[Fyrirvari: Þessi grein er efnismikil og því er ekki ósennilegt að einungis þeir sem hafa áhuga á umræðuefninu – sem er ólíkar skoðanir prests og pírata á tilvist Guðs, guðstrú og guðleysi – muni lesa. Greinina má lesa í þremur lotum. Góður kaffibolli hjálpar til. Að öðru leyti lesa þeir sem vilja lesa, hinir snúa sér að einhverju öðru.]
Til upprifjunar: Trú Björns Levís Gunnarssonar
Fyrir nokkrum vikum skrifaði ég greinina „Trú Björns Levís Gunnarssonar“ sem birtist hér á kjarnanum. Tilefnið voru svokallaðar „guðfræðilegar pælingar“ Björns Levís Gunnarssonar þingmanns pírata (hér eftir BL), sem kjarninn hafði áður gert að umtalsefni í stuttri frétt. Ástæða þess að ég ákvað að leggja orð í belg var ekki síst sú áhugaverða fullyrðing BL að Guð sé ekki til sem að hans mati er einföld „staðreynd“, eins og hann orðaði það.
Í grein minni leyfði ég mér að benda á að svo einfalt væri málið ekki og að þeir sem dýfi sér djúpt og íhugult ofan í vangaveltur um tilvist Guðs – guðstrúarfólk jafnt sem guðleysingjar – leyfi sér ekki að nota jafn stórt orð og „staðreynd“ með þessum hætti. Ennfremur hafði ég orð á því að BL gerir heldur alls enga tilraun til þess að rökstyðja mál sitt eða réttlæta fullyrðingu sína um tilvistarleysi Guðs heldur gengur einfaldlega út frá því – eins og mjög mörgum guðleysingjum er tamt að gera. Honum er að sjálfsögðu það heimilt en að svo miklu leyti sem hann gerir það er einfaldlega um órökstudda og perónulega skoðun hans að ræða sem ekki þarf að orðlengja um frekar en maður vill.
BL þarf því að bæta talsvert miklu við mál sitt áður en hann getur leyft sér að tala um „staðreynd“. En það skiptir þó litlu í raun því þegar um tilvist Guðs er að ræða getum við ekki, á hvorn veginn sem er, talað um „staðreynd“ (í merkingunni hundrað prósent vissa), hvað þá „einfalda“ staðreynd. Ef hægt er að tala um „einfalda staðreynd“ í þessu samhengi yfir höfuð (fyrir utan þá röklegu staðreynd að annað hvort er Guð til eða ekki til!) er það sú staðreynd að tilvist Guðs verður hvorki sönnuð né afsönnuð (af einhverri stærðfræðilegri vissu), sem minnir á og áréttar að bæði guðstrú og guðleysi byggja, þegar allt kemur til alls, á frumspekilegri staðhæfingu sem við „einfaldlega“ veljum að trúa og göngumst við án þess að geta sannreynt hana í ströngum skilningi þess orðs. Og að því leyti er ekki munur á mér sem trúi að Guð sé til og guðleysingjanum sem fullyrðir að Guð sé ekki til.
Þótt ég hafi í grein minni tæpt á fleiru sem snertir málflutning BL má segja að þetta hafi verið kjarni málsins. En eins og nærri má geta er BL ósammála mér og finnst honum raunar flest af því sem ég hef til málsins að leggja rökfræðilega rangt. Hin einfalda staðreynd sé að Guð er ekki til.
Staðreynd er það sem í veruleikanum svarar til sannrar staðhæfingar, eða er raungering þess, ef svo má segja, sem gerir staðhæfinguna sanna. Þannig er bruninn mikli í Reykjavík árið 1915 „staðreynd“. Geimferðir eru „staðreynd“. Eitt sinn voru þær eingöngu til í hugum fólks en eru í dag staðreynd. Pýþagórasarreglan er „staðreynd“. Svona mætti lengi telja. Að mati BL, ef ég skil hann rétt, ber að eigna guðleysi sömu stöðu og vægi, ef svo má að orði komast. Guðleysi er „staðreynd“! Einföld staðreynd og eitthvað sem er því sannarlega satt. Ástæða þess að staðhæfingin „Guð er ekki til“ er sönn er sumsé sú að veruleikanum sé einfaldlega þannig háttað að það er enginn Guð til.
Fullyrðingar af þessum toga eru mjög algengar af hálfu guðleysingja og hef ég oft átt áhugaverð samtöl við fólk sem talar á þessa leið. Raunar er ekki langt síðan ég spjallaði við góðan kunningja sem las grein BL og sýndi málflutningi hans mikinn skilning. Kjarnann í því samtali má draga saman með eftirfarandi hætti:
Kunningi: Staðreyndin er, eins og BL segir, að Guð er einfaldlega ekki til.
Ég: Er það?
Kunningi: Algerlega.
Ég: Ertu hundrað prósent viss? Geturðu sannað það?
Kunningi: Ég þarf þess ekki. Það er augljóst!
Ég: Ókei, en ertu ekki til í að sanna það samt, bara fyrir mig. Mér finnst það ekki augljóst.
Kunningi: Ég get svo sem ekki sannað það með hundrað prósent vissu. En það er besti kosturinn.
Ég: Að Guð sé ekki til?
Kunningi: Já!
Ég: Ókei, þú átt sumsé við að þú getir ekki sannað að Guð er ekki til en þú trúir því samt að guðleysið sé besti eða líklegasti möguleikinn?
Kunningi: Já, einmitt!
Ég: Þannig að guðleysi er í eðli sínu trú!
Kunningi minn var ekki tilbúinn að viðurkenna það frekar en BL.
En burtséð frá því gekkst ég við hinu augljósa í spjalli okkar, nefnilega því að ég get að ekki sannað og sýnt að tilvist Guðs sé einföld og óyggjandi staðreynd sem allir hljóti að beygja sig fyrir. Enginn íhugull guðstrúarmaður mundi halda slíku fram. En það breytir ekki því að ég tel guðstrú, þ.e. tilvist Guðs, samt sem áður besta og líklegasta – og, já, skynsamlegasta – kostinn eða skýringuna þegar ég horfi á eðli lífsins og tilverunnar og reynslu mína og upplifun af lífinu. Og í því ætti hin raunverulega umræða að vera fólgin að mínu mati, þ.e. hvort verði stutt betri og veigameiri rökum, guðleysi eða guðstrú.
En allt um það.
Nokkrum athugasemdum Björns Levís svarað
BL svaraði grein minni um hæl með gagngreininni „Prestur prófar pólitík ... og rökfræði“. Ég þakka honum fyrir að taka sér tíma til að lesa og svara grein minni, og þó seint sé leyfi ég mér að bæta við umræðuna.
Í upphafi svargreinar sinnar segir BL að „[ég fullyrði] meðal annars að það þurfi trú til þess að segja að guð sé ekki til.“
Já, það má segja það, í vissum skilningi.
Í vissum skilningi geta auðvitað allir sagt hvað sem þeim dettur í hug, m.a. að Guð sé ekki til. En þegar einhver fullyrðir, eins og BL gerir, án nokkurrar tilraunar til að réttlæta eða færa rök fyrir máli sínu, að það sé einföld staðreynd að Guð sé ekki og geti ekki verið til, þá verður það ekki gert án trúar enda er þar um frumspekilega staðhæfingu að ræða sem ekki verður sönnuð í ströngum skilningi þess orðs og liggur þar með handan þess sem BL getur vitað fyrir víst. Hann verður einfaldlega að trúa því, ganga út frá því.
Trúarhugtakið er vitaskuld margþætt. Þannig er til dæmis eitt að trúa að og annað að trúa á. Ég held því ekki fram að guðleysi sé eitthvað sem maður trúir á í sama skilningi og maður trúir á Guð (í merkingunni að treysta Guði, leita til hans o.s.frv.). Í grein minni notaði ég hugtakið trú hvergi í þeirri merkingu eða í merkingunni tilbeiðsla eða átrúnaður eða nokkuð í þá veru.
BL minnir líka réttilega á að íslenska orðið „trú“ hefur fleiri en eina merkingu. Og einmitt af þeim sökum getur misskilningur komið upp og auðvelt að villast af leið í umræðunni, eins og BL gerir að mínu mati.
Heimspekilega séð, þegar um trú er að ræða, má segja að trú feli almennt í sér samsinni tiltekinnar staðhæfingar, eða það að gangast við einhverju sem sönnu (t.d. því að Guð sé ekki til). Afstaða BL til staðhæfingarinnar „Guð er ekki til“ er jákvæð. Hann samsinnir henni, fellst á hana og trúir því þar með að Guð sé ekki til. Trú í þeim skilningi felur þannig í sér hvernig eitthvað blasir við manni þegar maður íhugar eða leiðir hugann að viðkomandi staðhæfingu.
En svo er hitt allt annað mál – og það skiptir máli í þessari umræðu – hvaða þekkingarfræðilegu stöðu, ef svo má segja, við getum tekið okkur, eða viðeigandi er að taka sér, gagnvart viðkomandi staðhæfingu. Ef við segjum að sannleiksgildi fullyrðingarinnar „Guð er ekki til“ sé 1 (eða með sambærilegum hætti að sannleiksgildi fullyrðingarinnar „Guð er til“ sé 0) þá getum við réttilega talað um guðleysi sem „staðreynd“. (Og vitaskuld er það staðreynd að Guð er annað hvort til eða ekki, burtséð frá því hverju við trúum í þeim efnum.)
En á hvaða forsendum leyfir BL sér að taka af öll tvímæli í þessum efnum? Hvernig getur hann vitað fyrir víst að Guð er ekki til og að þar sé um staðreynd að ræða? Hann segir svo sem ekkert um það enda færir hann engin rök sem sýna fram á að staðhæfingin „Guð er ekki til“ sé einföld „staðreynd“. Raunar hefur enginn guðleysingi nokkurn tíma gert það. Og vitaskuld getur BL það ekki heldur.
Spurningin um tilvist Guðs, eins og aðrar heimspekilegar og frumspekilegar spurningar, er einfaldlega opin í báða enda. (Hitt er svo annað mál, eins og áður er nefnt, hve skynsamlegt eða vel rökum stutt eða líklegt maður telur svar sitt við þeirri spurningu vera. Það er sannarlega áhugaverð umræða.) BL verður því einfaldlega að ganga út frá því og treysta því að sú sannfæring hans að Guð sé ekki til sé sönn. Í þeim skilningi er alls ekki óviðeigandi að tala um „Trú Björns Levís Gunnarssonar“ enda gengur hann lengra í fullyrðingum sínum en það sem honum unnt er að vita með vissu eða sýna fram á með óyggjandi hætti.
(Í framhjáhlaupi má minna á að vísindi geta ekki í eigin valdi sannað eða afsannað tilvist Guðs. Það er ástæða fyrir því að enginn vísindamaður gerir tilkall til nóbelsverðlaunanna í eðlisfræði fyrir að hafa sannað eða afsannað tilvist Guðs. Vettvangur vísindalegra rannsókna og vísindalegrar þekkingaröflunar einskorðast við hinn náttúrulega heim – alheiminn. Guð er hins vegar yfirnáttúrulegur (eins og BL minnir sjálfur á í grein sinni síðar meir) og handan þess sem vísindin geta náð til. Vissulega eru til margir vísindamenn sem sjá margvísleg spor skaparans innan sköpunarinnar og telja vísindalega þekkingu á engan hátt grafa undan guðstrú heldur þvert á móti. Og þeir vísindamenn eru líka til sem telja að vísindi sýni með afgerandi hætti að Guð sé ekki til. En allir íhugulir og heiðarlegir vísindamenn gangast við því að vísindi sem slík geta ekki fullyrt neitt um tilvist Guðs á hvorn veginn sem er enda falli spurningin um Guð einfaldlega utan við vettvang og seilingarmátt vísinda. Orð nóbelsverðlaunahafans Peter Medawar koma til hugar í þessu samhengi: „Að vísindi eru takmörkuð kemur berlega í ljós þegar spurt er barnslegra spurninga sem vísindi geta ekki svarað, spurninga er varða hinstu rök tilverunnar: Hvernig byrjaði þetta allt? – Hvers vegna erum við hér? – Hver er tilgangur lífsins?“)
Hér er því alls ekki, að mínu mati, um ýkja umdeilda athugasemd að ræða hjá mér, heldur einfalda ábendingu þess efnis að grunnforsendan sem býr að baki guðleysi – nefnilega staðhæfingin „Guð er ekki til“ – er þess eðlis að við getum ekki gefið henni sama þekkingarfræðilega vægi eins og þegar um „staðreynd“ er að ræða, einfalda eða ekki. Þegar talað er um tilvistarleysi Guðs sem klára staðreynd er maður einfaldlega komin út fyrir þann ramma, eins og allir íhugulir guðleysingjar átta sig á.
Að þessu sögðu bætir það alls engu við umræðuna þegar BL gerir „trú“ að umfjöllunarefni í svargrein sinni á heldur óreiðukenndan hátt sem kemur litlu í þessari umræðu við. Réttmætar ábendingar hans þess efnis að við getum valið að ræða hluti (hvort sem það er tilvist heimsins eða heiðarleiki, svo dæmi hans sjálfs séu nefnd) ýmist á trúarlegum eða vísindalegum forsendum hafa ekkert að gera með það sem ég sagði í grein minni og kemur kjarna málsins ekki við. Það grefur ekki heldur undan máli mínu þegar BL þylur upp ólíkar orðabókarmerkingar orðsins trú og dregur því næst þá niðurstöðu að „[t]il þess að segja ,nei‘ við skoðunum um æðri máttarvöld þarf ekki traust eða tiltrú ...“. En það kemur kjarna umræðunnar heldur ekki við. Umræðan snýr alls ekki að einhverjum tilfallandi skoðunum á æðri máttarvöldum sem BL segir „nei“ við eða kýs að hafna, heldur þvert á móti snýr hún að því sem sem hann segir „já“ við, þ.e.a.s. hinni órökstudda fullyrðingu hans sjálfs að það sé einföld „staðreynd“ að Guð sé ekki til.
BL segir sjálfur að á meðal þess áhugaverðasta sem ég skrifa í grein minni sé eftirfarandi: „Sá sem staðhæfir ,Guð er ekki til‘ og ber þá staðhæfingu fram sem staðreynd, eins og Björn Leví gerir, gerir jú tilkall til þekkingar og er það hans að rökstyðja þá skoðun.“
BL vitnar til þessara orða minna og segir í kjölfarið: „[H]érna er sönnunarbyrðinni snúið á hvolf.“ Hann heldur svo áfram og segir: „Ef ég myndi segja að fljúgandi spaghettískrímslið sé til og fólk þurfi að taka tillit til þess í sínu lífi þá ættu allir að sjálfsögðu að spyrja ,hvernig veistu það?‘ og ,af hverju?‘. Ef ég slengi fram fullyrðingu um spaghettískrímslið þá get ég ekki varpað sönnunarbyrðinni á aðra. Það virkar nákvæmlega eins fyrir guð hinnar evangelísku lúthersku kirkju og spaghettískrímslið. Ég geri ekkert tilkall til þekkingar heldur hafna ég staðhæfingu presta og allra annara um að guð sé til.“ (Áherslubreytingin er mín.)
Þetta er býsna þvælið þykir mér, og lítið annað en útúrsnúningur. Allir sem fullyrða eitthvað gera tilkall til þekkingar og taka á sig þá byrði að þurfa að réttlæta fullyrðingu sína. BL gerir það sannarlega. Hann staðhæfir að Guð sé ekki til og bætir um betur með því að segja að þar sé um „einfalda staðreynd“ að ræða. Með því gerir hann tilkall til þess að vita eitthvað, nefnilega að Guð sé ekki til, og tekur óhjákvæmilega á sig þá byrði að þurfa að rökstyðja fullyrðingu sína. BL gerir sér grein fyrir þessu hygg ég enda má með einföldu móti skipta út orðinu „spagettískrímslið“ í skáletruðu setningunni fyrir orðið „Guð“ (eða hvað sem er): „Ef ég slengi fram fullyrðingu um x þá get ég ekki varpað sönnunarbyrðinni [fyrir x, innskot mitt] á aðra.“ Alveg rétt. BL getur ekki gert það. En það er engu að síður það sem hann gerir, eða reynir að gera.
Af hverju? Jú, ástæðan fyrir því að sönnunarbyrðinni er snúið á hvolf, að mati BL, kemur í ljós þegar hann segir: „Ég geri ekkert tilkall til þekkingar heldur hafna ég staðhæfingu presta og allra annara um að guð sé til.“ Með öðrum orðum er BL ekki að halda neinu fram sjálfur! Hann fullyrðir ekkert, staðhæfir ekkert, gerir ekki tilkall til þess að vita neitt. Hvernig stendur á því? Jú, málflutningur hans er ekki fólgin í öðru, að hans mati, en að hafna fullyrðingum annarra, þ.e.a.s. þeirra sem halda því fram að Guð sé til. Það sé því þeirra að réttlæta mál sitt. Sjálfur þurfi hann ekki að svara fyrir neitt.
Ekki er þetta bitastæður málflutningur og lítið annað en fyrirsláttur.
Ef ég hafna fullyrðingu einhvers um eitthvað, t.d. þeirri fullyrðingu að lög hafi ekki verið brotin við sölu á hluta ríkisins í Íslandsbanka, þá er ég um leið, eðli málsins samkvæmt, að halda einhverju öðru fram sjálfur – nefnilega að lög hafi verið brotin, eða að ég viti ekki hvort lög hafi verið brotin.
