Þær eru margar skýringarnar, sem varða bæði efnahagsleg og hernaðaröryggisleg málefni og finna má um hina skelfilegu Úkraínudeilu. Margt gagnlegt hefur verið sett fram sem útskýrir stöðuna. En það er einnig annað og meira undirliggjandi. Það eru nokkur atriði úr menningu, sögu og trúarbrögðum þessa heimshluta, sem þvælist fyrir í deilunni á milli Moskvu og Kiev, og ná aftur fyrir þá grundvallarspurningu hvað Rússland er og hvað það felur í sér að vera Rússi og hverjum á að treysta til að verja mýtur fortíðar.
Í annarri viku júlí 2021 birtist grein (1) á vef Kremlarstjórnar eftir forseta Rússlands Vladimir Pútin sem nefndist „Um hina sögulegu einingu Rússa og íbúa Úkraínu“. Greinin er lykill og leiðarvísir um hvernig túlka beri sögu og sagnaarf svæðisins, sem móta viðhorf Pútins, og fjölmargra annarra íbúa Rússlands.
Í fyrsta lagi þá er það útbreidd skoðun á meðal Rússa – þeirra á meðal Pútins, að íbúar Rússlands og íbúar Úkraínu séu eitt og sama fólkið, „bræðraþjóðir“ er skiptist í hóp Velikorossy („fjölmennari Rússar“) og hina, íbúa Úkraínu, Malorossy („fámennari Rússar“). Á svipaðan hátt er litið á íbúa Belarús – dregið af nafni landsins og nefndust íbúarnir þar Belorusy eða Hvít-Rússar. Þegar Rússland varð keisaradæmi 1547, þá var opinber styttri útgáfa af nafni þjóðhöfðingjans tsar vseya Rusi, „keisari (tsar) allra landa Rússa“.
Öll þessi lönd Rússanna urðu til upp úr landsvæðum forfeðranna og furstadæmum þeirra er byggðu Kiev (Kænugarð í norrænum frásögnum), þar sem ýmsir úr ættarveldi væringjaforingjans Rúriks, réðu eftir hans daga. (Rurik eða Hrærekur hinn norræni ríkti þarna á 9. öld). Ættarveldi hans er sagt eiga uppruna sinn í Novgorod (Hólmgarði í Garðaríki, hinni „köldu Svíþjóð“, og sagt er frá í Heimskringlu), en Rúrik færði höfuðstað sinn suður til Kiev árið 882 þegar Helgi jarl (Oleg) arftaki hans, vann þann stað, að sagt er. Það varð síðan höfuðborg Rúriksættarveldisins og þeirra bandalaga umhverfis er þar var stofnað til. Þess má geta til samanburðar að á þeim tíma taldist héraðið þar sem Moskva óx upp síðar, útnári og ekki sérstaklega getið fyrr en liðið var nokkuð inn á 12. öld.
Það er þessi sameiginlegi ættstofn sem gerir samband Rússa við Hvít-Rússa og Úkraínumenn allt öðruvísi en samband þeirra við önnur fyrrum Sovét-lýðveldi. Kasakstan, Eistland, Georgía og fleiri slík gátu talist félagar og bandalagsþjóðir, en fólkið í Úkraínu og Hvít-Rússar voru ættingjar. Rússland, Hvíta-Rússland og Úkraína telja að þetta ríki sé hin forna undirstaða menningar þeirra og þjóðfélags – og Pútin skrifar heilshugar undir þá söguskoðun í grein sinni. Veldið í Kiev gegndi mikilvægri stöðu á meðal Rússa til forna. Svo hefur verið frá því á 9. öld. Sagan frá þessum löngu liðna tíma geymir framsýn orð Olegs spámanns um Kíev til komandi kynslóða er hann sagði: „Verði þessi staður móðir allra rússneskra borga.“
Trúarbrögð, líkt og vikið er að í grein Pútins, renna frekari stoðum undir þetta samband. Það nær aftur til tíma heilags Vladimirs, sem einnig er nefndur Vladimir mikli, eða Vladimir er skírði Slava til kristni, fyrrum þjóðhöfðingi í Kænugarði er snérist sjálfur til kristins rétttrúnaðar árið 988 og gerði kristni að ríkistrú.
Trúskipti hans og hjónaband við býsanska (grísk-rómverska) prinsessu leiddu til nánari tengsla við Býsanska ríkið (2) – og upphaf ættartengsla og kröfu til lögmætra erfða inn í Konstantínópel. Vladimir Monomakos, hæstráðandi í Kiev á árunum 1113 til 1125, tók upp sæmdarheitið (3) „Akron allra Rússa“ samkvæmt grískri hefð (4). Eftirnafnið, Monomakos, tók hann upp vegna fjölskylduvensla við Býsanskeisara Konstantín IX Monomakos. Keisarinn í Konstantínópel var Guði næstur og stóð framar öðrum konungum og akronum. Hann var krýndur í embætti af patríarka borgarinnar, æðsta manni grísku rétttrúnaðarkirkjunnar. Þannig hafði það verið í höfuðborg Austur-Rómverska ríkisins í nærri níu hundruð ár.
En þessi regla raskaðist hinsvegar í innrásum voldugra og herskárra afla austan úr álfunni – fyrst með innrás Mongóla sem jöfnuðu rússneska ríkið í Kiev við jörðu og skiptu svæðinu upp í hjálendur sínar og lén. Að lokum féll svo sjálf Kostantínópel endanlega í hendur tyrkneska Ottómanættarveldisins. Kiev sem eitt sinn var öflugt og stolt ríki var orðið rústir einar og haugarnir af hauskúpum lágu á víð og dreif um það litla sem eftir var af byggðinni. Og seinna meir fyrir fannst engin keisari lengur í Býsansríki til þess að ríkja yfir rússneskum höfðingjum og tengja þá við almættið.
Þegar Mongólaveldið norðan Svartahafs fór að gefa eftir seint á 15. öld og hnigna fyrir alvöru með orrustunni við Ugrafljót (5) reyndu hlutar hins gamla veldis Rússanna í Kiev að ná aftur völdum á svæðinu – sem þeir nú voru farnir að kalla „Rússland“. Þeir mættu hinsvegar annarri áskorun úr vestri: Pólland hafði nefnilega eflst mjög á þessum tíma og innlimað stóran hluta svæðisins sem í dag er vestasti hluti Úkraínu og land Hvít – Rússa heyrði orðið undir Litháen.
Það var á þessu tímaskeiði sem Úkraína, eitt sinn heimaland Rússanna er ríktu í Kænugarði (Kiev) fékk sitt sérstaka nafn. Það eru tvær kenningar í gangi um hvernig nafnið er tilkomið – önnur sem flestir sagnfræðingar eru inn á, auk rússneskra stjórnvalda og síðan hin sem úkraínskt fræðasamfélag og ríkisstjórn hallast að. Sú fyrri uppástendur að eftir yfirtöku pólsku krúnunnar á gömlum landsvæðum Kievríkisins 1569, hafi það hlotið viðurnefnið „Úkraína“ (sem túlka má „út við landamærin“ á fornu máli Slava) því frá pólskum sjónarhóli þá nam landið við gresjuna og héruðin austur við Krímskagann, þar sem hirðingjaþjóðflokkar á borð við Tatara réðu ríkjum.
Hin kenningin (6) fullyrðir að á úkraínsku og fornri slavnesku sé merkingarmunur á orðunum „oukraina“ og „okraina“. Bæði eru þau dregin af „kraj“ – sem þýðir „landamæri“ á fornri slavnesku, en það sé mikilvægur munur á forsetningu. Ou útgafa orðsins merkir „innan“ en o útgáfan merkir „umhverfis“ – í þessu samhengi merkir Úkraína „löndin sem tengjast miðjunni“ eða „löndin sem liggja að miðjunni“ sem þá er túlkað að tákni landsvæðið umhverfis Kiev og heyri beint undir það. Það má teljast langsótt krafa, en hún gefur Úkraínumönnum öfluga tengingu við arfleifð sína í Kænugarðsríkinu.
