Mörgum kom á óvart að Rússland skildi gera innrás í Úkraínu 24. febrúar 2022. Reynsla Sovétríkjanna í Afganistan hefði átt að vera stjórnvöldum víti til varnaðar. Eftir að stríðið hófst hefur slök frammistaða rússneska hersins komið mest á óvart. Það er engin leið að vita um raunverulegan hernaðarstyrk lands nema að stríð brjótist út. Þá fyrst reynir á. Ekki er t.d. vitað hvernig Kína myndi standa sig í stríði vegna Taívan. Kína hefur ekki háð stríð síðan 1979 og þá gegn Víetnam. Mikil hernaðar uppbygging hefur átt sér stað í Kína síðan.
En hvað gekk Vladímír Pútin til? Talið er að um 190.000 rússneskir hermenn hafi verið til taks við landamæri Úkraínu áður en stríðið hófst. Það var augljóst frá upphafi að 190.000 hermenn myndu ekki duga til að hertaka land á stærð við Úkraínu, hvað þá að halda henni. Úkraína nær yfir rúmlega 600.000 ferkílómetra og íbúar voru taldir vera um 41 milljónir þegar stríðið hófst. Sem sagt minna en einn hermaður á hverja 3 ferkílómetra lands og og minna en einn hermaður á hverja 215 íbúa í Úkraínu. Það gengur ekki upp. Auðvitað vissu Rússar þetta.
Þegar Þjóðverjar gerðu innrás í Pólland 1939 beittu þeir 1,5 milljónum hermanna. Landfræðilega er Pólland um það bil helmingi minna en Úkraína og Hitler tók aðeins hluta Póllands því Þjóðverjar og Sovétríkin skiptu landinu á milli sín. Hugsanlegt er að Pútin hafi ætlað að ná Kíev höfuðborg Úkraínu og vonað að þá myndi Úkraína falla og Úkraínumenn leggja niður vopn, en það gerðist ekki. Hugsanlegt er einnig að hann hafi ætlað að ná hluta austur Úkraínu og suðurhlutanum sem er mikilvægur fyrir aðgang að Svartahafinu.
Í nýlegri heimsókn forseta Frakklands, Emmanuel Macron, til Bandaríkjanna lýsti Joe Biden forseti Bandaríkjanna því yfir að hann væri reiðubúinn að til samninga við Vladímír Pútin forseta Rússlands ef hann vildi enda stríðið í Úkraínu. Auk þess hafa forseti Frakklands og Kanslari Þýskalands, Olaf Scholz, verið í símasambandi við Pútín um möguleikana á að semja um stríðslok. Þetta gerist á sama tíma og margir vestrænir fjölmiðlar tala um að Úkraínumenn séu að vinna stríðið. En það er alveg óljóst hvernig slíkt samkomulag gæti litið út.
Rússar hafa náð undir sig landi og innlimað formlega inní Rússland. Ólíklegt er eð Pútin vilji gefa það land eftir til ríkis sem til lengri tíma litið vill gerast aðildarríki í NATO og ESB. Gervihnattarmyndir t.d. frá borginni Mariupol sýna að Rússar eru í töluverðum framkvæmdum þar og ekkert fararsnið á þeim. Ólíklegt er líka að Bandaríkin og NATO sætti sig við að Rússar haldi eftir hernumdu landi í Úkraínu. Slíkt mætti túlka sem ósigur og gæfi slæmt fordæmi. Með stuðningi við Úkraínumenn eru Bandaríkin líka að sýna Kínverjum hvað gæti gerast reyni þeir að taka Taívan.
Kjarnorkuvopnum beitt í Japan, en ekki í Víetnam. Hvað með Úkraínu?
Spurningin um hugsanlega notkun kjarnorkuvopna Rússa í Úkraínu kemur öðru hverju upp. Ljóst er að því verri sem staða Rússa verður, því meiri líkur eru á að þeir grípi til kjarnorkuvopna. Vesturlönd hafa sem vænta mátti brugðist hart við innrás Rússa í Úkraínu. Talað er um að sigra Rússa, lama hagkerfið þeirra og jafnvel brjóta Rússa upp í smærri einingar. Mörgum finnst þetta við hæfi eftir innrás í sjálfstætt ríki, en auðvitað líta rússnesk stjórnvöld á þetta sem ógn og bregðast við í samræmi við það.
Hvað gera Vesturlönd ef Rússland beitir kjarnorkuvopnum? Fyrrum forstjóri leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA) og fjögurra stjörnu hershöfðingi, David Petraeus, hefur varað við því að Bandaríkjaher myndi eyða rússneska hernum í Úkraínu, beiti Rússar kjarnorkuvopnum á úkraínskri grundu. Það yrði væntanlega gert með hefðbundnum vopnum, ekki kjarnorkuvopnum. Macron Forseti Frakklands hefur sagt að Frakkland myndi ekki beita kjarnorkuvopnum gegn Rússlandi jafnvel þó Pútin beiti þeim í Úkraínu.
Stórveldi beita mismunandi aðferðum eftir aðstæðum og útfrá eigin hagsmunum. Árið 1945 sprengdu Bandaríkin tvær kjarnorkusprengjur í Japan til að knýja fram uppgjöf japanska hersins og þar með stríðslok. Árið 1975 beittu Bandaríkin aftur á móti ekki kjarnorkuvopnum til að knýja fram sigur í Víetnam. Japan var talið skipta Bandaríkin miklu máli og er í dag þriðja stærsta hagkerfi heims og eitt helsta bandalagsríki Bandaríkjanna. NATO er nýlega farið að bjóða Japan á NATO fundi sem er örugglega að tilstuðlan Bandaríkjanna en Japan er auk þess í G7 hópnum undir forystu Bandaríkjanna.
Víetnam var hinsvegar þróunarland og í raun skipti Bandaríkin engum sköpum hvort stríðið í Víetnam endaði með tapi eða sigri. Dómínókenningin svokallaða, sem var notuð til að réttlæta þátttöku Bandaríkjanna í Víetnamstríðinu, gekk út á það að ef eitt land tæki upp kommúnisma væri aukin hætta á því að nágrannalönd þess fylgdu í kjölfarið. Kenningin reyndist röng. Þó hagvöxtur hafi verið mikill í Víetnam undanfarna áratugi sýna Bandaríkin Víetnam takmarkaðan áhuga í samanburði við Japan. Þó eru líklegt að Víetnam verði til lengri tíma í bandalagi með Bandaríkjunum vegna óttans við vaxandi styrkleika Kína.
Vegna legu Úkraínu skiptir landið miklu máli fyrir Rússland, meðal annars vegna aðgangs að Svartahafinu. Einn helsti veikleiki Rússlands sem sá stórveldis er takmarkaður aðgangur að sjó. Það sést líka á núverandi stríði að Rússar leggja mikla áherslu á að ná sem mestu af landi Úkraínu sem snýr að Svartahafinu. Úkraína skiptir aftur á móti mun minna máli fyrir Bandaríkin sem hafa á síðustu áratugum sýnt Úkraínu takmarkaðan áhuga nema í samkeppni sinni við Rússland. Hernaðarlega væri því Rússland til lengri tíma sennilega tilbúið að beita meiri hörku í stríðinu í Úkraínu en Bandaríkin. Notkun kjarnorkuvopna t.d. í vestur Úkraínu er ekki hægt að útiloka.
Engin lausn í sjónmáli. Úkraína smátt og smátt lögð í rúst
Á þessu stigi er ekki hægt að segja til um hvernig stríðið í Úkraínu endar en líklegt er að það dragist á langinn. Eyðilegging á innviðum í Úkraínu er gríðarleg og stórir hlutar landsins eru í þannig ástandi að erfitt er fyrir fólk að hafast þar við. Rafmagnsleysi, vatnsleysi, gasleiðslur til húshitunar ónýtar, takmarkað internet og símasamband. Fram til 1991 var Úkraína hluti af Sovétríkjunum og sennilegt er að kort séu til í Moskvu sem sýna staðsetningu á helstu orkuinnviðum Úkraínu. Þetta auðveldar Rússum að gera markvissar árásir sem valda miklu tjóni.
Svo er spurning hversu lengi Vesturlönd vilja eða treysta sér til að halda áfram stuðningi við Úkraínu í jafn miklum mæli og verið hefur. Lengst af litu Vesturlönd á samninga við Pútin sem uppgjöf og stjórnvöldum í Kíev sagt að vinna stríðið. Eftir meira en 9 mánaða stríð er forseti Bandaríkjanna farinn að tala um mögulega samninga þó engir samningsfletir séu sýnilegir.
Tvö augljós vandamál blasa við ef samið verður. Fyrra vandamálið snýst um landsvæði sem hafa verið hernumin í Úkraínu og innlimuð inní Rússland. Seinna vandamálið snýst um stöðu Úkraínu sem ríkis ef samið verður og um leið tengsl við Vesturlönd.
Varðandi fyrra málið blasir við að Rússar munu ekki vilja láta af hendi allt það svæði sem þeir hafa innlimað. Úkraínumenn munu heldur ekki sætta sig við að gefa eftir hluta af sínu landi og fyrir því er tæpast pólitískur stuðningur innanlands. Bandaríkin og bandamenn þeirra vilja heldur ekki gefa eftir, myndu líta á eftirgjöf sem ósigur. Rússnesk stjórnvöld telja sig verða að vinna stríðið og Bandarísk stjórnvöld telja sig þurfa að vinna stríðið. Vandamálið er að bæði löndin geta ekki unnið stríðið og einhver þarf að gefa eftir. Úkraína stendur eins og berskjaldað peð á milli og á engra kosta völ en að berjast til enda. Hættan er að Úkraína þurfi að sæta afarkostum í lokin ofaná gríðarlegt eignatjón sem orðið hefur sem tekur áratugi að byggja upp aftur, fyrir utan manntjónið.
