Umræðan um „þjóðpeningakerfi“ heldur áfram. Sigurvin Bárður Sigurjónsson formaður Samtaka um betra peningakerfi birti grein um málið í síðustu viku og vil ég gera nokkrar athugasemdir við efni hennar og skýrslu Frosta Sigurjónssonar. Lesendur bið ég að hafa hugfast að ég tel núverandi kerfi hvorki óskeikult né fullkomið. Tillögur um þjóðpeningakerfi eru hins vegar mjög róttækar. Þess vegna er nauðsynlegt, svo það borgi sig að ráðast í breytingarnar, að slíkt kerfi sé fyrirfram líklegt til að skila mun betri útkomum. Svo er ekki.
Enn um peningaframboðið
Fagnaðarefni er að Sigurvin taki athugasemdum mínum við Þjóðpeningakerfið vel. Ekki er hann þó alveg sannfærður og færir fram tvær röksemdir gegn því að peningaframboðið mundi ganga seðlabanka Þjóðpeningakerfisins úr greipum. Í fyrsta lagi að ekki verði ríkisábyrgð á öllum peningalegum kröfum fjármálakerfisins. Aðeins á þjóðpeningum seðlabankans. Í öðru lagi að ríkið viðurkenni þjóðpeninga eina sem fullnaðargreiðslur skatta.
Fyrri röksemdin fellur á svonefndri tímaósamkvæmni (e. dynamic inconsistency) í stefnu stjórnvalda. Ríkisábyrgðir á fjármálakerfum og peningalegum kröfum eru ekki alltaf beinar, þ.e. fyrirfram lögfestar eða yfirlýstar af hálfu stjórnvalda. Þær eru líka óbeinar og koma stundum fram sem viðbragð eftir að komið er í óefni. Í því felst einmitt svonefndur stærðarvandi banka (e. too big to fail). Það sýndi sig enda í síðustu fjármálakreppu að ríkisábyrgðir og inngrip teygðu sig langt út fyrir hin hefðbundnu bankakerfi heimsins. Víða um heim var stutt við gangverð inneigna í peningamarkaðssjóðum, skuggabönkum voru lánaðir milljarðar á milljarða ofan og tryggingafélögum var bjargað frá falli. Kannski var þetta allt gert eingöngu til að bjarga greiðslumiðluninni. En getum við verið viss um að þetta gerist ekki í þjóðpeningakerfi?
Þegar peningaframboðið leitar framhjá seðlabanka þjóðpeningakerfisins verða einkarekin fjármálafyrirtæki smám saman mikilvæg í greiðslumiðlun og peningaframboði. Aldrei jafnmikilvæg og nú, það skal viðurkennt. En mikilvæg engu að síður. Riði þau til falls getur skapast hætta á „skuldahjöðnunarkreppu“ að hætti Fishers. Ríkisstjórn þess tíma metur þá hvort ríkið skuli ábyrgjast innlán í einkageiranum. Fyrirfram er erfitt að spá fyrir um hvaða ákvörðun verður tekin. „Laissez-faire“ stefna gagnvart einkreknum bönkum innan þjóðpeningakerfisins er semsagt ekki eitthvað sem hægt er að gefa sér að muni gilda þegar á reynir. Jafnvel þó hún sé yfirlýst fyrirfram. Vitandi þetta er líklegt að fjársterkir kunnáttumenn stjórnist fremur af gróðavon en áhættufælni þegar þeir velja sér greiðslumiðil. Almenningur fylgir þá í kjölfarið.
Síðari röksemdin er léttvæg þar sem fullnaðargreiðslur skatta fara nú þegar fram í grunnfé útgefnu af seðlabankanum. Ríkissjóður geymir megnið af handbæru fé sínu á reikningum í seðlabankanum. Samkvæmt ríkisreikningi ársins 2013 átti ríkissjóður 98 milljarða króna á reikningum í seðlabankanum í lok þess árs (sjá bls. 83). Daglega berast skattgreiðslur frá innheimtumönnum ríkissjóðs, fyrir milligöngu viðskiptabanka, á reikninga ríkisins hjá Seðlabanka Íslands. Þetta hefur ekki hindrað myndun peningalegra krafna utan Seðlabankans hingað til.
