Lekamálið svokallaða nálgast nú endastöð. Strax frá upphafi sótti að sú tilfinning að í því hafi átt sér stað pólitískur óleikur sem skaðaði þá einstaklinga sem hið fræga minnisblað fjallaði um. Undanfarna mánuði hafa púslin týnst til eitt af öðru og loks blasir við nokkuð skýr heildarmynd. Tilfinningin um pólitíska plottið hefur verið staðfest. Eina púslið sem vantar er hver það var sem ýtti á send þegar minnisblaðið var sent á mbl.is og á Fréttablaðið. Það fæst ekki upplýst nema að innanríkisráðherra eða aðstoðarmenn hennar segi frá því. Sem verður að teljast ólíklegt.
Það skiptir reyndar engu máli hver það var. Ábyrgðin er skýr. Hún er Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra.
Stórmerkilegar upplýsingar
Dómur Hæstaréttar í anga þessa máls, sem birtur var á fimmtudag, er stórmerkilegur. Þar kemur fram að minnisblaðið um hælisleitandann Tony Omos og tvær konur sem honum tengjast hafi verið gert 19. nóvember 2013 og vistað inn á opið drif innanríkisráðuneytisins um klukkan 17 þann dag. Lögfræðingur í ráðuneytinu tók minnisblaðið saman að beiðni skrifstofustjóra í ráðuneytinu, tveir aðrir lögfræðingar lásu það yfir.
Klukkan 17 mínútur yfir 17 sendi skrifstofustjórinn minnisblaðið á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, aðstoðarmenn hennar, þau Gísla Frey Valdórsson og Þóreyju Vilhjálmsdóttir, og Ragnhildi Hjaltadóttur ráðuneytisstjóra. Í Fréttablaðinu daginn eftir, þann 20. nóvember, birtist forsíðufrétt í Fréttablaðinu um að ónafngreindur hælisleitandi, sem augljóslega var Tony Omos, væri grunaður um aðild að mannsali. Fréttin var byggð á þeim upplýsingum sem koma fram í umræddu minnisblaði sem gert var í innanríkisráðuneytinu daginn áður. Klukkan 10:55 sama dag birtist frétt byggð á minnisblaðinu síðan á mbl.is.
Fréttablaðið er vanalega klárað uppúr klukkan 22 á kvöldin. Það þekki ég vel eftir að hana unnið þar. Blaðamaðurinn sem skrifaði umrædda frétt hefur að öllum líkindum þurft hálftíma hið allra minnsta til að skrifa fréttina upp úr minnisblaðinu eftir að það barst. Því verður að teljast líklegt að einhver sem var með það undir höndum hafi sent það til einhvers innan Fréttablaðsins á milli klukkan rúmlega fimm síðdegis og hálf tíu um kvöld. Skrifstofur innanríkisráðuneytisins eru opnar til klukkan 16 alla virka daga. Það eru því allar líkur á að stór hluti starfsmanna hafi verið farinn heim þegar minnisblaðið var vistað á opnu drifi í ráðuneytinu klukkan rúmlega 17.
Í dómi héraðsdóms frá því snemma í apríl, sem var undanfari Hæstaréttardómsins á fimmtudag, segir enda „Í skýrslum sem lögreglan hefur tekið af þessum starfsmönnum ráðuneytisins [sem komu að gerð minnisblaðsins] hefur ekkert komið fram um að aðrir en þeir sem að framan greinir [sömu starfsmenn, ráðherra, aðstoðarmenn hans og ráðuneytisstjóri] hafi búið yfir vitneskju um minnisblaðið“.
