Flestir flokkar heimsins lofa kjósendum nýjum og betri tímum í stað ranglætis eða stöðnunar. Nær allir leggja þeir líka áherslu á hvað þeir séu ólíkir öðrum flokkum. Þetta á hins vegar ekki alltaf við í Þýskalandi þar sem þrá kjósenda eftir breytingum er oft minni en ótti þeirra við óvissuna sem þeim fylgir. Jafnaðarmenn, helstu andstæðingar flokks Angelu Merkel, byggja kosningabaráttu sína á því að leiðtogi þeirra, Olaf Scholz, sé nauðalíkur kanslaranum og líklegur til að stjórna landinu af svipaðri hófsemd og sáttfýsi og hún. Sem er að nokkru leyti rétt. Þrátt fyrir allar vinsældir sínar skilur Merkel hins vegar eftir sig óleyst mál sem jafnvel hún ætti erfitt með að skapa samstöðu um.
Endir gullaldar
Það er fleira en rótgróinn ótti Þjóðverja við stórar breytingar sem þarna kemur til. Síðustu ár hafa verið landinu hagfelld um svo marga hluti að meira en helmingur þjóðarinnar telur að síðustu ár hafi verið gullöld í Þýskaland. Það hafa svo sem verið nokkrar gullaldir hjá þessari miklu þjóð en þær enduðu oft ekki vel og stundum herfilega. Hvergi þekkir fólk raunveruleikann í sögu þjóðar sinnar betur en í Þýskalandi þar sem goðsagnir af því tagi sem fólk yljar sér við víðast um heiminn hafa þokað fyrir gagnrýnni athugun. Slíkri athugun á sögunni fylgir oft nokkur svartsýni. Nú eiga einungis tíu prósent Þjóðverja von á því að gullöld bíði þeirra í framtíðinni. Það virðist líka sem svo að ytri aðstæður í efnahags og stjórnmálakerfi heimsins séu Þýskalandi ekki lengur eins hagfelldar og þær voru lengst af síðustu áratugi.
Ekki einkamál Þýskalands
Stjórnmál Þýskalands koma fleirum við en Þjóðverjum. Að auki eru flest stærri vandamál landsins beinlínis tengd ástandi umheimsins. Landið er í lykilstöðu í öllum málefnum Evrópu og mörgum af málefnum heimsins. Sem dæmi um fyrirferð alþjóðamála hjá Merkel má nefna að árið sem hún heimsótti Ísland fór hún í 40 ferðir til annarra landa og annað eins var um heimsóknir til hennar í Berlín. Þetta var ekki óvanalegt ár í þessum efnum. Merkel var sögð tala oftar við nokkra heimsleiðtoga í síma en suma af sínum eigin ráðherrum.
Orð en ekki afl
Með þessu er hins vegar ekki sagt að Merkel hafi beitt afli sínu í alþjóðamálum. Hún lægði öldur, náði fram málamiðlunum og forðaði stundum stórum slysum en litlar athafnir fylgdu þó oft orðum hennar. Að undanförnu hafa nokkrir ráðamenn Þjóðverja hvatt til þess að Þýskaland axli meiri ábyrgð í heiminum. Þótt slíkar hugmyndir séu alltaf settar fram af mikilli hófsemi er stemmingin fyrir auknum áhrifum Þýskalands á heimsmálin mjög lítil á meðal þýskra kjósenda. Það eru eiginlega fáir kjósendur í Evrópu eins fráhverfir auknum þýskum áhrifum og þeir þýsku. Sem er ein af meginástæðum þess að landinu er treyst.
Sjálfstæð stefna ESB gagnvart Rússlandi og Kína
Helstu flokkar Þýskalands segjast nú allir vilja að ESB byggi upp afl og getu til að móta utanríkistefnu sem snúist um hagsmuni og gildi Evrópu frekar en um hentugleika Bandaríkjanna. Hvað þeir meina með því er ekki alveg augljóst en á það mun reyna. Næstu ríkisstjórnar Þýskalands bíða stór úrlausnarefni á vettvangi Evrópumála og alþjóðamála. Afleit staða í samskiptum Vesturlanda við Rússland er brýnt, stórt og flókið viðfangsefni. Þar er Þýskaland af mörgum ástæðum í lykilstöðu.
Nýir straumur flóttamanna?
Eftir hrunið í Afghanistan mun reyna á samstarfið sem Merkel kom á við Tyrkland sem hýsir nær fjórar milljónir flóttamanna og býr sig undir nýja strauma af fólki á flótta. Tyrkir segjast ekki lengur vilja vera geymslustaður fyrir flóttamenn sem vildu helst komast til Evrópu. Flóknir erfiðleikar á Balkanskaga snúa líka beint að ESB og Berlín. Vaxandi upplausn og hryðjuverk á risastóru belti í Afríku hefur þegar verið mætt með peningum og hernaðaraðstoð frá ESB, Frakklandi og Þýskalandi en ástandið fer versnandi og ótti við þunga strauma flóttamanna frá Afríku til Evrópu fer vaxandi.