Maður hlýtur í öllu falli að spyrja sig hvað BL eigi eiginlega við þegar hann segir að það sé einföld „staðreynd“ að Guð sé ekki til ef hann veit ekki og gerir ekkert tilkall til þess að vita að Guð sé ekki til! Gleymum því ekki heldur að fullyrðingin „Guð er til“ var alls ekki tilefni þessara skoðanaskipta, heldur einmitt sú afdráttarlausa fullyrðing BL sjálfs sem margoft hefur verið getið. Það er því hann sem snýr sönnunarbyrðinni við. Og það er gömul og margnotuð tugga hjá guðleysingjum sem oftar en ekki er lítið annað en fyrirsláttur til að koma sér undan því að fást við rökin sem til umræðu eru og/eða til að forða sér frá því að þurfa að standa fyrir máli sínu.
Í öllu falli er BL samkvæmt þessu ekki guðleysingi í krafti þess að hafna tilvist Guðs heldur því að „hafna [...] staðhæfingu presta og allra annara um að guð sé til“.
En með því er hin hefðbundna merking hugtaksins guðleysi augljóslega skilgreind á nýjan og nýstarlegan hátt. Það er vissulega röklegur munur á því segja „Ég trúi að Guð er ekki til“ annars vegar og „Ég hafna fullyrðingum þeirra sem segja að Guð er til“ hins vegar. En það er misskilningur að ætla að hið síðarnefnda feli í sér guðleysi. Í réttri og hefðbundinni merkingu er guðleysi fólgið í því viðhorfi að Guð sé ekki til. Það felur ekki í sér vöntun á öðru viðhorfi, nefnilega því viðhorfi að trúa að Guð sé til. Guðleysingi er sá sem fellst á staðhæfinguna „Guð er ekki til“. Guðleysingi er í réttum skilningi sá sem hafnar því að Guð sé til og staðhæfir að Guð sé ekki til, eins og BL sannarlega gerir. Með þetta í huga er viðhorf BL – að hafna fullyrðingum þeirra sem segja að Guð sé til – ekki eiginlegt viðhorf sem er annað hvort satt eða ósatt, heldur miklu fremur lýsing á sálfræðilegu eða persónulegu hugarástandi hans sjálfs, eins gott og gilt sem það annars er.
Margir guðleysingjar halda því oft og iðullega fram að á meðan engar „sannanir“ liggi fyrir sem sýni með óyggjandi hætti fram á tilvist Guðs (og hvað telst til sannana er oftar en ekki þeirra að ákveða) sé eðlilegt að hafna öllum fullyrðingum um meinta tilvist Guðs og ganga út frá því að Guð sé ekki til. Í þeim skilningi er guðleysi nokkurskonar sjálfvirk eða sjálfgefin afstaða og það sé eingöngu hinn trúaði sem ber „sönnunarbyrðina“. Það sé hans að sanna eða sýna fram á að Guð sé til. Þangað til er guðleysinginn sjálfur stikkfrír. En það er augljós misskilningur af þeirri ástæðu sem áður er getið, nefnilega þeirri að sá sem staðhæfir „Guð er ekki til“ gerir jafnmikið tilkall til þess að vita eitthvað og sá sem staðhæfir „Guð er til“. Guðleysinginn ber því sína byrði þegar kemur að því að réttlæta þá staðhæfingu sína að Guð sé ekki til. Sá eini sem ekki þarf að réttlæta neitt er efahyggjumaðurinn sem segir „Ég veit það ekki! Guð gæti verið til eða hann gæti ekki verið til. Ég hreinlega veit það ekki. Og þess vegna tek ég ekki afstöðu til tilvistar Guðs.“ Nú er ekkert athugavert við heiðarlega efahyggju, en betra er að kalla hlutina réttum nöfnum. En í þessu ljósi verður kannski skiljanlegt hvers vegna mörgum guðleysingjum er í mun að þynna út viðhorf sitt og endurskilgreina guðleysi sitt. Því ef litið er á guðleysi sem eiginlegt viðhorf, nefnilega það viðhorf að Guð sé ekki til, þá hljóta þeir að þurfa leggja fram rök sem réttlæta það.
