Kastljós RÚV greindi frá því í gær að dómnefnd sem skipuð var til að meta hæfi umsækjenda teldi Karl Axelsson hrl. hæfastan til að gegna embættinu. Aðrir umsækjendur voru Ingveldur Eiríksdóttir, settur hæstaréttardómari, og Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Mannréttindastól Evrópu. Dómnefndin sem mat Karl hæfastan er skipuð fimm körlum. Ingveldur og Davíð Þór hafa bæði meiri reynslu af dómarastörfum en Karl, og eru með meiri menntun, en nefndin taldi mikla reynslu af stjórnsýslu- og lögmannsstörfum hafa mikið um það segja að Karl væri hæfari.
Eins og greint var frá í dag telja Hæstiréttur, dómstólaráð og Lögmannafélag Íslands sig ekki bundin af jafnréttislögum þegar kemur að því að skipa fulltrúa í nefnd sem fjallar um hæfi umsækjenda um embætti hæstaréttardómara og héraðsdómara. Þau telja að ákvæði um nefndina í lögum um dómstóla gangi framar jafnréttislögunum og eftir bréfaskriftir ákvað dómsmálaráðuneytið árið 2010 að láta undan og skipa þá karla í nefndina sem höfðu verið tilnefndir til að byrja með.
Nýr dómari við Hæstarétt verður skipaður frá 1. október. Ólöf Nordal innanríkisráðherra mun skipa dómarann. Ljóst er að hennar bíður nokkuð vandasamt verk, þrátt fyrir einhug karlanna í dómnefndinni. Allir þrír umsækjendur hafa margt til brunns að bera og ekki augljóst hver verði skipaður dómari.
Ólafar bíður vandasamt verk. Mynd: Skjáskot/Althingi.