Fjárlög ársins 2015 eru um margt áhugaverð. Breytingar á virðisaukaskattskerfinu sem þar eru kynntar vekja augljóslega mesta athygli. Tekjur ríkissjóðs vegna virðisaukaskatts, hins skattsins sem við greiðum af allri neyslu og þjónustu eftir að ríkið er búið að taka stóran hluta af laununum okkar í skatt, eiga enda að hækka um 20 milljarða króna á milli ára.
Rúmur helmingur þeirrar upphæðar, um ellefu milljarðar króna, mun koma til vegna þess að lægra þrep skattsins, hinn svokallaði matarskattur, verður hækkaður úr sjö prósentum í tólf. Samkvæmt ASÍ eyðir tekjulægri hluti þjóðarinnar um það bil tvöfalt stærri hluta af laununum sínum í að kaupa mat en þeir sem eru tekjuhærri. Til að milda þetta högg fá tekjulægri einn milljarð króna í viðbót í barnabætur.
Vandræðalegt fyrir Sigmund Davíð
Það mun hins vegar verða mjög erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að keyra hækkunina á matarskattinum í gegn. Stjórnarandstaðan mun standa fast gegn henni og svo virðist sem margir þingmenn Framsóknarflokksins muni gera það líka.
Þá er síðan stórkostlega vandræðalegt að það sé ríkisstjórn undir forsæti Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar sem leggur fram tillögu um slíka hækkun. Hann skrifaði nefnilega pistil á heimasíðu sína fyrir þremur árum, þegar hann taldi sig hafa heimildir fyrir því að síðasta ríkisstjórn ætlaði að hækka matarskattinn. Í pistlinum sagði Sigmundur að „Það er löngu sannað að skattahækkanir á matvæli koma verst við þá sem lægst hafa launin og þegar virðisaukaskattur á matvæli var lækkaður á sínum tíma skipti það mjög miklu máli fyrir fjárhag heimilanna. Að hækka virðisaukaskatt á matvæli í þeirri stöðu sem nú ríkir er hrein aðför að láglaunafólki. Þetta er rangt og þetta verður að stöðva. Ef af slíkum skattahækkunum verður er algerlega ljóst að fyrsta verk Framsóknar í ríkisstjórn verður að afnema þær“.
Ódýrari ísskápar fyrir dýra matinn
Á móti þessari hækkun verður hærra virðisaukaskattsþrepið lækkað og almenn vörugjöld afnumin. Það er hið besta mál. Íslensk þjóð borgar allt of mikið í virðisaukaskatt nú þegar og vörugjöld eru úr sér gengin neyslustýringarfásinna sem löngu tímabært er að afnema. Álagning þeirra hefur verið handahófskennd. Til dæmis bera brauðristar ekki vörugjöld en samlokugrill hafa borið 20 prósenta vörugjald.
Alls kyns dýrari rafmagnsvara mun lækka í verði. Það verður ódýrara fyrir þá sem eiga afgang eftir framfærslu að kaupa sér jeppa og flatskjái. Hinir tekjulægri geta líka keypt sér ódýrari ísskápa fyrir matinn sem þeir munu ekki lengur eiga fyrir.
Þá verður undanþága ýmissa ferðaþjónustugeira frá greiðslu virðisaukaskatts afnumin, enda kannski orðið tímabært að rútu- og hvalaskoðunarfyrirtæki og vélsléðaferðaþjónustan borgi í samneysluna þegar túristarnir sem dæla í þá fé eru orðnir um milljón á ári.
Frekar vafasamar forsendur
Annað árið í röð er lagt upp með að skila hallalausum fjárlögum. Annað árið í röð verður að teljast að forsendur þess séu frekar vafasamar. Í fjárlögum ársins í ár skal hallaleysinu náð með því að auka bankaskatt um nægilega marga milljarða króna, með því að gera skuld ríkisins við Seðlabankann vaxtalausa og með því að láta ríkisbankann greiða mjög háan arð. Með þessum hætti var hægt að búa til nokkra tugi milljarða króna í nýjar tekjur. Til að fólk átti sig á því hvað þetta er stór hluti af hallaleysi ríkissjóðs þá námu arðgreiðslur til ríkisins, sem voru aðallega greiddar af Landsbanka og Seðlabanka, samtals 56,9 milljörðum króna. Bankaskatturinn á að skila 38,7 milljörðum krónum til viðbótar. Þetta eru samanlagt sirka 15 prósent af öllum tekjum ríkissjóðs.
Ekkert af þessum töfrabrögðum hefur þó neitt með undirliggjandi rekstur ríkisins að gera. Og ljóst að ekki er hægt að leika þau aftur til eilífðarnóns.
Áfram treyst á brellurnar
Í nýju fjárlögunum er áfram treyst á þessar brellur til að ná fram réttri niðurstöðu. Bankaskatturinn á að skila 39,2 milljörðum króna og arðgreiðslur verða rúmlega 15 milljarðar krónar. Það er auk þess treyst á að breytingar á virðisaukaskatti, sem er veltuskattur, skili 20 milljörðum króna í nýjar tekjur.
Það að skattleggja þrotabú og skuldir, líkt og gert er með bankaskattinum, er meiriháttar nýlunda í heiminum. Það virðist augljóst að á réttmæti þess muni reyna fyrir dómstólum. Vonandi er ríkið í rétti og fær að innheimta þessa skatta, þótt þeim sé að mestu illa varið í glórulausa skuldaniðurfellingu. Það er þó ekki meitlað í stein að svo verði. Ef bankaskatturinn verður dæmdur ólögmætur er ansi stórt gat í fjárlögum ríkisstjórnarinnar.
Það að treysta á margra milljarða króna arðgreiðslur til að loka fjárlagagatinu ár eftir ár er líka frekar hæpið, sérstaklega þar sem til stendur að selja stóran hluta af mjólkurkúnni Landsbankanum á næstu tveimur árum. Tekjur af virðisaukaskatti geti síðan verið afar sveiflukenndar og erfitt að áætla þær. Slíkar tekjur eru mjög tengdar hagvexti og alls ekkert augljóst að hann muni skila sér með þeim ofsa sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir.
Þegar öll þessi vafaatriði eru talin til þá hefði kannski verið skynsamlegt fyrir Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra að vera með meira en fjögurra milljarða króna króna jákvæðan mun á fjárlögunum. Töfrabrögð virka nefnilega bara á meðan að töframaðurinn nær að telja áhorfendum trú um að þau séu ekta.