En allt er þetta aukaatriði þegar til kastana kemur því að stuttu síðar í grein sinni tekur BL sjálfur af öll tvímæli um eigið guðleysi er hann segir: „Hér er nauðsynlegt að taka fram hvað ég á við þegar ég nota orðið guð. Þar er ég að vísa í orðabókarskilgreininguna: ,Yfirnáttúrulegur máttur sem menn trúa á.‘ Ég er sem sagt að hafna því að til sé yfirnáttúrulegur máttur.“ (Áherslubreytingin er mín)
Við getum, í þágu þessarar umræðu, notast við þá mínímalísku skilgreiningu á Guði að hann er yfirnáttúrulegur máttur. Það felur m.a. í sér að Guð er annar og aðskilinn veruleiki frá hinum náttúrulega veruleika, eða alheiminum (enda er Guð orsök hans). Allt eingyðistrúarfólk mundi fallast á þá lýsingu þótt það vilji bæta mörgu við hana.
BL hafnar því „sem sagt [...] að til sé yfirnáttúrulegur máttur“, eða með öðrum að Guð sé til. Hann hafnar ekki bara fullyrðingum þeirra sem segja að Guð sé til, hann heldur sjálfur fram hinu gagnstæða. Að mati BL er staðhæfingin „Guð er ekki til“ því sönn. Það er sannarlega fullyrðing og felur í sér tilkall til þekkingar hvernig svo sem BL reynir að fara í kringum þá staðreynd.
Að lokum! Um fljúgandi spagettískrímsli Björns Levís o.fl.
Nú er ýmislegt fleira að finna í grein BL sem áhugavert og þarft er að bregðast við og leiðrétta. En það mundi kalla á aðra grein. En ekki er samt hægt að skilja við umræðuna hér, finnst mér, án þess að fara orðum um eftirfarandi fullyrðingu BL:
„Ef rök Gunnars standast verður hann sjálfur að viðurkenna tilvist Cthulhu, fljúgjandi spaghettískrímslisins, Óðins og Þórs og allra hinna guðanna.“
Nú var það ekki markmið fyrri greinar minnar að færa rök fyrir tilvist Guðs og því spurning hvaða rök BL er að vísa í. Burtséð frá því er þetta mjög algengur frasi hjá guðleysingjum sem umfram allt ber vitni um afar einfaldan og takmarkaðan skilning á röksemdarfærslum fyrir tilvist Guðs, á guðstrú almennt og á eðli Guðs í klassískum skilningi. Ein útfærsla þessarar svokölluðu mótbáru, sem oft heyrist, er eitthvað á þessa leið: „Sýndu mér hvernig þú sannar tilvist Guðs og þá veistu hvernig ég sanna tilvist spagettískrímslisins ógurlega.“ Málflutningi af slíkum toga má svara með ýmsu móti en ég læt duga að draga saman í stuttu máli eina klassíska og áleitna röksemdarfærslu fyrir tilvist Guðs sem víða er rædd í dag, heimsfræðirökin svokölluðu og vega og meta fullyrðingu BL í ljósi hennar.
Heimsfræðirökin eru afleiðslurök sem hafa einfalt röklegt form:
(1) Ef A þá B
(2) A
(3) Þar með B
Sjálfa röksemdarfærsluna má setja fram í þremur einföldum skrefum:
(1) Allt sem verður til á sér orsök!
(2) Alheimurinn varð til!
(3) Alheimurinn á sér orsök!
Að því gefnu að forsendurnar eru sannar (eða líklegri en ekki) liggur niðurstaðan fyrir af röklegri nauðsyn og getur ekki verið ósönn.
Fyrsta forsendan, „Allt sem verður til á sér orsök“, virðist augljóslega og nauðsynlega sönn og í öllu falli mun líklegri en andstæðan. Forsendan er grundvölluð í hinu frumspekilega innsæi (sem jafnframt býr að baki allri vísindalegri hugsun og iðkun) að af engu komi ekkert, að eitthvað geti ekki orðið til af engu, að á bak við hverja afleiðingu sé orsök. Hér er jafnframt um að ræða eitthvað sem reynsla okkar staðfestir í sífellu og án undantekninga.
Aðra forsenduna, að alheimurinn sé ekki eilífur og hafi því ekki alltaf verið til, má styðja með ýmsu móti. Heimspekilega séð má sýna fram á að tilvist raunverulegs óendanleika (t.d. óendanlegur tími eða óendanlega margir atburðir) leiðir til mótsagna og getur alls ekki verið til. Einnig má sýna fram á að óhugsandi er að mynda raunverulega óendalega langa runu með því að bæta einum hluta við hana á eftir öðrum. Það má einnig orða með þeim hætti að ómögulegt er að yfirstíga hið óendanlega með því að flytja sig frá einum hluta þess til þess næsta o.s.frv. Þannig er vandséð hvernig núverandi augnablik (eða dagur eða mínúta) gat orðið að veruleika ef óendanlega mörg augnablik þurftu að koma og fara á undan því.
