Það er ekki á hverjum degi sem maður lærir nýtt orð. Það henti mig þó um daginn þegar bandarísk-enska orðið bumfuzzled rak á fjörur mínar. Ég man hvorki til þess að hafa lesið það né heyrt fyrr. Varð ég þess vegna nokkuð glaður yfir þessarri uppgötvun.
(Myndhugmynd: Merriam-Webster orðabók)
Merking orðsins er samkvæmt Merriam-Webster orðabókinni sem hér segir:
Definition of bumfuzzled
US, informal
: in a state of bewilderment: confused or perplexed
„Elliott seemed a little bumfuzzled by the negativity, saying he had received a lot of offers of various kinds of help for the ballpark.— Bonnie Lill“
Undrandi
ORÐHLUTAR: undr-andi
fullur undrunar, hissa
DÆMI: hann varð undrandi þegar hann las bréfið
óformlegt
mjög undrandi
DÆMI: hún varð alveg bit og skildi hvorki upp né niður í neinu
ORÐHLUTAR: kloss-bit
óformlegt
mjög undrandi
mjög undrandi
DÆMI: áhorfendur voru furðu lostnir yfir þessari sjón
En hvað er svo merkilegt við eitthvert orð að ég ákvað hlamma mér niður og skrifa þessar línur? Jú, eins og oft áður er ég furðu lostinn, agndofa og gáttaður yfir því sem ég sé og heyri í kringum mig.
Kona nokkur sem var farþegi í flugvél, í aðeins tuttugu mínútna fjarlægð frá Amsterdam, lenti í því að gangráður sem stjórnaði slögum hjarta hennar tók að láta öllum illum látum. Þegar hún lenti var sjúkrabíll til reiðu sem flutti hana lóðbeint á sjúkrahús. Þar var málum kippt í liðinn en konunni var seinna tjáð að gagnráðurinn hafi orðið fyrir geislum sem komu alla leið frá sólinni og höfðu áhrif á örsmáa tölvu sem stjórnaði honum. Þetta vakti undrun mína og gerir enn. Mér finnst það magnað að öll sú umfangsmikla tækni sem við höfum yfir að ráða getur orðið fyrir skakkaföllum vegna kjarnasamruna á sólinni sem er 150 milljón kílómetra frá jörðinni.
Konan lifði þetta af og ég hef ekki frétt að hún hafi borið varanlegan skaða af.
Annað vakti furðu mína nýlega sem var það að Alþýðusamband Íslands virðist vera á hraðri leið með að hverfa inn í sitt eigið svarthol. Þegar til stendur að semja um kaup og kjör á vinnumarkaðnum er þetta samband, sem á að standa vörð um hagsmuni launafólks, alls ekki í standi til þess.
Ástæðurnar eru örugglega margar en ein sú stærsta er að þau sem standa fremst í stafni verkalýðsfélaga geta ekki komið sér saman um hvaða leiðir er best að fara. Deilurnar eru hatrammar og virðast mjög djúpstæðar.
Ágreiningurinn ristir svo djúpt að þau sem eru í forystu stærstu félaganna innan ASÍ gengu af fundi með sitt fólk í togi og þinginu, þar sem átti að velja framvarðarsveitina og marka stefnu fyrir komandi kjarasamninga, var frestað þangað til í vor.
Meðan þetta á sér stað geisar mikið verðbólgubál hvort tveggja heimatilbúið og innflutt. Búist var við þungum átökum mikilla andstæðna í komandi kjarasamningum en nú verður það ferli mun erfiðara þar sem forystan virðist ekki starfshæf.
Undur og stórmerki á dagvörumarkaði
Ég hef verið furðulostinn yfir mjög mörgu öðru undanfarið, til dæmis þróun undanfarinna missera og ára sem virðist vera að festa sig í sessi. Satt að segja hef ég verið gáttaður yfir og stundum allt að því hvumsa vegna sjálfsafgreiðslukassa í matvöruverslunum. Þar skannar viðskiptavinurinn sjálfur inn þær vörur sem hann raðaði í körfuna sína, setur þær í poka og greiðir fyrir með greiðslukorti, síma eða úri. Þetta er svosem allt í himnalagi nema þegar viðskiptavinurinn mætir svefndrukkinn eða illa fyrir kallaður af öðrum orsökum, eitthvað af strikamerkjunum virkar ekki eða vörurnar rata ekki á réttan stað. Auk þess vefst alls konar tækni hreinlega fyrir mörgum okkar.
Svo spyr ég líka hvers vegna apparatið þarf alltaf að minna mann á hvert einasta smáatriði, eins og að muna eftir kvittuninni, að leggja vöruna á pokasvæðið og lýsa því svo yfir í forundran að óvæntur hlutur hafi lent á pokasvæðinu! Fólkið á kassanum lætur ekki svona. Og hví í ósköpunum er plássið fyrir körfuna látið vera svona lítið en pokasvæðið mun stærra?
Þegar allt er komið í hönk hjá svefndrukkna, tæknihefta eða illa fyrirkallaða, viðskiptavininum kemur iðulega knár og klár unglingur til hjálpar og greiðir úr flækjunni. Mig langar þó að fá svör við því hvort rétt sé athugað, eins og mér finnst að hljóti að vera, að þessi aðferð hafi áhrif á það hversu marga starfmenn þarf til þess að hlutirnir gangi vel fyrir sig. Mig grunar að starfsfólki hljóti að fækka.
Annað þessu tengt er að auðvitað hljóta keðjurnar sem selja okkur dagvöru að hafa fjárfest í nýjum búnaði til að sinna þessu. Sá kostnaður verður væntanlega afskrifaður eftir kúnstarinnar og laganna reglum þannig að þegar upp er staðið verður líklega ágóði af þessari nýbreyttni.
Þá er komið að loka spurningunni sem skaut upp í syfjuðum kolli mínum nú í morgun: „Nú þegar ég tek á mig vinnu sem var unnin fyrir mig áður, hvað fæ ég í minn hlut? Mun vöruverðið lækka? Fæ ég greitt beint frá kaupmanninum fyrir vinnuna sem ég legg á mig eða er þetta enn og aftur þróun sem ég, viðskiptavinurinn hagnast ekki á?“ Ég tel að allt framangreint tengist kjarabaráttu og lífskjörum en hef hvergi séð neina umfjöllun um þetta.
Hinir mögnuðu gámar
Fyrir nokkru skrifaði ég grein um gáma og gámaflutninga sem er líklega eins óáhugavert umfjöllunarefni og hugsast getur… og þó? Þetta tengist öðru sem ég er svolítið hugsi yfir. Þar á ég við þá nýlegu staðreynd að mörg okkar versla við húsgagnaverslanir sem selja ósamsett húsgögn og við leggjum drjúgt á okkur við að koma húsgögnunum heim og svo saman. Fyrir stuttu þurfti ég að kaupa nokkur húsgögn sem er svosem engin nýlunda. Ég hugsaði með mér að ég hefði gert þetta áður, setti mig í stellingar og hófst handa við að lesa bæklinginn sem liggur oftast efst í flötum kassanum. Ég taldi skrúfurnar og gerði allt klárt. Borðið var nokkuð strembið og þurfti nokkrar altögur en það stendur nú á fjórum fótum og er stolt mitt og gleði. Rúmið fór saman, að því er virtist, eins og leiðbeiningarnar gátu til um. Það var ekki fyrr en um nóttina að það datt aðeins í sundur. Þess skal þó geta að viðkomandi fyrirtæki sendi frábæran starfsmann til mín sem kom öllu heim og saman og nú stendur rúmið keikt í svefnherberginu.
Það verður að segja að verðlag í þeim verslunum sem selja húsgögn á þennan hátt eru mun lægra en í þeim sem gera það ekki. Þar kemur tvennt til; annað er að viðskiptavinurinn skrúfar allt saman sem áður var gert í verksmiðjum og hitt er að flutningskostnaðurinn er mun lægri en þegar um samsetta hluti er að ræða. Mun hagkvæmara hlýtur að vera að stafla kössum, sem eru væntanlega af staðlaðri stærð inn í gáma, en samsetta hluti ólíka að stærð og lögun.
Gámar eru nefnilega mögnuð fyrirbæri, af stálkössum að vera, og þess vegna hlýtur þetta að teljast til bóta fyrir þau sem fengið hafa þetta skjól.
Rafsóðar er orð sem ég hef ekki heyrt áður
Þetta litla greinarkorn er nokkuð sundurlaust þó að orð eins og bumfuzzled, undrandi, bit og að vera furðu lostinn eða hissa lími nokkuð vel saman það sem ég vildi sagt hafa. Enn hnýt ég um nýtt orð. Orðið rafsóðar var mér ekki kunnugt fyrr en fyrir örskömmu, og það vakti hvort tveggja með mér furðu og umhugsun.
RÚV fjallaði nýlega um hversu miklir „rafsóðar“ við mörlandarnir erum. Eftir hvert okkar liggja um 24 kíló af rafrusli á hverju ári. Samtals vegur árlegt rafrusl landsmanna um níu þúsund tonn sem er nokkuð vel af sér vikið og ef við veltum þessu fyrir okkur þá þýðir þetta hugsanlega að við kaupum 24 kíló af raftækjum á ári. Ekki kemur fram hvort átt sé við þvottavélar sem eiga það til að vera þungar, þurrkara, kæliskápa og þess háttar eða hvort einungis er átt við smærri raftæki, farsíma, tölvur og slíkt. Forsendan fyrir þessum 24 kílógrömmum er ekki alveg ljós. Hvað um það, þetta er slatti og kemur okkur auðvitað á blað, miðað við hina margfrægu höfðatölu, sem þriðju mestu „rafsóðar” í heiminum. Það vekur í sjálfu ekki orðvana furðu, enda gerum við Íslendingar flest með trukki og dýfu.
Auðvitað má halda lengi áfram að tala um það sem vekur undrun, furðu og forundran. Til dæmis má spá í það að Svíar hafa fengið nýja ríkisstjórn sem er heldur betur langt til hægri. Forystumenn ríkisstjórnarinnar segjast ætla að laga til heima fyrir en bágt er að spá um hvernig útkoman verður. Dolfallinn fylgdist ég með hugmyndum nýrrar ríkisstjórnar Liz Truss í Bretlandi sem ætlaði að lækka skatta á hina efnameiri til þess að koma efnahag landsins í lag aftur. Allt fór í skrúfuna og fjármálaráðherrann, Kwasi Kwarteng var rekinn. Hugsanlega var hann standandi bit þegar hann fékk uppsagnarbréfið en ég hef litla trú á því þó. Nýi forsætisaráðherran situr enn og við hlið hennar er enn einn hægrisinnaði fjármálaráðherrann, Jeremy Hunt, sem ætlar að skerða útgjöld ríkisins og hækka skatta til að laga efnahagsástandið. Sami gamli söngurinn og ekkert sem bendir til þess að þeir sem ráða vilji laga það meingallaða kerfi sem við búum við. Kannski þarf maður ekkert að vera undrandi á því.
Enn má örugglega halda áfram að telja upp fátt eitt af því sem vekur furðu mína og undrun. Til dæmis má nefna þá nöturlegu staðreynd að nú um stundir er háð blóðugt stríð í Evrópu. Úkraínumenn verjast enn ágangi Rússa af kappi og hafa sótt fram í harðri gagnsókn á hernumdum svæðum syðst og austast í landinu. Hvernig sem á það er litið er þetta innrásarstríð skelfilegt, sérstaklega þegar barist er umhverfis kjarnorkuver sem hafa orðið fyrir áföllum og mikil hætta á hræðilegu kjarnorkuslysi getur skapast. Svo er hitt að leiðtogar innrásarliðsins hafa hótað að beita kjarnorkuvopnum sem ekki vekur undrun heldur ógn og skelfingu. Verði af slíkri árás veit ég ekki, fremur en nokkur annar, hvernig framtíð okkar verður en öruggt er að hún verður ekki björt.
Ég ætla að láta þetta gott heita að sinni um það sem vekur mér furðu og undrun eða gerir mig hissa orðlausan og agndofa, jafnvel skelfingu lostinn. En orðið bumfuzzled finnst mér enn nokkuð magnað og lýsandi.
Höfundur er kvikmyndagerðamaður og kennari