Á sínum tíma þurfti nýja rússneska ríkið að sanna tilverurétt sinn í heimi rétttrúnaðarins – og ættartengsl við Rómarveldið gamla, enn eina stoð við þjóðar-pólitískt lögmæti sitt. Með Konstantínópel sem verið hafði önnur Róm (Nýja Róm stofnuð eftir hrun Rómarríkis á Ítalíu), og fallin í hendur múslíma, og þá varð Moskva „þriðja Róm“ (7) og patríarkíið þar gert jafnt að virðingu og verið hafði í Konstantínópel og Róm. „Fyrstu tvær Rómarborgirnar horfnar, sú þriðja stendur og það verður engin fjórða Róm,“ líkt og segir í rússneskri orðskviðu. Rússneskir þjóðarleiðtogar eftir 1547 lýstu því að þeir væru ekki lengur konungar, heldur keisarar – „tsar“ dregið af hinum forna rómverska titli caesar.
Og þessi hugmynd heppnaðist. Hún gagnaðist rússneska valdaskipulaginu; með aðstoð rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar og patríarkísins (feðraveldisins) hjálpaði það ráðamönnum að efla miðstýringu og færa til Moskvu nauðsynlegt lögmæti valdhafans. Rússneskir leiðtogar kvæntust inn í býsönsku ættarveldin er steypt hafði verið af stóli og hrakist höfðu upp til Moskvu og með því urðu til heillarík afbrigði af goðsögum sem réttlættu meinta arfleifð þeirra frá Konstantínópel.
En einn hængur var á. Líkt og forðum hafði verið í Róm, til að geta kallast keisari varð viðkomandi að ríkja yfir öllum Rómverjum og þá varð einnig sá er kallaðist tsar að ríkja yfir öllum Rússum. Menningarleg, söguleg og trúarleg sérstaða Kænugarðs var hinsvegar aðeins of mikil til að hægt væri að láta eins og hún væri ekki til staðar. Það var hinsvegar ekki vandamál sem tsarinn setti fyrir sig, eftir að vera búinn að klóra undir sig aftur töpuðum landsvæðum í vestri – því þá hófst hann handa við að færa út ríkið til austurs.
Rússneska keisaradæmið reyndi að uppræta önnur austur slavnesk tungumál úr sameiginlegu menningarminni – það var látið eins og það væri ekki nein Úkraína og hafði aldrei verið, það sama var upp á teningnum í Hvíta-Rússlandi. Samkvæmt keisarastjórninni þá höfðu íbúar Úkraínu alltaf verið Rússar og ættu sjálfir enga sögu. Úkraínska og hvít-rússneska voru bönnuð. Úkraínsk þjóðrækni var ógn við rússnesku goðsögnina og stóð í vegi fyrir að hægt væri að skapa „eitt rússneskt þjóðerni“. (Þetta svipar til vandans sem tyrknesk stjórnvöld hafa glímt við frá lýðveldisstofnuninni 1923 og birtist m.a. í áratuga deilum við kúrdíska þjóðarbrotið í landinu, sem vilja ekki vera Tyrkir).
Í Sovétríkjunum var þessu öðruvísi farið, fyrstu hugsjónamennirnir horfðu með fyrirlitningu til gamla lénsskipulagsins og sáu fyrir sér Úkraínu, Hvíta-Rússland og Rússland sem aðskildar þjóðir en sameinaðar og jafnar í sovésku hugsjóninni.
