Orkubúskapur heimsins gengur nú í gegnum mestu breytingar sem hann hefur staðið frammi fyrir frá iðnbyltingu, samkvæmt skrifum sérfræðirita og orðum þeirra sem best þekkja til hér á landi. Breytingarnar felast í nokkrum þáttum sem eru óaðskiljanlegir. Í fyrsta lagi eru það samþykktir alþjóðastofnana og ríkisstjórna um að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku á kostnað annarra orkugjafa, í öðru lagi þörf á endurnýjun orkuvera og í þriðja lagi vaxandi orkunotkun vegna íbúafjölgunar og ört vaxandi millistéttar á nýmörkuðum, ekki síst fjölmennustu í ríkjum Asíu; Indlandi og Kína.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur frá því að hann tók við sem forstjóri í ágúst 2009 haft forystu um að tala um það út á við að Ísland þurfi að marka sér stefnu í orkumálum sem sé hluti af alþjóðlegum veruleika. Stærsta orkufyrirtæki þjóðarinnar, Landsvirkjun, er stór hluti af íslenskri heildarmynd þegar að þessum málum kemur en stærstu spurningarnar eru óhjákvæmilega pólitískar og á borði stjórnmálamanna.
Mikilvægar spurningar
Þær má smætta niður í tvær einfaldar spurningar. 1. Ætlar Ísland að vera hluti af alþjóðlegum orkubúskap? 2. Hvar eiga mörkin að liggja þegar kemur að orkunýtingu og virkjun í íslenskri náttúru?
Fyrri spurningin beinir spjótunum að lagningu sæstrengs milli Íslands og Evrópu. Umræðan hér á landi hefur að mestu falist í íslensku hagsmunamati, það er hverjir munu hagnast á því á Íslandi ef sæstrengur verður lagður og hverjir munu ekki gera það. Í ljósi þess að tenging Íslands við umheiminn með sæstreng er líklega áhrifamesta og stærsta skref sem Ísland mun taka inn í alþjóðapólitískan veruleika, ef af henni verður, þyrfti að ræða alþjóðlegu áhrifin ekki síður og jafnvel enn meira. Ítarleg skýrsla náttúruverndarsamtakanna Greenpeace (powE[R] 2030) um orkubúskap heimsins eins og hann gæti litið út 2030 gefur vísbendingar um að vígvöllur náttúruverndarbaráttunnar sé varanlega breyttur. Greenpeace nálgast þessi mál meðal annars út frá nauðsyn þess að tengja orkukerfi einstakra landa saman með strengjum um hafið og nýta endurnýjanlega orkugjafa í miklu meiri mæli til þess að sporna gegn hlýnun jarðar af mannavöldum.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_03/4/embed]
Annar veruleiki hér
Ísland býr við allt annan veruleika en flestar þjóðir heimsins þegar að þessu kemur. Endurnýjanleg orka er helsti orkugjafinn (jarðvarmi og vatnsafl) en stærstur hluti raforku fer til þriggja fyrirtækja í áliðnaði á grundvelli langtímasamninga þar um. Samkvæmt skýrslum sem unnar hafa verið um þessi mál, meðal annars af fyrirtækinu GAMMA, gæti sala á rafmagni um sæstreng haft mikil áhrif á lífskjör í landinu til góðs, einkum vegna þess að tekjur af rafmagnssölu um sæstrenginn gætu margfaldast frá því sem nú er og þannig fært þjóðarbúinu miklar gjaldeyristekjur. Að sama skapi gæti sæstrengurinn leitt til þess að orkufrekur iðnaður eins og álfyrirtæki þyrfti að greiða mun hærra verð fyrir raforkuna en nú. Hvað íslensk heimili varðar hafa stjórnmálamenn það í hendi sér hvort raforkuverð til þeirra verður lægra eða hærra. Sæstrengurinn kemur ekki í veg fyrir að stjórnmálamenn geti stýrt því.
Orkutenging við útlönd verður alltaf stærra mál en efnahagslegt mat á áhrifum hennar gefur mynd af. Stjórnmálamenn hafa trassað það árum saman að marka skýra stefnu um þessi mál sem er hafin upp yfir kosningar og dægurþras stjórnmála. Slíkt hafa margar þjóðir fyrir löngu gert, til dæmis Norðmenn. Til þess að stjórnmálamenn geti svarað því uppbyggilega hvort Ísland eigi að vera hluti af alþjóðlegum orkubúskap þurfa þeir að leggja meira á sig við að upplýsa almenning um hvernig þessi mikilvægu mál horfa við þeim. Þangað til eru stjórnvöld svo til stefnulaus þegar að þessum málum kemur.
