Nú líður að lokum þessa árs. Nýtt kjörtímabil hófst á árinu og stimplaði Flokkur fólksins sig aftur inn í borgarstjórn. Vonir stóðu til að fá tækifæri til að komast í meirihluta borgarstjórnar til þess að geta tekið þátt í ákvörðunum sem leiða mættu til bættra lífskjara hinna verst settu og þeirra sem standa höllum fæti. Það varð hins vegar ekki hlutskipti borgarfulltrúa Flokks fólksins. Fáum óraði fyrir hversu slæm staða borgarinnar er í kjölfar stjórnarsetu Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og VG. Allt of stór hópur barna, öryrkja og eldra fólks á um sárt að binda og líður ekki vel. Of margar fjölskyldur og einstaklingar geta ekki séð sér farborða og hafa áhyggjur af grunnþörfum sem eru fæði, klæði og húsnæði.
Vissulega er ekki allt svart. Ýmislegt gengur vel í Reykjavík og margir hafa það gott. Börnum upp til hópa líður vel í sínum aðstæðum og mörgum fjölskyldum og eldra fólki finnst gott að búa í Reykjavík.
Óveðursský hafa hrannast upp
Þrátt fyrir það hafa óveðursský hrannast upp undanfarin ár sem rekja má til slakrar stjórnunar borgarinnar. Fátækt hefur aukist og sýna rannsóknir að vanlíðan barna, öryrkja og ákveðins hóps eldri borgara vex. Fjárhagur Reykjavíkurborgar hefur tekið lóðrétta stefnu niður á við. Lengi hefur verið ljóst hvert stefndi og sýndu vísbendingar það áður en faraldurinn skall á. Flokkur fólksins hefur bent á óábyrga fjármálastjórnun Reykjavíkurborgar frá árinu 2018. Ákveðin svið t.d. þjónustu- og nýsköpunarsvið hafa nánast leikið sér með útsvarsfé borgarbúa. Einnig má nefna mikla þenslu á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Það hlaut að koma að skuldadögum.
Fátækt er staðreynd
Ógn fátæktarinnar leggst mismunandi á fjölskyldur en verst á börnin í þeim fjölskyldum sem bágast standa. Iðulega eru það einstæðir foreldrar, börn foreldra sem eru á örorkubótum, börn með fötlun, börn innflytjenda og börn sem tilheyra fjölskyldum með flóknar og umfangsmiklar þjónustuþarfir. Talið er að einstæðir foreldrar, öryrkjar, atvinnulausir og annað lágtekjufólk þar sem er einungis ein fyrirvinna búi við fátækt eða hættu á að falla í fátæktargildruna. Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að ójöfnuður hefur aukist og þá einnig innan menntakerfisins. Umræða um húsnæðisskort í Reykjavík hefur verið hávær allt árið. Þeir sem koma verst út eru einstæðir foreldrar og öryrkjar sem eru á leigumarkaði. Ekki bólar á neinum úrræðum til að styðja sérstaklega við þessa hópa.
Flokkur fólksins vill að gripið verði til sértækra og markvissra aðgerða í þágu þeirra verst settu. Horfa þarf sérstaklega til barnafjölskyldna þar sem áhrifin eru neikvæðust á börn. Efla þarf félagslegan stuðning við börn og unglinga sem eru jaðarsett og félagslega útskúfuð. Til þess þarf skýra stefnu í samræmi við ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Flokkur fólksins lagði til að farið verði með kerfisbundnum hætti í að vinna að innleiðingu Barnasáttmálans. Tillögunni var vísað til borgarstjórnar og er þar enn óafgreidd.
Flokkur fólksins er óþreytandi í umræðunni um biðlista
Áhersla þessa og síðasta borgarstjórnarmeirihluta snýst um aðra hluti en grunnþarfir fólks. Biðlistar barna eftir þjónustu fagfólks, einna helst sálfræðinga og talmeinafræðinga, hefur farið frá 400 börnum árið 2018 í 2049 börn í lok árs 2022.
Ástandið hefur tekið toll af andlegri heilsu foreldra og barna. Tilkynningar um vanrækslu, ofbeldi og áhættuhegðun hafa einnig aukist. Ein af afleiðingum þess ástands sem ríkir nú í Reykjavíkurborg er vopnaburður eggvopna og barefla ungmenna. Í borgarstjórn á haustdögum lagði flokkurinn fram tillögu um að stýrihópur yrði settur á laggirnar sem myndi kortleggja aukinn vopnaburð eggvopna meðal ungmenna í Reykjavík. Tillögunni var vísað til ofbeldisvarnaráðs en hefur ekki fengið frekari skoðun þar.
Strætó úr byggðasamlagskerfinu og kanna hagkvæmni með útboð hjá SORPU
Strætó og SORPA eru byggðasamlög sem eru í eigu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Byggðasamlag er ólýðræðislegt kerfi og hefur Flokkur fólksins verið óþreytandi í að benda á dæmi þess. Reykjavík, sem er stærsti eigandinn, hefur miklar fjárhagslegar skuldbindingar vegna stærðar sinnar en hlutfallslega minnstu aðkomu að ákvarðanatöku. Minnihlutinn í borginni hefur þess utan engan aðgang og fær aldrei tækifæri til að hafa áhrif.
Nú hefur það verið viðurkennt af æ fleirum að byggðasamlagskerfið hentar illa í rekstri t.d. Strætó. Eins varlega og Flokkur fólksins vill stíga til jarðar þegar kemur að útvistun er sjálfsagt að skoða hvort einhver hluti af rekstri þessara fyrirtækja væri hagkvæmari ef þeim væri útvistað. Nefna má viðhald vagna Strætó og einnig sorphirðu, að hluta til eða öllu leyti.
Varhugavert yrði þó að bjóða að fullu út rekstur Strætó enda er þar um að ræða beina þjónustu við fólkið (maður á mann þjónusta).
Þjónusta við viðkvæma hópa skert á meðan staðið er vörð um miðlæga stjórnsýslu og þjónustu- og nýsköpunarsvið
Við fyrri umræðu voru teknar ákvarðanir um gjaldskrár. Flokkur fólksins lagði til breytingu á viðmiðunartekjum til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega. Einnig var lagt til að frysta gjaldskrárhækkanir á vetrarstarfi frístundaheimila og hjá sértækum félagsmiðstöðvum um eitt ár vegna mikillar verðbólgu. Meðal annarra tillagna var að hætt verði að innheimta skráningar- og eftirlitsgjald af hundaeigendum þar sem flestir hundaeigendur þiggja enga þjónustu frá Reykjavíkurborg. Flokkur fólksins vill einnig að gjaldskrá Árbæjarsafns verði breytt þannig að hjón/pör sem heimsækja safnið með barn/börn greiði eingöngu gjald fyrir annað foreldrið og að börn frá 0 til 17 ára og nemendur með gilt skólaskírteini fái ókeypis aðgang.
Við síðari umræðu um fjárhagsáætlun 2022 lagði fulltrúi Flokks fólksins fram 17 sparnaðartillögur um breytta forgangsröðun í þágu viðkvæmra hópa. Lagt var til að foreldrar undir ákveðnu tekjuviðmiði fái fríar skólamáltíðir fyrir börn sín. Meðal tillagna var að hagræða og forgangsraða í þágu lögbundinnar þjónustu og að ekki komi til uppsagna starfsfólks á leikskólum. Margt smátt gerir eitt stórt og vill fulltrúi Flokks fólksins að dregið verði úr útgjöldum vegna leigubílaferða starfsmanna og utanlandsferða. Styrkja þarf dagforeldrakerfið og gera úttekt á húsnæðismálum öryrkja. Fara þarf í nauðsynlegar úrbætur á aðgengi í skólum Reykjavíkurborgar. Úrbótatillögur Flokks fólksins við fyrri og seinni umræðu fjárhagsáætlunar voru allar felldar.
