Í stefnu Framsóknarflokksins er smá kafli um náttúruna og verður að skoða það sem svo að þar fari stefna flokksins í umhverfismálum, þeim mikilvæga málaflokki.
Þarna eru talin upp nokkur atriði. Þau snúast ekki um þau vandamál sem við er að etja heldur eru settar fram hálf draumkenndar hugmyndir um það hvernig hægt gæti verið að hagnast á öllu saman.
Fyrsti liðurinn er um að selja þekkingu í orkumálum til útlanda. Þetta hefur nú verið gert um langt skeið og verður vonandi framhald á. Og sjálfsagt að hið opinbera styðji við slíkt, en sem stefnumál stjórnmálaflokks er þetta ekki merkilegt.
Að efla grænan iðnað þar á meðal vetnisframleiðslu er hér stefnumál. En sagt að verkefnin þurfi að vera skýrari. Það má segja það sama um stefnu Framsóknarflokksins. Síðan er stungið upp á sérstöku loftslagsráðuneyti. Myndi það einfalda stjórnkerfið eða flækja það?
Að efla hringrásarhagkerfið er nefnt. Eins og hver önnur klisja.
Og Framsókn vill uppfylla heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna þar á meðal að því er varðar loftslagsmál. Hvaða markmið á nákvæmlega að uppfylla og hvernig?
Stærri skref í orkuskiptum í samgöngum verða væntanlega vegna nýrrar tækni. Það er tæknin sem hamlar mest t.d. í sjóflutningum og veiðum. Og hvað ætlar Framsókn að gera til þess að styðja við slíka tækniþróun? Það kemur ekki fram í þessu plaggi.
Og síðan er klykkt út með því að tala um möguleika á útflutningi á rafeldsneyti (ekki farið neitt nánar út í það), hreinu vatni og spennandi nýsköpun í því sambandi. En hvar kemur Framsóknarflokkurinn við sögu í þeim málum?
Ekki er þetta nú mjög bitastætt. Það eru engin markmið, og þá engar leiðir að markmiðum. Og engar aðgerðir til eins eða neins. Manni dettur í hug að einhver góður og gegn Framsóknarmaður hafi lokið við að moka hesthúsflórinn og síðan sest niður með hundi sínum og spjallað við hann í trúnaði: „Snati minn, það er að koma upp loftslagsvá. Kannske getum við grætt á þessu öllu saman.“
Samantekt
Pólitískt er þetta sennilega nokkuð sterk stefna miðað við kjósendahóp Framsóknarflokksins sem er fólk sem vill ekki miklar breytingar. Fyrir þá er þessi stefna, eða stefnuleysi, gulls ígildi. Vandinn er bara sá að breytingar koma, hvort sem við viljum eða ekki. Stefnan er það óljós að hægt ætti að vera að ná saman með öllum flokkum.
Efnahagslega er ekkert á þessu að græða. Engin umfjöllun.
Samfélagsleg skírskotun er engin í þessari stefnu.
Tæknileg mál eða lausnir eru ekki nefndar í stefnunni. Margt af því sem nefnt er sem tækifæri strandar á því í dag að ekki hefur tekist að leysa tæknivandamál.
Höfundur er meðlimur í grasrótarhópi Landverndar í loftslagsmálum.