Satoshi Omura, sem hlaut nóbelsverðlaun í læknisfræði árið 2015, ritaði ásamt þremur öðrum vísindamönnum yfirlitsgrein um klínískar rannsóknir á virkni ivermectin gegn COVID-19. Greinin heitir Global trends in clinical studies of ivermectin in COVID-19 og er birt í mars hefti THE JAPANESE JOURNAL OF ANTIBIOTICS. Greinin fjallar ítarlega um niðurstöður 42 klínískra rannsókna á virkni ivermectin. Rannsóknirnar höfðu teymi lækna í mörgum löndum framkvæmt og náðu þær samtals til um 15 þúsund sjúklinga. Með hliðsjón af þessum rannsóknum telja Satoshi og félagar óhætt að fullyrða að ivermectin hafi góða virkni gegn COVID-19. Lyfið veiti 89% vörn gegn smiti og það bæti útkomuna hjá 83% sjúklinga.
Fleiri yfirlitsrannsóknir hafa komist að svipaðri niðurstöðu eftir að skoða tugi rannsókna á virkni ivermectin t.d. Andrew Hill ofl. Meta-analysis of randomized trials of ivermectin to treat SARS-CoV-2 infection birt 19.1.2021. Niðurstaða þeirra er:
„Ivermectin was associated with reduced inflammatory markers (C-Reactive Protein, d-dimer and ferritin) and faster viral clearance by PCR. Viral clearance was treatment dose- and duration-dependent. In six randomized trials of moderate or severe infection, there was a 75% reduction in mortality (Relative Risk=0.25 [95%CI 0.12-0.52]; p=0.0002); 14/650 (2.1%) deaths on ivermectin; 57/597 (9.5%) deaths in controls) with favorable clinical recovery and reduced hospitalization."
Einnig má benda á yfirlitsrannsókn Kory ofl. Review of the Emerging Evidence Demonstrating the Efficacy of ivermectin in the Prophylaxis and Treatment of COVID-19 16.1.2021 Niðurstaða þeirra er:
„In summary, based on the existing and cumulative body of evidence, we recommend the use of ivermectin in both prophylaxis and treatment for COVID-19. In the presence of a global COVID-19 surge, the widespread use of this safe, inexpensive, and effective intervention would lead to a drastic reduction in transmission rates and the morbidity and mortality in mild, moderate, and even severe disease phases. The authors are encouraged and hopeful at the prospect of the many favorable public health and societal impacts that would result once adopted for use."
Auk hins mikla fjölda klínískra rannsókna og yfirlitsrannsókna á virkni ivermectin er komin veruleg reynsla af notkun lyfsins gegn OVID-19. Lyfið hefur verið notað í 30 löndum að einhverju marki og má ætla að nú þegar hafi yfir milljón COVID-19 sjúklinga fengið ivermectin.
Hvers vegna er ivermectin ekki notað hér?
Samkvæmt upplýsingum frá yfirlækni smitsjúkdómadeildar Landspítalans fá COVID-19 sjúklingar ekki nein veirulyf nema þeir verði svo veikir að þeir þurfi innlögn á spítala. Fari svo, er þeim eftir atvikum gefið veirulyfið remdesivir. Remdesivir er viðurkennt af Lyfjastofnun Evrópu (EMA) til notkunar gegn COVID-19. Fimm daga remdesivir meðferð kostar $2.340 samkvæmt upplýsingum framleiðandans Gilead. Lyfið þarf að gefa í æð. WHO ráðleggur reyndar gegn notkun remdesivir og segir ekki nægilega sannað að remdesivir auki lífslíkur sjúklinga.
Aðspurður, hvers vegna ivermectin sé ekki notað hér á landi, vísar yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans á Lyfjastofnun Evrópu (EMA). Þann 22. mars sl. gaf EMA út tilmæli um að ekki skyldi nota ivermectin til lækninga á COVID-19 nema í rannsóknarskyni og telur að ekki séu óyggjandi sannanir fyrir virkni lyfsins gegn COVID-19.
„Ekki hefur verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að lyfið gagnist sem meðferð við eða til að koma í veg fyrir COVID-19."
