Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, hefur um árabil gefið út tölur um stuðning við landbúnað í aðildarríkjum, en Ísland er eitt þeirra. Erna Bjarnadóttir segir í grein í Kjarnanum 11. nóvember að hæpið sé að nota þessar tölur til þess að ,,áætla tölulega heildarstuðning við landbúnað hér á landi“. Síðar segir hún meðal annars:
,,Við mat á viðmiðunarverði t.d. mjólkur á heimsmarkaði er byggt á heimsmarkaðsverði á smjöri og undanrennudufti. Vitaskuld eru þetta aldrei þau verð sem neytendur standa andspænis enda verið að meta tilfærslur til framleiðenda en ekki kostnað neytenda. Þessi aðferðafræði er ekki hönnuð til þess að finna upphæð vergs eða hreins stuðnings við landbúnað í einstökum löndum, eins og ráða má af umfjöllun Þórólfs [Matthíassonar].“
Deiluefnið er ekki nýtt. Fyrir nokkrum árum vann Hagfræðistofnun að skýrslu um mjólkurframleiðslu á Íslandi, þar sem vísað var í tölur OECD um kostnað við mjólkurframleiðslu hér á landi og líklegt innflutningsverð. Starfsmenn verkkaupa héldu því fram að ekki mætti bera tölurnar saman á þeirri forsendu m.a., sem Erna nefnir, að miðað væri við verð á mjólkurdufti, sem væri allt önnur vara en mjólk. Leitað var til OECD um hvernig túlka bæri tölurnar. Í svari stofnunarinnar segir m.a.:
,,Ef land opnar mjólkurmarkaði sína og innflutningshindranir og beinir styrkir til bænda falla niður lækkar [mjólkur]verð niður í það sem við köllum viðmiðunarverð. Viðmiðunarverðið á að sýna verð á mjólk til bænda á heimsmarkaði. Ábending [...] um að viðmiðunarverðið leyfi aðeins samanburð við þurrmjólk stenst ekki – raunar tekur útreikningurinn bæði til fitu og próteins í mjólkurvörum, sem og vinnslukostnaðar og það tryggir að hér eru bornir saman sambærilegir hlutir. Ef „viðmiðunarverð“ væri ekki sambærilegt við „framleiðendaverð“ myndi útreikningur á markaðsverðsstuðningi missa marks.“
Í stuttu máli er tölum OECD einmitt ætlað að sýna fjárhæð stuðnings við landbúnað í einstökum löndum. Vissulega má deila um aðferðir OECD eins og annarra, en sennilega er enginn dómbærari um það til hvers aðferðafræðin er hönnuð en starfsmenn stofnunarinnar. Hættum að deila um það.
Höfundur er forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands