Á dögunum var auglýst eftir manneskju til að veita Kvikmyndamiðstöð Íslands forstöðu. Sú sem gegnt hefur starfinu undanfarna áratugi mun láta af störfum í lok febrúar.
Ég hef heyrt margt kvikmyndagerðarfólk halda því fram að með starfsauglýsingunni marki menntamálaráðuneytið nýja stefnu í gerð kvikmynda og sjónvarpsefnis. Ég las umrædda starfsauglýsingu og hafði svo samband við ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins. Símtalið gerði mér ljóst að það er ærin ástæða að upplýsa fólk um mögulega stefnubreytingu í kvikmynda og sjónvarpsmálum hér á landi og hvaða áhrif stefnubreytingin getur haft á menningu okkar Íslendinga.
Í starfsauglýsingunni gerir ráðuneytið vissulega kröfu um að nýr forstöðuaðili Kvikmyndamiðstöðvar Íslands hafi þekkingu á kvikmyndum og sjónvarpsefni. Það sem stingur hins vegar í stúf er að þess er sérstaklega getið að viðkomandi þurfi að hafa staðgóða þekkingu á málefnum ljósvakamiðla sem og helstu straumum og stefnum í afþreyingarefni. Þessi nýja áhersla á afþreyingarefni og ljósvakamiðla, þ.e. útvarp og sjónvarp, kemur mér og öðru fagfólki í kvikmyndageiranum í opna skjöldu.
Okkar íslenski menningar- og viðskiptaráðherra fór fyrir nokkru í ferð til Hollywood til að auglýsa landið sem ódýran tökustað fyrir þarlenda framleiðslurisa. Innan Evrópusambandsins og Kanada er hins vegar í dag verið að þróa aðferðir til vernda eigin sjónvarps- og kvikmyndagerð gegn arðráni sem þessháttar útsölur geta haft í för með sér. Undirrituð var stödd á heimsþingi handritshöfunda í Kaupmannahöfn á dögunum, þar sem heyra mátti sorgarsögur frá fyrstu hendi. Formaður kanadísku rithöfundasamtakanna, frægir danskir þáttaraðahöfundar og fleiri, lýstu því hvernig erlendar streymisþjónustur hafa í auknum mæli yfirtekið innlendan markað landanna.
Hættan er sú að fagfólki í sjónvarps- og kvikmyndagerð verði settar afar þröngar skorður, að það þurfi að mæta fyrirfram gefnum formúlum eða „straumum og stefnum“. Þekkt er að launakröfum og -skilyrðum er ekki sinnt, innlend verkefni komast ekki í framleiðslu þar sem stóru erlendu formúluverkefnin taka yfir allt tæknifólkið, fjárframlög til innlendra verkefna minnka. Erlend stórfyrirtæki eru farin að stjórna bæði atvinnugreininni og menningunni áður en lagaramminn nær að taka við sér. Þessar nýjungar, ,,straumar og stefnur“ eru greinilega að ryðja sér til rúms á Íslandi í dag.
Ég vil beina því til stjórnvalda að það er afar mikilvægt að okkar litla og viðkvæma íslenska kvikmynda- og sjónvarpsmenning, og iðnaðurinn í kringum, hana fái vernd og stuðning til að halda áfram að þróa sína eigin rödd og eigin framleiðslu. Þó að ráðuneytisstjórinn og aðrir leikmenn eins og hann skemmti sér kannski fyrst og fremst yfir sjónvarpsþáttröðum á streymiveitum þessa dagana, þá er listgrein kvikmyndarinnar ennþá mikilvægur grunnur sem bæði þróun kvikmynda- og sjónvarpsmenningar og iðngreinanna byggir á.
Allt nám fyrir listrænt fagfólk miðast ennþá fyrst og fremst við kvikmyndagerð. Afrakstur íslenskrar kvikmyndagerðar birtist svo oft í keppnum á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum að athygli vekur. Ólíkur iðnaður stóð áður á bak við framleiðslu kvikmynda annarsvegar og sjónvarpsefnis hinsvegar. En endurvakning sjónvarpsþáttaraðarinnar upp úr aldamótunum byggir einmitt á láréttu frásagnarformi kvikmyndarinnar og leitar gjarnan í smiðju kvikmyndagerðarfólks þegar kemur að listrænni sköpun efnisins. Mér skilst að nemendur nýstofnaðrar kvikmyndadeildar Listaháskóla Íslands hafi orðið hissa þegar háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra mætti í heimsókn og lagði áherslu á alla þá frábæru möguleika sem nemendur gætu fengið við alþjóðleg verkefni eins og True Detective á Íslandi. Nemendurnir hafa kannski vænst þess að ráðherrann talaði um íslenska kvikmyndagerð. Varla getur meiningin verið sú að rándýr menntun, sem skólinn býður uppá, þjóni fyrst og fremst þeim tilgangi að skapa ódýrt vinnuafl fyrir erlend gróðafyrirtæki?
Evrópsku kvikmyndaverðlaunin voru veitt í Hörpu á dögunum. Flott og metnaðarfull hátíð. Þar mátti heyra annan framleiðanda verðlaunakvikmyndarinnar TRIANGLE OF SADNESS minnast á það í ræðu að enn sjá evrópskir framleiðendur fyrst og fremst hlutverk sitt í að styðja við þá sem skapa efnið, á meðan framleiðendur hinum megin við Atlantshafið væru aðallega að fylla leiðslur efnisveitnanna. Vinsældir enskumælandi myndefnis í dag, hvort sem er á kvikmyndatjaldi, sjónvarps- eða tölvuskjá, eru að miklu leyti byggðar á yfirtöku Bandaríkjanna á iðnaðinum og dreifikerfinu eftir sigur í seinni heimsstyrjöldinni. Íslendingar eiga stundum erfitt með að taka það í mál til séu betri baunir en ORA grænar. Sú hugsun stafar af gömlum vana sem varð til vegna takmarkaðs framboðs og því sem haldið var að okkur áratugum saman. Sama mætti segja um þá sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu sem helst er haldið er að okkur í dag. Rétt eins og íslenskri tónlist hefur tekist að fanga athygli fyrir að fara eigin og ótroðnar slóðir, eiga okkar kvikmyndir og sjónvarpsefni að fá að gera það áfram líka og er það mikilvægara en nokkru sinni fyrr að vernda framleiðsluumhverfið til þess hér á landi.
Hver sem nýr stjórnandi íslensku Kvikmiðstöðvarinnar verður, bíður hennar/hans vandasamt en mikilvægt verkefni. Hann/hún mun fljótt fá að vita frá kollegum sínum á hinum Norðurlöndunum að aðalvandamálið sem þau standa frammi fyrir þessa dagana er að finna leiðir til spyrna við því að peningarnir úr sjóðnum fari ekki allir í þróun á verkefnum fyrir erlendar streymisveitur.
Höfundur er leikstjóri og handritshöfundur.