Mun minni tíma- og lausafjárumbreyting
Tíma- og lausafjárumbreyting, sú iðja að fjármagna langtímaeignir með skammtímaskuldum, verður ekki alfarið bönnuð í þjóðpeningakerfinu. Það er rétt hjá Sigurvin. Aðalatriðið er hins vegar að hún verður miklu minni. Í dag nema innstæður á veltireikningum í einkareknum bönkum (í krónum) tæplega 400 milljörðum króna. Að því gefnu að notkun þjóðpeninga verði jafnmikil og notkun óbundinna innstæðureikninga í núverandi kerfi er ljóst, að um 400 milljarðar króna á núverandi verðlagi verða fjarlægðir úr umbreytingarferli bankakerfisins á hverjum tíma, um alla framtíð. Þetta er alvarlegur ágalli sem getur unnið gegn hagvexti, leitt til hækkunar á lántökukostnaði og dregur örugglega úr framboði lausafjár í hagkerfinu. Gott væri að fá fram rökstuðning fyrir því að þetta sé ekki vandamál. Hann er ekki að finna í skýrslu Frosta.
Greiðslumiðlun
Sigurvin er tvísaga um hvernig greiðslumiðlun verði háttað í þjóðpeningakerfinu. Annars vegar segir hann að rafrænir peningar verði ávallt og einungis varðveittir á reikningum í seðlabanka, en hins vegar að viðskiptabankar muni sjá um greiðslumiðlun líkt og í dag. Annað hvort er hér um að ræða óheppilega orðnotkun eða misskilning á því hvernig peningagreiðslum er miðlað. Ef allir óbundnir reikningar eru gefnir út af seðlabanka og tölvukerfi hans heldur utan um þá, þá er það vitanlega Seðlabankinn sem sér um alla greiðslumiðlun þeim tengda. Ef við Sigurvin eigum hvor sinn reikninginn hjá Seðlabankanum þá koma peningagreiðslur á milli mín og Sigurvins engum við nema mér, honum og seðlabankanum. Hvort einkafyrirtæki sjá um notendaviðmót fyrir greiðslukerfið er aukaatriði og breytir því ekki að Seðlabankinn myndi miðla öllum greiðslum. Það er raunar eina almennilega röksemdin fyrir þjóðpeningakerfinu, að alltaf verði til greiðslumiðlunarkerfi óháð viðskiptabönkum. Ég er ekki viss um að Sigurvin og Frosti átti sig á því, enda einblína þeir mjög á hárnákvæma peningamagnsstjórnun sem ekki getur orðið.
Í vikunni sem leið kærðu Hagsmunasamtök heimilanna til lögreglu það sem þau telja ólögmæta peningafölsun allra banka og sparisjóða í landinu. Þessu fögnuðu Samtök um betra peningakerfi á Facebook-síðu sinni og sögðu áhugavert að fylgjast með framgangi málsins. Kæran byggist á 1. mgr. 5. gr. laga um Seðlabanka Íslands, þar sem segir: „Seðlabanki Íslands hefur einkarétt til þess að gefa út peningaseðla og láta slá og gefa út mynt eða annan gjaldmiðil sem geti gengið manna á milli í stað peningaseðla eða löglegrar myntar.“
Misskilningur Hagsmunasamtakanna er sá, að óbundnar innstæður í bönkum „gangi manna á milli“ í skilningi lagagreinarinnar. Það gera þær ekki. Þær eru stofnaðar og felldar niður í tengslum við viðskipti. Jákvæð viðbrögð Samtaka um betra peningakerfi við kærunni benda enn frekar til þess að þar á bæ skilji menn illa hvernig greiðslumiðlun fer fram og hver munurinn er á peningaseðlum og óbundnum innstæðum hjá bönkum.
