Stjórnvöld gætu nú, staðið með pálmann í höndum, þegar kemur að því að móta nýtt bankakerfi. Íslenska ríkið á 98 prósent hlut í Landsbankanum, þrettán prósent í Arion banka, fimm prósent í Íslandsbanka, Íbúðalánasjóð að fullu og síðan minni stofnanir sem lána peninga, eins og Byggðastofnun, sömuleiðis.
Ef áformin ganga eftir, sem nú eru á teikniborðinu, þá mun ríkið eiga um 70 prósent af fjármálakerfinu, þegar allt eignarhald Íslandsbanka verður líka komið á hendi ríkisins.
Þrjú atriði koma upp í hugann, á þessum tímapunkti, þegar endurskipulagningin á fjármálakerfinu er annars vegar
1. Nú er kjörið tækifæri til þess að minnka bankakerfið, slíta á milli viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi, og færa fljótt allan óskyldan rekstur frá bönkunum. Það er ekkert sem segir að bankar þurfi að halda úti í stórum eignarstýringum, miðlunargólfum eða annarri starfsemi sem ekkert tengd grunnhlutverki banka. Bankakerfi sem er öðru fremur fjármagnað með innlánum í íslenskum krónum, og þar sem þrautavaralánveitandinn er með peningaprentunarvald í íslenskum krónum, verður að takmarka áhættuna sem allra mest. En þessi verkefni, sem er verið að sinna utan kjarnastarfseminnar í bankanum, fara ekki neitt af markaðnum. Þau munu finna sér farveg og stað, utan bankanna, eftir því sem eftirspurn kallar á. Þar eiga þau líka betur heima.
Aðkallandi er að endurskilgreina starf Íbúðalánasjóðs, eða hreinlega að leggja hann niður. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Seðlabankinn hafa ítrekað bent á þetta, en stjórnvöld hafa ekkert gert, annað en að samþykkja síendurtekið að leggja sjóðnum til milljarða úr ríkissjóði. Nú er tækifærið til þess að taka á vanda sjóðsins, hratt og skipulega.
Þegar þessu er lokið, geta stjórnvöld tekið ákvörðun að selja hlutabréf til einkaaðila með gagnsæjum hætti, ef vilji er til.
2. Þó líklegt megi telja, að sameiningar og hagræðingaraðgerðir á fjármálamarkaði muni fækka störfum um nokkur hundruð, þá er það vafalítið ekki slæmt fyrir hagkerfið til lengdar. Eitt af því sem lítið hefur rætt um, og kannski líka of lítið rannsakað, er hvaða áhrif hrun fjármálakerfisins hafði á nýsköpunar- og frumkvöðlalandslagið hér á landi. Ég hef grun um að hrunið hafið verið eitt það besta sem komið hefur fyrir nýsköpunarstarf hér á landi, þar sem fólk, sem áður hafði starfað í fjármálakerfinu, fór að skapa sér starfsumhverfi á öðrum vettvangi. Mikil þekking, oft á tæknilegum og tölfræðilegum atrðum, komst þá á hreyfingu og lifnaði við utan bankanna. Mörg dæmi má nefna um nýsköpunarstarf þar sem fyrrverandi starfsmenn bankanna hafa komið að stofnun fyrirtækja sem hafa náð miklum árangri, hér á landi og utan landssteinanna. Góð og mikil þekking nýtist alltaf.
3. Augljóst er að stjórnarflokkarnir, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, deila um hvernig eigi að endurskipuleggja fjármálakerfið. Framsóknarflokkurinn vill breyta innviðunum mikið, er óhætt að segja, meðal annars takmarka eða afnema verðtryggingu lána, og breyta auk þess hlutverkinu þannig, að það sé fyrst og síðast að sinna grunnhlutverki um inn- og útlánastarfsemi. Róttækari hugmyndir um grundvallarbreytingu á peningamálakerfinu og stjórn þess, hafa verið mikið ræddar, og hefur Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, ekki síst verið leiðandi í þeirri umræðu innan flokksins. Skýrsla hans er til vitnis um það, en sá fyrirvari var skýr í skýrslunni að hún væri aðeins innlegg í umræðu um peningamálin í landinu.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki sýnt nægilega á spilin um hvernig hann vill hafa fjármálakerfið í landinu, nú þegar endurreisn þess er að ljúka og mótun nýs kerfis að taka við. Vill hann aðskilja viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi til framtíðar, eða vill hann halda stöðunni óbreyttri? Vill hann takmarka ríkisábyrgð á bankastarfsemi, eða vill hann það ekki? Erfitt er að átta sig á því hver afstaða flokksins er til þessara mikilvægu mála.
Ríkisstjórnin virðist ekki vera með mótaða sýn í þessum málum, og það sama má raunar segja um stjórnarandstöðuna, sem hefur heldur ekki nákvæmlega skýrt hvernig fjármálakerfi hún vill hafa í landinu. Einstaka tillögur um breytingar á kerfinu, eru ekki nægilega yfirgripsmiklar, svo það sjáist glitta í heildarræna sýn. Það þarf að koma fram með nákvæmlega útfært plan um hvernig kerfið á að vera í framtíðinni. Kjósendur eiga það skilið eftir það sem á undan er gengið.