Hætta á ferðum
Mörg hættuleg atriði munu vafalítið einkenna svörin sem spretta fram í opinberri umræðu þegar seinni spurningin er annars vegar, það er hvar eigi að draga línu þegar kemur að virkjun og nýtingu. Ef marka má afstöðu stærstu umhverfisverndarsamtaka heimsins, meðal annars Greenpeace, er svo til öruggt að þrýstingur á frekari virkjanir endurnýjarlegrar orku hér á landi mun aukast mikið í framtíðinni. Sá þrýstingur verður sprottinn af alþjóðlegu hagsmunamati þegar kemur að orkubúskap jarðarinnar. Ísland verði að virkja fyrir hagsmuni heildarinnar, munu eflaust margir segja.
Gallinn við píslarvættisröksemdarfærslur sem þessar er að þær eru ekki nógu sértækar. Á grundvelli svipaðra raka mætti til dæmis velta því fyrir sér hvers vegna Ísland hefur ekki boðið fram hálendi sitt til þess að urða mengunarúrgang fremur en að gera það í byggð í Úkraínu. Þannig kæmi Ísland fram eins og píslarvottur fyrir góðan málstað fyrir heildina. Ýmsa hluti er hægt að réttlæta með rökum sem hafa þennan útgangspunkt. Ekki síst þess vegna er hætta á ferðum fyrir Ísland þegar þessi mál eru annars vegar.
Langtímasýn er nauðsyn
Rammaáætlun um nýtingu og náttúruvernd á að vera leiðarvísir um hvar mörkin eiga að liggja til framtíðar litið. En ýmislegt bendir til þess að stjórnmálamenn líti ekki á rammaáætlunina sem langtímalausn hvað þessi mál varðar. Geri megi breytingar á henni eins oft og nauðsynlegt sé til þess að taka tillit til ýmissa hagsmuna.
Stjórnmálamenn verða að geta mótað pólitíska leiðsögn um það hvar mörkin eigi að liggja þegar kemur að virkjun og vernd sem heldur í langan tíma og tekur tillit til alþjóðlegrar þróunar í orkubúskapnum.
En spurningin er; hvað er best að gera? Í mínum huga er hættulegt að hugsa um Ísland eins og rafhlöðu fyrir Bretlandseyjar eða umheiminn eins og margir sérfræðingar erlendis og alþjóðleg umhverfisverndarsamtök eru þegar farin að gera. Náttúruverndarsamtök á Íslandi þyrftu líka að móta afstöðu út frá þessum alþjóðapólitíska þrýstingi um frekari virkjun endurnýjanlegrar orku í framtíðinni. Það er nauðsynlegt að ræða þessi mál opinskátt og í langan tíma til þess að fá fram bestu ígrunduðu niðurstöðuna.
Mín afstaða er sú að íslensk náttúra eigi ekki aðeins að njóta vafans heldur að vera metin að verðleikum. Það er vel hægt að reikna gildi náttúrunnar sem áhrifavalds á útflutningshliðinni, einkum þegar kemur að ferðaþjónustu, sem er orðin hryggjarstykki í hagkerfinu. Íslensk náttúra er langsamlega oftast nefnd þegar erlendir ferðamenn eru spurðir hvers vegna þeir eru að koma til Íslands. Óvirkjuð á getur þannig skilað meiri peningalegum verðmætum beint og óbeint en virkjuð á. Eru þá ónefnd tilfinningalegu og menningarlegu rökin fyrir því að vernda svæði fyrir raski, sem eru gild og mikilvæg þegar kemur að framtíðarstefnumótun fyrir orkubúskapinn. Að sama skapi kann það að vera ábyrg afstaða hjá stjórnvöldum og Landsvirkjun, sem stærsta orkufyrirtækisins þjóðarinnar, að vilja tengjast alþjóðlegum orkubúskap með sæstreng. Það eitt getur verið mikilvægt framlag landsins til umhverfismála þar sem slíkt getur stuðlað að betri, öruggari og umhverfisvænni orkunýtingu. En ef fara á út í lagningu sæstrengs og raforkusölu um hann ætti það ekki að vera valkostur að gera Ísland að píslarvætti á nýjum vígvelli baráttunnar fyrir betri heimi. Málið er flóknara og mikilvægara en svo.