Á tímum mikillar verðbólgu og vaxtahækkana skiptir miklu að ríkisfjármálunum sé beitt með ábyrgum hætti í þágu alls almennings. Annars vegar þarf að kæla hagkerfið með aðhaldi og hins vegar að verja tekjulægri heimili fyrir áhrifum verðbólgu og snarpra vaxtabreytinga gegnum velferðarkerfið. Ríkisstjórn Íslands féll á báðum prófunum þegar hún kynnti frumvarp til fjárlaga og fjárlagabandorm sinn í haust.
Greiðslubyrði íbúðalána hjá nýjum lántakendum hefur aukist að meðaltali um 13–14 þús. kr. á mánuði frá ársbyrjun 2020 fram í ágúst 2022 eða um rúmlega 160 þús. kr. á ári. Dreifingin er misjöfn og hjá fjölda heimila hleypur aukin greiðslubyrði á mörgum tugum þúsunda á mánuði. Þetta er kostnaður sem bætist ofan á almennar verðlagshækkanir en verðlagseftirlit ASÍ hefur áætlað að mánaðarleg útgjöld fjölskyldu, með tvö börn sem býr í eigin húsnæði og er með 50 milljón kr. lán, hafi hækkað um 128.607 kr. á síðastliðnu ári.
Kaupmáttur hefur rýrnað umtalsvert á undanförnum mánuðum, greiðslubyrði vegna húsnæðislána hefur þyngst og hlutfall þeirra sem búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað fer hækkandi. Þá fer ójöfnuður samkvæmt gini-stuðlinum vaxandi um þessar mundir. Ráðstöfunartekjur jukust þrisvar sinnum meira hjá tekjuhæstu 10% landsmanna í fyrra heldur en hjá öðrum tekjuhópum. Fjármagnstekjur hafa aukist um 120% að raunvirði á sl. 10 árum en atvinnutekjur um 53%. Um leið rennur æ stærri hlutdeild fjármagnstekna til allra tekjuhæsta fólksins á Íslandi en 81% þeirra runnu til tekjuhæstu tíundarinnar í fyrra.
Ofsahækkun krónutölugjalda bitnar á tekjulægstu heimilum
Í fjárlagabandormi ríkisstjórnarinnar er lagt til að kolefnisgjald, olíugjald, almennt og sérstakt kílómetragjald, almennt og sérstakt bensíngjald, bifreiðagjald og gjald af áfengi og tóbaki hækki um 7,7% til samræmis við þá hækkun verðlagsvísitölu sem gert var ráð fyrir við framlagningu frumvarpsins frekar en 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans eins og algengast er. Hið sama gildir um gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, útvarpsgjald og gjöld sem falla undir lög um aukatekjur ríkissjóðs.
Þessar hækkanir eru kynntar í greinargerð frumvarpsins sem sérstök viðleitni til að „draga úr þenslu og verðbólgu“. Gallinn við þessa nálgun í glímu við verðbólgu er sá að í fyrstu leka gjaldahækkanirnar beint út í verðlagið og hækka vísitölu neysluverðs. Þetta viðurkennir fjármála- og efnahagsráðuneytið í greinargerð frumvarpsins þar sem segir að þessar hækkanir muni „óhjákvæmilega hafa áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs og eru þau áhrif áætluð 0,2%“. Auk þess kemur ráðstöfunin til hækkunar á verðtryggðum lánum heimila.
Við umfjöllun efnahags- og viðskiptanefndar um fjárlagabandorminn var það nær samdóma álit umsagnaraðila að 7,7% hækkun krónutölugjalda væri afar óskilvirk aðgerð til að beita skattkerfinu gegn verðbólgu og þenslu. Verra er þó hitt, að gjaldahækkanir sem þessar koma harðast niður á tekjulægri heimilum sem verja hæstu hlutfalli tekna sinna til neyslu. Þannig eru sömu hóparnir og finna sárast fyrir verðbólgunni líka látnir bera herkostnaðinn af baráttunni gegn henni.
Ástæða er til að vekja athygli á eftirfarandi sjónarmiðum sem eru sett fram af hagsmunaaðilum úr ólíkum áttum, verkalýðssamtökum, atvinnurekendasamtökum og neytendasamtökum sem öllum ber saman um að 7,7% hækkun krónutölugjaldanna sé óráð:
Í ljósi þess að verðbólga á milli ára var 9,3% í september sl. er óheppilegt að ríkisstjórnin boði hækkun gjalda á almenning. (…) Sú ákvörðun að láta gjöld fylgja verðlagsþróun í 9,3% verðbólgu er í litlu samræmi við þróun undanfarinna ára. Um er að ræða aðgerð sem mun koma verst niður á tekjulægstu heimilunum. Ítrekað er tiltekið að þetta sé aðgerð til að sporna við þenslu, þó hún sé í sjálfu sér verðbólguhvetjandi. Hér er því um að ræða mótsögn. (…) BSRB hefur frá árinu 2019 bent á að rekstur ríkissjóðs er ósjálfbær vegna veikleika á tekjuhlið sem tengjast ófjármögnuðum skattalækkunum á sl. kjörtímabili. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þessari stöðu eru hækkun gjalda á allan almenning. Líkur eru á að sveitarfélögin muni fylgja í kjölfarið með hækkunum á grunnþjónustu. – BSRB
Í ljósi þess að yfirlýst markmið fjárlagafrumvarpsins, sem frumvarp þetta fylgir, er að stuðla að lækkun verðbólgu, þykir FA skjóta einkar skökku við að lagt skuli til að krónutöluskattar og -gjöld sem hafa bæði bein og óbein verðlagsáhrif hækki um 7,7%. (…) FA bendir á að fyrirtæki á neytendamarkaði hafa þurft að takast á við miklar hækkanir launa og gífurlegar hækkanir á öllum aðfangakostnaði undanfarin misseri. Í sumum tilvikum valda hækkanir krónutöluskatta beinum verðhækkunum og í öðrum tilvikum má ætla að fyrirtæki neyðist til að velta hækkandi kostnaði af þeirra völdum út í verðlag. Þar má nefna sem dæmi hækkandi bifreiða- og eldsneytisgjöld, sem munu valda hækkun á kostnaði við vörudreifingu. – Félag atvinnurekenda
Í frumvarpinu er þó ósagt látið að verðbólgutenging þessi leiðir til hækkunar verðtryggðra lána heimilanna (sem nema rúmum 1.000 ma.kr.) um það sem nemur rúmlega 2 ma.kr. eða um þriðjung ávinnings ríkissjóðs. Þannig er kostnaður neytenda ekki einvörðungu þær umframálögur sem verðtrygging gjaldanna leggur á herðar þeirra, heldur einnig kostnaður vegna hækkunar lána heimilanna sem og annar kostnaður sem hlýst af minnkandi verðgildi krónunnar. – Neytendasamtökin
Í frumvarpinu er lagt til að dregið verði úr afslætti í tollfrjálsum verslunum þannig að áfengisgjald fari þar úr 10% í 25% og tóbaksgjald úr 40% í 50% af því sem almennt gildir. Fullyrt er að þetta skili ríkissjóði 700 milljónum en engin greining virðist hafa farið fram af hálfu ráðuneytisins á áhrifum þessara hækkana á eftirspurn og kauphegðun með tilliti til samkeppnisstöðu Fríhafnarinnar gagnvart erlendum fríhöfnum og flugfélögum. Þá er ástæða til að hafa áhyggjur af áhrifum þessara hækkana á innlenda smáframleiðendur sem eiga mikið undir fríhafnarsölu. Það eru vonbrigði að meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar vilji halda öllum þessum hækkunum til streitu frekar en að afla tekna með öðrum og sanngjarnari hætti.
Ríkisstjórnin grefur undan orkuskiptum í vegasamgöngum
Þetta eru ekki einu ómarkvissu skatta- og gjaldahækkanirnar sem boðaðar eru í fjárlagabandormi ríkisstjórnarinnar. Í frumvarpinu eru einnig lagðar til umfangsmiklar breytingar á skattlagningu ökutækja. Þar ber hæst álagningu lágmarksvörugjalds á alla fólksbíla og tvöföldun á lágmarksfjárhæð bifreiðagjalds. Með þessu er dregið rækilega úr verðmun á ökutækjum og mun á rekstrarkostnaði eftir því hvort ökutæki eru sparneytin eða eyðslufrek. Þannig eru innbyggðir orkuskiptahvatar í gjaldakerfinu veiktir umtalsvert og ljóst að fýsilegra verður fyrir neytendur en áður að kaupa og reka eyðslufrekar bifreiðar.
Græna orkan, samstarfsvettvangur um orkuskipti sem m.a. ráðuneyti og Orkustofnun eiga aðild að, hefur varað eindregið við þeim breytingum á kerfi skattlagningar ökutækja sem boðaðar eru í frumvarpinu og telur að þær muni „valda skaða á ferli orkuskipta í samgöngum“. Það er áhyggjuefni að ekki sé meiri alvara á bak við hátimbraðar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um loftslagsmál en raun ber vitni.
Til að draga úr losun frá vegasamgöngum skiptir þó einna mestu að liðka fyrir fjölbreyttum ferðavenjum, draga úr bílaumferð almennt, þétta byggð og efla almenningssamgöngur. Ríkið verður að virða og efna samninginn um eflingu almenningssamgangna sem gerður var við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu árið 2012 en uppsafnaðar vanefndir ríkisins á þeim samningi nema um 1,5 milljörðum kr. Í stað þessarar vanfjármögnunar gagnvart almenningssamgöngum ætti ríkisstjórn Íslands að taka sér ríkisstjórn jafnaðarmanna, frjálslyndra og græningja í Þýskalandi til fyrirmyndar sem brást við hækkandi eldsneytiskostnaði vegna Úkraínustríðsins með því að niðurgreiða almenningssamgöngur og veita stórfelldan afslátt af fargjöldum í lestir og strætisvagna. Eigi markmið um breyttar ferðavenjur og samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum að ná fram að ganga verður ríkið að styðja betur við Strætó bs. og koma með auknum krafti að rekstri almenningssamgangna.
Brýnt að hækka skerðingarmörk vaxtabóta
Á tímum mikillar verðbólgu og hárra vaxta skiptir máli að standa vörð um tekjutilfærslukerfin. Vaxtabótakerfið var hannað til að dempa höggið og létta undir með heimilum þegar greiðslubyrði af húsnæðislánum fer vaxandi. Vandinn er að þetta kerfi hefur verið veikt markvisst á síðastliðnum tíu árum og nú gjalda skuldsett heimili fyrir að eignaskerðingarmörk vaxtabótakerfisins hafa staðið í stað síðan 2018 meðan fasteignaverð hefur rokið upp úr öllu valdi. Samkvæmt greinargerð með fjárlagabandormi ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að áframhald verði á þessari þróun og vaxtabótakerfið haldi áfram að drabbast niður: „Mikil hækkun fasteignamats ásamt hærri tekjum mun leiða til aukinna skerðinga á árinu 2023 og mun hækkun vaxta hafa takmörkuð áhrif vegna mikilla skerðinga.“
Með hækkun heildarmats fasteigna samkvæmt fasteignamati Þjóðskrár fyrir árið 2023 er gert ráð fyrir að vaxtabætur skerðist um samtals 400 millj. kr., hátt í 90% þeirra sem fá vaxtabætur verði fyrir auknum skerðingum, framteljendum sem fá óskertar vaxtabætur fækki um 170 og framteljendum sem verða fyrir fullum skerðingum fjölgi um tæplega 2.800.
Ég hafði forgöngu um það á vettvangi efnahags- og viðskiptanefndar þann 20. maí síðastliðinn að kallað var eftir greiningu frá fjármálaráðuneytinu á áhrifum þess að hækka eignaskerðingarmörk í vaxtabótakerfinu og ráðast strax í slíka hækkun til að verja skuldsett heimili. Ráðuneytið lagðist þá mjög eindregið gegn því að þetta yrði gert. „Ekki verður séð að þörf sé á slíkum stuðningi,“ segir í minnisblaði frá ráðuneytinu þar sem fullyrt er að slík hækkun á eignaskerðingarmörkum vaxtabóta stangist á við stefnu stjórnvalda.
Þann 29. september síðastliðinn tók ég eignaskerðingarmörk vaxtabóta aftur upp á fundi efnahags- og viðskiptanefndar með fulltrúum fjármálaráðuneytisins. Ráðuneytinu var falið að reikna út kostnaðinn af hækkun eignarskerðingarmarka um 50% og greina hver áhrifin yrðu hjá mismunandi tekjuhópum. Niðurstaðan var sú að aðgerðin kostar 700-800 milljónir og rennur helst til fjórðu, fimmtu og sjöttu tekjutíunda en samkvæmt uppfærðu mati nemur kostnaðurinn 600 milljónum.
Við jafnaðarmenn höfum beitt okkur fast fyrir þessari hækkun til að styðja við heimilin sem bera hitann og þungann af hækkandi vöxtum. Við lögðum til 50% hækkun eignaskerðingarmarkanna í kjarapakka sem við kynntum í síðustu viku og það er fagnaðarefni að nú hafi ríkisstjórnin loksins fallist á að hrinda tillögunni í framkvæmd.
Engin leigubremsa og barnabótabarbabrella
Tekjulægstu tíundirnar eru í ríkara mæli á leigumarkaði og verða best studdar með hærri húsnæðisbótum og hömlum á hækkun leiguverðs. Við í Samfylkingu höfum mælt fyrir þingsályktunartillögu um að lögfest verði leigubremsa líkt og gert var í Skotlandi og Danmörku fyrr í haust. Þetta þarf að gerast sem allra fyrst til að tryggja að sú hækkun húsnæðisbóta sem boðuð er í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði skili sér raunverulega til leigjenda en verði ekki fyrst og fremst til þess að ýta enn frekar upp leiguverði og fita efnahagsreikninginn hjá okurfélögum á stjórnlausum leigumarkaði. Lagasetning um leigubremsu samhliða eflingu húsnæðisbótakerfisins og aukinni uppbyggingu hagkvæms íbúðarhúsnæðis á félagslegum forsendum myndi skipta sköpum fyrir tekjulægstu hópana á Íslandi og stuðla að auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði.
Verðbólga kallar á ábyrga efnahagsstjórn og aukið aðhald
Meginvextir Seðlabanka Íslands hafa hækkað um 3,75 prósentur í ár og eru nú 5 prósentum hærri en þeir voru þegar heimsfaraldur kórónuveiru stóð hæst. Skammtímamarkaðsvextir hafa þróast í takt við meginvexti bankans og heimili landsins ekki farið varhluta af þessu herta aðhaldi peningastefnunnar.
Í umsögn Seðlabanka Íslands um frumvarp til fjárlaga ársins 2023 frá 7. október sl. kemur fram að í ljósi nýlegrar þróunar verðbólgu telji Seðlabankinn „brýnt að ekki verði vikið frá því að aðhaldi í ríkisfjármálum verði beitt á næstu misserum“. Hinn 23. nóvember ákvað peningastefnunefnd Seðlabankans að hækka vexti bankans um 0,25 prósentur og eru þannig meginvextir orðnir 6 prósent. Vaxtahækkunum Seðlabankans er, að sögn seðlabankastjóra, ætlað að sporna gegn viðskiptahalla og koma í veg fyrir ójafnvægi, gengisveikingu og enn frekari verðbólgu þegar fram í sækir. Ákvarðanir um ríkisfjármál og aðhaldsstig opinberra fjármála eru á meðal atriða sem gætu ráðið miklu um þróun vaxta á næstu misserum.
Stjórnmálamenn geta ekki látið Seðlabankann einan um að sporna gegn verðbólgu. Ef ríkisfjármálin róa ekki í sömu átt og peningastefnan munu vextir haldast háir. Það er umhugsunarvert að fjárlagafrumvarpið hafi gert ráð fyrir 89 milljarða hallarekstri ríkissjóðs þrátt fyrir þenslu, kraftmikinn hagvöxt og hátt atvinnustig. Þrátt fyrir að verðbólguspá næsta árs sé nú dekkri en þegar frumvarpið var lagt fram og stýrivextir hafi verið hækkaðir enn frekar lagði meiri hluti fjárlaganefndar til breytingar á fjárlagafrumvarpinu sem fela í sér útgjaldaaukningu upp á tugi milljarða til viðbótar án þess að aflað sé nýrra tekna til að vega á móti þensluáhrifum útgjaldanna. Um leið hefur meirihlutinn í efnahags- og viðskiptanefnd lagt til að fallið verði frá hækkun gjalda á sjókvíaeldi. Þannig er aukið enn á misræmi tekna og gjalda og engu líkara en að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi sé beinlínis að biðja um að verðbólga verði áfram mikil og vextir haldist háir. Þetta er fádæma glannaskapur í ríkisfjármálum. Eftir að breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar voru kynntar hefur seðlabankastjóri stigið fram og lýst áhyggjum af stöðu mála – og skyldi engan undra. „Þetta mun mögulega hægja á því að við náum verðbólgu niður,“ er haft eftir seðlabankastjóra á mbl.is.
Fjármálaráð hefur ítrekað bent á veikleika í undirliggjandi afkomu ríkissjóðs sem má einkum rekja til ósjálfbærra skattalækkana á síðastliðnum áratug. Slík stefna grefur undan getu ríkisins til að halda uppi sterku velferðarkerfi og kraftmikilli almannaþjónustu. Ljóst er að styrkja þarf tekjugrunn hins opinbera og nú er rétti tíminn til að stíga fast til jarðar, bæði til að herða á aðhaldsstigi ríkisfjármálanna til skamms tíma og til að tryggja sjálfbæran rekstur ríkisins til framtíðar.
Skilum fákeppnisrentu í bankakerfinu til ríkissjóðs
Viðskiptabankarnir þrír, Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki, skiluðu rúmlega 80 milljarða kr. hagnaði í fyrra. Þar skipti sköpum sá tugmilljarða stuðningur sem veittur var úr ríkissjóði til að forða fyrirtækjum í ferðaþjónustu og fleiri greinum frá gjaldþroti á farsóttartímum, en án þessa stuðnings skattgreiðenda við atvinnulífið hefðu bankarnir orðið fyrir gríðarlegu útlánatapi. Samanlagður hagnaður bankanna var 50,2 milljarðar á fyrstu níu mánuðum ársins 2022 en Arion banki hagnaðist um 20,4 milljarða, Íslandsbanki um 18,5 milljarða og Landsbankinn um 11,3 milljarða. Ef rekstur bankanna gengur jafn vel á síðasta ársfjórðungi og á fyrstu þremur ársfjórðungunum verður sameiginlegur hagnaður þeirra um 67 milljarðar árið 2022.
Sérstakur skattur á fjármálastofnanir (bankaskatturinn) var lækkaður úr 0,376% niður í 0,145% árið 2020. Áhöld eru um hvort þetta hafi skilað viðskiptavinum bankanna einhverjum ábata eða haft teljandi áhrif á vaxtamun, enda leggst skatturinn að verulegu leyti á fákeppnisrentu. Hitt er ljóst er að lækkun skattsins hefur rýrt beinar tekjur ríkissjóðs umtalsvert. Lítið hefur verið gert af hálfu stjórnvalda til að auka samkeppni á bankamarkaði á undanförnum misserum sem er alla jafna forsenda þess að lækkun skatta af þessu tagi skili sér til neytenda.
Samkvæmt minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins til efnahags- og viðskiptanefndar frá 17. október síðastliðnum má ætla að tekjur ríkissjóðs af skattinum yrðu allt að 9,4 milljörðum meiri á næsta ári ef skatthlutfallið væri hið sama og það var fyrir lækkunina 2020. Sterk rök hníga að því að afturkalla að hluta þá miklu lækkun bankaskatts sem ráðist var í árið 2020.
Stórútgerðin er aflögufær
Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki högnuðust samanlagt um 65 milljarða kr. í fyrra samkvæmt greiningu Deloitte. Þar af voru 18,5 milljarðar kr. greiddir út í arð til eigenda fyrirtækjanna en bókfært eigið fé sjávarútvegsfélaga nam 353 milljörðum í lok ársins 2021. Heildararðgreiðslur út úr sjávarútvegi á árunum 2016–2021 nema um 89 milljörðum kr. en á sama tíma hafa útgerðarfyrirtæki greitt samtals um helmingi lægri fjárhæð í veiðigjöld eða 43,8 milljarða kr. Þetta er til marks um að sú gríðarlega auðlindarenta sem verður til í sjávarútvegi skilar sér aðeins að litlu leyti til almennings á Íslandi. Þær rannsóknir sem liggja fyrir á umfangi þessarar auðlindarentu benda til þess að hún hafi verið að meðaltali um 47 milljarðar á ári á tímabilinu 2010–2020.
