Í myndinni Fylki (e. Matrix) fer lífið fram í sýndarveruleika sem er stjórnaður af vélum. Til þess að brjótast úr sýndarheiminum og berjast gegn skuggameisturunum þarf að taka rauða pillu, en ef þú vilt lifa áhyggjulaus án vitneskju um sannleikann getur þú tekið bláa pillu. Þessi myndlíking er hornsteinn í hugsunarhætti ungra hægri öfgamanna og útskýrir að hluta til hvers vegna það er svo erfitt að ná til þeirra.
Sú gjá sem myndast milli hægri öfgamanna og annarra samfélagshópa stafar af mismunandi túlkunum á aðstæðum nútímans og þróun samfélagsins. Þær umræður og breytingarkröfur sem við sjáum í dag geta leitt til þess að fólk taki aukna samfélagslega ábyrgð og hagi sér betur en fyrri kynslóðir, eða að fólk afneiti raunveruleikanum og skríður í holu/kjallara þar sem það skapar sinn eigin, einfaldari raunveruleika. Þetta er viðbragð þeirra sem fá í magann við að melta þeim mýmörgu breytingum sem við sjáum ár frá ári.
Þetta gera margir með því að festast í tölvuleikjum, hlusta frekar á Joe Rogan en RÚV (eða Kjarnann!), nenna ekki á vinnumarkað eða í nám og eyða löngum stundum í að tala við skoðanabræður sína um kvennabaráttu, stjórnmálavæðingu kvikmynda og fleiri merkileg málefni.
Við erum ennþá að vinna okkur úr tímum þar sem hugmyndir snerust um að rífa niður og byggja nýtt, hvort sem það var nýfrjálshyggjan, kommúnismi eða bílavæðing höfuðborgarsvæðisins. Á meðan þetta hefur ekki mikil áhrif á meðalmanneskjuna sem fer reglulega til Tene og er með kokteilsósu á standby í ísskápnum, þá geta sumir tekið ógurlega nærri sér að sjá heiminn eins og við þekkjum hann riða reglulega til falls, hvort sem það er vegna loftslagsbreytinga, fjármálakreppa, heimsfaraldra, hungursneyða, minnkandi áherslu á dönskukennslu í skólum eða einhvers annars.
Ef það eina sem þú gerir í því ástandi er að vinna innantómt, ómerkilegt starf, er þá ekki góð hugmynd að halda að heimurinn sé rekinn af leynihópi sem hatar menn eins og þig og að allir sem eru ósammála þér séu vélmenni?
Höfundur er nemi.