Að undanförnu hafa Reykjavíkurborg, Kópavogsbær og Hafnarfjörður, þrjú stærstu sveitarfélög landsins sem öll eru á því sem kallað er höfuðborgarsvæðið, kynnt rekstrarniðurstöður sem eru mikið áhyggjuefni. Ekki endilega rekstrartölurnar sem slíkar, sem sýna tap í grunnrekstri, heldur miklu frekar mikill kostnaður sem mun fyrirsjáanlega gera stöðu sveitarfélaganna erfiða eftir því sem tíminn líður.
Erfiðleikar
Hækkun á launum og launatengdum gjöldum, vegna nýgerðra kjarasamninga, blasir þar við, og vegur launahækkun kennara þar þungt. Ég er hlynntur því að kennarar fái hærri laun en þeir fá nú, og séu metnir að verðleikum, svo því sé til haga haldið. En til þess að það sé hægt að hækka launin jafn hratt og nú er að stefnt þá þarf að tryggja það að sveitarfélögin geti greitt launin, t.d. með breytingu á tekjustofnum. Það að sveitarfélög fá hlutdeild í veltiskatti, VSK, virðist vera ein leið í þeim efnum, ekki síst í ljósi þess hversu mikil áhrif ferðaþjónustan er að hafa á rekstur sveitarfélaga.
Óttast bakreikninga
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, gerði stöðuna að umtalsefni í tilkynningu þegar árshlutareikningur Kópavogs var birtur á dögunum, en þá var 128 milljóna króna tap á rekstrinum. „Miðað við árferði þá erum við nokkuð sátt. Launaáætlun gengur eftir í stórum dráttum og þá höfum við nú rétt eins og undanfarin ár lagt áherslu á aðhald í rekstri. Hins vegar þá óttast ég bakreikninga vegna nýrra kjarasamninga, breytinga á starfsmati og endurreiknaðra lífeyrisskuldbindinga sem munu hafa áhrif á niðurstöðu ársreiknings Kópavogsbæjar,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogsbæjar.
Þjappa í bekki í skólum?
Þetta er eitt dæmi af mörgum sem má taka til, þegar kemur að rekstrarvanda sveitarfélaga í augnablikinu. Á Reykjavíkurborg er staðan mikið áhyggjuefni, og ljóst að róttækar breytingar þarf að gera á rekstrinum til þess að ná endum saman og styrkja grunnreksturinn. Miðað við óbreytta stöðu, og hækkanir á launakostnaði, þá munu fjölskyldur líklega finna fyrir þessu beint þegar kemur til uppsagna hjá kennurum og fjölgunar í bekkjum. Sú staða virðist blasa við að óbreyttu, án þess að nokkur sé að gefa því sérstakan gaum.
Í þessum sveitarfélögum býr ríflega helmingur landsmanna, tæplega 180 þúsund manns, og hefur hvert sveitarfélag sína opinberu stjórnsýslu og sjálfstæðan fjárhag. Sé Seltjarnarnesbæ og Garðabæ bætt við, er íbúafjöldinn um 201 þúsund manns.
Þvert á bæjarmörk
Höfuðborgarsvæðið er einn vinnumarkaður. Fólk býr í einu sveitarfélagi en vinnur í öðru. Uppspretta tekna og gjalda - reksturinn að grunni til - er þvert á bæjarmörk.
Hagræða má stórkostlega í rekstri á höfuðborgarsvæðinu með því að sameina reksturinn og opinbera stjórnsýslu þessara sveitarfélaga í eitt samræmdan stað. Það hefði líka þau áhrif að yfirsýnin yrði betri og skýrari, enda ekki margir að horfa á stöðuna og mynda sér skoðun á því hvernig hlutirnir eiga að þróast. Skaðsemi þess hefur sést glögglega þegar er verið að reyna þétta byggð á einum stað, þá er nágrannasveitarfélagið að gera eitthvað allt annað hjá sér. Fögur fyrirheit um samstarf er ekki nóg. Það þarf að skera niður í yfirlaginu, frekar en í þjónustunni við fólkið, og þar eru stjórnmálamennirnir augljóslega einn fyrsti kosturinn. Þeir munu líklega aldrei vilja leggja niður sín störf, en fátt virðist benda til þess að þörf sé fyrir sexfalt lag af yfirlagi og þjónustustýringu fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins.
Sameining sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er hagsmunamál fyrir landið allt, og ætti að geta styrkt hagkerfið mikið. Nauðsynlegt er að þróa byggð á höfuðborgarsvæðinu í hagkvæmari átt en verið hefur, meðal annars með þéttingu byggðar, mun minni áherslu á bílaumferð og góðri þjónustu við fólk. Sá sem getur rökstutt það vel, að nauðsynlegt sé að hafa sexfalt yfirlag opinberrar þjónustu á 201 þúsund íbúa sameiginlegum vinnumarkaði, ætti að stofna fyrirtæki og selja þjónustu sína til borgarsamfélaga um allan heim. Ef það er lausnin, þá er það milljón dollara hugmynd, að minnsta kosti.
Einföldun og samkeppni um faglegt starf
Ein rök sem stundum heyrast er að „samkeppni“ sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að þjónustu þurfi að vera virk, svo að fólki hafi val um ýmislegt sem henni fylgir, og sveitarfélögin séu á tánum.
Þetta er einföldun, vegna þess að í þessu sjónarmiði er það gefið í upphafi, að aðeins sé hægt að hafa stefnumörkun og áherslur, til dæmis í skólastarfi, á tilteknum svæðum, með því að hafa sérstök sveitarfélög sem byggja á þeim hugmyndum. Þetta er ekki rétt.
Samkeppni (Sem er ekki endilega besta hugtakið í þessari umræðu en er stuðst við hér) innan sveitarfélaga og hverfa, er lykillinn að góðri þróun í mörgum borgarsamfélögum, þar sem hin pólitíska leiðsögn, til dæmis aðalnámskrar og regluverk um félagslega þjónustu, gera einstökum svæðum og hverfum kleift að nýta sína styrkleika og einblína á að bæta veikleika. Samkeppnin er um faglega þætti, sértækar áherslur innan hvers svæðis. Viðbótarlag í opinberri stjórnsýslu, með fjölda kjörinna fulltrúa og bæjarstjóra, er engin nauðsyn til að styrkja þjónustuna, heldur miklu frekar að yfirsýnin sé skýr og áherslan sé á samkeppni um faglegt starf. Það er hið rétta aðhald sem á að vera inn í hverri þjónustueiningu, einkum og sér í lagi í skólastarfi.
Víkja til hliðar tilfinningum og rómantík
En hvernig er hægt að nálgast umræðu um þessi mál, án þess að tilfinningar og rómantík í sögu hvers sveitarfélags á höfuðborgarsvæðinu steli rökræðunni? Ég held að líklega sé besta leiðin, og skoða höfuðborgarsvæðið út frá þeirri staðreynd, að þetta er eitt og sama þjónustusvæðið. Vinnumarkaður, skólasvæði, samgöngusvæði, þjónustusvæði. Með því að brjóta upp efsta lagið í opinberu stjórnsýslunni, en viðhalda faglegri þekkingu á hverju svæði, þá má styrkja samfélögin bæði hvað rekstur varðar og faglegt starf.