist nú standa með okkur andspænis harðskeyttri og ómannúðlegri afstöðu samstarfsflokks síns í ríkisstjórn. En það var kannski einmitt sú stefnubreyting sem olli því að hún endaði ein og óstudd á þinginu kvöldið sem hún mælti fyrir frumvarpi sínu, þar sem skotin dundu á henni úr ekki aðeins einni átt heldur öllum. Á einni kvöldstund var forsætisráðherra sögð stunda óeinlæga sýndarmennsku, opna á lágkúrulegar umræður um hversu mikla peninga þetta fólk ætti að fá, og jú, hún var skömmuð fyrir að koma okkur út í þessi neyðarlegu vandræði til að byrja með. Úr horni stjórnarliða heyrðist fyrst og fremst taut um meinta linkind ráðherrans og „stjórnmálanna“ gagnvart þessu ógæfufólki sem stuðlaði enda sjálft að ofbeldinu gegn sér á sínum tíma.
Það var í þessu tiltekna samhengi – þingmenn í röðum frá bæði vinstri og hægri að ávíta forsætisráðherrans verk – að Katrín, þar sem hún stóð uppi í pontu, bugaðist; hún brotnaði niður, „beygði af“. „Mér þykir það leitt ef háttvirtir þingmenn gera mér [slíkar annarlegar hvatir] upp“, var það síðasta sem hún náði að segja áður en röddin brast. Í þetta skiptið var það hún sem virtist upplifa sig sem ranglega ásakaða manneskju. En líkt og fjölbreyttur skari ráðherra sem á undan henni kom vildi þessi ráðherra ekki kannast við að hafa gert neitt rangt. Hún væri bara, hafði hún útskýrt, að reyna að tryggja jafnræði innan hóps hinna sýknuðu og til þess þyrfti víst að „renna lagastoð“ undir greiðslu bóta til aðstandenda.
Gagnrýnendur hennar gætu á því augnabliki sem hún þerraði tárin hafa fengið á tilfinninguna að þeir vissu hvorki hvað væri raunverulega á seyði í Stjórnarráði Katrínar, né innra með henni sjálfri. Katrín hafði talað um að „landslið lögfræðinga“ stæði á bakvið frumvarpið. Og nú var góðviljuð, tilfinningaleg taug hennar sjálfrar til þess fyrir allra augum. Ráðlegast væri því kannski bara að líta undan, hleypa ráðherranum áfram með málið án frekari vandræðagangs.
Tárin túlkuð
Eins og gjarnan á við um þann dularfulla vökva áttu tár Katrínar sér hafsjó af mögulegum skýringum. Væntanlega gáfu gagnrýnendur hennar á þingi sér þá sem örlátust var gagnvart þessari valdamestu manneskju landsins sem þeir flestir höfðu þekkt og unnið með í áraraðir. Sjálfur sá ég í þeim möguleg vatnaskil – að nú myndi forsætisráðherra kannski losna undan þeim bagga sem hún sat greinilega uppi með: þann að ætla að loka málinu án þess þó að ljúka því, borga bara bætur án þess að viðurkenna neitt af viti eða draga af þeim nokkurn lærdóm. Þarna á þingi hefði kannski losnað um ákveðna spennu, manneskjan Katrín fengið sitt kaþarsis. Því næst gætum við komið öll saman, tekið ofan grímurnar og byggt upp einhverskonar rými fyrir ósvikin tengsl og gagnkvæman skilning milli stjórnvalda og þess forsmáða hóps af fólki sem ég fæddist inn í. (Þetta var raunar það sem ég taldi að hefði átt að gerast strax eftir sýknudóma Hæstaréttar.)
Ekki leið þó á löngu uns Katrín setti sjálf fram sína eigin túlkun á því sem gerst hafði á Alþingi þetta kvöld. Í viðtali við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur í Kastljósi sagði Katrín einfaldlega að sér þætti það „fullkomlega eðlilegt að gráta yfir þessu stóra máli, og í raun og veru miklu óeðlilegra að gráta ekki yfir því“. Hún færði semsagt athyglina yfir á þá spurningu hvort óeðlilegt eða eðlilegt væri að gráta þann harmleik sem „málið“ er. Sú gremja forsætisráðherra að gagnrýnin í hennar garð væri sífellt einfölduð og henni gerðar upp illar hvatir – gremjan sem kallaði, við fyrstu sýn, á hennar tilfinningalegu viðbrögð á Alþingi – hafði verið brotin svo rækilega niður að ekki var að sjá að nokkuð væri eftir af henni. Eitthvað allt annað, auðmeltanlegra og samfélagsmiðlavænna, hafði verið kokkað upp og borið á borð fyrir almenning, nú í boði Ríkisútvarpsins.