Þær hugmyndir viku hinsvegar fljótlega fyrir þeirri sovésku og Jósef Stalín var það beinlínis kappsmál að uppræta og eyða öllum þjóðræknistilburðum í Úkraínu. Holodomor (8) eins og hún kallaðist tilbúna hungursneyðin á árunum 1932-1933 sem varð milljónum íbúa landsins að bana – og sagnfræðingar deila um af hve miklu leyti hafi verið skipulögð sem slík. Úkraínsk menning var kerfisbundið bæld niður, þar með talið bann við kennslu á úkraínsku (9) í skólum og fjölda skóla var lokað.
Samt var eftirmaður Stalíns, Nikíta Krútsjov, frá Úkraínu og yfirmaður kommúnistaflokksins í Úkraínu þar til 1949 þannig að hann fylgdist með nánari samþættingu inn í sovéska stjórnmálakerfið með takmörkuðu sjálfræði í staðbundnum málum og skilvirkri stefnu frekar en beinni útrýmingu. Sem hluti af svokölluðum innanríkisumbótum árið 1957 voru svæðisbundin efnahagsráð kynnt til viðbótar við lýðveldisefnahagsráðin til að styrkja sjálfstjórn Úkraínu. Úkraínska sósíalíska sovétlýðveldið (10) öðlaðist rétt til að setja eigin lög á sínu sviði svo framarlega sem þau samrýmdust lögum sambandsins og að samtök verkalýðsfélaganna hefðu kallað eftir þeim. Borgin Kíev varð mjög einkennandi fyrir sovéskar héraðshöfuðborgir en naut engrar athygli eða sérréttinda fram yfir aðrar hliðstæðar borgir í Sovétríkjunum og var látin falla vel inn í raðir annarra sovétlýðvelda. Það var lítið gert úr sérstakri stöðu þess í austur-slavneskri sögu og hún tónuð niður og hunsuð, af því hún féll ekki að söguskoðun stjórnvalda.
En þetta er mun meira vandamál fyrir Rússland nútímans sem hvorki ræður yfir hugmyndafræðilegum sveigjanleika Sovétmanna né landsvæðum gamla heimsveldisins. Pútin sýnir sig sem ígildi keisara. Hann vill fara í sögubækurnar sem sameiningarafl í löndum Rússa – ef ekki undir sameiginlegri ríkissjórn, þá afdráttarlaust með hann sjálfan sem æðsta yfirvald í hinum rússneska heimi.
Pútin hefur alla tíð leitast við að sýna sig sem glæsilegan og sigursælan leiðtoga. Í því sambandi má nefna sigurræðu hans eftir kosningarnar 2012 (11), eða eftir innlimun Krímskaga hvernig hann lagði áherslu (12) á sögulegt mikilvægi þeirrar sameiningar í ávarpi sínu til þingmanna Dúmunnar, kallaði hana „heimkomu“ og mærði fyrri afrek rússneska hersins. Markmið hans voru ekki síður augljós í viðbrögðunum við öllum málaleitunum Japana varðandi samninga um Kúrileyjar (13). Þá hefur hann einnig látið byggja risastóra og veglega höll (14) fyrir sjálfan sig, skreytta um allt með gullhúðuðum tvíhöfða örnum, skýru tákni rússneska keisaradæmisins og fornu tákni rétttrúnaðarins – meira að segja í prívat nektardansklúbbi (15) hans, staðsettum í kjallara hallarinnar. Rússneska réttrúnaðarkirkjan er honum síðan ávallt til aðstoðar ef róa þarf íbúana og styðja við hverja þá goðsögn sem stjórnvöld í Kreml vilja upphefja. Pútin vill eigna sér heiður af sovésku arfleifðinni og um leið láta líta á sig í sama ljósi og keisarana forðum. Þess vegna verður hann að endurvekja og halda til haga gömlum goðsögnum og gildum heimsveldisins – og til þess verður hann að ná og halda traustu taki á Kiev. Því þegar öllu er á botninn hvolft þá var það hinn endurreisti rússneski Kænugarður sem varð Rússland og hin þriðja Róm.
