Hvaða fólk er algjörlega ómissandi í íslensku samfélagi? Fyrir undirritaðar liggur svarið í augum uppi. Það er sá hópur fólks sem starfar við umönnun annarra, til dæmis á leikskólum og í þjónustu við aldrað fólk. Þessi hópur inniheldur mestmegnis konur. Þær eru á öllum aldri og koma alls staðar að úr heiminum en þær eiga það sameiginlegt að halda umönnnarkerfum samfélagsins upp með vinnu sinni. Þær eiga það líka sameiginlegt að fá mjög lág laun, þrátt fyrir óumdeilanlegt mikilvægi vinnuframlags síns. Á „jafnréttiseyjunni“ Íslandi eru ófaglærðar konur í hefðbundnum kvennastörfum ekki mikils virði á hinum stéttskipta vinnumarkaði.
Við höfum báðar mikla reynslu af því að starfa við hefðbundin kvennastörf. Við vitum að slík vinna er bæði gefandi og lærdómsrík. Að liðsinna þeim sem þurfa aðstoð, hvort sem það eru börn eða gamalt fólk, kennir okkur mikið um mannlega tilveru, um samhyggð og um samhjálp. En við vitum líka að þessi vinna er slítandi og getur haft mikil áhrif á heilsuna, bæði andlega og líkamlega. Og ekki aðeins eru launin lág heldur bíður þeirra kvenna sem hafa helgað sig umönnun annars fólks skammarlegur lífeyrir á efri árum. Það er síðasta „gjöf“ þjóðfélagsins til þeirra sem axlað hafa ábyrgð á mikilvægustu innviðum okkar, umönnunarkerfum „velferðarsamfélagsins“.
Þrátt fyrir að valdastéttin hafi ekki séð neina ástæðu til að koma fram við láglaunakonur í umönnunarstörfum af virðingu og sanngirni höfum við ekki látið það stöðva okkur. Ómissandi konur í Eflingu ákváðu að bíða ekki lengur og tóku málin í eigin hendur með eftirtektarverðum árangri. Verkfallsaðgerðir Eflingarfélaga hjá Reykjavíkurborg og hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga skiluðu raunverulegum árangri, og sýndu og sönnuðu fyrir samfélaginu hversu mikil alvara lá að baki kröfugerð samninganefndanna. Þessi staðfesta skilaði einnig árangri þegar að því kom að ganga frá samningi við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (hjúkrunarheimilin) – þau sem mættu Eflingarkonum við samningaborðið vissu að ekkert var fjær þeim en uppgjöf og undirgefni. Eflingarkonur uppskáru því í samræmi við eigin staðfestu.
Við höfum sjálfar komist að því að róttæk stéttabarátta skilar árangri. Við höfum séð það með eigin augum og upplifað á eigin skinni. En við erum rétt að byrja. Og þess vegna bjóðum við okkur fram með félögum okkar á Baráttulistanum til stjórnar Eflingar, félagsins okkar. Við ætlum að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið og tryggja að Efling verði áfram helstu baráttusamtök verka- og láglaunafólks á Íslandi. Við hvetjum allar ómissandi verkakonur í umönnunarstörfum að standa saman og styðja okkur. Sameinaðar erum við sterkar – og sterkar ætlum við að leiða baráttuna fyrir betra lífi.
Höfundar eru á Baráttulistanum sem býður sig fram til stjórnar Eflingar.