Miðjusækni Merkel
Eitt af því furðulega sem blasir við eftir 16 ára valdaferli Merkel er að hún fylgdi aldrei eftir neinu stóru hugsjónamáli frá hægra væng stjórnmálanna. Stóru og umdeildu ákvarðanirnar sem hún tók voru frekar á stefnumál annarra flokka en hennar eigin. Þar má nefna lokun þýskra kjarnorkuvera sem einungis græningjar höfðu barist fyrir og ákvörðun hennar um að hleypa milljón flóttamönnum inn í Þýskaland á fáeinum mánuðum. Enginn hefðbundnu flokkana hafði eins miklar efasemdir um þetta og hennar eiginn flokkur. Þetta ýtti mjög undir þá þróun að í fyrsta sinn frá stríðslokum náði flokkur til hægri við kristilega demókrata flugi. Margt fleira á valdaferli Merkel ber sterkari einkenni af stefnu annarra flokka en hennar eigin.
Galdurinn
Galdurinn við árangur Merkel í stjórnmálum fólst í því að stefna hennar var frekar aðferðafræði en pólitísk hugmyndafræði. Hún tók sér alltaf góðan tíma til að greina ástandið og nálgaðist síðan málin af vísindalegri nákvæmni frekar en útfrá fyrirfram gefnum forsendum. Ef kostur sýndist mjög erfiður reyndi hún frekar eitthvað annað sem hafði bæði þyngdaraflið og rökfræðina í liði með sér. Með þessu breikkaði hún miðjuna í þýskum stjórnmálum en um leið færðist miðjan til og í átt til stefnumála þeirra flokka sem flokkur hennar keppir helst við og þá ekki síst til græningja. Tíminn hefur unnið með flokkum sem byggja á kröfum um sjálfbærni og skynsemislausnir.
Flokkur í vanda
Það er því ekki nema von að flokkur hennar virki dálítið óskýr. Helsta tromp hans átti að vera leiðtogi sem segist vera alveg eins og Merkel. Kjósendur sjá hins vegar ekki líkindin á milli Merkel og Armin Lachet. Þeir sem grúska í stefnumálum kristilegra demókrata segjast finna fátt af nýjum eða skýrum hugmyndum. Árangur Merkel kann því að reynast flokki hennar dýrkeyptur. Þrátt fyrir mikinn ósigur er þó ekki útilokað að flokkurinn rati í eða jafnvel leiði næstu ríkisstjórn vegna erfiðleika á milli annarra flokka.
Kristilegir demókratar
Það sem gerði Merkel mögulegt að stjórna að eigin hyggjuviti er að flokkur hennar, CDU, er frekar valdastofnun en hugmyndafræðilega samstæð fylking. Þrír kanslarar flokksins stjórnuðu landinu í samtals tæplega hálfa öld og tveir aðrir í fáein ár til viðbótar. Flokkurinn telst til hægri í efnahagslegum skilningi og er íhaldssamur í menningarlegu eða þjóðfélagslegu samhengi. Merkel teygði flokkinn lengra inná miðjuna en áður hafði gerst. og aflaði þar fylgis. Um leið varð til flokkur til hægri við CDU en það var lengi kennisetning innan flokksins að aldrei mætti skapast svigrúm til hægri við kristilega demókrata. Á valdatíð Merkels mátti greinar þunga en þó ekki háværa óánægju innan flokksins með stefnu kanslarans. Henni var fyrirgefið af þeirri einföldu ástæðu að hún vann allar kosningar. Hægri mönnum mistókst fremur naumlega að fá mann úr sínum röðum valinn sem leiðtoga CDU í stað kanslarans. Flokkurinn situr uppi með lélega eftirlíking af Merkel og óskýra stefnu.
Jafnaðarmenn
Flokkur jafnaðarmanna, SPD, er heldur ekki mjög samstæður. Þótt vinstri sinnar hafi eflst innan flokksins að undanförnu er kanslaraefni hans þó leiðtogi hægri arms flokksins. Utan þings hefur flokkurinn lagt áherslur á aukinn jöfnuð, öflugt velferðarkerfi, há lágmarkslaun, öfluga umhverfisvernd og harða vörn fyrir minnihlutahópa. Innan þings hefur hann hins vegar lotið stjórn Schulz sem er fjármálaráðherra landsins og best þekktur af áherslum sínum á ábyrga fjármálastjórn. Líkt og hægri menn í CDU urðu vinstri menn í SPD undir í aðdraganda kosninganna. Áherslur Scholz hafa þó verið nokkuð til vinstri í kosningabaráttunni. Hann nefnir til að mynda oft að Covid hafi sýnt vel á herðum hverra þjóðfélagið hvílir og krefst hærri launa fyrir láglaunahópa sem sýndu mikilvægi sitt í faraldrinum.
