Það er staðreynd að útlendingaandúð fer vaxandi í hinum vestræna heimi. Besta mælistikan á það er sú mikla fylgisaukning sem evrópskir stjórnmálaflokkar sem hafa hana á stefnuskránni hafa upplifað undanfarin ár. Það er líka staðreynd að slík andúð vex ásmegin þegar niðursveifla og aukin misskipting á sér stað í hagkerfum heimsins. Það hefur verið raunin á vesturlöndum undanfarin ár. Við slíkar aðstæður virðist stærri hluti almennings líta á innflytjendur sem mikla byrði á félagsleg kerfi sinna landa og ógn við atvinnutækifæri sín. Jafnvel þjóðmenning ríkjanna sjálfra er talin vera í hættu vegna þess að fólk úr öðrum menningarheimum vill eiga heima í þeim.
Það er best að taka það fram strax að hugtakið útlendingaandúð er í þessum pistli notað yfir þá sem vilja annað hvort koma í veg fyrir að fólk af öðru þjóðerni fái að setjast að innan landamæra þjóðríkja þeirra eða vilja fá að útiloka ákveðna hópa á grundvelli menningar, þjóðfélagsstöðu eða trúarbragða. Það getur vel verið að annað orð henti betur yfir þetta. Þeir sem vilja geta þá skipt sínum orðum inn fyrir orðið útlendingaandúð.
Vaxandi í nágrannalöndunum
Þessi andúð á sér nokkra sögu í helstu nágrannalöndum okkar. Fylgi hins danska stjórnmálaflokks Dansk Folkeparti, sem rekur harða innflytjendastefnu og sækir mikið fylgi vegna hennar, er kannski þekktasta dæmið. Flokkurinn hefur að vísu aldrei setið í ríkisstjórn, en hann veitti hins vegar minnihlutastjórn stuðning í áratug, frá 2001 til 2011, og var þar með með sæti við borðið í öllum stærstu ákvörðunartökum sem teknar voru af ríkisstjórnum Danmerkur á því tímabili.
Finnski flokkurinn, sem lengst af hét Sannir Finnar, setti allt á annan endan í Finnlandi þegar hann sexfaldaði fylgi sitt í þingkosningum árið 2011 með það sem megin stefnumál að takmarka innflytjendur.
Í Noregi er Framfaraflokkurinn í ríkisstjórn. Flokkurinn á sér mun lengri sögu en flestir þeirra sem reka harða innflytjendastefnu. Þó hann hafi verið stofnaður árið 1977, náði hann ekki almennilegri athygli og árangri fyrr en í sveitastjórnarkosningum árið 1987, í fyrstu kosningunum í Noregi þar sem innflytjendamál urðu stórt kosningamál. Þótt Framfaraflokkurinn hafi mildast aðeins undanfarin misseri, og sé nú talinn „stjórntækari“, þá er afstaða hans í innflytjendamálum enn mjög hörð. Og mikill hluti fylgis hans er tilkomið vegna hennar.
Kosningasigur Svíþjóðardemókrata í sænsku þingkosningunum í síðustu viku hefur síðan vart farið framhjá mörgum. Þeir leggja mikla áherslu á útlendingaandúð í stefnu sinni og stjórnmálaskýrendur þakka hana helst auknum árangri flokksins.
Frelsisflokkur Geert Wilders í Hollandi, UKIP í Bretlandi og Þjóðarfylking Le-Pen í Frakklandi er síðan önnur dæmi um flokka í vestrænum Evrópuríkjum sem leggja mikla áherslu hörku í innflytjendamálum.
Gekk frábærlega í borgarstjórnarkosningunum
Tvívegis hefur verið reynt að gera útlendingaandúð, eða hræðslu við hið óþekkta, að kosningarmáli hérlendis. Frjálslyndi flokkurinn reyndi það í aðdraganda alþingiskosninganna árið 2007. Fyrst um sinn þrefaldaði flokkurinn fylgið sitt í könnunum vegna þessarrar afstöðu en fljótt fjaraði undan. Flokkurinn endaði þó með 7,3 prósent fylgi í þeim kosningum. Frjálslyndi flokkurinn hvarf svo af þingi í næstu kosningum á eftir. Að margra mati voru afar óvarleg ummæli ýmissa forystumanna hans um innflytjendur banabiti flokksins.
Síðari tilraunin er mun nær í tíma. Hún átti sér stað í vor, í aðdraganda sveitastjórnarkosninganna. Framsóknarflokknum í Reykjavík hafði gengið afleitlega að ná í fylgi og virtist ráðþrota. Oddvitaskipti og flugvallarást hafði engu skilað. Flokkurinn virtist pikkfastur undir þriggja prósenta fylgi.
Átta dögum fyrir kosningar varpaði Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, nýr oddviti flokksins , sprengju inn í kosningarnar með því að segja að „á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku réttrúnaðarkirkjuna“. Í viðtali við Vísi sagðist hún hafa „búið í um eitt ár í Sádí Arabíu og byggi þessa skoðun mína ekki á fordómum, heldur reynslu.“
Það var ekki að sökum að spyrja. Fylgið þaut upp. Forysta Framsóknarflokksins neitaði að tjá sig um málið og Sveinbjörg túlkaði þögnina þannig að hún ætti „að fá að sigla þessu skipi í höfn“. Hún bætti því í útlendingaandúðina á lokametrunum frekar en að draga úr. Og það skilaði 10,5 prósent atkvæða og tveimur borgarfulltrúum.
Hvar á andúðarfylgið heima?
Þessi árangur hefur ekki farið framhjá öðrum stjórnmálaflokkum. Hann sýnir enda að útlendingaandúð, hræðsla við hið óþekkta og stuðningur við takmarkanir á uppbyggingu fjölmenningasamfélags hérlendis er mikil. Eiginlega rosalega mikill. Kjósendahópurinn sem virðist á þessari skoðun er farinn að skipta verulegu máli þegar talið er upp úr kjörkössunum.
Í kjölfar mikils kosningasigurs Sænskra demókratanna, sem keyra mjög á andúð á útlendingum, í nýafstöðnum þingkosningum í Svíþjóð fór af stað ákveðin mátun hjá áhrifamönnum innan Sjálfstæðisflokksins.
Á þriðjudag birtist leiðari í Morgunblaðinu með fyrirsögninni „Hinir óhreinu“. Allar líkur eru á því að höfundur hans sé Davíð Oddsson,ritstjóri Morgunblaðsins, fyrrum forsætisráðherra og fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins.
Í leiðaranum segir að gagnrýnendur kalli Sænska demókrata öfgaflokk „því hann vill endurskoða stefnuna í málefnum innflytjenda. Flokkurinn kennir sig beinlínis við lýðræðið, eins og fleiri sænskir flokkar og hefur ekki viljað ná fram áherslum sínum með öðru en lýðræðislegum aðferðum. Þessi flokkur vann mest allra flokka á nú um helgina. Hann er orðinn 3. stærsti flokkur Svíþjóðar, en er þó varla talinn með.[...]Svíar eru nefnilega skemmra komnir í hinum pólitíska leik en Danir og Norðmenn að þessu leyti. Í Danmörku hafa ríkisstjórnir opinberlega stuðst við svona „öfgaflokka“. Í Noregi er einn slíkur kominn að ríkisstjórnarborðinu. Þrátt fyrir þau ósköp eru Danir taldir meðal hamingjusömustu þjóða í heimi og Norðmenn hinir réttu til að ákveða hverjir fái friðarverðlaunin sem kennd eru við Nóbel“.
Enga lata né þá sem hafa aðra siði
Sama dag birtist pistill eftir Hannes Hólmstein Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor sem talinn var einn helsti hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins á valdatíma Davíðs Oddssonar. Í pistlinum segir Hannes að kosningasigur Svíþjóðardemókrata hljóti að vera íslenskum hægri mönnum umhugsunarefni. Skilaboðin séu skýr. Í pistlinum segir síðan orðrétt: „Útlendingar eru misjafnir, og við höfum í okkar friðsæla landi ekkert að gera við þrjá hópa. Einn er sá, sem ekki nennir að vinna. Félagsleg aðstoð við fullhraust fólk er ætíð óskynsamleg, en félagsleg aðstoð við fullhrausta útlendinga, sem við höfum engar skyldur við aðrar en að láta þá í friði, er óafsakanleg. Annar hópur er sá, sem fremur glæpi, og þarf vitanlega ekki að hafa fleiri orð um það. Þriðji hópurinn er sá, sem reynir að troða siðum sínum upp á okkur.“
Ber að taka alvarlega
Þetta daður stjórnmálaflokka við harðari útlendingastefnu ber að taka alvarlega. Frjálslyndir og/ eða umburðarlyndir flokkar geta ekki lengur bara snúið nefinu upp í loftið og lýst vandlætingu á skoðunum sem þessum. Fylgi við þær er staðreynd á Íslandi og svo virðist sem að innan stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar, Sjálfstæðisflokks, séu aðilar búnir að átta sig vel á því.
Ákveðnar, og sögulega áhrifamiklar, kreðsur í Sjálfstæðisflokknum hafa sýnt að mögulega sé vilji til að höfða til þessa fylgis. Að þeir eigi meiri heimtingu á því en Framsóknarmenn. Þar sem enginn flokkur hefur enn gert útlendingaandúð að skjalfestu stefnumáli -frambjóðendur hafa frekar opinberað hana með yfirlýsingum – þá virðist sem andúðarfylgið sé „up for grabs“ ef rétt er farið að. Og kapphlaupið um það er sannarlega hafið.