Við hófum þetta ár á bjartsýni. Bólusetningaröfund kom sem nýtt orð í tungumálið okkar, á meðan við biðum eftir fyrstu bólusetningunni, sannfærð um að bólusetningin myndi bjarga okkur út úr Kóvidinu, fjöldatakmörkunum og minnisblöðum frá Þórólfi. Með bólusetningum yrði skóla- og frístundastarfið aftur með eðlilegum hætti, svo ekki sé talað um alla félagsþjónustuna.
En það hefur reynst flóknara að ná í skottið á þessum faraldri en við vonuðum í fyrstu. Nú, þremur bólusetningum síðar erum við mun betur í stakk búin líkamlega að takast á við Covid. Hlutfallslega smitast færri og einkennin eru vægari, sem gerir heilbrigðiskerfinu öllu auðveldara að takast á við vandann.
Samfélagið hefur líka lært hvernig bregðast skuli við. Við höfum grímur á takteinum, þvoum okkur vel um hendur og sprittum þess á milli. Skellum okkur í hraðpróf áður en við förum á tónleika eða á mannfögnuði. Allt til að verja aðra frá því smitast hugsanlega af okkur.
Sveitarfélögin mjög þjálfuð í sóttvörnum
Annað árið er Covid partur af okkar lífi, og ólíkt bjartsýninni í lok 2020, þegar við sáum að bóluefni voru bara hinum megin við hornið, gerum við nú ráð fyrir því að smit, smitgát og sóttkví verði áfram partur af okkar lífi á komandi ári og undirbúum okkur fyrir það. Sveitarfélögin eru því að minnsta kosti undirbúin.
Sveitarfélögin eru orðin þjálfuð í að vera á tánum varðandi smit og sóttvarnir. Vissulega reyna aðgerðirnar á, hvað varðar alla þjónustu, sérstaklega velferðarþjónustu og skóla. Það hefur verið aukið álag á skólana að tilkynna um smit og smitgát og flestir foreldrar hafa nú reynt það að eiga barn í sóttkví.
En sveitarfélögin, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, hafa náð að vinna afbragðs vel saman til að samræma viðbrögð og aðlaga starf og þjónustu þeirri kröfu sem uppi er um sóttvarnir. Það hefur skipt miklu máli að hér á höfuðborgarsvæðinu séu alls staðar sömu reglur, t.d. um rekstur sundlauga og íþróttahúsa. Þá hefur samvinna vegna Covid auðveldað alla aðra samvinnu og samtal á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, því persónulegu tengslin voru þegar til staðar.
Tækifæri í auknu samstarfi
Faraldurinn hefur sýnt sveitarfélögunum að það eru mikil tækifæri í auknu samstarfi og samtali. Jafnvel sameiningum. Um sameiningu sveitarfélaga var kosið á nokkrum stöðum á landinu. Sameining Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps var samþykkt en sameining í sveitarfélagið Suðurland var hafnaði í Ásahreppi. Þessi umræða mun halda áfram á komandi ári.
Sveitarfélög þurfa að vera burðug og sterk til að geta boðið upp á góða og öfluga þjónustu. Ef við ætlum að tryggja búsetu um allt land, þá þurfum við að efla sveitarstjórnarstigið. Og tryggja að búseta um allt land sé tryggð fyrir alla en fólk þurfi ekki að flytja vegna þess að sveitarfélagið sem það býr í er of veikburða til að veita suma þjónustu. Öll sveitarfélög þurfa líka að verða nógu öflug til að ræða áframhaldandi skiptingu verkefna á milli ríkis og sveitarfélaga og hvernig tekjum hins opinbera er skipt á milli þessara tveggja stjórnsýslustiga og sveitarfélaga.
