Ég bjó lengi í Bretlandi. Fyrstu mánuðina hagaði ég mér bara eins og ég hafði vanist hér heima. Lét renna úr öllum krönum viðstöðulaust, bæði heitt og kalt – við uppvask, þrif, baðferðir o,fl. Hitaði húsið vel, það var svo kaldur vetur. En þegar ég fékk svo reikningana fékk ég áfall. Klóraði mér í hausnum og fór að hugsa um hvernig þetta gæti verið svona dýrt og hvað ég ætti til bragðs að taka.
Um leið fór ég að fylgjast betur með hegðun Breta og komast inn í breskt samfélag. Og flokkun á rusli var alveg nýtt fyrir mér. Ég gerði uppgötvanir, ég fann aðrar leiðir. Ég lærði aðferðir samfélags sem hefur ekki eins góðan og ódýran aðgang að köldu vatni, rafmagni og heitu vatni eins og Íslendingar.
Vatnið
Bretar búa ekki að hitaveitum eins og við. Ég lærði að nýta heita vatnið betur. Fór í sturtu og bara í freyðibað til spari. Ég sá að til voru klukkur á heita vatnið. Ég gat slökkt á því og kveikt mjög auðveldlega. Alveg sjálfvirkt með því að stilla klukkuna. Ég vil taka það fram að miðstöðvarhitun er ekki sjálfsögð í Bretlandi, heita vatnið er hitað upp með rafmagni eða gasi og vatnstankar sem geyma það. Ég stillti klukkuna þannig að það slokknaði á hita kl. 9 á kvöldin. Kviknaði á því aftur um 6 – þá passaði að það var orðið volgt í húsinu og nóg heitt vatn fyrir sturtu fyrir vinnuna. Slökkti aftur kl. 9 um morguninn þegar ég hélt til vinnu eða náms og kveikti um 4, rétt áður en ég kom heim úr vinnunni eða skólanum.
Þetta sparaði mér heilmikla fjármuni og dugði alveg til að mér liði vel. Þetta sparaði mér um 16 tíma á sólarhring í upphitun heimilis. Bretar eru um 66 milljónir skv. síðasta manntali og 27 milljónir heimila. Sumir eru auðvitað heima allan daginn þannig að við skulum taka af þessu dagstundirnar. Við skulum líka taka af u.þ.b. 500 þúsund af aðalsfólki og hinum efnameiri. Þó komst ég að því að þeir eru sparsamir líka. En orkusparnaður Breta, bara í húshitun gerir þá 238,5 milljónir orkustunda sem sparast. 26,5 milljónir heimila sinnum 9 stundir.
Ég hætti að vaska upp eins og hér heima, vatnið rann ekki viðstöðulaust heldur gerði ég þetta upp á gamla mátann, keypti mér plastdall sem passaði í vaskinn, lét renna í hann og vaskaði svo allt upp úr sama sápuvatninu, hellti svo úr og skolaði svo allt í hreinu vatni úr sama dallinum. Þegar ég hafði ráð á uppþvottavél, þá gerði ég eins og Bretarnir, keypti uppþvottavél sem notaði lágmarksorku og vatn.
Það voru ýmis önnur ráð. Þegar ég tannburstaði mig, kveikti ég á krananum til að bleyta í burstanum, slökkti svo á krananum þar til athöfn var lokið og ýmislegt fleira sem ég get talið upp. Á vissum svæðum í Bretlandi er skortur á vatni. Og stundum þarf að skerða vatn til íbúa. Ég lærði að spara kalda vatnið líka. Ég læt ekki renna viðstöðulaust. Vatn er takmörkuð auðlind. Áætlaður sparnaður á köldu vatni hjá mér var um 50%.
Gasið
Á mörgum heimilum er enn gasupphitun. Sama og að ofan, klukka! Og eldamennskan mun auðveldari á gasi en rafmagni. Ég viðurkenni að ég hafði smá áhyggjur af gasinu (gas, þetta er lyktarlaust, springur ekki allt í loft upp) en þetta vandist og lærðist. Áætlaður sparnaður á gasi svipaður og á heita vatninu. 238,5 milljónir orkustunda á sólarhring.
Bensín og olía
Ég er af bílakynslóðinni. Ég keyrði bara upp að þeim búðum, stofnunum og fyrirtækjum sem ég átti erindi við. Ég lagði bara upp á gangstétt ef það var ekki stæði nógu nálægt. Skildi bílinn eftir í gangi, hljóp inn og lauk erindagjörðum og aftur út og keyrði í burtu.
Þessu þurfti ég að hætta. Ég þurfti reyndar bíl þegar ég bjó í dreifbýli, en að skilja hann eftir í gangi til að hlaupa inn í búð var alveg bannað. Hvað þá að setja hann í gang á morgnana til að hita hann, hlaupa inn og fá sér kaffi – fara svo aftur út þegar hann var orðinn heitur og keyra af stað. Nágrannarnir horfðu á mig furðu lostnir. Ég hætti þessu, keypti mér hlíf yfir bílinn, þurfti aldrei að moka snjó af honum eða skafa af rúðum, svipti bara hlífinni af og keyrði af stað í ísköldum bílnum. Bara hressandi. Áætlaður sparnaður í bensíni hjá mér var um 20 lítrar á mánuði.
Best var þó að búa í þéttbýlinu. Þá þurfti ég ekki bíl. Almenningssamgöngur í toppstandi. Bretarnir eru auðvitað fleiri og ódýrara hlutfallslega fyrir þá að reka almenningssamgöngur en þetta var mjög þægilegt og oft fljótfarnara en að sitja í umferðarteppu.
Þeir eru með frábært kerfi sem heitir „Park and Ride“. Þetta er rétt fyrir utan borgir og bæi, þar leggur þú bílnum og tekur strætó inn í bæ og borg. Ég á erfitt með að slumpa á sparnað á bensíni á þessu en gera má ráð fyrir töluverðum sparnaði þegar við tökum inn almenningssamgöngur sem eru notaðar, minni umferðarteppur og styttri ökuferðir.
Rafmagnið
Bretar og fleiri þjóðir eru með nokkuð sniðugt kerfi þar sem hægt er að slökkva á inntaki í vegg ef og þegar það er ekki í notkun. Þeir eru líka búnir að uppgötva „stand-by“ vandamálin sem eru búin til af raftækjaframleiðendum og slökkva á tækjum í stað þess að hafa þau stöðugt í rafmagnsleka á „stand-by“.
Þeir eru ekki með kveikt ljós í herbergjum sem ekki er verið að nota. Þetta lærði ég og apaði upp eftir þeim. Hér er erfitt að áætla sparnað en ég myndi áætla að minnsta kosti 15%.
Flokkun á úrgangi
Ég henti bara öllu saman í ruslið þangað til ég uppgötvaði að ég átti að flokka. Og flokkunin var svo flott og vel skipulögð. Allt sótt heim. Eða út á gangstétt. Engir grenndargámar. Ekki að keyra eða ganga með ruslið langar leiðir. Ég hnýtti dagblöðin í snyrtilegan bunka og setti út á gangstétt einu sinni í viku. Gler fór í eina tunnu. Pappaumbúðir í aðra. Ál- og járndósir í enn eina. Matarleifarnar fóru reyndar í almennt rusl. En athugið að þetta er 1996. Við erum enn að vandræðast með þetta.
Lausnirnar
Það er svo margt sem við getum gert sjálf, eins og kom fram hér að ofan en hið opinbera þarf að hjálpa og hvetja. Og fyrirtækin verða að taka þátt. Það er ekki hægt að setja alla ábyrgð á einstaklinga. Umbúðasamfélagið gengur ekki lengur. Ég er hætt að versla við framleiðendur sem pakka vörunum sínum í tvennar og jafnvel þrennar umbúðir. Ég get þó ekki sniðgengið allt sem pakkað er í plast. Sjampó, uppþvottalögur og ýmislegt fleira. En ef ég hefði kost á því myndi ég gera það. Gleymum því ekki að plast er framleitt úr olíu m.a.
Upplifun mín, lærdómar og lausnir í Bretlandi árið 1996 ollu mér engum óþægindum. Breytt hegðun og breyttar venjur. Lausnamiðuð hugsun.
Ég flutti heim 2004 og lítið hafði gerst. Árið 2022 á Íslandi: Við eigum helst ekki að eiga eða nota bíla en eigum samt að koma úrgangi í grenndargáma. Og allt plastið sem við erum að flokka samviskusamlega fann Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson, blaðamaður á Stundinni, á ökrum í Eystrasaltslöndunum. Fyrir utan það sem við fundum í kringum Krísuvík í boði Terra. Og veiðarfæri stórútgerðanna liggja hér og þar. Drykkjaframleiðendur eru sumir hverjir enn að pakka í plast. Hættið því.
Ég biðla til yfirvalda, einstaklinga og fyrirtækja, gerið betur. Það eru til lausnir. Hættið að pakka þrefalt. Yfirvöld þurfa að innleiða betri flokkunarkerfi fyrir heimili og koma úrgangi frá sér með ábyrgum hætti. Ekki velta vandanum annað og yppa öxlum þegar bent er á hvert úrgangurinn okkar lendir á endanum.
Yfirvöld þurfa líka að innleiða fleiri hvata til orkusparandi og umhverfisvænni framleiðsluhátta fyrirtækja. Fyrirtæki þurfa að fjárfesta í nýsköpun og nútímalegri, umhverfisvænni starfsemi. Annars hættum við viðskiptum við þau.
Tökum silfurskeiðina og hendum henni þó við séum svo heppin að eiga nóg af heitu og köldu vatni, orku og stórkostlegri náttúru. Förum vel með þetta allt.
Það er sameiginlegt verkefni og skylda okkar allra.
Höfundur er bæjarfulltrúi í Árborg.