Skólar eru að hefjast og það er af hinu góða. Við hér á Íslandi teljum að menntun og jöfn tækifæri til menntunar séu grunnþáttur í velgengni samfélagsins.
Í næstum eitt og hálft ár hefur heimsbyggðin verið að glíma við heimsfaraldur að nafni „kóvid-19“ – sem hefur lagt af velli milljónir manna og sýkt tugi milljóna. Nú ber svo við að við erum í nýrri og fjórðu bylgju þessa faraldurs.
Faraldurinn hefur reynt mjög mikið á margar stéttir þessa lands og eru kennarar meðal þeirra. Þrekivirki hafa verið unnin víða. Loka hefur þurft skólum og grípa til margra mjög leiðinlegra aðgerða, sem sett hafa líf fólks úr skorðum. Margir hafa haft áhyggjur af andlegri líðan nemenda.
Það var því með mikilli tilhlökkun þegar undirritaður sá fram á það um mitt þetta ár að mögulega yrði hægt að hefja starf á haustönn með eðlilegum hætti, þ.e.a.s án grímuskyldu, fjarlægðartakmarka, hólfaskiptinga og slíkra aðgera. Að allt yrði mögulega „venjulegt“ aftur.
Í byrjun ágúst sagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, að engar takmarkanir yrðu á skólastarfi og að „undirbúningur ætti að miðast við það“. Jibbí!
En, þetta reyndist vera óskhyggja og það sem kallað er að „lofa upp í ermina á sér“. Því miður er ekkert útlit fyrir það að skólastarf geti hafist með eðlilegum hætti, á öllum skólastigum.
Hversvegna? Jú, hingað barst hið skæða delta-afbrigði um leið og slakað var á í sambandi við landamærin. Þá hafa ferðamenn flætt inn í landið, sem ekkert væri kóvidið og tugir flugvéla, þétt setnar ferðamönnum lenda nær daglega í Keflavík.
Þetta er vegna þess að hagsmunaaðilar ferðaþjónustunnar hafa verið með massíva hagsmunagæslu gagnvart stjórnvöldum. Því má segja að upphafi skólaársins hafi verið fórnað á altari ferðaþjónustunnar.
Og þá spyr maður sig; hvort er mikilvægara? Að fá hingað ferðmenn með fullar hendur fjár eða að gera ungu fólki kleift að hefja sitt nám (og stunda sitt félagslíf!!) með eðlilegum hætti? Í mínum huga eru nemendur mikilvægari.
Nú er staðan sú að það eru nemendur á framhaldsskólastigi, sem þekkja ekkert annað en nám með takmörkunum og hafa því ekkert eðlilegt félagslíf fengið. Og lífið er eins og kvikmyndin „Groundhog Day“ – þar sem sami dagurinn gerist aftur og aftur.
Ég vil ganga svo langt að segja að yfirvöld hafi brugðist ungu fólki á mjög mikilvægum stað í faraldrinum, þegar smit voru nánast engin og þjóðin langt komin í það að vera full bólusett.
Nei, þá var blásið til vertíðar í ferðamennskunni og svo skipti allt í einu engu máli hvort landið væri grænt eða rautt. Hvaða skilaboð eru það? Ég man ekki betur en að við hefðum verið að keppast við að verða græn fyrr á þessu ári. Eða er það bara misminni?
En vertíð skyldi það vera, enda vertíðarmennska gamalgróinn þáttur í íslensku samfélagi og mikilvægt að græða þegar hægt er að græða, „moka hlutum á land“. Bara eins og í góðri loðnuvertíð!
Með harðari og markvissari aðgerðum (fyrst og fremst á landamærum) hefði að mínu mati verið hægt að koma í veg fyrir þann hrikalega smitfjölda sem varð raunin og við erum enn að glíma við.
Niðurstaða: Ástandið gerir nú það að verkum að ekki verður hægt að hefja skólastarf með eðlilegum hætti; ekki verður hægt að halda busaböll, ekki verður hægt að fara í nýnemaferðir, ekki verður hægt að kenna „eðlilegum“ hætti – þ.e.a.s að nemendur og kennara geti haft það sem kallast eðlileg samskipti í skólastofum. Félagslíf nemenda verður áfram lamað og útlit fyrir að ástandið verði áfram slæmt í landinu.
Að sögn menntamálaráherra verður skólastarfið „áskorun“ og það er einfaldlega fúlt og leiðinlegt að slík staða sé uppi, vegna þess að við vorum nánast með „unninn leik“. Það hefði verið hægt að gera svo miklu betur.
Allt þetta bitnar á þúsundum nemenda, á öllum stigum skólakerfisins. Það er mjög miður.
Höfundur er framhaldsskólakennari.