Fyrir utan gluggann minn syngur í nagladekkjum fjölda bíla á skraufþurru malbikinu. Ég þarf að velta því fyrir mér hvort ég eigi ekki að vera með grímu í mínum daglega göngutúr. Þökk sé Covid er ég alla vega með nokkrar í handraðanum. En svifrykið er hættulegt, eins og sjá má t.d. í þessari grein í Læknablaðinu frá síðasta ári. Það fer inn í lungun þegar við öndum og minnstu agnirnar komast meira að segja inn í blóðrásina. Hættan er sérstaklega mikil fyrir þá sem viðkvæmir eru fyrir, asma- og lungnaveika. En þetta er eitur fyrir okkur öll.
Megnið af svifrykinu stafar af nagladekkjum eins og sjá má hér í glænýrri skýrslu. Það er staðreynd sem liggur fyrir. Samt er orðræðan um þessa óværu í einhverjum furðulegum hugmyndafræðilegum skotgröfum. Það er eins og sumir telji það vera mannréttindi að eitra fyrir samborgurum sínum og slíta götunum með tuttuguföldum hætti miðað við þá sem aka um á ónegldum dekkjum. Sjálfur hef ég ekki notað nagladekk í áratugi, aðeins góð vetrardekk. Hér í borginni er það ekkert mál. Ég hef farið að vetrarlagi norður í land, hringinn í kringum landið á fólksbíl og jepplingi og alltaf komist allra minna ferða. Auðvitað er það ekki einhlítt, það getur verið brjálað veður og mikil ófærð vegna snjóa, en hvaða gagn gera nagladekk í slíku færi?
Gjald á nagladekk sem rynni til sveitarfélaganna kæmi líka á móti, þau gætu þá greitt fyrir viðgerðir á götum fyrir tekjurnar, jafnvel farið í mótvægisaðgerðir eins og „götuþvott“. Akureyringar voru að fjárfesta í götusópara fyrir 40 milljónir króna sem allir útsvarsgreiðendur þar punga út fyrir. Á sama tíma gefur lögreglan á Akureyri út þá tilkynningu að ekki verði sektað fyrir ólöglega nagladekkjanotkun fram í maí. Hvaða heimild hefur lögreglan til þess að velja sér brot sem ekki er sektað fyrir? Alvarlegast er að svifryksmengun er mikið vandamál á Akureyri og heilsufarshætta og samt er látið eins og að það séu mannréttindi að menga fyrir samborgurum sínum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur líka gert sig seka um sams konar linkind á kostnað okkar allra. Þetta er í raun fáheyrt að mínu mati og mál að linni. Það eru ekki mannréttindi að aka um á nagladekkjum og lágmark að þeir sem gera það borgi fyrir það tjón sem þeir valda.
Höfundur er prófessor í þýðingarfræði við Haskóla Íslands.