Á valdatíma Merkel minnkaði fylgi SPD um helming, úr tæpum 40% í 20% enda var Merkel dugleg við að hnupla málum jafnaðarmanna og kynna þau sem skynsemi frekar en sósíalisma. Nú myndu 25% kallast stórsigur fyrir jafnaðarmenn.
Græningjar
Fylgi græningja hefur dalað síðustu vikur en þó er útlit fyrir að það tvöfaldist frá síðustu kosningum í 15% eða ríflega það. Sú niðurstaða væri mikill sigur og að líkindum nóg til að komast í ríkisstjórn. Flokkurinn, sem á sér rætur í róttækum mótmælahreyfingum, hefur að undanförnu lagt mikla áherslu á samræður við þýskt atvinnulíf um umhverfisvernd og loftslagsmál og þá ekki síst stóru þýsku bílafyrirtækin en einnig iðnaðarsamsteypur á borð við Siemens. Kannanir innan atvinnulífsins sýna að flokknum er núorðið treyst til að finna skynsamlegar en þó róttækar lausnir í loftslagsmálum. Flokkurinn er við stjórn í sambandslýðveldinu Baden Wuertemberg, einu iðnvæddasta hérað Evrópu. Græningjar reyna yfirleitt að nálgast hlutina án pólitískrar hugmyndafræði, nema hvað varðar kröfuna um sjálfbærni, en áherslur í efnahags og skattamálum eru þó greinilega frekar til vinstri en hægri. Í því samhengi er athyglisvert að athafnamenn í Þýskalandi hafa gefið flokknum peninga í svo ríkum mæli að enginn flokkur fær meiri stuðning frá auðmönnum.
Frjálslyndir
Flokkur frjálslyndra, FDP, hefur vaxið á kostnað CDU ef marka má skoðanakannanir, og er líklegur til að ná meira en tíunda hluta atkvæða. Flokkurinn var lengi á miðjunni og vann á víxl til vinstri og hægri. Á síðari árum hefur FDP verið gagnrýndur fyrir að vera nánast eins máls flokkur því lækkun skatta hefur orðið að langstærsta baráttumáli flokksins. Með því hefur hann laðað til sín fylgi frá hægra armi kristilegra demókrata en um leið gert sér erfitt fyrir um þáttöku í stjórnarsamstarfi. Flokkurinn kemur þó sterklega til greina sem aðili að næstu ríkisstjórn Þýskalands.
AfD
Poppúlistaflokkurinn AfD hefur notið verulegs fylgis í austurhéruðum Þýskalands en tæpast utan þeirra. Fylgi hans hefur staðnað síðustu misseri en líklegt er að hann fái um tíunda hluta atkvæða í þingkosningunum. Flokkurinn byrjaði sem andóf gegn evrunni og því að Þjóðverjar taki ábyrgð á skuldum annarra ríkja í ESB en hann færði sig fljótt yfir í baráttu gegn innflytjendum og þá einkum múslimum. Eins og flokkar af þessu tagi hefur hann laðað að sér öfl og einstaklinga sem fáir vilja eiga samleið með. Allir flokkar Þýskalands hafa útilokað að eiga nokkra samvinnu við flokkinn. Einörð þjóðernisstefna flokksins snýst yfirleitt ekki um aukin þýsk áhrif heldur þvert á móti um að Þjóðverjar fái að vera í friði.
Óskastjórnir
Óskastjórn kristlegra demókrata væri stjórn með FDP og það sama gildir um frjálslynda, þeir vilja helst vinna með CDU. Afar ólíklegt er hins vegar að flokkarnir nái meirihluta á þingi. Næsti kostur fyrir CDU væri að bæta græningjum við. Þess konar stjórn verður að teljast önnur af tveimur líklegustu kostunum við myndun ríkisstjórnar, jafnvel þótt CDU tapi stórt.
Óskastjórn jafnaðarmanna væri samsteypustjórn með græningjum en sem stendur virðist ólíklegt að flokkarnir tveir nái í sameiningu meirihluta á þingi. Næsti kostur fyrir SDP væri stjórn með græningjum og frjálslyndum en hún yrði erfið vegna kröfu frjálslyndra um lækkun skatta en græningjar og jafnaðarmenn vilja miklar fjárfestingar í innviðum, velferðarkerfi og umhverfisvænni tækni.
Höfundur er alþjóðastjórnmálafræðingur.