Flokkur fólksins lagði til að sótt verði fjármagn til Þjónustu- og nýsköpunarsviðs með því að hætta kaupum á áskrift erlendrar ráðgjafar sem þar hefur verið í gangi í heilan áratug án sýnilegs ávinnings þeirrar ráðgjafar. Forgangsröðun á verkefnum virðist fara að mestu leyti eftir því hvað sé skemmtilegast að gera í stað þess hvað sé brýnast að gera, eins og berlega hefur komið í ljós í allri hugmyndavinnu og rannsóknum sviðsins sem lítið hefur komið út úr.
Fara hefði átt strax í náið samstarf við hin sveitarfélögin og Stafræna Ísland í stað þess að vera ein á ferð í stafrænni vegferð eins og þjónustu- og nýsköpunarsvið lagði upp með og kostað hefur borgina háar fjárhæðir. Flokkur fólksins lagði til við seinni umræðu að breytingar yrðu gerðar á skipuriti og innra skipulagi Þjónustu- og nýsköpunarsviðs og skrifstofur og deildir sameinaðar sem höfðu með sömu málaflokka að gera auk þess sem millistjórnendum yrði fækkað.
Stafrænar lausnir eru framtíðin og munu flýta fyrir þjónustu. Það sem hefur hins vegar skilað sér í tilbúnum stafrænum lausnum er í engu samræmi við þær fjárhæðir sem búið er að ausa í sviðið.
Það virðist vera sem stór hluti þeirra fjármuna sem úthlutað hefur verið í stafræna umbreytingu hafi endað inn á sviðinu sjálfu í margvíslegar innri breytingar sem margar hverjar munu þýða enn meiri útgjöld þegar fram líða stundir. Það er hlutverk innri endurskoðunar að fara gaumgæfilega yfir rekstur sviðsins með framangreinda kostnaðaraukningu í huga.
Úrbótatillögur meirihlutans voru margar en því miður voru einnig tillögur sem skerða mikilvæga þjónustu til barna og annarra viðkvæmra hópa. Leggja á niður starfsemi unglingasmiðja, stytta opnunartíma félagsmiðstöðva og segja upp eða breyta til lækkunar þjónustusamningi vegna rekstrar þjónustumiðstöðvar fyrir eldri borgara við Sléttuveg 25-27. Leggja á niður starfsemi Vinjar og unglingasmiðjurnar Tröð og Stígur. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu um að hvort tveggja verði endurskoðað.
Nýi meirihlutinn og framtíðin
Flokkur fólksins vill sjá meira samráð við borgarbúa t.d. hversu langt á að ganga í þéttingu byggðar og þrengingu gatna eða skreytingu torga. Ótal margir þættir fara í gegn án þess að hagsmunasamtök fatlaðs fólks fái nokkuð um það að segja. Stæðiskorthöfum er gert að greiða gjald í bílastæðahúsum sem er brot á lögum og aðgengismál flestra biðstöðva er ábótavant svo dæmi séu tekin. Það gleymdist að huga að þessum hópi þegar Klapp greiðslukerfi Strætó var tekið í notkun.
Nú er hálft ár liðið með örlítið breyttum meirihluta og reyna margir án efa að sjá fyrir sér hvernig þetta kjörtímabil verður. Verða áherslur allar þær sömu eða verður eitthvað nýtt ívaf? Ef marka má þá mánuði sem eru liðnir er hér um afskaplega svipaðan meirihluta að ræða og áður. Framsóknarflokknum er þó vorkunn því fulltrúum hans óraði sennilega ekki fyrir hversu alvarleg fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er. Í þessu ástandi verðum við að huga að fólkinu í borginni.
Hér hafa verið reifuð helstu mál Flokks fólksins á árinu sem er að líða og reynt að draga upp raunsæja mynd af ástandinu í borginni eins og það birtist í dag. Flokkur fólksins í borgarstjórn þakkar samstarf og samveru á árinu sem er að líða og óskar landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og friðar.
Höfundur er oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur.