Staðan á vinnumarkaði er snúin. Starfsgreinasambandið (SGS) hefur þegar komið fram með kröfur sínar, meðal annars um að lægstu laun hækki úr 214 þúsund í 300 þúsund, auk margsvíslegra annarra atriða. Samtök atvinnulífsins telja þessar kröfur algjörlega óraunhæfar, og vilja ekki hefja samningaviðræður nema að slegið verði af kröfum. Þau óttast óðaverðbólgu og að hagkerfið geti ekki staðið undir svo mikilli launahækkun, og einnig fordæmisgildið fyrir aðra. Um þetta er nú harkalega deilt, og ekki útséð með hvernig málin lenda, áður en sjálfar viðræðurnar hefjast fyrir alvöru.
Svo virðist sem allir sem hafa aðkomu að kjarasamningunum hafi af þeim miklar áhyggjur; forsætisráðherra, efnahags- og fjármálaráðherra, Seðlabanki Íslands, verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur. Meiningarmunur á milli stjórnarflokkanna virðist líka vera augljós, og himinn og haf er á milli verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Eitt af því sem gæti verið skýringin á erfiðri stöðu kjarasamningana, eru áhrif aðgerða stjórnvalda að undanförnu. Þær hafa þrýst upp væntingum, að því er virðist. Líklega er það vel skiljanlegt og greina má mikinn hljómgrunn með kröfu verkalýðshreyfingarinnar um miklar hækkanir launa hjá Framsóknarflokknum. En það sama verður ekki sagt um Sjálfstæðisflokkinn.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur tekið undir þær raddir að undanförnu að svigrúm sé til þess að hækka laun þeirra sem lægstu launin hafa umtalsvert.
Fimm atriði koma upp í hugann varðandi kjarasamningana.
- Samningur íslenska ríkisins við lækna skiptir miklu máli. Læknar náðu fram meira en 20 prósent hækkun á launum eftir verkfall. Íslenska ríkið gaf tóninn með þessum samningum, því læknar eru ekki eina stéttin í landinu sem glímir við léleg kjör í samanburði við önnur lönd eftir gengisfall krónunnar og haftabúskapinn sem stjórnmálamenn komu á með lögum, og hafa ekki enn fundið lausn á hvernig á að komast út úr. Hvaða áhrif hefur þetta á væntingar fyrir komandi kjarasamninga? Augljóslega búast fleiri stéttir við miklum hækkunum, sambærilegum þeim sem læknar hafa fengið. Margar aðrar stéttir vinna mikið, fyrir lág grunnlaun og við erfiðar aðstæður. Ef það er nægilega góð röksemd fyrir 20 prósent hækkun launa, þá gætu miklar hækkanir verið framundan. Svo virðist sem Starfsgreinasambandið horfi meðal annars til þessara röksemda í sinni kröfugerð.
- Hin svokallaða leiðrétting á verðtryggðum húsnæðislánum, upp á 80 milljarða króna, hefur líka áhrif á kjarasamninga. Þeir sem eru með lægstu launin og eiga minnst, ekki síst þeir sem eru á leigumarkaði, koma illa út úr þessari umdeildu aðgerð stjórnvalda. Fjárhagsstaða þeirra batnar ekkert, á meðan þau sem áttu fasteignir fá betri fjárhagsstöðu með peningaframlagi úr ríkissjóði. Væntingar um hækkun launa hjá þessum hópi skrúfast því eðlilega upp. Þau sem eru í forsvari fyrir verkalýðshreyfinguna hafa bent á þetta sjálf. Aðgerðin gerir lítið annað en að skapa úlfuð og óréttlæti, enda um sértæka aðstoð ríkisins gagnvart litlum hópi að ræða. Heildarskuldir heimilanna nema um 1.900 milljörðum króna, og er aðstoðin því um fjögur prósent af heildarskuldum heimilanna. Fyrir utan svo sameiginlega skuld allra heimila í landinu, skuldir ríkissjóðs, en þær nema um 1.600 milljörðum króna.
- Grunnrökin að baki hinni svokölluðu leiðréttingu, ein og sér, fela líka í sér mikinn þrýsting til hækkunar launa. Ef stjórnmálamennirnir fullyrða, eins og þeir hafa ítrekað gert sumir hverjir, að það sé hægt að leiðrétta markaðsþróun eftir á, með peningaframlagi úr ríkissjóði, þá blasir við að ansi margar stéttar geta gripið til sambærilegra raka í kjarasamningsviðræðum. Það þarf að leiðrétta launin eftir það sem á undan er gengið, verður sagt. Slíkar raddir hafa verið leiðarstefið í kjarasamningum kennarastétta, háskólamanna og lækna að undanförnu. Jafnvel þó stjórnvöld hafi ekki treyst sér til þess að festa í lög skilgreininguna á forsendubrestinum, „tjóninu“, þegar á reyndi, þá færir þetta mikinn þunga í væntingar um launahækkanir hjá ákveðnum hópum. Að þessu leyti er það sanngjörn spurning, hvort þessar aðgerðir stjórnvalda, meðtalin mikil launahækkun lækna, hafi hugsanlega grafið undan kjarasamningsviðræðunum sjálfum og gert þær snúnari.
- Framsóknarflokkurinn hefur lagt mikla áherslu á það að undanförnu, að nú sé tækifæri til að hækka lægstu laun myndarlega. Þetta hefur komið skýrt fram í máli forystufólks flokksins, þeim Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra og ritara flokksins, og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra og formanni Framsóknarflokksins. Á sama tíma heyrast ekki svipaðar raddir frá Sjálfstæðisflokknum. Að þessu leyti er Framsóknarflokkurinn að stilla sér upp með verkalýðshreyfingunni, sem vafalítið fer ekki vel í alla Sjálfstæðismenn. En kannski er þetta einmitt pólitískt klókt hjá forystufólki Framsóknarflokksins, enda mælist flokkurinn nú með um níu prósent fylgi í skoðanakönnunum. Hann þarf á breiðari og meiri stuðningi að halda, svo ekki sé meira sagt.
- Sjávarútvegurinn hefur gengið í gegnum sinn besta rekstrartíma í sögunni á undanförnum árum, einkum eftir hrun fjármálakerfisins. Þetta á sérstaklega við um mörg af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins sem hafa verið meðal annars verið að veiða, vinna og selja makríl. Mikil framlegð hefur verið í þessari starfsemi, eins og sést hefur á uppgjörum fyrirtækjanna. Spurningin sem vaknar í þessari kjarasamningslotu, er hvort verkalýðshreyfingin hafi mótað sér sýn á það hvernig launastefna í sjávarútvegi á að vera til framtíðar. Er eðlilegt að sjómenn séu á margföldum launum starfsfólks í landi? Er það fullkomlega sanngjarnt, og er samstaða um það í verkalýðshreyfingunni að þannig eigi staðan að vera? Spennandi verður að sjá hvort þetta atriði verði meðal þess sem til umræðu kemur, en SGS minnist sérstaklega á möguleika til þess að hækka laun í gjaldeyrisskapandi starfsemi í kröfugerð sinni.
Það er ekki ólíklegt að þessi atriði komi til umræðu við samningaborðið á næstunni, þó fólk sé tregt til þess að setjast við það í augnablikinu.