Þá má einnig styðja aðra forsenduna í krafti vísindalegs vitnisburðar um upphaf alheimsins (miklahvellskenningin) sem bendir eindregið til að alheimurinn sé ekki eilífur heldur hafi orðið til á tilgreindu augnabliki í fyrndinni. Einnig má vísa til annars lögmáls varmafræðinnar til stuðnings annarrar forsendunnar. Samkvæmt því ætti alheimurinn, sem lokað kerfi, nú þegar að hafa notað alla nýtanlega orku sína (að því gefnu að alheimurinn sé eilífur og óendalega langur tími sé þar með þegar liðinn) og vera því í reynd dauður.
Um þetta allt mætti fjalla í mun lengra og ítarlegra máli. En í ljósi þess að við höfum afar góðar ástæður til að ætla að forsendur heimsfræðirakanna séu sannar blasir niðurstaðan óhjákvæmilega við: Alheimurinn – allur hinn náttúrulegi veruleiki tíma og rúms, efnis, orku og náttúrulögmála og fasta – á sér orsök. Eitthvað allt annað er til og er að finna á bak við alheiminn og er jafnframt orsökin eða ástæðan fyrir tilvist hans. Það er ekki veigalítil niðurstaða.
Með því að greina hugtakið orsök í þessu samhengi má leiða í ljós afar áleitna og íhugunarverða eiginleika sem þessi vera hlýtur að búa yfir. Sem orsök tíma og rúms hlýtur hún að vera til utan og ofan við tíma og rúm og tilvist hennar því ekki bundin af tíma og rúmi (að minnsta kosti ekki fyrir tilkomu alheimsins). Þessi yfirnáttúrulega vera hlýtur þar með að vera óbreytanleg og óefnisleg (þar sem tímaleysi felur í sér óbreytanleika og óbreytanleiki felur í sér óefnisleika). Vera af þessu tagi hlýtur jafnframt sjálf að vera til án upphafs og orsakar – og vera því eilíf. Ennfremur má ætla að um eina veru sé að ræða því ekki þarf að gera ráð fyrir fleiri orsökum en þörf er á til að útskýra afleiðinguna. Þá er óhætt að segja að þessi vera, sem skapaði alheiminn úr engu (að minnsta kosti án fyrirliggjandi efniviðs), sé máttugri en við getum ímyndað okkur, ef ekki almáttug.
Og meira en það, því við getum líka sagt að þessi óviðjafnalega vera er að líkindum persónuleg vera (þ.e. vera sem býr yfir vitund, vilja, hugsun, ásetningi o.s.frv.). Það blasir við þegar horft er til þess að til eru tvær tegundir útskýringa, annars vegar vísindaleg (sem byggir á forsendum náttúrulögmála og fyrirliggjandi efnislegra aðstæðna) og hins vegar persónuleg (sem hvílir á grundvelli vilja persónulegs orsakavalds og ásetnings hans). Í ljósi þess að upphafsástand alheimsins getur ekki, eðli málsins samkvæmt, átt sér vísindalega útskýringu stendur hin persónulega útskýring eftir. Sama niðurstaða blasir við þegar haft er í huga að tilkoma alheimsins felur í sér tilkomu tímanlegrar afleiðingar sem orsökuð er af tímalausri (eilífri) veru. Ef orsökin fyrir tilkomu alheimsins væri einungis fólgin í nauðsynlegum og dugandi skilyrðum þá væri óhugsandi fyrir orsökina að vera til án afleiðingarinnar. Með öðrum orðum, ef öll nauðsynleg skilyrði fyrir tilkomu alheimsins hafa alltaf verið fyrir hendi, þ.e. um alla eilífð, þá hlýtur orsökin einnig að hafa átt að hafa verið til um alla eilífð. En svo er ekki. Eina útskýringin á því er sú að orsökin á bak við alheiminn búi yfir ásetningi og vilja og hafi í frelsi sínu valið að orsaka tilvist alheimsins án nokkurra fyrirliggjandi skilyrða eða takmarkana. Með öðrum orðum er ekki um að ræða óskilgreinda, ópersónulega og blinda orsök heldur persónulegan skapara alheimsins.
