Það hefur varla farið framhjá neinum að gríðarleg losun gróðurhúsalofttegunda síðustu 150 ár hefur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Heimsbyggðin verður að láta af sókn sinni í ofurkraftana sem jarðefnaeldsneyti (olía, kol og jarðgas) hafa veitt mannkyninu og finna nýjar leiðir til að starfa, ferðast, skapa verðmæti og blómstra.
Landvernd lagði til árið 2019 að Ísland yrði fyrsta landið í heiminum til að verða laust við jarðefnaeldsneyti og gaf út skýrslu sl. sumar um hvernig best sé að ná markinu. Við erum vel í stakk búin, með langmestu raforkuframleiðslu heims á íbúa, þjóðin vel menntuð og upplýst og innviðir sterkir. Tillagan hefur ratað inn í mörg opinber skjöl eins og orkustefnu fyrir Ísland, nýja eldsneytisspá og nú síðast sjálfan stjórnarsáttmálann og er það mikið fagnaðarefni. Hins vegar er ekki sama hvernig markmiðinu um jarðefnaeldsneytislaust Ísland verður náð. Þrátt fyrir að um sé að ræða mikla áskorun fylgir henni líka tækifæri til þess að gera vel í mjög stórum málaflokkum.
Nýtum rafmagnið beint
Á ársfundi Samorku 2020 kom fram að fyrir orkuskiptin á Íslandi þurfi 1200 MW, án millilandaflugs og alþjóðasiglinga. Í forsendum er gert ráð fyrir því að hér verði 3,5% hagvöxtur, áframhaldandi fólksfjölgun og að ekki verði ráðist í aðgerðir til að draga úr orkunotkun í samgöngum, fiskveiðum, byggingariðnaði eða innanlandsflugi. Þegar kemur að rafeldsneyti er gert ráð fyrir því að farin verði svokölluð „blönduð leið“, í henni felst að framleiddar verði á Íslandi nokkrar mismunandi tegundir rafeldsneytis. Fyrir svo lítið samfélag er það auðvitað mjög óhagkvæmt. Út frá orkunotkun og innviðum yrði hagstæðast að sem mest af orkuskiptunum byggði á því að nýta rafmagn beint en fari ekki í gegnum rafeldsneyti þar sem orkunýtnin dettur niður í allt að 18%. Fyrir 2040 gæti bein notkun raforkunnar orðið fýsileg í öllum geirum sem undir eru í greiningunni, nema fiskiskipum.
Með því að nýta rafmagnið beint en treysta ekki á rafeldsneyti nema fyrir fiskiskipaflotann og mjög stór tæki mætti ná þessum 1200 MW niður í 600 MW. Það myndi þýða miklar breytingar í atvinnugreinum sem treysta nú á jarðefnaeldsneyti eins og ferðaþjónustuna, landflutninga, landbúnað og byggingariðnaðinn. Til að ná því þyrfti hið opinbera fljótlega að setja kröfur á þessar greinar um umskiptin því fjárfestingar í tækjum eru gerðar til langs tíma svo huga þarf að þeim strax.
Rafmagnaður byggingariðnaður og samgöngur, bæði á landi og í lofti (innanlandsflug), eru vel möguleg og fýsileg 2040. Með áherslu á að nýta rafmagnið beint í stað þess að taka blandaða leið (sbr. kynningu Samorku) má strax lækka þörfina á raforkuframleiðslu vegna orkuskipta um helming.
Orkusparnaður er hagkvæmasta aðgerðin
Aðgerðir sem miða að því að spara orku í samgöngum lækka orkuþörf vegna orkuskipta verulega. Þar má t.d. nefna fjölbreytta ferðamáta eins og göngur, hjólreiðar og almenningssamgöngur. Til þess að draga úr orkunotkun í samgöngum þarf viðsnúning í því hvernig Íslendingar og þeir ferðamenn sem hingað koma flytja sig á milli staða. Bæta þarf innviði fyrir gangandi, hjólandi og almenningssamgöngur en setja á aðgerðir sem letja orkufrekar samgöngur. Auðvelda þarf ferðamönnum að nýta aðra samgöngumáta en bílaleigubíla, til dæmis með bættum almenningssamgöngum um landið og álögum á bílaleigur. Mikið framboð er á rútum sem ganga fyrir rafmagni eða metani en metan frá ruslahaugum er orkuuppspretta sem mikilvægt er að nýta til fulls.
Hversu mikla orku má spara með fjölbreyttum ferðamáta fer eftir því hversu kröftugar aðgerðirnar til að ýta undir hann verða.
Strandflutningar eru orkulega mjög hagkvæmur kostur til að flytja vörur milli landshluta en með því yrði einnig dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda og sliti á vegum með tilheyrandi samdrætti í svifryksmengun og viðhaldskostnaði vega. Þá eru þegar á markaði vörubílar sem ganga fyrir rafmagni og nýtast í styttri vegalengdir.
Mikil tækifæri eru í betri orkunýtni bygginga og uppsetningu varmadæla á köldum svæðum. Þá verður mikið varmatap í stóriðjuverum en setja má upp varmaskipta við þau, til dæmis á Reyðarfirði þar sem engin hitaveita er. Með þessu má spara mikla orku við húshitun en hún er mjög orkufrek. Til þess að svo megi verða fyrir 2040, þarf að fara í að breyta laga- og reglugerðaumhverfi strax.
Í stuttu máli eru mikil tækifæri í því að spara orku og bæta orkunýtni. Það er og verður hagkvæmasta aðgerðin til að afla orku til langs tíma.
Forgangsröðun orkusölu og flutningskerfis þarf að breytast
Mengandi stóriðja notar 80% raforkunnar sem seld er á Íslandi og losar jafnframt 39% af þeim gróðurhúsalofttegundum sem Ísland losar fyrir utan losun frá landi. Markmiðið með jarðefnaeldsneytislausu Íslandi er að sjálfsögðu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og því ætti að forgangsraða orkusölunni til starfsemi sem er kolefnishlutlaus.
Orkunotkun stóriðjunnar er mjög stöðug yfir allt árið en framleiðslugeta íslensku raforkuveranna sveiflast mjög. Langmest er raforkuframleiðslan á sumrin þegar mikið rennsli er í ánum – en minnst í svartasta skammdeginu. Ef Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur, sem eru í eigu almennings á Íslandi, gætu selt orku til framleiðslu rafefnaeldsneytis fyrir fiskiskip og mjög stór tæki þegar raforkuframleiðslan er mun meiri en önnur eftirspurn má draga úr orkuþörf fyrir rafefnaeldsneytisframleiðslu verulega.
Uppbyggingu flutningskerfis raforku hefur verið forgangsraðað í þágu stórnotenda en minni byggðarlög og almennir notendur setið á hakanum. Draga verður úr töpum í flutningskerfinu sem eru nú um 5% og forgangsraða framkvæmdum í þágu almennings.
Réttlát umskipti – skiljum enga eftir
Í öllum þeim breytingum sem þarf að gera á íslensku samfélagi til þess að Ísland geti orðið laust við jarðefnaeldsneyti mega byrðar viðkvæmra hópa ekki þyngjast. Meginmarkmiðið er ekki að skapa nýjar leiðir fyrir fjármagn að vaxa, þó það sé vissulega einn af drifkröftum breytinganna. Breytingarnar verður að hvetja áfram með hagrænum hvötum, eins og niðurfellingu á virðisauka og hagrænum lötum eins og kolefnisgjaldi.
OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa gefið út að kolefnisgjaldið verði að hækka til þess að ná Parísarsamkomulaginu. Í þeim löndum sem kolefnisgjald hefur verið notað hefur það ekki haft neikvæð áhrif á efnahaginn eins og reynslan frá Svíþjóð og British Colombia sýnir. Nauðsynlegt er að ekki sé um varanlegan tekjustofn fyrir ríkið að ræða, heldur verði fjármagninu beint aftur út í samfélagið, til dæmis með hækkun persónuafsláttar eða árlegri ávísun á alla íbúa landsins. Þannig má tryggja að þau efnaminni sem treysta nú á jarðefnaeldsneyti verði ekki fyrir lífsgæðaskerðingu þegar kolefnisgjald verður sett á. Atvinnuvegir mega ekki vera undanþegnir kolefnisgjaldi.
Náttúra Íslands er óendanlega dýrmæt
Síðast en ekki síst verður að gæta að íslenskri náttúru við umskiptin yfir í jarðefnaeldnseytislaust Ísland.
Kyngimögnuð víðerni, einstakar jarðmyndanir, fagrir fossar og kröftug jarðhitasvæði eru verðmæti sem Íslendingum hefur verið falið að gæta. Íslensk náttúra á engan sinn líka í heiminum enda segja langflestir ferðamenn sem hafa sótt Ísland heim að hún sé meginástæða heimsóknarinnar. Þessi verðmæti eru líka efnahagsleg. Á Íslandi eru 43% af þeim óbyggðu víðernum sem óspilltust eru í Evrópu. Gæðin sem í náttúrunni felast gera samfélag okkar og tilveru ríkari, betri og innihaldsríkari.
Áskoranir heimsbyggðarinnar tengjast ekki síður náttúruvernd en loftslagsvernd. Þannig hefur aðalritari Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, ítrekað rætt um að hrun náttúrunnar og vistkerfa sé yfirvofandi með hræðilegum afleiðingum fyrir samfélag manna. Skýrsla ráðgjafafyrirtækisins McKinsey sýnir að verndun land- og hafsvæða er áhrifarík loftslagsaðgerð, bætir lýðheilsu og skapar fjölda starfa.
Ný orkuver spilla íslenskri náttúru og í tilraunum okkar til þess að losna við jarðefnaeldsneytið verðum við að beita öllum ráðum til þess að vernda hana eins og framast er unnt. Það má gera með bættri orkunýtni, orkusparnaði, stækkun núverandi virkjana og skynsamlegri forgangsröðun orkusölu og -dreifingar. Þá er nauðsynlegt að hafa skýra yfirsýn yfir þetta risaverkefni og að markmið með jarðefnaeldsneytislausu Íslandi sé alltaf haft að leiðarljósi. Eingöngu þegar viðunandi árangri hefur verið náð í öllu ofantöldu er ástæða til að skoða ný orkuver.
Risaverkefni sem hefur alla burði til að heppnast vel
Með vandlegu skipulagi og með því að hafa markmiðið með orkuskiptunum alltaf í huga getur jarðefnaeldsneytislaust Ísland orðið til þess að bæta íslenskt samfélag. Markmiðið er ekki að reisa fleiri orkuver til að skapa gróða heldur að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda án þess að þyngja byrgðar viðkvæmustu hópanna eða valda óafturkræfum skaða á náttúru Íslands. Orkusparnaður, orkunýtni og fullnýting rafmagns sem aðalorkugjafa ásamt stækkunum á núverandi virkjunum eru allt forsendur fyrir því að vel takist til. Fyrst þegar góður árangur hefur náðst í þessum atriðum er ástæða til að skoða byggingu nýrra orkuvera eins og vindorkuvera. Það verður að gera á faglegan og gagnsæjan hátt með sjálfbærni til langs tíma að leiðarljósi. Þannig verður hagsmuna almennings, allrar þjóðarinnar, og komandi kynslóða best gætt.