Framkvæmdarstjóri SORPU segir í svargrein sem birtist í Kjarnanum þann 13. mars sl. að mikið sé um rangar fullyrðingar og rangfærslur í grein sem greinhöfundur ritaði og birtist í Kjarnanum þann 28. febrúar síðastliðinn, „Sveitafélögin keppa við einkaframtakið“. Þar snýr framkvæmdarstjórinn ýmsu á hvolf og kýs viljandi að snúa út úr. Í grein minni er því ekki haldið fram að SORPA hafi ákveðið að draga úr flokkun heldur bent á að ef tæknilausn Aikan um gas- og jarðgerðarstöð verður að veruleika þurfi ekki að flokka heimilissorp. Samkvæmt grein í Fréttablaðinu þann 20. október 2014 kemur fram að Sorpa hafi ákveðið strax árið 2007 að kaupa tæknilausn danska fyrirtækisins Aikan Solar fyrir stöðina. Rökin eru að hún sé eina lausnin sem uppfylli markmið byggðasamlagsins um meðhöndlun lífræns heimilissorps, en tæknin gerir flokkun óþarfa. Áætlað er að stöðin muni kosta 2,7 milljarða króna uppsett.
Samkvæmt samantekt í skýrslu Landsáætlunar um meðhöndlun úrgangs 2004 – 2016 segir: „Þrátt fyrir að nýting úrgangsefna hafi rúmlega tvöfaldast síðastliðin 10 ár hefur ekki tekist að draga úr magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar.“ Framkvæmdarstjórinn segir að gögn SORPU styðji ekki við þessa niðurstöðu. Það sem vantar hins vegar í gögn SORPU er úrgangur sem einkafyrirtæki losa aðalega hjá fyrirtækjum en líka frá heimilum sem kjósa að flokka meira heima en SORPA bíður upp á. Í svæðisáætlun sveitafélaganna þarf kannski að útfæra betur mælikvarða og aðgerðir. Þar sem ekki er nákvæm mæling á magni úrgangs frá hverju sveitafélagi er ekki hægt að meta hvað hvert sveitafélag leggur af mörkum svo markmið svæðisáætlunar náist.
Ákvörðun ekki tekin af eigendum
Forstjóri Sorpu segir að ákvörðun um byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar hafi verið tekin af eigendum m.a. eftir að bæjarstjórar og borgarstjóri hafi farið til Norðurlandanna til að kynna sér mismunandi lausnir. Einnig að fyrir liggi undirritað samkomulag eigenda Sorpu um byggingu stöðvarinnar. Í viðtali á RÚV þann 28. nóvember 2014 segir framkvæmdarstjórinn: „Það er búið að ákveða hvaða leið á að fara. Það var gert með samkomulagi eigenda í október í fyrra (2013) og það liggur alveg fyrir og í stjórn SORPU sitja fulltrúar allra sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu þannig að það er ekkert annað en bara opin ákvarðanataka í þessu“. Samkvæmt tölvupósti þann 27. febrúar 2015 frá bæjarlögmanni Garðabæjar þá liggur ekki fyrir á þessu stigi samþykki bæjarstjórnar Garðabæjar um fjármögnun eða framkvæmdir við gas- og jarðgerðarstöð.
Þannig að ef fyrir liggur undirritað samkomulag af bæjarstjóra eða samþykki stjórnar þá er ekki búið að samþykkja það í bæjarstjórn Garðabæjar. Einnig segir í MA ritgerð Esterar Önnu Ármannsdóttur við HR frá júní 2013 „Við staðfestingu svæðisáætlunarinnar bókuðu nokkur sveitafélög að í henni felist engin skuldbinding fyrir sveitarfélögin um framkvæmdir eða framkvæmdartíma“. Í stjórnsýsluúttekt á byggðasamlögunum er jafnframt gagnrýnt óskýrt umboð stjórnar til ákvarðanatöku og aðkomu eigenda að stærri ákvarðanatökum.
Sorpa í stöðugu málavafstri
Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu frá 20. febrúar 2015 kemur fram að Sorpa hefur þurft á undanförnum árum að verja talverðum tíma og fjármunum í málarekstur vegna meintra brota í samkeppnis- og útboðsmálum. Í fréttinni segir að frá árinu 2001 hafi Sorpa átta sinnum verið til meðferðar hjá kærunefnd útboðsmála. Eitt þessara átta mála er nú á leið fyrir Hæstarétt eftir að Samkeppniseftirlitið og Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafi úrskurðar um sekt Sorpu. En Sorpa var sektuð um 45 milljónir vegna kæru frá Gámafélaginu.
Í fréttinni segir að frá árinu 2001 hafi Sorpa átta sinnum verið til meðferðar hjá kærunefnd útboðsmála. Eitt þessara átta mála er nú á leið fyrir Hæstarétt eftir að Samkeppniseftirlitið og Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafi úrskurðar um sekt Sorpu. En Sorpa var sektuð um 45 milljónir vegna kæru frá Gámafélaginu.
Seinni hluta árs 2014 kærði Íslenska gámfélagið SORPU til kærunefndar útboðsmála þar sem haldið var fram að samningsgerð SORPU við Aiken stangaðist á við lög um opinber innkaup. Í október 2014 stöðvaði kærunefndin samningaviðræðurnar vegna þess að SORPA var ekki talin hafa sýnt fram á að gas- og jarðgerðarstöðin væri eina lausnin sem uppfyllti kröfur. Það er ekki eigendum byggðasamlagsins, rúmlega 200.000 íbúum höfuðborgarsvæðisins, í hag að nota skattfé í málarekstur og sektagreiðslur fyrir úrsérgengið félagsform sem reynt er að verja af óljósri ástæðu samanber nýlega samþykktri eigendastefnu SORPU.
Stjórnsýsluúttekt og eigendastefna Sorpu
Í stjórnsýsluúttekt á byggðasamlögunum sem gerð var árið 2011 var það harðlega gagnrýnt að samþykktir SORPU veittu stjórn víðtæka heimild til að stofna dótturfélög. Í nýlega samþykktri eigendastefnu Sorpu frá júli 2013 er tekið á þessari óeðlilegu heimild og kveðið fast að „SORPU er ekki heimilt að stofna dótturfyrirtæki né gerast hluthafi í starfandi fyrirtæki“. Metan hf. er starfandi fyrirtæki í 49,7% eigu SORPU, framkvæmdarstjóri Metans er einnig framkvæmdarstjóri SORPU.
Í stjórnsýsluúttektinni er félagsformið um rekstur SORPU í byggðasamlagi gagnrýnt þar sem Sorpa er á samkeppnismarkaði og geti sem slík því ekki verið undanþegin tekjuskatti og fjárfest með fullri ábyrgð eigenda. Ekkert er tekið á þessu í nýrri eigendastefnu SORPU en þar segir um rekstrarformið „Með þessu rekstrarformi eru fyrirtækinu tryggðir kostir fyrirtækjaformsins um leið og það nýtur óskiptrar ábyrgðar eigenda á skuldbindinum þess“. Hvað segja samkeppnislögin um þessa stefnu eigendanna - er þetta löglegt?
Í stjórnsýsluúttektinni er gagnrýnt að ekki sé eigendavettvangur þar sem minnihlutinn á möguleika á að koma sínum sjónarmiðum að. Eigendastefna SORPU fer algjölega á svig við þá gagnrýni því þar segir um sveitastjórnir og handhafa eigendavaldsins: „Handhafar eigendavalds SORPU eru framkvæmdarstjórar eigendasveitafélaganna“. Það eru þá bæjarstjórar og borgarstjóri sem fara með eigendavaldið og ræða fjármögnun og stefnumótun byggðasamlagsins á eigendafundi. Eigendafundur skipaður eingöngu meirihluta er ekki það sama og eigendavettvangur skipaður meiri- og minnihluta. Á eigendavettvangi á að fara fram hin pólitíska umræða fulltrúa minni- og meirihluta um stefnumótun. Ef það væri gert þá væru meiri líkur á að eigendastefnan nyti almennrar sáttar í samfélaginu.
Í eigendastefnu SORPU gr. 5.3 Umboð stjórnar segir m.a.: „Stjórn skal í því skyni tryggja skilvirka ferla um innra eftirlit og innri endurskoðun.“ Í gr. 6.4 segir „Eigendur skilgreina með hvaða hætti innri endurskoðun fyrir SORPU er sinnt og skal innri endurskoðandi hafa aðgang að öllum upplýsingum í samræmi við alþjóðlegar starfsreglur sem um innri endurskoðun gilda.“ Þegar greinahöfundur sem varabæjarfulltrúi óskaði eftir skýrslu innri endurskoðunar í desember 2014 svaraði framkvæmdarstjóri SORPU því til að hann kannaðist ekki við neina skýrslu um innri endurskoðun.
Markmiðið á að vera að minnka úrgang
Eitt af markmiðum íslenskra stjórnvalda er að fyrir 1. janúar 2015 verði komið á sérstakri söfnun fyrir hvert heimili og í nánd við lögbýli og sumarbústaðahverfi. Fjöldi íláta verði ekki ákveðinn með lögum, en stefnt að því að hægt verði að losa sem flesta úrgangsflokka með þessu móti. Leitast verði við að samræma litakerfi og flokkunarmerkingar, m.a. í samstarfi við FENÚR, og ákvæði þar um hugsanlega sett í reglugerð. Samhliða verði dregið úr áherslu á söfnunarstöðvar (gr.4.3 aukin endurvinnsala og hráefnavinnsla, Landsáætlun).
Sveitarfélög á landsbyggðinni hafa andstætt SORPU sett upp öflug flokkunarkerfri á heimilissorpi, verið með kennslu fyrir íbúana um flokkun sem gert hafa íbúana meðvitaðri um vistvænan lífstíl og meiri líkur á að lífræni úrgangurinn flokkist rétt þ.e. lendi í flokki 3 eða 2 sem er ósmitaður lífrænn úrgangur sem nota má í moltugerð. Lífrænan úrgang í flokki 1 má alls ekki nota í moltu, hann þarf alltaf að brenna eða urða, vegna hættu á riðusmiti. Kjöt frá heimaslátrun er varasamast og mikið atriði að gera almenning meðvitaðan um mikilvægi réttrar flokkunar á lífrænu heimilissorpi.
Miðað við markmið Landsáætlunar eða svæðisáætlun sveitafélaganna fæ ég ekki séð að tæknilausn sem Aikan leggur til með gas- og jarðgerðarstöð SORPU þar sem minni áhersla er lögð á flokkun þjóni öllum markmiðum sem eru lokaorð framkvæmdarstjóra SORPU í áðurnefndri grein. Helsta markmið í úrgangsmálum ætti að vera að minnka úrgang því þá sjálfkrafa minnkar þörf á endurvinnslu og urðun. En hvað veit ég svo sem - ég er bara almennur borgari sem hefur áhuga á minni sóun og meiri hagkvæmni. Ég vil benda áhugasömum almennum borgurum á meistaraprófsritgerð Esterar Önnu Ármannsdóttur sem nefnist „Hafa svæðisáætlanir sveitafélaga stuðlað að minni urðun og aukinni endurnýtingu?“
Höfundur er atvinnurekandi og stjórnarmaður Málms, félags málm- og skipasmiða.