Hagur sjávarútvegsfyrirtækja hefur vænkast mjög að undanförnu og methagnaður var í greininni í fyrra. Síðan hefur verð á íslenskum sjávarafurðum hækkað enn frekar sem má einkum rekja til stríðsins í Úkraínu og viðskiptaþvingana Vesturlanda gegn Rússlandi. Útflutningsverð á íslenskum sjávarafurðum í erlendum gjaldmiðlum hækkaði um tæplega fjórðung milli ára á öðrum ársfjórðungi þessa árs og var þá um fimmtungi hærra en að meðaltali árið 2019 og hækkaði svo áfram á þriðja ársfjórðungi. Samkvæmt spá Seðlabankans mun útflutningsverðið hækka um tæplega 20% á árinu í heild.
Það er réttlát krafa að stór sjávarútvegsfyrirtæki sem standa vel og skila miklum hagnaði skili stærri hlutdeild í arðinum af fiskveiðiauðlindinni til þjóðarinnar. Með einföldum lagabreytingum mætti til að mynda leggja sérstakt stærðarálag á veiðigjöld þeirra útgerða sem halda á mestum fiskveiðikvóta og auka þannig tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi um milljarða á ári.
Sanngjarnari skattlagning fjármagns
Útgreiðslur skráðra félaga í Kauphöll í formi arðgreiðslna og endurkaupa á bréfum árið 2021 voru meira en 80 milljarðar kr. og stefnir í að útgreiðslurnar verði vel á þriðja hundrað milljarða í ár. Hlutur tekjuhæsta 0,1 prósents landsmanna í heildartekjum jókst gríðarlega í fyrra, fór úr því að vera 2,6 prósent árið 2020 í 4,2 prósent árið 2021 og hefur ekki verið hærra síðan á hápunkti fjármálabólunnar 2007. Á sama tíma jókst hlutfall ríkasta eina prósents landsmanna af heildartekjum úr 7,9 prósentum í 10 prósent. Fjármagnstekjur jukust um 65 milljarða kr. milli 2020 og 2021 og voru 181 milljarður kr. en alls fóru 81 prósent teknanna til tekjuhæstu 10 prósenta skattgreiðenda.
Ég kallaði eftir því á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í haust að fjármálaráðuneytið legði mat á auknar tekjur af hækkun fjármagnstekjuskatts um þrjú prósentustig, úr 22 prósentum í 25 prósent. Ljóst er að slík hækkun myndi skila á bilinu 4 til 5 milljörðum í ríkissjóð. Ekki er greiddur fjármagnstekjuskattur af heildarvaxtatekjum að fjárhæð 300.000 kr. samtals á ári hjá hverjum einstaklingi, og tekur þetta frítekjumark einnig til tekna af hlutabréfaeign í formi arðs og söluhagnaðar í félögum skráðum á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga. Vegna þessara frítekjumarka myndi hækkun fjármagnstekjuskatts nær einvörðungu lenda á tekjuhæstu 10 prósentum landsmanna. Þetta er ábyrg og skynsamleg ráðstöfun og betur til þess fallin að slá á verðbólgu heldur en ofsahækkun ríkisstjórnarinnar á krónutölugjöldum sem leggjast þyngst á tekjulægstu heimilin.
Til viðbótar við hækkun skatthlutfallsins er brýnt að gripið verði til aðgerða til að girða fyrir að atvinnutekjur séu ranglega taldar fram sem fjármagnstekjur. Hér verður að líta til aðferða sem beitt er á hinum Norðurlöndunum við skattlagningu félaga þar sem fjármagnstekjur eru áætlaðar út frá eignum og viðbúinni ávöxtun og það sem eftir stendur er skattlagt sem laun. Samkvæmt gögnum sem hagdeild ASÍ hefur tekið saman má ætla að aðgerðir til að girða fyrir tekjutilflutning geti skilað að minnsta kosti 3 milljörðum í auknar tekjur og að sú aukna skattbyrði muni eingöngu leggjast á tekjuhæstu 10 prósent skattgreiðenda.
Heildaráhrifin af þeim tillögum sem hér hafa verið reifaðar yrðu afkomubætandi fyrir ríkissjóð og fælu í sér meira aðhald en birtist í fjárlögum ríkisstjórnarinnar. Með þessari fjármálastefnu jafnaðarmanna sláum við tvær flugur í einu höggi: vinnum hraðar á verðbólgunni og skýlum tekjulægri heimilum fyrir áhrifunum af henni. Það er góð velferðarpólitík og góð hagstjórn.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.