Seinna málið varðar stöðu Úkraínu í Evrópu og í heiminum að stríði loknu. Verði Úkraína hlutlaust ríki þarf einhver að tryggja öryggi landsins. Eini aðilinn sem getur það er NATO undir forystu Bandaríkjanna, en það geta Rússar ekki sætt sig við. Jafnvel þó stjórnvöld í Úkraínu myndu lýsa því yfir að landið færi ekki í ESB eða NATO á næstunni gæti orðið stefnubreyting t.d. við stjórnarskipti og þetta minnkar líkurnar á að Rússar skili til baka landi sem þeir hafa einhliða innlimað inní Rússland.
Niðurstaðan er því miður sú að Rússar ákveða að eyðileggja þann hluta landsins sem þeir geta ekki innlimað og gera eftir því sem hægt er ólíft í Úkraínu. Þetta ferli hefur verið í gangi undanfarið og NATO hefur ekki getað komið í veg fyrir þessa eyðileggingu. Loftvarnir Úkraínu hafa ekki dugað til að verja mikilvægustu innviði landsins.
Svo er hætta á að stríðið breiðist út. Að NATO undir forystu Bandaríkjanna dragist inn í stríðið. Þá væri komin styrjöld milli tveggja stórvelda og kjarnorkuvelda, í raun heimsstyrjöld. Rússland er 3,5 sinnum fjölmennara en Úkraína. Árið 2021 voru 145 milljónir íbúa í Rússlandi en 41 milljón íbúa í Úkraínu. Hvað mun NATO t.d gera ef stjórnvöld í Úkraínu tilkynna einn dag að nú dugi vopnasendingar ekki lengur heldur þurfi NATO hermenn til að verja landið? Mun NATO þá bara horfa á Rússland leggja Úkraínu undir sig?
Einnig er mögulegt að á einhverju stigi ákveði Rússar að nota kjarnorkuvopn í þeirri von að Bandaríkin og NATO í heild fylgi yfirlýstri stefnu Frakklands að svara ekki með kjarnorkuvopnum. Kjarnorkusprenging myndi neyða aðila til að semja strax til að koma í veg fyrir allsherjar kjarnorkustríð. Ólíklegt verður að Teljast að Vesturlönd myndu grípa til kjarnorkuvopna vegna Úkraínu.
Forystuleysi stórveldanna. Hatrið sigrar?
Það hefði verið til mikils að vinna fyrir alla aðila að koma í veg fyrir stríðið sem hófst 24. febrúar 2022. Samningar eins og staðan er nú verða alltaf erfiðir. Óljóst er hvernig friðarsamkomulag gæti litið út þegar Rússar hafa einhliða innlimað svæði í Úkraínu sem þeir vilja ekki skila til baka.
Þegar Kúpudeilan stóð yfir sömdu John F. Kennedy and Nikita Khrushchev. Sovétríkin fjarlægðu eldflaugar sínar frá Kúpu og Bandaríkin fjarlægðu eldflaugar sínar frá Tyrklandi. Margir halda að Sovétríkin hafi fjarlægt sínar eldflaugar einhliða án nokkurra aðgerða Bandaríkjanna í staðinn. Þetta stafar af því að samningurinn um að fjarlægja Bandarískar eldflaugar frá Tyrklandi var leyndarmál í 25 ár.
Kennedy og Khrushchev skildu hættuna á stríði á tímum kjarnorkuvopna. Í frægri ræðu við American University í Washington 1963 sagði John F. Kennedy meðal annars: „Above all, while defending our own vital interests, nuclear powers must avert those confrontations which bring an adversary to a choice of either a humiliating retreat or a nuclear war. To adopt that kind of course in the nuclear age would be evidence only of the bankruptcy of our policy--or of a collective death-wish for the world.”
Skynsemi og stjórnviska Kennedy átti sinn þátt í að koma í veg fyrir að vaxandi spennu og hugsanlega heimstyrjöld og kjarnorkustríð árið 1962. En í dag höfum við ekki slíkan leiðtoga. Spennan vex. Erfiðara verður að semja því meira sem eignatjón og mannfall verður í Úkraínu.
Vandamál Úkraínu verða ekki leyst með hatri og Vesturlönd verða að sætta sig við að Rússland verður áfram þar sem það er, líka eftir að stríðinu lýkur. Þess vegna er einhverskonar samkomulag nauðsyn framtíðarinnar vegna þó ljóst sé að langur tími muni líða þar til samskipti Vesturlanda við Rússland verða eðlileg á ný.
Höfundur er prófessor við Háskólann á Akureyri og starfaði hjá Alþjóðabankanum um 12 ára skeið í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu.