Þegar við rifjum upp árið sem er að líða rámar kannski eitthvert okkar í að hafa verið í sóttkví eða einangrun á sama tíma fyrir ári, jafnvel hafa þurft að verja hátíðunum aðskilin frá okkar nánustu. Vonandi einkennast hátíðirnar þetta árið af meiri samveru hjá sem flestum (sem það kjósa). Þó faraldurinn hafi svo skotið upp kollinum hér og þar á árinu þá erum við mörg hver vel í stakk búin til að takast á við veikindin þökk sé víðtækri bólusetningu hér á landi. Enn eru þó mörg sem glíma við langtímaafleiðingar hans: Heilsufarslegar (t.d. „long-COVID“) og félagslegar, m.a. áhrif faraldursins á félagsfærni heilla árganga barna og ungmenna og áhrifin á þau sem festust í ofbeldisaðstæðum heima fyrir vegna einangrunar faraldursins, sem og álag og kulnun í stórum kvennastéttum í framlínuþjónustu vegna þess mikla álags sem þau störfuðu undir.
Bólusetningarátakið hér á landi var þrekvirki. Víðtækar bólusetningar voru auðvitað kostnaðarsamar en stjórnvöld, heilbrigðisyfirvöld og samfélagið allt sammæltust um þessa ákvörðun um að verja fjármunum til heilla heilsu fólks. Auðvitað eru svo bólusetningar sparnaðaraðgerð í sjálfu sér og ávinningurinn af því að koma í veg fyrir ótímabær andlát eða óvinnufærni verður ekki bara metinn til fjár. Með þessa skynsamlegu nálgun til hliðsjónar, er þeim mun óskiljanlegra að ekki sé enn búið að fjármagna löngu samþykkt lög um niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu. Árið 2022 getur því ekki annað en bæst í hóp fyrri ára sem hafa farið í súginn þegar kemur að því að greiða aðgengi fólks að sálfræðiþjónustu, sem eins og við vitum getur komið í veg fyrir ótímabæran heilsubrest, óvinnufærni og andlát. Öllum má vera ljóst að gott aðgengi að sálfræðiþjónustu er ein lykilforsenda lýðheilsu og þörfin hefur bara aukist á tímum mikillar félagslegrar einangrunar viðkvæmra hópa.
En það er víðar í heilbrigðiskerfinu þar sem vanfjármögnun veldur áhyggjum. Hér á landi er skortur á heilbrigðisstarfsfólki og er mönnun heilbrigðisþjónustunnar forsenda þess að hægt sé að veita örugga og skilvirka heilbrigðisþjónustu. Nýr Landspítali kemur ekki til með að leysa þann vanda sem til staðar er að fullu. Það er óskynsamlegt og ósjálfbært að fjárfesta í menntun lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða en hlúa svo illa að stéttunum að fólkið sem þar starfar treystir sér ekki til að sinna störfum vegna starfsaðstæðna, líkamlegs og andlegs álags og streitu. Mönnunarvandinn er stóra áskorun stjórnvalda, heilbrigðisyfirvalda og samfélagsins alls, næstu árin.
Mönnunarvandinn verður ekki slitinn úr samhengi við skakkt verðmætamat kvennastarfa sem veldur því að erfitt er að manna krefjandi störf sem eru ekki metinn að verðleikum til launa. Nú er að störfum aðgerðahópur um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði, sem starfar til ársloka 2023. Næsta ár verður því spennandi að sjá tillögur hópsins um hvernig á að standa að því að leiðrétta verðmætamat starfa, en félagið Femínísk fjármál hefur þegar bent á að fjármögnun slíkrar leiðréttingar hefði átt að vera hafin og sjást í fjárlögum næsta árs með tilliti til tekjuöflunar. Mikilvægast er þó að losa samfélagið þann ósið sem tíðkast hefur árum saman, að atvinnurekendur - opinberir og einkaaðilar - veiti sjálfum sér afslátt við launasetningu kvenna. Það væri gott áramótaheit fyrir okkur sem samfélag.