Um fáheyrðan stöðugleika á peningamarkaði
Í skýrslu sinni segir Frosti [þýðingin er mín]: „Þar sem Seðlabanki Íslands mun geta stjórnað peningamagninu með beinum hætti verður óþarft að hækka vexti til að hamla gegn peningaframboði viðskiptabanka. Þetta ætti að leiða til stöðugra vaxtastigs í hagkerfinu.” (bls. 87).
Hér er grundvallarmisskilningur á ferðinni. Peningamálastjórn seðlabanka snýr að framboðshlið peningamarkaðarins. Jafnvel þó seðlabankanum auðnist að einoka framboðshliðina, þá stjórnar hann aldrei eftirspurninni. Peningaeftirspurn er sveiflukennd og því munu jafnvægisvextir að öðru óbreyttu sveiflast mun meira við peningamagnsstýringu heldur en vaxtastýringu, a.m.k. til skemmri tíma litið. Við vaxtastýringu er það á hinn bóginn peningamagnið sem sveiflast. Flest hagfræðileg líkön styðja þennan skilning og það gera reynslugögn líka. Meðfylgjandi myndir sýna annars vegar mánaðarlega millibankavexti í Bandaríkjunum (e. Federal Funds Rate) og hins vegar breytingar á þeim frá degi til dags. Á skyggða tímabilinu 6. október 1979 til 5. október 1982 hætti seðlabanki Bandaríkjanna, undir stjórn Paul Volcker, að miða á tiltekna vexti og miðaði þess í stað á tiltekinn hluta grunnfjárins. Nánar til tekið hreina seðlabankainnstæðueign bankanna (e. nonborrowed reserves). Á þessu tímabili voru vextir óstöðugri en bæði fyrir og eftir.
Tekið skal fram að skyggða tímabilið inniheldur djúpa kreppu, sem stundum er kennd við Volcker. Ekki er því víst að munurinn á vaxtaflöktinu yrði alltaf jafnmikill, jafnt í kreppu sem á uppgangstímum, ef samskonar stefnu væri haldið til streitu um langa hríð.
Það vegur þó á móti að á umræddu tímabili hélt seðlabankinn áfram að veita gjaldfærum bönkum skammtímalán (e. discount window loans) að þeirra óskum. Hann stýrði því í raun aðeins hluta af grunnfénu, sem aftur var aðeins lítið brot af heildarpeningamagninu. Gera má ráð fyrir að óstöðugleiki vaxtanna hefði orðið enn meiri, hefði hann stýrt öllu grunnfénu. Í þjóðpeningakerfinu er ætlunin sú að seðlabankinn stýri öllu peningamagninu eins og það leggur sig. Þess vegna má gera ráð fyrir því að í þjóðpeningakerfinu yrðu vextir ekki bara óstöðugri, heldur miklu miklu óstöðugri en þeir eru nú.
Frosti verður helst að velja hvort hann vill, stöðugleika í peningamagni eða vöxtum. Ekki verður bæði sleppt og haldið. Á ensku heitir þetta að vilja bæði eiga kökuna sína og borða hana.
Peningamagnsnefndin
Í ofangreindu samhengi virðist miðlæg peningamagnsnefnd, sem er ætlað að ákvarða „hæfilegt“ peningamagn heldur gamaldags. Slík nefnd verður eðli málsins samkvæmt ekki í miklum tengslum við peningaeftirspurnina í hagkerfinu, líkt og bankar eru. Eitt helsta hlutverk banka í núverandi peningakerfi er einmitt að meta gæði lánsfjáreftirspurnar á hverjum tíma og skammta lánsfé (e. credit rationing) á formi óbundinna innstæðna, í samræmi við gæðin. Í daglegu tali er það kallað greiðslumat. Þannig er kleift að gera peningaframboðið teygið (þ.e. næmt) gagnvart eftirspurninni og gæðum hennar. Ekki held ég því fram bankar hafi alltaf staðið sig vel í þessu í gegnum árin. En lengi getur það versnað.