Á sömu síðu er einnig að finna upplýsingar um hverjir taki ákvarðanir um lyf við COVID-19:
„Hér á landi eru bæði forvarnir gegn og sjúkdómsmeðferð við COVID-19 á forræði sóttvarnalæknis og smitsjúkdómasérfræðinga Landspítalans, og reynt eftir fremsta megni að samræma aðgerðir fyrir íslenska heilbrigðiskerfið í heild. Umræddir aðilar hafa til þessa ekki falast eftir heimild til þess að nota lyfið ívermektín utan samþykktra ábendinga lyfsins sem forvörn gegn eða meðferð við COVID-19."
Þrátt fyrir afstöðu EMA hafa þrjú ESB ríki; Portúgal, Slóvakía og Tékkland veitt læknum undanþáguheimildir til að ávísa ivermectin til COVID-19 sjúklinga. Lyfjastofnun Íslands hefur hafnað slíkum ávísunum.
Hvers vegna er remdesivir samþykkt af EMA en ekki ivermectin?
Til að fá markaðsleyfi hjá Lyfjastofnun Evrópu þarf framleiðandi lyfs að byrja á því að fjárfesta í klíniskum rannsóknum sem uppfylla ítarlegar kröfur EMA. Ivermectin er búið að vera til í 30 ár, einkaleyfið er útrunnið, mörg fyrirtæki framleiða lyfið og verð þess mjög lágt. Óvíst er að lyfjafyrirtæki gæti endurheimt það fjármagn sem þarf til að afla markaðsleyfis hjá EMA. Lyfjaframleiðandinn Merck og co. sem fann upp ivermectin, hefur upplýst að það sé með nýtt veirulyf í þróun gegn COVID-19. Með nýju lyfi fæst einkaleyfisvernd og möguleiki til að hagnast.
Lyfjaeftirlit hafa ákaflega mikilvægu hlutverki að gegna. Þau vernda sjúklinga gegn hættulegum og gagnslausum lyfjum sem annars gætu verið á markaði. En svo virðist sem þessi varnarmúr sé orðinn svo hár að einungis dýr lyf eigi möguleika á að komast yfir hann. Ódýr lyf komast ekki á markað jafnvel þótt þau gætu nýst sjúklingum. Finna þarf einhverja lausn á þeim vanda.
Þær fjölmörgu rannsóknir sem sýnt hafa fram á virkni ivermectin gegn COVID-19 hafa ekki verið gerðar af lyfjafyrirtækjum. Þess í stað hafa læknar og vísindamenn unnið þær að eigin frumkvæði, eftir efnum og aðstæðum hverju sinni, með hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi. Án aðkomu og áhuga framleiðanda munu þessar rannsóknir vart leiða til markaðsleyfis fyrir ivermectin.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) og ivermectin
Ivermectin hefur verið á lista WHO yfir nauðsynleg lyf gegn sníklum í fólki. Í þau 30 ár sem lyfið hefur verið til, hafa hátt í þrír milljarðar skammta verið notaðir. Áhættuprófíll lyfsins er því einkar vel þekktur og það sagt mjög öruggt.
Í lok mars birti WHO þá ráðleggingu að nota bæri ivermectin aðeins í klínískum rannsóknum. WHO sagði fyrirliggjandi gögn þá ekki gefa nægt tilefni til að fullyrða um gagnsemi lyfsins gegn COVID-19.
Afstaða WHO byggist á vinnu nefndar sem skoðaði niðurstöður 16 rannsókna á virkni ivermectin gegn COVID-19, sem náðu til 2407 sjúklinga. Rannsóknirnar bentu raunar til mjög góðrar virkni ivermectin, þar á meðal 80% lægri dánartíðni. WHO nefndin mat gæði þessara jákvæðu niðurstaðna „Mjög lág" vegna „hættu á hlutdrægni og ónákvæmni." Rannsóknirnar sextán voru samt ekki á vegum lyfjafyrirtækja, heldur lækna sem unnu þær að eigin frumkvæði og hafa vart nokkra fjárhagslega hagsmuni af því að bjaga niðurstöðurnar á nokkurn hátt.