Ónýtt tækifæri til aukins jafnréttis
Enn eitt árið bætist nú í sarpinn hjá þjóð sem eldist hratt. Stjórnvöld verða að bregðast við áskorunum vegna öldrunar þjóðarinnar og í því samhengi er verulega óskynsamleg að fjárfesta ekki í aðgerðum sem geta hugsanlega komið í veg fyrir brotthvarf kvenna langt fyrir aldur fram af vinnumarkaði. Álagsvaldandi aðstæður á vinnumarkaði, mikil umönnunarábyrgð og afleiðingar kynbundins ofbeldis, eru meðal þeirra áhrifaþátta sem hugsanlega skýra mikla fjölgun örorkulífeyrisþega í hópi kvenna á aldrinum 50-66 ára. Aukið jafnrétti og leiðrétt verðmætamat kvennastarfa eru lykilforsendur þess að hægt verði að vinda ofan af þessu, sem leiðir ekki einungis til jákvæðra breytinga fyrir stórar kvennastéttir heldur einnig til jákvæðra efnahagslegra áhrif í formi aukinna tekna ríkissjóðs vegna aukinnar atvinnuþátttöku og minni útgjalda vegna almannatrygginga og heilbrigðisþjónustu.
Líkt og stjórnvöld horfðu umfram kostnað við bólusetningarátakið við COVID, og sáu ávinninginn margfalt á öllum mögulegum sviðum, þurfa stjórnvöld að opna augun fyrir ávinningnum af auknu jafnrétti og sterku velferðarkerfi, og bregðast við. Það dugar skammt að samþykkja niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu þegar ekki nægt fjármagn liggur fyrir og það sem verra er, er að þetta er endurtekið þema hjá ríkisstjórninni: Að ætla að leysa stór vandamál með lágmarksviðbragði. Fleiri dæmi um þetta eru t.d. hvernig löngu tímabær samningur um aðgerðir við endómetríósu var aðeins gerður til eins mánaðar, og hvernig viðbrögð við stöðunni á húsnæðismarkaði er að hækka húsaleigubætur þegar ljóst er að það er einmitt viðbragð sem fitar efnahagsreikning leigufélaga (svo notuð séu eigin orð forsætisráðherra), í stað þess að setja á leiguþak.
Eitt sorglegasta ónýtta tækifærið til jafnréttis sem við virðumst í sífellu missa af er það að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og tryggja börnum leikskólavist. Þegar bilið er ekki brúað er hætt við að einhver detti þar á milli, og oftast eru það mæður sem komast við illan leik yfir óbrúað bilið, með tilheyrandi streitu, áhrifum á fjárhagslegt sjálfstæði og tækifæri á vinnumarkaði. Eins og fréttir ársins sýna eru þessi mál víða í óboðlegum ólestri. Foreldrar þurftu að mæta trekk í trekk í ráðhús Reykjavíkur með börn án leikskólavistar til að þrýsta á borgarfulltrúa að gera eitthvað í málunum. Að eiga barn á leikskólaaldri er eins og spila slönguspilið með börnunum sínum, á hverjum degi er teningi kastað og foreldrar lenda sífellt á slöngu og renna aftur um marga reiti í formi leikskólalokana vegna myglu og manneklu. Við náum aldrei á stiga í spilinu fyrr en laun leikskólastarfsfólks verða það sem þau eiga að vera: Góð og vinnuumhverfi þeirra ásættanlegt.
Til að ráðast í aðgerðir sem hafa mikið gildi fyrir jafnrétti og samfélagslega velferð, verður fjármögnun að vera fullnægjandi. Félagið Femínísk fjármál óskar þess á nýju ári að stjórnvöld nálgast vandamálin heildrænt og taki ákvarðanir og ráðast í aðgerðir út frá femínísku sjónarhorni með það að markmiði að engir hópar falli á milli. Ef þetta er ekki gert er hætt við að peningar úr sameiginlegum sjóðum okkar endi á röngum stöðum, með tapi fyrir samfélagið allt.
Höfundar eru félagar í Femínískum fjármálum, félagi áhugafólks og sérfræðinga um kynjuð fjármál.