Með þetta í huga má sjá hve veigalítil athugasemd BL hér að ofan er. Niðurstaða heimsfræðirakanna er sú að til sé yfirnáttúruleg vera, óbundin af tíma og rúmi, óbreytanleg og óefnisleg, án orsakar eða upphafs, eilíf, yfirmáta máttug og persónulegur skapari alheimsins. Sú niðurstaða styrkist enn frekar þegar aðrar röksemdafærslur fyrir tilvist Guðs eru lagðar við hlið hennar. Þessi niðurstaða útilokar ekki einungis guðleysi BL og náttúruhyggju heldur einnig algyðistrú (sem ekki gerir greinarmun á Guði og alheiminum) og fjölgyðistrú (sem ekki gerir ráð fyrir einum Guði). Svokallaðir guðir á borð við Þór og Seif eru þar fyrir utan á engan hátt sambærilegir Guði kristinnar trúar eða klassískrar eingyðistrúar. Slíkir „guðir“ eru skapaðir og birtast sem afleiðing einhvers annars efnislegs veruleika. Sá Guð sem heimsfræðirökin leiða fram orsakaði hins vegar hinn efnislega og náttúrulega veruleika, þ.e. alheiminn allan. Að halda því fram að ég verði að viðurkenna tilvist „Cthulhu, fljúgjandi spaghettískrímslisins, Óðins og Þórs og allra hinna guðanna“, líkt og BL heldur fram, er einfaldlega retórískt þvaður sem sýnir lítið annað en viljaleysi til að fást við spurninguna um Guð í raun og veru og umræðuna sem slíka.
Vitaskuld getur BL sagt að röksemdarfærslur fyrir tilvist Guðs leiði allt eins til tilvistar spagettískrímslisins svokallaða (sem er hugarfóstur guðleysingja nokkurs og átti að sýna fram á fáránleika röksemdafærslna fyrir tilvist Guðs) eða Cthulhu (fyrirbæri í aldargömlum skáldskap hryllingshöfundarins H.P. Lovecraft). Slíkt tal er þó í besta falli kjánalegt sem gerir þar að auki ekkert til að grafa undan hefðbundnum og klassískum röksemdarfærslum fyrir tilvist Guðs. En ef BL á við með spagettískrímsli (eða hverju því sem hann vill draga fram) það sama og ég á við þegar ég tala um Guð, þ.e. ef hann eignar því sömu eiginleikana og heimsfræðirökin leiða í ljós, þá má hann mér að meinalausu gera það, enda erum við þá að tala um það sama undir ólíkum heitum. En þá hygg ég að BL verði að gefa guðleysið upp á bátinn. Vilji hann hins vegar komast undan eða hafna niðurstöðu heimsfræðirakanna verður hann að grípa til annarra ráða en að týna upp margþvælda og notaða frasa. Hann verður einfaldlega að fást við röksemdarfærsluna sjálfa og sýna hvar hún og forsendur hennar bregðast.
Að lokum!
Heimsfræðirökin, ásamt mörgum öðrum rökum fyrir tilvist Guðs, sýnir að guðstrú felur ekki í sér nein svik við skynsamlega, röklega, vísindalega og upplýsta hugsun og túlkun á eðli lífsins og tilverunnar. Þau eru sannarlega ekki „sönnun“ í þeim skilningi að þau sýni með óyggjandi og óvéfengjanlegum hætti að Guð sé til. Mér dytti ekki í hug að hrópa á torgum eða í ræðupúltum eða í vefritum að hér með væri búið að sýna að tilvist Guðs er einföld „staðreynd“ að hætti BL. Enda er um að ræða heimspekilega röksemdafærslu. En þótt þau leiði ekki til niðurstöðu sem býður uppá hundrað prósent vissu fela þau í sér, að margra mati, – þar á meðal margra af mestu hugsuðum og vísindamönnum fyrr og síðar – afar sannfærandi og áleitin rök fyrir tilvist Guðs, og þar af leiðandi rök gegn náttúruhyggju og þar með guðleysi. En vissulega má skjóta sér undan þeim og öðrum röksemdarfærslum fyrir tilvist Guðs með því að vega þau og meta í ljósi óraunhæfs þekkingarfræðilegs mælikvarða, eins og ýmsir guðleysingjar jafnan gera þegar tilvist Guðs er til umræðu. En þótt enginn láti sannfærast um neitt gegn vilja sínum væri áhugavert (og á margan hátt óskandi) ef guðleysingjar og efahyggjufólk setti sér jafn háleitan mælikvarða þegar kemur að viðhorfum sínum um Guð og þau krefja trúað fólk um þegar kemur að þeirra. Ef þeir gerðu það er alls óvíst að þeir upplifðu sig á jafn föstu landi og áður.
Höfundur er prestur Árborgarprestakalls.