Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er umdeildur maður. Hann talar mikið um hvað margar skoðanir annarra séu furðulegar, telur sig ákaflega oft vera misskilinn í opinberri umræðu og að fjölmiðlar séu honum sérlega andsnúnir. Sigmundur Davíð virðist eiginlega ekki geta komið fram opinberlega, og látið hafa eitthvað eftir sér, án þess að samfélagið fari á hliðina og samfélagsmiðlar logi. Nú um helgina tókst honum að gera allt vitlaust tvisvar sinnum, annars vegar með ummælum sínum um að þjóðin yrði að læra af lekamálinu, og hins vegar vegna orða sinna um umræðuna á Íslandi.
Í ræðu sinni á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins, sem fram fór á Höfn í Hornarfirði í gær, tók Sigmundur Davíð þetta fyrir og sagði að „Illmælgi, sleggjudómar og niðurrifstal hefur aldrei átt jafngreiða leið að almennri umræðu og nú. Að mestu leyti verður þetta til hjá fámennum hópi fólks sem er alls ekki er lýsandi fyrir samfélagið en tíðarandinn er þó slíkur að þessi brenglaða sýn nær athyglinni og gefur tóninn fyrir umræðuna. Það getur haft raunveruleg og mjög neikvæð áhrif fyrir samfélagið.“
Fjölmargir kjósa að skilja þessa nálgun forsætisráðherrans þannig að vandamálið liggi ekki hjá honum, heldur hinum sem láta hann fara svona ævintýralega í taugarnar á sér.
Fjölmargir kjósa að skilja þessa nálgun forsætisráðherrans þannig að vandamálið liggi ekki hjá honum, heldur hinum sem láta hann fara svona ævintýralega í taugarnar á sér. Margir finna hjá sér mikla þörf til að mála Sigmund Davíð sem einhverskonar allsherjarflón. Þeim finnst hann skorta alla auðmýkt og því forherðist umræðan í hvert sinn sem forsætisráðherrann kvartar yfir henni.
Þetta er ekki jafn lítill hópur og forsætisráðherrann vill láta í veðri vaka. Sigmundur Davíð er sá forystumaður í íslenskum stjórnmálum sem nýtur minnst trausts samkvæmt skoðannakönnunum. Í könnun MMR í sumar sögðust 58,2 prósent bera til hans lítið traust en einungis 23,2 prósent treystu honum vel. Einungis þriðjungur þjóðarinnar styður ríkisstjórn hans og fylgi Framsóknarflokksins mælist vel rúmlega helmingi minna en það sem flokkurinn fékk í kosningunum fyrir rúmu einu og hálfu ári.
Hefur fært flokkinn í sína átt
En fólk er að vanmeta Sigmund Davíð.
Hann var kosin formaður Framsóknarflokksins 19. janúar 2009. Áður hafði Sigmundur Davíð aldrei starfað í flokknum, sem hann skráði sig raunar í mánuði áður en hann settist í formannstólinn.
Hann var alveg að verða 34 ára gamall á þessum tíma. Innan við tveimur vikum síðar var hann búinn að framkvæma einstæðan pólitískan viðburð með því að verja minnihlutastjórn VG og Samfylkingar falli. Hann vildi ekki að Framsóknarflokkurinn yrði hluti að þeirri ríkisstjórn vegna þess að honum þótti efnahagsaðgerðirnar sem boðaðar voru í stjórnarsáttmála hennar ekki raunhæfar. Án Sigmundar Davíðs hefði hins vegar ekki verið hægt að mynda þá ríkisstjórn, sem sat síðan áfram í krafti nýfengis meirihluta eftir kosningarnar vorið 2009.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var einungis 33 ára þegar hann tók við formennsku í Framsóknarflokknum og var nýorðinn 38 ára þegar hann varð forsætisráðherra.
Framsóknarflokkurinn sem Sigmundur Davíð tók við virtist ætla að verða ákaflega frjálslyndur. Hann hafði nýverið samþykkt stefnu sem í fólst að Ísland ætti að hefja viðræður við Evrópusambandið um aðild, að koma ætti rekstri íslensku bankanna í eðlilegt horf og að semja ætti um aðkomu kröfuhafa þeirra að því. Í kosningastefnuskrá flokksins frá 2009 kemur meira að segja fram að Framsókn hafi viljað „að ný og nútímaleg stjórnarskrá verði samin“.
Þessi kosningastefnuskrá hefur nú verið fjarlægð af vefnum. Með tímanum hefur Sigmundur Davíð leitt flokkinn í allt aðra átt en hann virtist ætla í vorið 2009. Ekki verður annað séð en að það hafi alltaf verið stefna Sigmundar Davíðs.
Mótaðist af Icesave
Líklega gagnrýndi enginn síðustu ríkisstjórn harðar, og með meira sleggjutali og niðurrifsdómum, en Sigmundur Davíð. Sú ríkisstjórn endaði sitt kjörtímabil haltrandi særð, hlaðin óvinsældum og ekki með meirihluta á Alþingi. Ljóst var að barningur stjórnarandstöðunnar hafði þar mikið að segja. Hann skilaði árangri.
Segja má að Icesave-málið hafi hins vegar mótað Sigmund Davíð meira sem stjórnmálamann en nokkuð annað mál.
Segja má að Icesave-málið hafi hins vegar mótað Sigmund Davíð meira sem stjórnmálamann en nokkuð annað mál. Átakastjórnmálamann. Hörð andstaða hans þar gerði það að verkum að Framsóknarflokkurinn gat að mörgu leyti eignað sér „sigurinn“ þegar málið vannst á endanum fyrir EFTA-dómstólnum. Enda fór fylgi flokksins á fleygiferð strax í kjölfarið.
En á síðustu árum hefur önnur pólitík Sigmundar Davíðs lika opinberast mjög skýrt. Hann, með aðstoð harðasta kjarna valdamanna flokksins, hefur snúið Framsóknarflokknum í allt aðra átt en hann var árið 2009 þegar formaðurinn ungi tók við taumunum. Nýi Framsóknarflokkurinn er ekki sérstaklega alþjóðlega sinnaður, hann er á móti Evrópusambandinu, fylgjandi afnámi verðtryggingar, vill skuldaniðurfellingar fyrir þá sem voru með verðtryggð lán og vill, síðast en ekki síst, strauja kröfuhafa bankanna með þeim hætti að stórkostlegar fjárhæðir sitji eftir í ríkissjóði.
Unnið nánast alla pólitíska bardaga sína
Þegar farið er yfir þessi mál sem Sigmundur Davíð hefur lagt áherslu á er ljóst að hann hefur unnið nánast alla pólitíska slagi sem hann hefur háð.
Hann lagði sitt á vogaskálarnar að koma vinstri stjórninni, sem hann bjó að mörgu leyti upphaflega til, frá. Nálgun hans á Icesave-málið varð ofaná, búið er útfæra fordæmalausar skuldaniðurfellingar, verið er að vinna að afnámi verðtryggingar, umsókn Íslands að Evrópusambandinu er dauð og verður nánast pottþétt dregin formlega til baka á allra næstu misserum. Og síðast en ekki síst þá er framundan að hrinda í gang aðgerðaráætlun sem gæti skilað 300 til 500 milljörðum krónum af peningum erlendra kröfuhafa fallina banka í ríkissjóð.
Víglínur dregnar
Það er rétt hjá Sigmundi Davíð, og fleirum sem á það hafa bent, að aðstæður á Íslandi eru um margt góðar í samanburði við stöðu annarra landa, jafnvel áður en við vinnum í kröfuhafalottóinu. Hér er hagvöxtur, lítið atvinnuleysi og lág verðbólga. Sitjandi ríkisstjórn hefur lagt sitt að mörkum til að skapa þessa stöðu, sérstaklega með sértækri skattlagningu sem aukið hefur tekjur ríkissjóðs verulega. Það gerði síðasta ríkisstjórn auðvitað líka. Og atvinnulífið, og Seðlabankinn og fyrst og síðast fólkið sem býr í þessu landi. Það á enginn einn þessa stöðu.
Hér er hins vegar enn margt að og óþreyja margra gagnvart lífskjörum sínum er skiljanleg.
Hér er hins vegar enn margt að og óþreyja margra gagnvart lífskjörum sínum er skiljanleg. Ryðið sem hefur fengið að breiðast út um helstu velferðarinnviði þjoðarinnar frá hruni hefur bein áhrif á þetta fólk. Það finnur ekki fyrir meiri kaupmætti. Fyrir marga er ákaflega erfitt að láta enda ná saman. Þessi hópur upplifir að það séu aðrir sem njóti betri aðstæðna en hann. Til dæmis eigendur stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins sem eru orðnir ofurrríkir á evrópskan mælikvarða, starfsmenn fjármálastofnanna sem fá launahækkanir langt umfram það sem tíðkast á almennum vinnumarkaði eða athafnamenn sem voru afar sýnilegir í góðærisbrjálæðinu fyrir hrun en virðast vera algjörlega búnir að ná vopnum sínum.
Allt of mikið af fólki upplifir víglínur í íslensku samfélagi. Að það séu „við“, sem vinnum vinnuna og skrimtum, og „þeir“ sem njóta ávaxta alls erfiðisins.
Við búum í samfélagi Sigmundar Davíðs
Takist sú áætlun Sigmundar Davíðs og ríkisstjórnar hans að strauja kröfuhafanna, og láta hundruði milljarða króna sitja eftir í ríkissjóði, mun hann vera í þeirri stöðu að geta borgað sig út úr þessum ímyndarvanda. Þá yrði hægt að fara á fullt í að fjárfesta í innviðum velferðarkerfisins, byggja nýjan spítala, hækka laun, laga skuldastöðu ríkissjóðs og allt hitt sem setið hefur á hakanum hin sex mögru ár sem við höfum lifað.
Framundan gætu því verið, ef allt gengur upp, sex gjöful ár. Svona eins og voru á árunum 2002-2008, þegar við fengum nokkur þúsund milljarða króna lánaða hjá erlendum bönkum til að bæta lífskjörin hérlendis á áður óþekktum hraða.
Verði það niðurstaðan er ljóst að Sigmundur Davíð mun standa uppi sem einhvers konar sigurvegari og samfélagið sem við búum í verður mjög mótað af hugmyndafræði hans
Verði það niðurstaðan er ljóst að Sigmundur Davíð mun standa uppi sem einhvers konar sigurvegari og samfélagið sem við búum í verður mjög mótað af hugmyndafræði hans. Hvort sem okkur líkar betur eða verr. Gangi áætlunin ekki eftir, og erlendir vogunarsjóðir halda okkur þess í stað í argentínskri herkví næsta áratuginn hið minnsta, mun fólk fljótt missa þolimæðina.
Pólitísk arfleið Sigmundar Davíðs hvílir því á niðurstöðunni í málefnum slitabúa föllnu bankanna. Og það getur sannarlega brugðið til beggja vona.
Verður Sigmundur Davíð á endanum sigurvegari, eða verður hann illmenni þegar sagan verður skrifuð?
Það ætti að koma í ljós í allra nánustu framtíð.