Það eru að verða breytingar í stjórnmálum víðar en á Íslandi. Í Bretlandi er Jeremy Corbyn orðinn leiðtogi Verkamannaflokksins. Andstæðingar hans, og margir samflokksmenn, hafa ásamt þorra bresku pressunnar eytt undanförnum vikum og mánuðum í að vara þjóðina við Corbyn. Hann sé stórhættulegur öfgasósíalisti sem sé svo róttækur að málflutningur hans í efnahagsmálum muni eyðileggja Bretland, verði hann að aðgerðum.
Meginstefið í þeim málflutningi hans er jöfnuður. Þ.e. að draga úr því misræmi sem felst í því að hinir ríku verða sífellt ríkari á meðan að erfiðara verður fyrir launafólk að ná endum saman. Hann vill hækka skatta á þá sem mest hafa á milli handanna og leggja erfðaskatta á miklar eignir. En Corbyn ætlar sér líka að reka rikisjóð Bretlands með afgangi komist hann til valda. Það eru allar efnahagslegu öfgarnar.
Í Bandaríkjunum hefur Bernie Sanders komið öllum á óvart og er allt í einu orðinn raunhæfur valkostur sem forsetaframbjóðandi Demókrata. Hvað er það sem hefur gert þennan 73 ára gamla mann líklegan til árangurs? Það eru ekki peningar, enda þiggur hann ekki fjárframlög frá fjármálaeliítunni. Það er ekki útlitið. Það er sannarlega ekki aldurinn. Nei, það sem er ferskt og áhugavert við Bernie Sanders er að það eru stefnumálin sem eru að fleyta honum í hæstu hæðir í skoðanakönnunum.
Kjarninn í málflutningi Sanders er sá að Bandaríkjamenn verði að taka ákvörðun. Ætla þeir að halda 40 ára hnignun millistéttarinnar þar í landi áfram og auka enn hið gríðarlega bil á milli hinna ofurríku og allra hina, eða ætlar þjóðin að berjast fyrir framsæknum efnahagi sem býr til störf, hækkar laun, verndar umhverfið og sér almenningi fyrir heilsugæslu?
Sanders vill takast á við hið sívaxandi vald örfárra milljarðamæringa í fjármálageiranum og stjórnmálum. Hann vill að fólkið taki völdin aftur.
Trúir ekki lengur valdinu
Meira að segja hefðbundnir samherjar hafa gagnrýnt Corbyn og Sanders fyrir að vilja ganga allt of langt til þess að rugga bátnum. Blairistar og aðrar útfærslur af þriðjuleiðar-stjórnmálamönnum víða um heim laga rauð bindin, dusta ímyndað kusk af aðsniðnu tískujakkafötunum og segja þessa sósíalista hættulega. Það sé miklu betra að halda sig við tíundaáratugs-jafnaðarmennina sem samsömuðu sig auðvaldinu með hægri hendinni en sögðust menn launafólks með vinstri og bjuggu með því til sína eigin útgáfu af brauðmolakenningu nýfrjálshyggjunnar. En millistéttin virðist vera búinn að fá nóg af þeim, vegna þess að athöfnum þeirra fylgir enginn jöfnuður.Í Bretlandi, Bandaríkjunum, Íslandi og víðar treystir fólk því einfaldlega ekki að hefðbundnir stjórnmálamenn og –flokkar þeirra ber hag þess fyrir brjósti. Það treystir því ekki að þeir taki ákvarðanirnar sem þarf að taka til að auka jöfnuð, fjölga tækifærum, bæta velferðina, vernda umhverfið og passa upp á almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni hinna ríku. Þess vegna fá einstaklingar og öfl sem lofa annað hvort að skera upp herör gegn ójafnræðinu eða að færa almenningi ákvörðunarrétt í lykilmálum svona mikið fylgi í dag.
Millistéttin; menntaðasti, upplýstasti og hæfileikaríkasti hluti samfélagsins, er komin með nóg af því hvernig valdið hefur farið með hana.
Önnur birtingarmynd á Íslandi
Á Íslandi er birtingarmynd þessarar óánægju með valdið öðruvísi en víðast hvar annarsstaðar. Í stað þess að í henni felist aukinn stuðningur við einstaka frambjóðendur og flokka sem bjóða skýra stefnu sem er í andstöðu við ríkjandi skipulag auðskiptingar þá hefur fylgið færst til flokks sem hefur það sem aðaláherslumál að færa ákvörðunarrétt í stærstu málum landsins til þjóðarinnar sjálfrar. Að hún fái að ákveða hvort Ísland gangi í Evrópusambandið, hvernig arði vegna auðlinda er skipt, hvort að það sé í lagi að atkvæðavægi sé ójafnt og hvort málskotsréttur eigi að liggja hjá einum duttlungafullum og sjálfhverfum manni eða þjóðinni sjálfri. Svo fátt eitt sé nefnt. Píratar eru ekki að boða ákveðna samfélagsgerð, heldur að bjóðast til að endurspegla þann vilja sem býr í samfélaginu.Það þarf ekki eldflaugasérfræðing til að sjá hvernig milli- og lágstéttin (hún er því miður til) hefur verið skilin eftir á Íslandi. Hún axlaði byrðar stærstu kollsteypu íslenskrar efnahagssögu í kjölfar hrunsins þegar verðbólguskot og risagengisfelling rýrði lífsgæði hennar um helling.
Í fyrra var 45 prósent þjóðarinnar með heildarlaun á bilinu 300 til 500 þúsund krónur á mánuði. Rúmlega þriðji hver Íslendingur á minna en engar eignir og um helmingur þjóðarinnar á minna en 750 þúsund krónur í hreina eign. Ríkasta eitt prósent Íslendinga átti hins vegar um fjórðung allra eigna á Íslandi í lok árs 2012, alls um 244 milljarða króna í hreinni eign. Auður þeirra hafði vaxið um 40 prósent frá árinu 2002.
Það er lykilatriði að eiga heima einhversstaðar
Hinn bókhaldslegi efnahagsbati sem er að eiga sér stað hérlendis er ekki að skiptast nægilega sanngjarnt niður á hópa. Allt of margir eiga til dæmis í stökustu vandræðum með því að koma þaki yfir höfuðið á sér. Skortur á húsnæði, og skortur á fjárfestingatækifærum innan hafta, hefur ýtt upp íbúðaverði um 42 prósent á fimm árum og hertar lánareglur hafa gert launamönnum erfiðara fyrir að standast greiðslumat. Því er sífellt erfiðara að kaupa húsnæði og ef það tekst þá þarf vitanlega alltaf að greiða miklu hærri vexti en í nágrannalöndum okkar fyrir vegna þess að við erum með krónu sem gjaldmiðil.Launamaðurinn er líka í stökustu vandræðum með að leigja vegna þess að íbúðir sem voru áður á almennum leigumarkaði eru annað hvort orðnar að fjárfestingatækifærum í eigum sjóða eða eingöngu leigðar ferðamönnum (um fjögur þúsund íbúðir). Vegna þessa hefur leiguverð hækkað um rúmlega 40 prósent á fimm árum og einstæðingar með venjulegar íslenskar launatekjur geta verið að greiða allt að 40 til 70 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í húsaleigu komist þeir yfir höfuð að í leigukerfinu. Margir þeirra gera það vitanlega ekki. Vegna þessa býr til að mynda fjórði hver Íslendingur á þrítugsaldri enn heima hjá mömmu og pabba.
Útvalinn hópur borðar kökuna
Þannig að launafólk á Íslandi er með lág laun, stór hluti þess á enga hreina eign, velferðarkerfið sem það greiðir fyrir er að veikjast og það er margt hvert í bullandi vandræðum með að finna sér húsnæði. Þetta eru brauðmolarnir sem detta af veisluborðinu.Þeir sem borða kökuna eru þrengri hópur. Eignafólk, þeir sem eru í einkabankaþjónustu hjá fjármálafyrirtækjum. Hópurinn sem kann leikinn og þekkir réttu aðilanna, í atvinnulífinu og stjórnmálum, til að láta hjólin snúast sér í hag. Á jafnvel miklar eignir erlendis sem þeim tókst að koma í var áður en fjármagnshöft voru sett.
Þeir sem fá að kaupa í fyrirtækjum landsins, oft á afslætti og með lánum, eftir að nýju bankarnir, sem voru endurreistir með handafli ríkissjóðs og peningum og innstæðum almennings eftir bankahrunið, eru búnir að skuldhreinsa þau og gera arðvænleg. Og þeim finnst það ekki koma neinum utan hópsins við hvernig þetta sé gert.
Ef stjórnmálamenn taka ákvarðanir sem eru þeim ekki að skapi þá senda þeir bara tölvupóst og benda þeim á hversu skelfilegt það yrði ef einhverjir peningarlegir hagsmunir fjárfesta myndu skaðast. Því ættu stjórnmálamennirnir að halda sig á mottunni. Ekki rugga bátnum.
Frelsi til að græða verður andlýðræðislegt
Kapitalismi er ráðandi kerfi í heiminum. Og margt í fari markaðarins er frábært. Viðskipti milli landa, aukin sérhæfing og frelsi til athafna hefur aukið lífsgæði og stuðlað að framgangi mannkyns. En hann á sér líka skuggahliðar og þær opinberast fyrst og fremst í því að litlir hópar nýta sér frelsið til að taka sér auð sem þeir eiga ekkert frekara tilkall til en aðrir. Þennan auð nota þeir síðan til að tryggja sér völd og geta þannig haft bein áhrif á þau lög og reglur sem um þá gilda. Því ríkari sem þessi hópur verður því meiri verða völd hans, án þess að nokkur hafi kosið hópinn til valda. Frelsið til að græða meira verður andlýðræðislegt.Það þarf ekki að umbera þessa þróun til að geta sagst hafa trú á markaðnum. Það má hafa þá skoðun að skipting kökunar eigi að vera jafnari og að hagur almennings eigi að ráða frekar en hagur sérhagsmunaaðila þegar ákvarðanir eru teknar. Það má telja að eitt af hlutverkum ríkisvalds sé að auka jafnræði og jöfnuð í samfélaginu. Og þótt lífsgæði hafi almennt aukist í heiminum þá er samt í lagi að tala gegn fjarstæðukenndri misskiptingu. Annað útilokar ekki hitt, þó hreintrúaðir og innmúraðir vilji telja fólk á að svo sé.
Ekki fleiri sápukúlur
Ástæðan fyrir auknum stuðningi við Corbyn, Sanders, íslenska Pírata og ýmsa fleiri víðsvegar um heiminn sem tala með svipuðum hætti er að fólk er orðið þreytt á að stjórnmálamenn segist standa með þeim í orði þegar þeir vinna að mörgu leyti gegn hagsmunum þess á borði. Með upplýsinga- og tæknibyltingunni getur fólk aflað sér mun víðtækari upplýsingar um þessa stöðu og tekið ígrundaða afstöðu. Internetið og snjalltækin hafa minnkað valdið til að stjórna upplýsingaflæðinu frá ráðandi öflum til þegna stórkostlega.Þess vegna vill fólk í auknum mæli kjósa stjórnmálamenn sem tala skýrt og trúa því sjálfir sem þeir segja. Það er komið með nóg af því að láta blása óræðum sápukúlum upp í afturendann á sér á fjögurra ára fresti sem stjórnmálamennirnir toga síðan og teygja í það form sem þeim hentar þegar kemur að því að efna loforðin.
Fólk vill menn (konur eru líka menn) sem segja satt og setur almenning í fyrsta sætið. Það hefur ekki upplifað hefðbundna stjórnmálamenn sem þessa menn.
Þess vegna vill það ekki kjósa þá lengur.