Úkraína fer sínar eigin leiðir, krefst arfleifðar Kænugarðsríkisins og færist frá Moskvu með ofnæmi fyrir eigin rétttrúnaðarkirkju – allt þetta gengur gegn mýtólógíu Kremlverja. Goðsagnir heimsveldisins skilgreina Rússland og jafnvel hvað það er að vera Rússi. Án þeirra þá hættir Rússland að vera það Rússland sem það hefur verið í augum margra. Pútin er sannfærður um að ef þessi samfélagslega samheldni raskast þá muni Rússland aftur liðast í sundur – og ef hann leyfir því að gerast þá er arfleifð hans í rúst. Frá hans bæjardyrum þá getur aldrei orðið aðskilið úkraínskt tungumál, menning eða saga.
Úkraína stendur frammi fyrir samskonar vandamáli. Henni finnst hún vera rétti erfingi rússneska Kænugarðsríkisins, en ekki Rússland, að íbúar Úkraínu verði að skilja Kænugarð frá Rússlandi nútímans og halda á lofti eigin sögu. Þeir hafa séð hvað gerðist þegar rússnesku goðsögninni er framfylgt í Hvíta-Rússlandi – þar sem stjórnarandstaðan veifar nú hvítum og rauðum fánum frá tíma Pólsk-Litháíska samveldisins í mótmælaskyni og gefa sögu rússneskrar þjóðernishyggju langt nef.
Þannig er áfram deilt. Og það mun halda áfram svo lengi sem Rússland vill í raun og veru geta kallað sig Rússland, líkt og það skilgreinir sig og aðrir afkomendur Rússanna frá Kænugarði vilja ráða eigin örlögum og eiga sitt eigið tungumál, sögu og hefðir, án afskipta frá Moskvu. Það má takast á um efnahagsmál, veita öryggisábyrgð og undirrita nýja samninga – en þessi fornu vandamál verða aðeins leyst með því að ráðast í nýtt verkefni byggt á nýjum hugmyndum og hugsjónum á nýjum grundvelli lögmætis sem þarf ekki á því að halda að styðjast við fornar arfsagnir. Ef til vill er kominn tími til að láta þriðju Róm falla. Og til að gefa gömlu sagnaminni sómasamleg endalok ætti að heiðra þann hluta sérstaklega er fjallar um að aldrei yrði lagt í að byggja þá fjórðu.
Höfundur er blaðamaður búsettur í Riga í Lettlandi og heldur úti hlaðvarpinu The Eastern Border þar sem fjallað er um lönd gömlu Sovétríkjanna og samtímastjórnmál í Austur-Evrópu. Hann er doktorsnemi í samskiptafræðum.
Þýðandi greinarinnar er Ástþór Jóhannsson.
Heimildir:
1.Article by Vladimir Putin ”On the Historical Unity of Russians and Ukrainians“ • President of Russia (kremlin.ru)
2. session0810theseis.pdf (msu.ru)
3.Актовые печати Древней Руси X-XV вв., etc - Google Books
4.archon | ancient Greek magistrate | Britannica
6Neue Seite 5 (vostlit.info)
7.(PDF) "Moscow the Third Rome" as Historical Ghost | Don Ostrowski - Academia.edu
8.“The Third Rome”: From Eschatology to Political Myth (mospat.ru)
9.Holodomor | Facts, Definition, & Death Toll | Britannica
10.Ukrainian Soviet Socialist Republic (encyclopediaofukraine.com)
12.Address by President of the Russian Federation • President of Russia (kremlin.ru)
13.Kremlin denounces Japan’s sovereignty claim over disputed islands | News | Al Jazeera
14.Putin Leak: Navalny Group Says 479 Photos Show Secret, Opulent Palace (businessinsider.com)
15.Золотое безумие. Реальные фотографии дворца Путина - YouTube