Vart hefur orðið mikillar orðbólgu á nýliðnum misserum. Orðbólgu kalla ég það þegar mikil bólga hleypur í einstök orð í málinu.
Nefni ég tvö orð sem hafa bólgnað mjög í notkun og að hluta til, líklega af þekkingarleysi um uppruna og orðmyndun í báðum tilfellum.
Orð 1
Hið fyrra sem ég nefni er atviksorðið ansi. Atviksorð eru smáorð sem beygjast hvorki í falli né í tíðum og lýsa því oft hvernig, hvar eða hvenær eitthvað gerist.
Fréttamenn og viðmælendur þeirra í fjölmiðlum virðast mjög hrifnir að þessu orði, ég segi nú bara, ansi hrifnir.
En hver er uppruni orðsins ansi? Orðið er stytting á orðinu andskoti sem merkir t.d. djöfull, skratti, kölski, fjandi, illmenni, ómenni, myrkrahöfðingi, djöflamergur.
Má kannski bjóða þér á skiptimarkað og hvíla orðið ansi og nota t.d. djöflamergur í staðinn í daglegu tali? Tökum dæmi: Leiksýningin var djöflamergs góð. En líklega gengur það ekki sem lýsing.
Orðið ansi ber í sér neikvæðan blæ eins og nefnd dæmi sanna. Íslensk nútímamálsorðabók nefnir nokkur hliðstæð dæmi, líkrar merkingar:
hroðalega, hræðilega, ógurlega, skelfilega, déskoti, hörmulega, óskaplega, illilega, agalega.
Eigum við að prófa dæmi? Barnið er ansi fallegt. Gengur það? Prófaðu að skipta út ansi og settu inn orðin í listanum hér að framan. Barnið er hörmulega fallegt. Gengur það? Nei, auðvitað ekki.
En hvað er hægt að nota í stað orðsins ansi?
Til dæmist mætti orða fegurð barnsins með því að nota eftirfarandi atviksorð. Barnið er mjög, afar, svo, einkar, dýrðlega, ótrúlega ... fallegt! En skv. mínum málsmekk, alls ekki ansi fallegt!
Orð 2
Hitt orðið sem er í mikilli uppsveiflu og orðbólgu kallar fram minningar um mestu verðbólgu lýðveldistímans, 85,7% árið 1983 skv. Hagstofu Íslands.
Orðbólgan sem hlaupið hefur í næsta orð sem hér verður tekið til umfjöllunar er ógurleg.
Orðið er ástríða sem virðist í miklu uppáhaldi hjá ansi, djéskoti, hræðilega mörgum svo notuð séu atviksorð úr fyrri hluta þessara þanka.
En hvernig er orðið myndað? Það er sett saman úr tveimur orðum, forsetningunni á og sögninni stríða. Nafnorðið ástríða tjáir þar með að eitthvað hafi verið gert með því að stríða á eitthvað, gera verknaðinn af innlifun, áhuga, ákefð, hita. Á ensku er til orðið passion og passionate sem þýðir ástríðufullur.
Orðið skal því bera fram með áherslu á fyrri liðinn, á-stríða.
Þetta er einkar fagurt orð en framburðurinn verður þá að vera réttur. Tungumálið er nefnilega ekki bara stafir og orð, heldur einnig og ekki síður, tónlist. Málið er músík og þess vegna þurfa áherslur að vera réttar svo ekki verði sungið falskt.
Tízkuorðið ástríða hefur orðið fyrir alvarlegri orðbólgu (ofnotkun) og um leið hefur tónlist orðsins riðlast og atkvæðaskiptingin sömuleiðis, því flestir sem ég heyri nota orðið í fjölmiðlum skipta því í þessa tvo hluta: ást-ríða.
Rangur framburður, fölsk tónun, röng hrynjandi, breytir algjörlega merkingu og inntaki orðsins. Orðið hefur í reynd ekkert með ást að gera og þaðan af síður athöfnina að ríða.
En þessi falski framburður, ómúsíkalska skipting orðsins, er í mikilli uppsveiflu um þessar mundir og rímar vel við hegðun yngri kynslóðarinnar sem vill á stundum vera ögn klúr í orðum. Unga kynslóðin mótast mjög af netmiðlum eins og t.d. Smartlandi og fleiri álíka sápumiðlum. Mín tilgáta er að það sé í raun smartlenska sem veldur þessum skrítna framburði og orðbólgu þessa fagra og tilfinningaríka orðs, ástríða.
Ég hef ástríðufullan áhuga á að fólk hugi betur að inntaki orða, orðmyndun og merkingu og tjái sig í samræmi við það sem tungumálið geymir í sínum dýrmætu sjóðum og rótum.
Vona að lokum að lesturinn og/eða hlustunin hafi reynst þér ógeðslega jákvæð upplifun - eða þannig!
Greinina má einnig hlusta á með því að smella hér.
Góðar stundir!