Átta vissu af minnisblaðinu
Samkvæmt því vissu átta manns af minnisblaðinu. Það verður að teljast nánast öruggt að einn þessarra átta hafi lekið því til fjölmiðla. Aðrir starfsmenn ráðuneytisins vissu ekki að það væri til og það er erfitt að leka einhverju sem þú veist ekki af. Fimm af þessum átta eru embættismenn. Það að leka minnisblaðinu var pólitísk aðgerð til að grafa undan mótmælum sem fyrirhuguð voru vegna meðferðar á Tony Omos daginn eftir. Pólitískar aðgerðir eru drifnar áfram af pólitískum hagsmunum. Og framkvæmdar af pólitíkusum. Einu pólitíkusarnir í þessum hópi eru Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og aðstoðarmennirnir hennar tveir, sem báðir eru pólitískt ráðnir bandamenn hennar. Það verður að teljast miklu meiri líkur að einhver þessarra þriggja hafi lekið minnisblaðinu en einhver embættismannanna fimm sem vissu af minnisblaðinu.
En í raun skiptir það ekki máli. Þröngur hópur fólks vann að gerð minnisblaðsins og fékk það afhent. Allt þetta var gert með vitund og vilja innanríkisráðherra sem var einn þeirra örfáu sem fengu minnisblaðið sent. Hún ber ábyrgð á gerð þess og að það hafi lekið út. Og á að segja af sér fyrir vikið. En líklega verða aðstoðarmennirnir látnir falla á sverðið. Að minnsta kosti annar, ef ekki báðir.
Refsiverð háttsemi sem getur varðað tveggja ára fangelsi
Ef rannsókn lögreglu leiðir til þeirrar niðurstöðu að Hanna Birna hafi vitað af lekanum og jafnvel stutt hann er pólitískur ferill hennar hins vegar búinn, því þá hefur hún orðið uppvís af því að ljúga blákalt. Hún kom nefnilega fram í sjónvarpsþætti annars ritstjóra Fréttablaðsins, sem á að vita upp á hár hvaðan minnisblaðið kom, og eftir að hafa verið spurð af þriðja aðila um hver hefði lekið minnisblaðinu, í einhverju súrealískasta fréttaleikriti síðari tíma, þá sagðist hún ekki vita það.
Þetta mál er háalvarlegt. Það er alvarlegt að einhver þeirra átta sem vissu af minnisblaðinu hafi misnotað aðstöðu sína til þess að leka því í fjölmiðla í pólitískum tilgangi. Aðstoðarkona Hönnu Birnu ásakaði DV, sem hefur leitt umfjöllun um málið og er fyrst og síðast ástæðan fyrir því að það er í lögreglurannsókn, um rógsherferð gegn ráðherranum á opinberum vettvangi. Með því var verið að ásaka fjölmiðil og blaðamennina sem fréttirnar unnu um annarlegar hvatir. Það er líka alvarlegt. En alvarleiki málsins sést best í því að rannsókn lögreglu beinist að refsiverðri háttsemi. Feli leki minnisblaðsins í sér að sá sem lak hafi misnotað stöðu sína getur það varðað hinn brotlega allt að tveggja ára fangelsi.
Órjúfanlegur trúnaður blaðamanns við heimildarmann
Fyrir utan þær upplýsingar sem dómur Hæstaréttar veitir um málsatvik í lekamálinu þá er aðra stórmerkilega frétt að finna í honum. Málið sem verið var að dæma í snýst nefnilega um tilraun saksóknara til að knýja fréttastjóra mbl.is til að brjóta trúnað við heimildarmann og upplýsa um hver sendi fréttastofu hennar minnisblaðið. Ég veit reyndar að hún myndi aldrei upplýsa um slíkt, enda yfirburðarblaðamaður. Það verður alltaf að ríkja trúnaður milli blaðamanna og heimildarmanna. Sá trúnaður er grundvöllur tilveru stéttarinnar. Án hans myndum við flytja tíðindi, ekki segja fréttir.
Hæstiréttur hafnaði blessunarlega því að beita lagaákvæði til að aflétta trúnaði milli blaðamanns og heimildamanns. Ef úrskurðurinn hefði verið á hinn veginn, þ.e. að dómurinn hefði skikkað fréttastjórann til að aflétta trúnaðinum þá er það mín skoðun að hún ætti ekki að verða við þeirri niðurstöðu. Það er mín skoðun að allir blaðamenn ættu að taka slíka afstöðu og sætta sig frekar við refsingu.