Nær þrjátíu lönd hafa tekið ivermectin í notkun gegn COVID-19
Á vefsíðunni ivmstatus.com er uppfærður listi yfir þau lönd sem hafa tekið ivermectin í notkun gegn COVID-19. Þess ber að geta að í mörgum þessara landa er notkunin svæðisbundin eða mjög takmörkuð og víða háð skilyrðum.
Þann 12. apríl 2021 voru eftiralin lönd á listanum: Argentína, Bangladesh, Belize, Bolivia, Brazilía, Búlgaría, Tékkland, Dominíska lýðveldið, Egyptaland, El Salvador, Gvatemala, Hondúras, Indland, Íran, Japan, Líbanon, Mexíkó, Níkaragúa, Nígería, Norður Makedónía, Panama, Perú, Filippseyjar, Portúgal, Slóvakía, Suður Afríka, Bandaríkin, Venezúela og Simbabve.
Notkun ivermectin er í þessum löndum tilkomin vegna frumkvæðis og baráttu lækna fyrir notkun lyfsins en ekki lyfjafyrirtækja. Yfirvöld hafa í sumum þessara landa stutt lækna í notkun ivermectins en víða hafa þau látið undan ákalli lækna með semingi og takmörkunum.
Athygli vekur að á listanum eru þrjú ESB ríki; Tékkland, Slóvakía og Portúgal. Í Portúgal fá læknar að ávísa ivermectin sem undanþágulyfi gegn COVID-19 en þá á eigin ábyrgð og sjúklings. Læknar þar í landi segja lyfið skila mjög góðum árangri hjá sjúklingum. Heilbrigðisráðuneyti Tékklands ákvað í mars 2021 að heimila læknum þar í landi að nota ivermectin gegn COVID-19 sem undanþágulyf. Sjúklingar þurfa að veita upplýst samþykki vilji þeir taka lyfið. Ráðuneytið tekur fram að lyfið sé öruggt en gögn skorti um að lyfið gagnist gegn COVID-19. Heilbrigðisráðuneyti Slóvakíu ákvað í janúar 2021 að heimila notkun ivermectin gegn COVID-19 til sex mánaða.
Vegna áhugaleysis lyfjaframleiðenda og stjórnvalda hafa læknar víða myndað samtök til að hvetja til notkunar ivermectin gegn COVID19. Læknasamtökin Front Line COVID Critical Care Alliance (FLCCC) í Bandaríkjunum hafa gefið út mikið efni um ivermectin og hefur boðskapurinn greinilega borist til lækna í fleiri löndum. FLCCC hafa sömuleiðis gefið út ítarlegar leiðbeiningar um meðferð COVID smitaðra og hvetja eindregið til þess að meðferð við sjúkdómnum hefjist strax við greiningu til að lágmarka það tjón sem veiran veldur sjúklingum.
Ivermectin gæti orðið mikilvægt vopn í baráttunni hér á landi
COVID-19 sjúkdómurinn getur verið lífshættulegur, einkum fyrir aldraða. Dánartíðni vegna COVID-19 hér á landi er 15,6% hjá aldurshópnum 80-89 ára. Vísbendingar eru um að allt að helmingur þeirra sem sýkjast glími við langvarandi eftirköst. Rannsóknir munu hafnar á því hvort ivermectin geti orðið þeim að gagni.
Þótt bóluefnin veiti allt að 90% gegn alvarlegum sjúkdómi er enn óljóst hve hátt hlutfall bólusettra geti hugsanlega borið áfram smit. Takmörkuð framleiðslugeta, vandamál í framleiðslu og óvæntar aukaverkanir hafa tafið bólusetningar. Enn er óljóst hvenær hjarðónæmi næst eða hvort veiran nær að stökkbreytast undan þeim mótefnum sem bóluefnin veita. Áfram verður því brýn þörf fyrir veirulyfið ivermectin.
Sé það rétt hjá Satoshi Omura og félögum að ivermectin komi að miklu gagni sem forvörn og meðferð við COVID-19, gæti lyfið mögulega skapað stjórnvöldum kærkomið svigrúm til að slaka fyrr en ella á þeim sóttvarnaraðgerðum sem valda efnahag landsins búsifjum.
Höfundur er rekstrarhagfræðingur.