Og áhrifin voru ótvíræð. „Mennskan lifir enn í pólitík“, ómaði samstundis frá stuðningskór Katrínar. „Á svipstundu varð allt skýrt“, skrifaði einn þeirra sem hreifst með; Katrínu „hafði verið falin ábyrgð á tregaljóði, hún þurfti að svara fyrir harmsögu, sem hún skrifaði ekki, og hjarta hennar brast“. Samt höfðu engar umræður átt sér stað á Alþingi um t.d. orsakir og afleiðingar rangra dóma, ríkisofbeldis og siðafára af því tagi sem reið yfir íslenskt samfélag á áttunda áratugnum og endaði á því að sex saklausum blórabögglum var bókstaflega fórnað fyrir allra augum til að koma á einhvers konar friði. Enginn hafði talað beinum orðum um „málið“ og fórnarlömb þess, því síður hið pólitíska samhengi sem alla tíð hefur umlukið það. Umræðan snerist eingöngu um það hvað þessi kjörni fulltrúi og forsætisráðherra ríkisstjórnar hafði gert (eða vanrækt að gera) eftir að þetta saklausa fólk var sýknað.
Katrín kaus víst í þessari stöðu að hagnýta sér eigin persónulegu berskjöldun til að hefta frekari átök um hennar skyldustörf og verkefni. Nú gæti einhverjum eflaust þótt það göfugt af henni, en þar með útilokaði hún jafnframt möguleikann á gagnkvæmum skilningi og sannkallaðri tengingu með því að setja sjálfa sig – ekki í fyrsta sinn – „ofar“ djúpstæðum og þýðingarmiklum ágreiningi. Hún veit líklega að uppi á því háalofti, þar sem hún dvelur nú æ oftar, hafa brögð þeirra sem skortir völd og áhrif yfirleitt öfuga virkni. Þar getur hún setið undir áskorunum án þess að aðhafast, sniðgengið alla rökræðu, leyft fólki að hrópa, hamast og þreytast – og stuðningsmenn hennar líta á það sem stjórnvisku.
Þannig var víglínan líka löguð í tilfelli okkar máls, hin opinbera og einfalda söguskýring endurreist: Katrín væri sú góða sem alltaf hefði unnið af heilum hug við að „gera yfirbót“ í þessu „stóra og erfiða máli“, en við hin særðu og skilningslausu þiggjendur hverra gagnrýni væri réttast og best að sitja bara undir án þess að svara.
Víglínan innra
Upplifun valdaleysis, frekar en beinlínis þöggunar, var það sem ég og mitt fólk fundum helst fyrir eftir þetta djarfa útspil Katrínar. Hvar í ósköpunum áttum við annars að höggva næst? Auðvitað fór sama gamla leikritið aftur af stað, þar sem Katrín lýsti einhverju fögru og óskýru yfir opinberlega en fékk síðan lögmann sinn til að sinna skítverkunum í dómsal: að rægja, smætta og þræta fyrir allt sem frá okkur kom. Enn þurftum við því að berjast gegn málatilbúnaði ríkisins um meinta eigin sök sakborninga. Enn þurftum við að heyra að heimsmet íslenska ríkisins í brúkun einangrunarvistar hefði átt rétt á sér. Enn þurftum við að hlusta á að við hefðum engan (eða mjög veikan) bótarétt, og þar fram eftir götunum. Nú hefur þessu öllu hins vegar verið hrint, og dómstólar endanlega lýst sem löglausum þeim undarlegu skeytum sem sendisveinn forsætisráðherra skrifaði fyrir hana síðastliðin ár, íslenska ríkinu til skammar og töluverðs kostnaðar.
Verra er að með því að sópa sinni tvíbentu afstöðu undir teppið hefur ráðherra misst af raunverulegu tækifæri til að læra eitthvað af málinu – lærdómi sem hún hefði betur tileinkað sér og breitt út um Stjórnarráðið í stað þess að bæla niður. Að hún vilji í senn vel en sé takmörkuð af ytri þrýstingi segir nefnilega ýmislegt um þær hindranir – persónulegu, kerfislægu og menningarbundnu – sem hafa komið í veg fyrir það í hartnær hálfa öld að einhvers konar réttlæti náist fram til handa fórnarlömbum þessarar sögu.
Ef ég ætti að ætla Katrínu einhverjar kenndir þá myndi ég giska á að það hafi einmitt verið þessi mótsögn sem að lokum bar hana ofurliði þessa tilfinningaþrungnu kvöldstund á Alþingi. Ekki bara „málið“, ekki bara óvægin gagnrýni, heldur hennar eigin erfiða staða: Að þurfa að þjóna miskunnarlausri lógík kerfisins og láta um leið sem hún stæði með þolendum þess.
Úr þessu er þó ólíklegt að Katrín Jakobsdóttir játi nokkuð í þá átt. Aðkoma hennar að þessu máli sýnir að fyrir henni skiptir hreinleiki ímyndarinnar öllu en samviskunnar engu. Erfitt er að hugsa sér persónu betur til þess fallna að viðhalda fyrir stjórnvöld óbreyttu ástandi og tefja að þetta mál verði raunverulega gert upp.
Höfundur er dóttursonur og nafni eins hinna ranglega dæmdu í GG-máli.