Um víða veröld er peningaeftirspurn sveiflukennd vegna árstíðabundinna umsvifa í hagkerfum. Til dæmis í ferðaþjónustu, helsta vaxtarbroddi íslenska hagkerfisins. Sama gildir um landbúnað og margar greinar fiskveiða. Innflutningur og verslun taka stóra sveiflu í kringum jól og áramót. Mun umfang breytinga í peningaeftirspurn af ástæðum sem þessum, og þar af leiðandi viðeigandi breyting í peningamagni, vitrast nefndarmönnum í draumi? Hvað með sveiflur sem ekki tengjast árstíðum og eru ófyrirsjáanlegar?
Er æskilegt að fjárfestingarverkefni með lága vænta ávöxtun hljóti fjármögnun í febrúar, þegar peningaeftirspurn er lítil og vextir lágir, en verkefni með hærri vænta ávöxtun sé hafnað um fjármögnun í september, þegar peningaeftirspurn er meiri og vextir háir? Hér má sjá myndband þar sem útskýrt er með einfölduðu dæmi hvers vegna stöðugt peningamagn og óstöðugir vextir geta með kerfisbundnum hætti leitt til glataðra fjárfestingartækifæra, vannýttra framleiðslutækja og lægra atvinnustigs en ella.
Um sjálfstæði peningamagnsnefndar
Sigurvin hefur litlar áhyggjur af sjálfstæði peningamagnsnefndar gagnvart ríkisstjórn. Hann segir í grein sinni: „Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að fyrirkomulag núverandi peningastefnunefndar er með þessum hætti og hefur ekki sætt mikilli gagnrýni.“
Samanburður við núverandi kerfi er að þessu leyti ekki viðeigandi. Í þjóðpeningakerfinu er einmitt lagt til að peningaframboðið verði aftengt fjárfestingum í hagkerfinu, en þess í stað beintengt við afkomu ríkissjóðs til skamms tíma. Það getur skapað stóraukinn hvata fyrir ríkisstjórn til að beita peningamagnsnefndina pólitískum þrýstingi. Ekki síst í aðdraganda kosninga.
Óvissuferð sem liggur í hring
Að lokum vil ég vekja athygli á því að Sigurvin opnar í grein sinni á margvíslega vaxtastýringu í þjóðpeningakerfinu, sem upphaflega átti þó að snúast um afar fíngerða peningamagnsstjórn. Að auki opnar hann á aðkomu fjölbreyttra sjónarmiða við ákvarðanatöku peningamagnsnefndar. Þar á meðal lánastofnana. Lánastofnanir munu alltaf búa yfir langítarlegustu upplýsingunum um lánsfjáreftirspurnina á hverjum tíma. Því er ansi líklegt að þeirra sjónarmið verði nokkuð ráðandi í nefndinni, ætli menn að ná fram sveigjanleika og viðbragðsflýti í stefnu hennar. Með þessu er Sigurvin auðvitað að opna á að þjóðpeningakerfið breytist í það kerfi sem hann er að berjast gegn. Þ.e. kerfi þar sem seðlabanki stýrir vöxtum en bankar meta lánsfjáreftirspurnina og taka í raun ákvarðanir, að vaxtastiginu gefnu, um peningamagnsbreytingar í víðum skilningi.
Ferðir í Parísarhjólum eru ágæt dægradvöl. En Parísarhjól verða seint flokkuð sem samgöngutæki. Eins er því háttað um þjóðpeningakerfið. Það skilar okkur ekki langt fram á við, þó hringferðin geti verið nokkuð löng og viðburðarík.
Höfundur er meistaranemi í þjóðhagfræði