Faraldurinn hefur sýnt okkur að ungt fólk er tilbúið til að búa víðsvegar um landið, sækja í náttúru og fámennari sveitarfélög ef þau hafa aðgang að háhraðaneti, stafrænni þjónustu og góðum samgöngum. Hér eru sveitarfélög í dauðafæri til að skapa nýja tíma í sveitum landsins og snúa við þeirri byggðaþróun sem hefur verið ríkjandi undanfarna áratugi. Sveitarfélög hafa alla burði til að verða mjög kröftug ef rétta leiðin verður farin.
Samræmd flokkun úrgangs og brennsla
Undanfarið ár hefur líka haldið áfram að minna okkur á mikilvægi umhverfis- og loftslagsmála. Hér þurfum við að taka stór skref, fyrir börnin okkar og framtíðina áður en loftslagsbreytingar verða orðnar of miklar og óafturkræfanlegar. Sveitarfélög um allt land þurfa að setja sér loftslagsstefnu með mælanlegum og áþreifanlegum markmiðum. Stóru málin eru þar samgöngumál, úrgangsmál og endurheimt votlendis.
Í úrgangsmálum þurfum við að huga betur að því hvernig við komum í veg fyrir að úrgangur myndist, fyrir það fyrsta. Þurfum við að kaupa vörur, umbúðir eða mat sem enda bara í ruslinu? Getum við keypt notaðar vörur eða leigt? Það sem við höfum eignast þurfum við svo að flokka mun betur til að koma í veg fyrir urðun eða brennslu.
Í Reykjavík hefur langþráð skref verið tekið í nokkrum hverfum, með brúntunnu sem safnar lífrænum úrgangi og á komandi ári verður hún komin í öll hverfi borgarinnar. Samræmd flokkun sveitarfélagana er loksins að verða að veruleika, svo að við verðum ekki með mismunandi flokkunarreglur milli sveitarfélagamarka. Þá hefur samstarfshópur sveitarfélaganna um brennslustöð, til að taka við úrgangi sem annars yrði urðaður, unnið gott starf á þessu ári. Brennslustöð er mikil fjárfesting en við þurfum að bera ábyrgð á sorpinu okkar, allt til enda.
Samfélagið mun breytast með breyttum vinnutíma
Stytting vinnuvikunnar hófst á árinu 2021 og á eftir að hafa mikil áhrif til framtíðar. Við þekktum kosti styttingar vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg, enda hafði borgin tekið þátt í tilraunaverkefni áður en þessu tímamótasamkomulagi var náð. Markmiðið með styttingu vinnuvikunar eru aukin lífsgæði okkar allra. Að við höfum meiri tíma með fjölskyldu, vinum og í frístundum.
Við erum enn á fyrstu skrefunum og ræðum styttinguna út frá skipulagi og flækjustigi hversdagsins inn á einstökum vinnustöðum. Því er heldur ekki að neita að stytting vinnuvikunnar er sveitarfélögunum dýr, sérstaklega vegna fleiri starfsmanna sem þarf til að sinna vöktum. En kosturinn er bylting, samfélaginu til mikilla bóta. Þar sem starfsfólk og vinnuveitendur geta haft gagnkvæman ávinning af styttingu vinnuvikunnar þurfum við líka að komast í dýpri umræðu um það hvernig við viljum nýta breytinguna. Með samtali og skipulagningu getum við nýtt þetta tækifæri til að draga úr hraða og streitu í samfélaginu. Við getum horft til hinna Norðurlandanna sem hafa tekið fleiri skref en við í því að takmarka vinnutíma og kjósa frekar hinn norræna afslappaða lífsstíl, þar sem fleiri stundir fara í að lifa og njóta og sinna okkar nánustu.
Næsta ár mun færa okkur tækifæri til að halda áfram að þróa samfélagið okkar, til að allir fái notið sín. Ef við kjósum að taka skref áfram í þess að standa bara í stað munum við sjá enn frekari velsæld í sveitarfélögum landsins.
Gleðileg jól og farsælt komandi ár, kæru landsmenn.
Höfundur er oddviti Viðreisnar og formaður borgarráðs.